Grasgrænu lesendur.
Einhver verður að taka það á sig að rjúfa hina þrúgandi þögn sem ríkt hefur um nokkurt skeið hér í griðlandi gáfumannanna, sem í daglegu tali kallast bloggsíða Einars Haf. Griðland gáfumannanna? Þú meinar friðland furðufuglanna. Já ef til vill. Ætli það fari ekki best á því að höfuðpaurinn í málinu, ég sjálfur, taki af skarið, brjóti ísinn og ríði á vaðið – sem endar auðvitað með því að maður sekkur í svaðið. Sjón er sögu ríkari en að vísu náðist hvorki í Sjón né Sögu til að fá þetta staðfest. Það gengur bara betur næst.
Mín helsta skemmtun það sem af er sumri hefur falist í því fyrst og fremst að lúslesa veðurspánna í örvæntingarfullri leit að þurrki. Býsna djúpt hefur verið á þurrkinum í spánni fyrir Svarfaðardal og nágrenni og á löngum köflum hefur viðrað afar illa til heyskapar, bæði samkvæmt spánni og í raunveruleikanum. Engu máli hefur skipt þó maður skipti yfir á norsku spánna, Bliku eða Belging. Ævinlega hafa rigningarskýin náð að lauma sér inn á Tröllaskagann með tilheyrandi leiðindum og vosbúð. Á tímabili var ég hættur að spá í spánni og byrjaður að spá í kindagarnir, músaholur, bolla, kvenfólk og annað sem menn hafa spáð í í gegnum tíðina – en allt kom fyrir ekki. Loks nú í lok ágúst náði að haldast þurrt í nokkra daga samfleytt bæði í spánni og í raunveruleikanum en engar áhyggjur, svo fór að rigna aftur. Þessi endalausa rigning, skýrir hún hvers vegna ég er svona blautur á bak við bæði eyrun? Nei, það er reyndar út af öðru.
Verðbólgan er nú í hæstu hæðum og sér ekki fyrir endann á því ástandi. Vísitölur hækka, lánin stækka og seðlabúntin lækka. Rímorðum tekur að fækka en þessa umfjöllun hefði trúlega mátt smækka. Flest allir kjarasamningar losna nú á næstu mánuðum og biðla yfirvöld því til verkalýðshreyfingarinnar um að halda aftur af sér þegar farið verður fram á frekari launahækkanir, frekari fjölgun orlofsdaga og frekari styttingu vinnuvikunnar. Hvað ætlar svo verkalýðshreyfingin að gera? Nú auðvitað að vera frekari. Frekari launahækkanir? Nei bara frekari almennt.
Allt útlit er nú fyrir að göngur og réttir geti farið fram án nándarreglna og fjöldatakmarkanna, í fyrsta sinn í þrjú ár. Það verður gaman að geta óhikað knúsað bæði gangnamenn og eins lambfé án þess að brjóta sóttvarnarlög og fjárlög en auðvitað er vissara að spritta sig vel að innan og utan áður en það er gert. Velunnarar Höfðans hafa í hyggju að standa fyrir hefðbundnum réttardansleik í fyrsta sinn í þrjú ár og má fastlega gera ráð fyrir stuði og stemmningu. Með hefðbundnum réttardansleik er auðvitað átt við þá Sissa og Berg í dyrunum, hljómsveit sem kann að spila flottan jakka og stuðlagasyrpu sem inniheldur One Way Ticket, fleka fyrir öllum gluggum og rómantíska stemmningu í hvamminum sunnan við Höfða. Ekki er vitað hvort Einar Haf rifji upp gamla takta og verði með sjoppu á staðnum en þó er vitað að einhvern veginn verður að koma út öllu sælgætinu sem hefur verið í birgðum hjá ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði frá því fyrir covid.
Talandi um ungmennafélagið Þorstein Svörfuð. Nýverið hélt hið glæsta félag upp á 100 ára afmæli sitt með sveru kaffihlaðborði kvenfélagsins Tilraunar og fræðsluerindum í félagsheimilinu Rimum. Afmælishófið þótti takast vel, enda hafði gjaldkeri félagsins sig lítt í frammi aldrei þessu vant. Fastlega má reikna með því að yfirvofandi útgáfa afmælisrits félagsins komi til með að trompa alla aðra hérlenda útgáfu fyrir jólin og skjóta jafnvel þeim Yrsu og Arnaldi ref fyrir rass. Þarna er ég að vísu bara að horfa á Svarfdælska efnahagssvæðið.
Talandi um ungmennafélög. Áður en kemur að göngum og réttum hef ég í hyggju að bregða undir mig betri ferðatöskunni og skreppa í helgarferð til Bretlandseyja með ungmennafélaginu Óþokka. Algjörlega stjörnugalið uppátæki og óábyrg kolefnissporsaukandi hegðun í meira lagi og gengst ég við þeirri gagnrýni. Ég mun þó ekki segja af mér sem siðapostuli vegna þessa – en mögulega stíg ég til hliðar og vinn í mínum málum. Reiknað er með menningarlegri áfengis-, íþrótta- og fræðsluferð, íþróttalegri menningar-, fræðslu- og áfengisferð eða áfengri fræðslu-, menningar- og íþróttaferð. Býsna langt er nú liðið frá því ég fór síðast til útlanda og þarf ég því að afla mér upplýsinga um það hvernig maður fær hinn svokallaða smáhrifavaldaafslátt af flugfargjöldum sem mér skilst að sé viðhafður þegar samfélagsmiðlastjörnur ferðast hræbillega vítt og breitt um heiminn #samstarf. Komist ég heill og lifandi heim aftur eftir helgina mun ég að öllum líkindum greina frá því hér og segja satt og rétt frá öllu sem gerðist.
Vegagerðin hefur nú loks ákveðið að ræsa hefilinn og skipta út holum og stórgrýti á leðjuvegunum fram í Svarfaðardal og Skíðadal. Í staðinn er sett svokölluð möl á vegina, eitthvað sem hefur ekki tíðkast í fjölda ára. Hvort hin nýtilkomna möl muni ná að tolla eitthvað á vegunum verður tíminn og rigningin að leiða í ljós. Akstursaðstæður hafa verið gríðarlega krefjandi á vegunum í allt sumar enda löngu orðinn ógjörningur að sneiða hjá dýpstu holunum. Svo rammt hefur kveðið að þessu að fólki var ráðið frá því að keyra um veginn með lausamuni á borð við hárkollur og falskar tennur, enda engar líkur á að það sem ekki var fast fyrir gæti tollað á sínum stað eftir eina góða ökuferð um dalbotnana. Sú mjólk sem mjólkurbílarnir hafa sótt hefur öll verið orðin að mjólkurhristingi þegar komið var á malbikið en sem betur fer er lítraverð á mjólkurhristingi nánast það sama og á hefðbundinni nýmjólk og því ekkert fjárhagslegt tjón sem hlaust af þessu.
Að endingu hlýtur að lygna og úr loftinu hætta að rigna... á túni sást syndandi hrygna og svanur í garðinum flaut. Hver á er nú straumhörð sem Signa og þakrennur þenjast og svigna ég lautina lít út úr migna og líð svo í aldanna skaut.
Til stóð að sýna frá því í beinni útsendingu hér á bloggsíðunni þegar Einar Haf myndi kolefnisjafna ferð sína til Bretlands með því að gróðursetja birki, víði eða ösp. Því miður náðist hvorki í Birki, Víði né Ösp þegar til átti að taka. Ég prófaði að heyra í Reyni, kunningja mínum en hann sagðist ekki vera til í kolefnisjöfnun og gróðursetningu enda væri nú þegar búið að bólusetja, kyrrsetja, skuldsetja og jaðarsetja hann og svo stæði til að jarðsetja hann á næstunni. Það gengur trúlega ekkert betur næst en það má alltaf vona.
Einar veginn.
Tilvitnun dagsins:
Allir: HOLA!