Jákvæðu lesendur.
Það var ekki spurning um það hvort heldur hvenær. Algjörlega úr tengslum við raunveruleikann og gjörsamlega úti á túni í öllum meginatriðum. Og nú, loks smitaður af hinni vinsælu kórónuveiru. Oft var þörf á að fá algjörlega óþarfa bloggfærslu úr fórum Einars Haf en þó aldrei sem nú.
Varúð, eftirfarandi texti er ritaður af manni með heilaþoku, sýnið aðgát.
Búið er að einkavinavæða hluta Íslandsbanka (aftur) í skjóli nætur – nú með sérstökum vinaafslætti. Það var seint um kvöld á skrifstofu Harrý Rögnvalds einkaspæjara og hins hundtrygga aðstoðarmanns hans Heimis Snitsel að síminn hringdi. Í símanum var dularfull rödd sem hvíslaði að nú væri að hefjast lokuð og leynileg sala til lokaðs og leynilegs hóps á lokuðum og leynilegum eignarhlutum í Íslandsbanka sem væri lokaður (en ekki leynilegur) enda afar seint um kvöld og bankar lokaðir seint á kvöldin. Harrý Rögnvalds þóttist heyra að þarna væri á ferðinni Bjarni Ben sem hefði greinilega ætlað að hringja í Benedikt pabba en í ógáti hringt á skrifstofu einkaspæjarans. Það er jú alltaf hægt að ruglast í ríminu. Bjarni baðst afsökunar og skellti á. Harrý var hugsi, Heimir spegúleraði en svo gerðist ekkert meira í málinu fyrr en listi yfir hina lokuðu kaupendur var gerður opinber. Þá komu í ljós ýmis ný sannindi eins og til dæmis þau að Bananalýðveldið ehf. er fagfjárfestir í augum Bankasýslu Ríkisins. Alþingismenn og almenningur, jafnvel Bjarni Ben sjálfur, tala um að hér sé á ferðinni algjört klúður á öllum stigum málsins. Til dæmis hafi Bjarni margsinnis bannað pabba sínum að kaupa hlut í Íslandsbanka á afslætti en pabbi hafi því miður óhlýðnast enda sprelligosi og grallaraspói mikill. Það gengur í ættir. Þá hafi Bankasýsla Ríksisins ekki verið með réttar símanúmeraupplýsingar þegar kom að því að hringja í fagfjárfesta til að láta þá vita um lokuðu og leynilegu söluna. Fyrir mistök hafi verið slegið inn „þvagfjárfestir“ í staðinn fyrir „fagfjárfestir“ á já.is og því fór sem fór. Eftir mikið fjaðrafok og gnístran tanna í þingsölum og úti um torg var niðurstaðan sú að Harrý Rögnvalds og Heimir Snitsel eiga að framkvæma hlutlausa rannsókn á lokuðu og leynilegu sölunni. Ég sjálfur er með öllu hlutlaus – enda fékk ég ekki að kaupa hlut í bankanum. Til stendur að stofna hagsmunasamtök hlutlausra, þ.e. þeirra sem eru lausir við að eiga hlut í bankanum og bankasölunni.
Búið er að slaufa og afskrifa langt niður fyrir hrakvirði nokkra kviknakta forstjóra í heitum potti, fjölþreifna og falska tónlistarmenn og nándarsækna leikara sem fóru yfir mörk kvenna og gerðust sekir um ofbeldi og ósæmileg athæfi af ýmsu tagi. Ég sjálfur hef ekki farið yfir nein mörk, enda eru mörkin á hinum rennislétta Glæsivelli við Rima enn undir snjó. Sem gjaldkera hjá hinu 100 ára gamla félagi Umf. Þorsteini Svörfuði ber mér vissulega skylda til að fara yfir mörkin reglulega en næsta reglulega markaskoðun fer fram í byrjun júní samkvæmt gildandi markaskrá.
Í öðrum fréttum má nefna að:
- Búið er að slaufa kóvid og öllum kóvid tengdum fréttaflutningi.
- Búið er að halda á hörundsdökkum og hörundssárum framkvæmdastjóra Bændasamtakanna eins og nýveiddum silungi.
- Búið er að fresta því að byggja bráðnauðsynlegan þjóðarleikvang en eyða peningunum þess í stað í það að strá möl ofan í hyldjúpar holurnar á malarveginum við Hreiðarsstaði.
- Búið er að taka niður raflínustaura og nokkra girðingarstaura í leiðinni.
- Það er ekki alveg búið að þylja upp Passíusálmana (komnir 46 af 50).
- Búið er að endurskoða nokkur félög og skila skattframtölum.
- Búið er að ryksuga tvöþúsund áttahundruð og sjötíu flugur í Urðakirkju frá áramótum.
- Kári Stefánsson er hættur að raðgreina og hraðgreina en þetta tvennt þarf að aðgreina. Ef ég þekkti nú ekki muninn á kúki og skít, væri þá ekki ráðlegt að taðgreina? Nei bara pæling.
Búið? Nei ekki alveg. Ég verð að láta þess getið að ég skrifaði eitt stykki þorrablótsannál í hjáverkum í samstarfi við þorrablótsnefnd Svarfdælinga en annað árið í röð var blótið í dalnum sent út gegnum netið. Ég hef þar af leiðandi ekki hugmynd um hvort þeir sem á horfðu höfðu gaman af skemmtuninni eða ekki – en ég er svo sem vanur því eftir að hafa bloggað í fimmtán ár eða þar um bil að tala fyrir tómum sal og fá engin viðbrögð. Vonir standa til þess að framvegis verði hægt að halda fjölmennar skemmtanir á borð við þorrablót og dansiböll án þess að sóttvarnaryfirvöld skipti sér af því en þó veit maður aldrei. Sýklalyfjaónæmi, gin- og klaufaveiki, inflúensa, ebóla og þursabit gætu hæglega haft af okkur næstu skemmtanir sem eru fyrirhugaðar. Það er því best að stilla væntingum um að komast í hóf í hóf.
Það þótti tíðindum sæta þegar Will Smith gaf Chris Rock kinnhest á Óskarsverðlaunahátíðinni. Ástæða kinnhestsins sem skók heimsbyggðina mun hafa verið ósmekklegur og lélegur brandari Chris Rock um eiginkonu Will Smith. Ef ósmekklegir og lélegir brandarar réttlæta kinnhest með flötum lófa sé ég sæng mína uppreidda en bið um leið heimsbyggðina afsökunar og lofa að koma með skárri brandara næst.
Eftir verulega mikla neikvæðni síðustu tvö ár eða svo hef ég nú loks greinst jákvæður. Það er frekar dæmigert fyrir mig að loksins þegar sá fyrir endann á kóvid fárinu skyldi ég taka mig til og ná mér í veiruna umtöluðu. Eftir að hafa haldið markinu hreinu svona lengi er það sárt að fá á sig skyndisókn og mark gegnum klofið í uppbótartíma leiksins en þannig er tilfinningin. Þessi nýgreinda jákvæðni mun trúlega ekki hafa nein áhrif til hins betra á bloggsíðuna en þó veit maður aldrei. Sumir sem smitast hafa af kórónuveirunni hafa lýst miklu máttleysi, andleysi og afar skertu bragð- og lyktarskyni. Ég sjálfur hef haldið mig við kvefeinkenni en látið þar við sitja. Bragð- og lyktarskyn eru í lagi en skopskynið er nokkuð brenglað. Á því sviði gekk ég að vísu ekki alveg heill til skógar hvort eð er.
Sverrir og svilkonan Lene smituðust bæði á Tene það gaman var grátt nú ferðabann blátt þar ríkir í ár, nóta bene.
Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga hef ég fundið fyrir umtalsverðum stuðningi úr ýmsum áttum. Það hefur verið komið að máli við mig og ég hef fundið mikinn meðbyr með mínum málflutningi. Sem er skrýtið þar sem ég hef meira og minna haldið kjafti frá áramótum. Það hefur verið komið að máli við mig og raunar hefur verið skorað á mig að taka sæti á lista eða listum, enda geti ég tekið samtalið við grasrótina, unnið á breiðum grundvelli og sameinað ólík sjónarmið. Þetta er allt gott og blessað en ég hef hins vegar ekki viljað taka slaginn – enda getur það ekki talist heillavænlegt fyrir atkvæðalítinn og hlédrægan einstakling með ákvarðanafælni á háu stigi að taka virkan þátt á hinum pólitíska vettvangi. Betur fer á því að slíkur maður bloggi – eða taki sæti í kjörstjórn. Eða hvað?
Samkvæmt nýrri kosningalöggjöf er það orðið nánast útilokað fyrir venjulegt fólk að taka sæti í kjörstjórn. Nýja löggjöfin boðar að fulltúi í kjörstjórn megi ekki eiga maka, fyrrverandi maka, núverandi eða fyrrverandi sambýlismann eða -konu, foreldri, barn, systkin, mág eða mágkonu sem eru í framboði. Þá ná nýju reglurnar líka yfir systkinabörn, barnabörn, barnabarnabörn, tengdabörn, barnaleg börn, Björn Bjarna, börn Bjarna, afa, ömmu, föðurömmu, systkini foreldra, nágranna, gamlar æskuástir, saumaklúbbsvinkonur og kviðmága. Í nýju lögunum er það tekið skýrt fram að ekki verður á allt kosið. Hins vegar er ekki farið fram á það í nýju lögunum að þeir sem taka sæti í kjörstjórn kunni að telja en það mun vera algjört aukaatriði eins og komið hefur á daginn.
Hér úti um allt er krökkt af frænkum, frændum, fjórmenningum, góðvinum og bændum. Einar, sonur Hafliða og Höllu er skyldur þeim og vanhæfur með öllu.
Samkvæmt nýjustu Gallup könnun verður V-listi, listi vanhæfra og venslaðra, ótvíræður sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna. Við fylgjumst spennt með áfram.
Einar venslaður.
Tilvitnun dagsins:
Allir: JÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ.