Orðin(n) brjálaður

Nú er nóg komið. Mælirinn er fullur. Hingað og ekki lengra, þakka ykkur fyrir. Ég hef setið þögull undanfarnar vikur og samtímis hefur reiðin kraumað og stigmagnast innra með mér. Það hlaut að koma að þolmörkunum. Og auðvitað bitnar þessi innri bræði á ykkur lesendum. En einhver verður jú að taka skellinn.

Þegar þetta er ritað er 13. nóvember. Það stoppar þó ekki alla vitleysingana sem finnst þeir endilega þurfa að setja allar jólaseríur í samband og kveikja á jólastjörnum við fjölfarnar umferðargötur nú þegar meira en 40 dagar eru til jóla – og eyðileggja þannig skammdegið fyrir okkur hinum. Hvers lags ekkisens andskotans vitleysa er þetta? Ekki er rafmagnsokrið að sliga þessa bjána, svo mikið er víst. Verða ljósin ekki orðin hversdagsleg eftir nokkrar vikur? Skildi þó ekki vera, grautarheilar. Við skulum samt endilega hafa kveikt á ljósunum. Já já, það er allt í lagi bara.

Létt-Bylgjan byrjaði að spila jólalögin fyrir meira en viku síðan. Bévítans apakettirnir. Það er ekkert hátíðlegt við Jóla-Bó þegar hann er í massívri tveggja mánaða spilun. Er það? Ekki eru rasshausarnir í verslunarmiðstöðvunum skárri þar sem þeir, algjörlega óumbeðnir, leitast við að koma fólki í jólaskap með útstillingum, glingri, konfektkynningum og skreytingum. Þetta getur auðvitað gert hvern mann geðveikan. Viljið þið ekki bara sprauta fólk með heilögum anda í æð, manndelarnir ykkar? Þið megið taka þetta jólaglingur ykkar og troða því upp í aftansönginn á ykkur alveg fram á aðventu.

Hvað ætli jólasveinunum finnist um þetta? Það hlýtur að vera komin aukin pressa á þá að fara tvær umferðir og gefa í skóinn, svona fyrst að jólaskapið er byrjað að blómstra nú þegar. Það verða allir orðnir endanlega vitlausir loks þegar þrettán dagar eru til jóla og Stekkjarstaur mætir á svæðið. Uppfæra þyrfti textann góðkunna um jólasveinana sem ganga um gólf á þann veg að í stað “níu nóttum fyrir jól þá kem ég til manna” yrði sungið “tuttugu og níu nóttum fyrir jól þá kem ég til manna”. Er það það sem þið viljið? Ginningarfífl.

Það er ekki nóg með að ég sé bandbrjálaður út af snemmkomnum jólum, ég er hoppandi snælduvitlaus út af skuldaleiðréttingunni. Af hverju er verið að leiðrétta gömul og góð íslensk skammdegisþunglyndis verðbólgin fasteignalán sauðsvarts almúgans? Má fólk ekki borga sínar svimandi háu afborganir í friði fyrir stjórnvöldum? Nei auðvitað ekki, það þarf endilega að leiðrétta lánin. Var virkilega ekkert annað sem þörf var á að leiðrétta fyrst? Hvað með skínandi skær jólaljós 13. nóvember? Það þarf ekki að leiðrétta það? Ó nei. Leiðréttum frekar lánin. Grefilsins asnagangur alla tíð.

Svo er það lekamálið. Alveg getur það mál gert mig stjörnugalinn. Það þarf endilega að býsnast yfir einhverjum guðsvoluðum hælisleitanda og einhverjum leka á hans persónulegu högum sem allir eru hvort eð er búnir að gleyma. Hvaða fjandans máli skiptir það? Skiptir virkilega ekki meira máli að halda jólaskreytingavitfirringunum og jólalagabrjálæðingunum í skefjum? Þeir mega ganga lausir, já já, en heiðarlegir embættismenn sem leka pínu – þeir þurfa að svara til saka og lenda í steininum. Forgangsröðunin er augljóslega kolbrengluð í þessu þjóðfélagi.

Jólin jólin eru finnst mér alveg allsstaðar
óhultur er ekki nokkur maður,
Ég get orðið brjálaður, já nánast alveg snar
svartur himinn var minn griðarstaður –
nú er hann orðinn ljós og upplitaður.

Bó spurði sig eitt sinn í söngtexta af hverju jólin væru ekki sérhvern dag og sérhvert andartak? Ætli hann þurfi að spyrja sig mikið lengur að því. Takk fyrir ekkert, ófétin ykkar.

Einar öskuillur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *