Margsprautuðu lesendur.
Inngangsorðin þurfa ekki að ríma – og alls ekki að meika nokkurn sens. Í Perú flestir leggja sig í Líma, lausir við allt orðagrín og glens.
Já komið þið sæl og blessuð og velkomin hingað á síður jólaútgáfu DB blaðsins árið 2021. Ég sór og sárt við lagði að ég skyldi taka frí frá skrifum í jólablaðið þetta árið en nú í aðdraganda jóla hef ég hins vegar fundið mikinn meðbyr og hvatningarorð úr baklandinu. Þá hef ég tekið samtalið við grasrótina og auðvitað get ég vel starfað á breiðum grundvelli, enda með breiðan grundvöll sjálfur. Já og svo í ofanálag talaði ritstjórinn líka við mig og bað mig vinsamlegast um að skrifa eitthvað í blaðið, það gerði sennilega útslagið. Enn á ný legg ég því á djúpið og reyni að stytta ykkur lesendum stundirnar fram til jóla.
Á djúpið segir þú? Flestir hefðu kosið að sjá Einar sigla sinn sjó fyrir lifandi löngu síðan og jafnvel hverfa ofan í djúpið en því miður hefur það ekki raungerst ennþá. Hafið býr yfir hundrað hættum og það sama gildir um Einar Haf sem kastar allri skynsemi fyrir róða og kýs þess í stað að haga seglum alls ekki eftir vindum. Árinni kennir illur ræðari og pistilinn skrifar villtur bloggari. Þegar bókhaldið lendir í sjónum, er þá hægt að tala um sokkinn kostnað? Já örugglega en það kemur þessu máli ekkert við.
Nú á aðventunni hefur örvunarskömmtum verið dælt í landsmenn í stórum stíl. Nánar til tekið er hér á ferðinni þriðja sprauta svokallaðra jólabóluefna sem ætlað er að forða landsmönnum frá fjörtjóni, verja gegn veiru og vá og stuðla að voðalega gleðilegum jólum og verulega farsælu veirulausu komandi ári. Örvunin hefur enn sem komið er ekki leitt af sér fækkun smita en hins vegar hefur jólaverslunin glæðst og sýnilegt að örvunin hefur skilað sér vel inn á greiðslukortin. Hætt er við heiftarlegum aukaverkunum í byrjun febrúar þegar skuldadagar renna upp en spurning hvort góður yfirdráttur geti ekki linað verstu þjáningarnar.
Þessa dagana koma þeir af fjöllum hver á fætur öðrum, úfnir og ófrýnilegir. Hverjir, jólasveinarnir? Já en líka villuráfandi sauðirnir og eftirlegukindurnar sem ekki rötuðu heim í haust. Svo má heldur ekki gleyma þingmönnunum okkar. Nú er búið að smala þeim saman í samkunduna á Alþingi, svona vel flestum að minnsta kosti. Einhverjir sauðir og eftirlegukindur urðu að vísu viðskila þegar safnið tvístraðist í Norðvesturkjördæmi þarna í haust og hafa ekki skilað sér til byggða, þrátt fyrir ítarlega skoðun markaskrár og vafaatkvæða og endurtekna leit á Hótel Borgarnesi. Hvort ertu að meina sauðirnir eða þingmennirnir? Eða kannski jólasveinarnir? Erfitt að segja. Ég rugla þessu öllu saman. Hvað sem því líður þá dúsa þingmennirnir okkar nú hver í sínu spili í þinghúsinu niðri við Austurvöll með rúman metra á milli sín; æstir í að fá að komast að í pontunni til að tala um fjárlagafrumvarpið. Og fengitíminn að bresta á. Það er að segja hjá eftirlegukindunum. Eða jólasveinunum? Ég er ekki viss. Til gamans má geta að þessar heimildir sem ég byggi umfjöllun mína á voru ekki í innsigluðum kassa og því er sennilega búið að eiga eitthvað við gögnin. Birgir Ármannsson kom af fjöllum þegar hann var spurður álits á málinu sem og Leppalúði en hann hefur síðustu mánuði gegnt embætti yfirkjörstjóra í Norðvesturkjördæmi við góðan orðstír.
Það er fátt jólalegra en að ræða og rausa um fjárlagafrumvarpið. Það voru jú einmitt fjárhirðarnir, sem í dag kallast reyndar gjaldkerar, sem spiluðu stóra rullu þegar fæðing frelsarans átti sér stað á sínum tíma. Spurning hvort þeir hafi verið á fjárlögum eða ekki en fjári gerðu þeir það gott, svo mikið er víst. Eins og flestum ætti að vera kunnugt urðu sauðkindur, spólgraðir hrútar á fengitíma og annar búpeningur vitni að því þegar frelsarinn fæddist í jötunni. Það má því öllum vera það ljóst að sauðkindin hefur frá örófi alda skipað stóran sess þegar kemur að jólahaldinu. Þessu hef ég klifað á í hátíðarpistlum mínum um langt árabil og mun trúlega halda því áfram þar til yfir lýkur. Ef ykkur þótti þessi umfjöllun eitthvað loðin er það trúlega vegna þess að hér sit ég kófsveittur og kindarlegur, íklæddur sauðagæru.
En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Þórólfi sóttvarnarlækni um að bólusetja skyldi alla þjóðina, aftur. Var þetta þriðja bólusetningin er gerð var, þá er Willum var heilbrigðisráðherra á Íslandi. Með tvo skammta af Phizer frá því fyrr á árinu voru þau María og Jósep ekkert að kippa sér sérstaklega upp við þessi tíðindi. María var þunguð líkt og í síðasta jólapistli en þáði sprautuna eftir mikla yfirlegu og samkvæmt ráðleggingum landlæknis. Jósep var á ónæmisbælandi lyfjum og því þáði hann ekki örvunarskammtinn. Heyrðu mig nú, kom þetta ekki líka fram í síðasta jólapistli? Jú, en þá var örvunin ekki orðin svona mikil.
Hinir trúþyrstu geta mætt í Urðakirkju nú um jólin og haldið sína eigin hátíðarstund, samhliða því sem viðkomandi geta játað syndir sínar við gráturnar og iðrast sem eflaust er engin vanþörf á. Ef þið eruð heppin getur vel verið að ég eða pabbi hringjum klukkunum á meðan, enda hringjum við frítt um helgar í boði Símans, Vodafone og Nova. Hvaða hátíðarhringitón er verið að vinna með? Bara þennan klassíska. Stutt, löng, löng, stutt.
Herðast reglur, húmar að á hörðum veiruvetri þyngist róður, þrengir að þjökuðu sálartetri.
Kæru lesendur. Njótið hátíðanna sem best þið getið, með eða án örvunar. Við sjáumst svo í fjarska bak við maska á nýju ári.
Einar Hafliðason