Gáttuðu lesendur.
Inngangsorð í moll og dúr, máski helst til snúin. Jón og Gunna fá sér lúr, gigtveik, föl og lúin. Stemmningin er frekar súr, Arnfríður er fúin. Þórkatla á tölvuúr, í tækni harð er snúin. Sveinn á lærið fékk sér flúr, ósamþykk var frúin. Sigríður fór inn í búr, frá bloggi burt er flúin. Hafsteinn karlinn elskar kúr, hans kona er rafmagnsknúin. Signý blóðheit fer á túr, brælutíð er búin. Einar Haf er í kolli klúr, þar hvergi heil finnst brúin.
Já þið giskuðuð rétt. Þetta er ekki niðurstaða kjörbréfanefndar, þetta er ekki uppkast nýs stjórnarsáttmála og þetta er heldur ekki örvunarskammtur af COVID-19 bóluefni. Hvað er þetta þá? Auðvitað eru þetta ekkert annað en vonbrigði, dulbúin sem nýjasta bloggfærslan frá smáhrifavaldinum Einari Haf. Rangfærslur, útúrsnúningar og þvergirðingsháttur í sinni tærustu mynd, jafnvel á grárra svæði en talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Er þá töluvert mikið sagt. Ýmsir hafa talið í Norðvesturkjördæmi en sennilega mun það ekki duga til.
Nú hefur verið hert á samkomutakmörkunum vegna COVID-19 faraldursins. Kemur sú herðing í kjölfarið á því að hert var á reglum en þar áður hafði verið slakað á takmörkunum og þar áður hafði verið slakað á, hert, hert, slakað á, slakað á, hert, slakað á, hert, slakað á, hert, slakað á, slakað á, hert, hert, hert, forhert, slakað á og hert. Á sama tíma hefur Landsspítalinn verið á óvissustigi, hættustigi, neyðarstigi, hættustigi, hættustigi, óvissustigi, hættustigi, neyðarstigi og hættustigi. Starfsfólk spítalans hefur staðið sig með ólíkindum vel að halda öllu gangandi þó allt sé á heljarþröm. Fyrst var starfsfólkið lúið, svo þreytt, þreyttara, ögn þreyttara, örþreytt, örþreyttara, útkeyrt og loks úrvinda en sem betur fer er enn eitthvað eftir á tanknum. Samkvæmt spálíkani stjórnenda spítalans verður starfsfólkið ekki að þrotum komið og endanlega uppgefið fyrr en búið verður að herða, slaka, herða og slaka meira á samkomutakmörkunum og setja spítalann á óvissustig, hættustig og neyðarstig vegna útbreiðslu COVID-19.
Hey, slaka!
Afsakið, smá Dalvíska að detta í hús. Daufi. Mun ástandið lagast eitthvað þegar allir fá örvunarskammt? Hvað með eins og einn góðan ölvunarskammt, bjargar það ekki einhverju? Nægt framboð af jólabjór. Bara pæling. Hvernig hefur þessi faraldur verið annars? Ég man það ekki en kannski get ég rifjað eitthvað upp, lesendum til glöggvunar. Við skulum sjá hvort þetta rifjist ekki upp þegar ég verð búinn að fá mér einn ölvunarskammt. Augnablik.
- 2. janúar 2020. Kínverji nokkur telur það góða hugmynd að borða sjálfdauða og hráa leðurblöku. Í kjölfarið fær hann hor í nös og niðurgang en ákveður þó að heimsækja ömmu sína og faðma hana ásamt sjö öðrum. Enginn veit hver Þórólfur Guðnason er.
- 15. janúar 2020. Dularfull veikindi herja á tugi Kínverja í borginni Wuhan. Amman sem var föðmuð 2. janúar liggur banaleguna. Kínverjinn sem át sjálfdauðu hráu leðurblökuna missir bragðskynið, sem var reyndar örugglega af skornum skammti fyrst hann át leðurblöku. Þessir sjö sem föðmuðu ömmuna fóru allir hóstandi í heimsreisu, meðal annars heimsótti einn þeirra skíðasvæðið í Ischgl í Austurríki.
- 1. febrúar 2020. Íslenskir ríkisbubbar hópast umvörpum til Evrópu í sjálfskipuðu vetrarfríi, fæstir þeirra kunna á skíði en flestir geta dottið í það í skíðaskálunum án vandkvæða. Hugtakið „smitvarnir“ er með öllu óþekkt. Þórólfi Guðnasyni svelgist á morgunkaffinu þegar hann les um bráðsmitandi drepsótt í Kína.
- 28. febrúar 2020. Millistjórnandi nýkominn til landsins úr skíðaferðalagi greinist smitaður af COVID-19 og er settur graður einangraður í gám við Landsspítalann. Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi og íhuga að virkja að nýju einangrunarstöðina í Hrísey. Þórólfur er hugsi en Símon er lasinn, með gólftusku um hálsinn. Þríeykið sækir um einkaréttarleyfi á hugtakinu þríeyki. Upplýsingafundir almannavarna hefja göngu sína og slá áhorfsmet.
- 13. mars 2020. Fyrstu samkomutakmarkanirnar í lýðveldissögunni eru settar á. 100 manns mega koma saman en mun fleiri mega koma í sitt hvoru lagi.
- 24. mars 2020. Sett var á 20 manna samkomubann, ræktinni og pöbbunum lokað, ferðabann sett á og fólk vinsamlegast beðið um að hundskast til að vera heima hjá sér og skammast sín. Faðmlög og sleikir við ókunnuga liðu undir lok. Erlendir ferðamenn komast á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu.
- 31. mars 2020. Sjúklingar veikjast og deyja úr COVID-19. Þjóðlífið er í lamasessi, tími örbirgðar og atvinnuleysis rennur upp. Allir sem fara til útlanda á skíði eiga, með réttu, yfir höfði sér ævarandi þjóðarskömm og útskúfun. Kínverski leðurblökumaðurinn gefur út matreiðslubók með 50 djörfustu leðurblökuuppskriftunum.
- 12. apríl 2020. Algjörir draumapáskar. Fólk hvatt til að ferðast innanhúss. Flestir sitja því heima hjá sér, horfa á Helga Björns og borða kindabjúgu með jafningi eftir að hafa fengið jafningafræðslu. COVID-19 smitum fjölgar, tilveran er grá og tóm en kojufyllerí njóta hylli.
- 4. maí 2020. Landsmenn höfðu ekki séð út úr augum í margar vikur en þökk sé Þórólfi komust þeir aftur í klippingu þegar slakað var á samkomutakmörkunum.
- 20. júní 2020. Fjölmörg fyrirtæki nýta sér hlutabótaleiðina, korteri eftir að eigendur þessara sömu fyrirtækja höfðu greitt sér út arð. Veiran virðist á undanhaldi, 500 mega koma saman og djammið er ekki dauðasök lengur. Þórólfur hefur það þokkalegt en Eyjólfur hressist. Kínverski leðurblökumaðurinn ber leðurblak af leðurblökuáti samlanda sinna.
- 29. júlí 2020. Hætt var við verslunarmannahelgina þegar innfluttum smitum tók að fjölga á ný. Fólk ferðaðist um eigið hús með bús og flestir voru á hálfgerðum blús. Ekkert smit hefur enn greinst í Svarfaðardal, enda eiga COVID-19 og landlæg riðuveiki ekki samleið. Lyfjarisinn Phizer fattar að það geti verið sniðugt að finna upp bóluefni við COVID-19.
- 13. ágúst 2020. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hittir vinkonur sínar og knúsar þær en biðst síðar afsökunar á því að hafa látið taka mynd af sér við athæfið. Tveggja metra reglan breytist í túlkunaratriði.
- 20. ágúst 2020. Ríkisstjórnin fer í skimun eftir að smit kom upp kringum kaffivélina á Hótel Rangá. Reglur á landamærunum æra óstöðugan og enginn veit lengur muninn á fyrri skimun, seinni skimun, úrvinnslusóttkví og smitgát. Þórólfur herðist.
- 10. september 2020. Slakað á slökununum með fyrirvara um herðingar. Slakað var á samkomutakmörkunum trekk í trekk en það dugði þó ekki til að halda gangnaball. Nú máttu sviðslistamenn koma hver við annan og komust margir við í kjölfarið.
- 20. september 2020. Í kjölfar þess að djammið var leyft á ný smituðust margir á djamminu, hnerrandi, hóstandi og frussandi hver í kapp við annan. Þórólfur forherðist.
- 3. október 2020. Hert á herðingunum. Hert verulega á reglum og sett á 20 manna samkomubann eftir að djammarar á höfuðborgarsvæðinu og ósvífnir erlendir ferðamenn dreifðu smitum vítt og breitt um landið. Kínverski leðurblökumaðurinn svífur vængjum þöndum. Almannavarnir færa viðbúnaðarstig sitt frá því að vera frekar hvimleitt ástand og yfir í að vera ógeðslega drepleiðinlegt ófremdarástand.
- 1. nóvember 2020. Hert á herðingunum. Hertar reglur og herptar rasskinnar. Hópsmit á Landakoti, Víðir Reynisson með COVID og allt á leið til andskotans. Íþróttaiðkun bönnuð en ungmenni hvött til að hanga heima í tölvunni.
- 21. desember 2020. Einar Haf fær það í gegn að bóluefni Phizer við kórónuveirunni er samþykkt af Lyfjastofnun og gert klárt til notkunar. Þarna nýtti Einar Haf sér það að afmælisbarnið ræður alltaf.
- 23. desember 2020. Fólk kúrir heima í eigin jólakúlu og strýkur á sér jólakúluna og klórar sér í jólakúlunum. Háttvirtur ráðherra fer á sölusýningu í Ásmundarsal og kaupir ekkert en þambar þess í stað ókeypis hvítvín.
- 24. desember 2020. Dómsmálaráðherra hringir í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu kl. 17:00 og spyr um daginn og veginn og ósköp hversdagsleg brot ráðherra á sóttvarnarlögum. Jólasteikin brennur við.
- 31. desember 2020. Landsmenn sprengja Kínverja, þar á meðal kínverska leðurblökumanninn. Bannað er að halda upp á nýtt ár með djammi og drykkjulátum, enda kom það í ljós síðar að það var nákvæmlega engin ástæða til að fagna komu ársins 2021 svo hressilega.
- 20. febrúar 2021. Kojufyllerí nær nýjum hæðum þegar þorrablót Svarfdælinga er sent út gegnum netið. Þórólfur er þreytulegur, starfsfólk Landsspítala örmagna og landsmenn komnir með upp í kok af ástandinu og hverjum öðrum. Það tengist þó ekki þorrablótinu.
- 10. apríl 2021. Bóluefni af ýmsum gerðum flæðir um æðar landans. Bjartsýni eykst, eitthvað sem hafði ekki gerst í marga mánuði. Greina má brosviprur hjá þríeykinu.
- 26. júní 2021. Slakað á slöku slökununum. Öllum hömlum aflétt, hömluleysi tekur við. Lögreglan kemst að því að hún saknaði óhefts opnunartíma skemmtistaða nákvæmlega ekki neitt. Nokkuð ber á barsmíðum og einhverjir eru slegnir. Í andlitið.
- 1. júlí 2021. Jói Pé og Króli halda hömlulausa tónleika í samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal. Húsnefnd býður upp á kleinur. Kemur COVID-19 faraldrinum ekki við en samt gaman að segja frá þessu.
- 25. júlí 2021. Hömluleysi afnumið, enda margsannað að Íslendingar geta ekki hamið sig þó svo að líf og limir séu í húfi. Hætt við flest allar útihátíðir um verslunarmannahelgina….aftur. Einar Haf fór ekki yfir mörk neinna kvenna en hann fór hins vegar vel yfir mörk ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar á fótboltavellinum við Rima, enda voru þau orðin nokkuð götótt.
- 30. ágúst 2021. Bóluefnið flæðir og ríkissjóður blæðir en staðan á spítalanum hræðir. Þríeykið fræðir en fækkun smita vonir glæðir. Gat þessi upprifjun ekki verið öll í bundnu máli? Nei, ekki þegar hausinn er fullur af káli.
- 13. september 2021. Samkomutakmarkanir banna gangnaballið á Höfða en enginn gat bannað opið hús, DJ Húlíó og 30 ára afmælisfagnað Urðaréttar. Íslendingar kaupa sér farmiða til Tenerife, að minnsta kosti aðra leiðina.
- 15. október 2021. Grímuskylda í búðum, gínuskylda í fatabúðum og vímuskylda á skemmtistöðum. Rímuskylda á bloggsíðum afnumin. Þórólfur er áhyggjufullur. Víðir er leyndardómsfullur. Einar Haf er fullur….áhuga.
- 12. nóvember 2021. Hert á slöknuðum herðingum. 50 manns mega koma saman en ekki hafa of mikið gaman, þar sem slíkt er bráðsmitandi. Smitfjöldi nær hæstu hæðum. Þórólfur leggur til að allir fái sér örvunarskammt af bóluefni. Einar Haf misskilur stöðuna og fær sér ölvunarskammt.
- 15. nóvember 2021. Einari Haf finnst það góð hugmynd að rifja upp þróun heimsfaraldurs á óritrýndri bloggsíðu án þess að kanna helstu staðreyndir eða ráðfæra sig við sérfræðinga. Lesendur taka hraðpróf og biðja í kjölfarið um örvunarskammt til að komast í gegnum bloggfærsluna.
Klökkur ég krýp einn við gráturnar komast vil ástand í ölvunar bljúgur ég ört bryð obláturnar bið ég um góðan skammt örvunar.
Loftslagsráðstefnunni í Glasgow er nú lokið. Samþykkt var að stefna að því að halda hlýnun jarðar í skefjum með því að minnka eða jafnvel draga úr losun gróðurhúsalofttegunda kannski. Þannig eiga komandi kynslóðir sér mögulega viðreisnar von á plánetunni Jörð en þó er það ekkert öruggt. Um leið og ályktunin var samþykkt og ráðstefnunni lauk hækkaði hitinn í Svarfaðardal úr -4 gráðum í +11 gráður. Ekki er vitað hvort þessir tveir atburðir tengjast.
Þess má geta að frá því að bloggfærslan hófst hefur meðalhitinn á veraldarvefnum hækkað um 0,7 gráður.
Einar ofhitnaður.
Tilvitnun dagsins:
Allir: HEITTT!!!