Orðin afléttari

Grímuklæddu lesendur.

Ég hef ákveðið í ljósi nýgengi á hverja hundrað þúsund íbúa og að höfðu samráði við sóttvarnarlækni að tilslaka mér aðeins, eftir að hafa verið afar takmarkaður síðustu vikur. Vonandi tekst mér að halda afléttingarferlinu áfram. Hvað með lesendur, verður létt einhverju af þeim? Nei því miður ekki, þeir fá í fangið nýja og afar samkomutakmarkandi bloggfærslu frá Einari Haf sem skammast sín lítið sem ekkert fyrir þennan ótuktarskap. Takist lesendum að líta glaðan dag á ný verður það svo sannarlega ekki Einari að þakka heldur frekar þeim félögum Þórólfi, Astra, Phizer og Spútnik.

Verktakar vinna nú nótt sem nýtan dag við að útbúa varnargarða í kringum hraunið úr eldgosinu í Geldingadal….eða Merardal…..eða hvar sem þetta eldgos er niður komið. Er þetta gert með það að markmiði að verja vegi og önnur mannvirki á svæðinu sem hugsanlega gætu verið í hættu ef eldgosið heldur áfram næstu mánuði og misseri. Sniðugt, ég vissi ekki að þú gætir hamið eldgos með jarðýtum. Það er greinilega hægt. Af hverju í ósköpunum er ekki búið að fá Landhelgisgæsluna til að fljúga yfir svæðið með vatnsskjóðuna sína góðu og slökkva í gosinu til að spara okkur þetta ómak? Æi já alveg rétt, skjóðan er víst biluð eftir sinueldana miklu í Heiðmörk um daginn. Það gengur bara betur næst.

Langvarandi þurrkatíð og kuldi undanfarið hafa hægt mjög á sprettu á grýttum túnum hér á Urðum. Grjóturðum. Þurrkatíðin hefur líka valdið því að nú má ekki lengur fara út um þúfur eða út í móa að grilla, reykja njóla eða kveikja sér í vindlingi. Almannavarnir hreinlega banna það, sökum eldhættu. Það er reyndar ekkert nýtt í þessu, það hefur alltaf verið eldhætta ef einhver er með eld og vill ekki hætta. Íkveikjubann almannavarna er nýjasta bannið í langri röð boða og banna sem sett hafa verið síðasta árið – og við erum löngu hætt að kippa okkur upp við. Áður höfðu almannavarnir bannað allt skemmtanahald, mannfagnaði, hópknús, ónauðsynlegar utanlandsferðir, nálægð við annað fólk og óvarin hóstaköst í almannarýmum. Aldrei má maður neitt.

Nú keppast sóttvarnaryfirvöld við að láta bólusetja landsmenn sama hvað það kostar. Hefur mátt sjá hjúkrunarfræðingum bregða fyrir vítt og breitt um landið í íþróttahöllum, menningarhúsum, slökkvistöðvum og safnaðarheimilum, mundandi nálar og stingandi í upphandleggi hingað og þangað tvist og bast. Gengið hefur verið á röðina og bólusett samkvæmt forgangslistum heilbrigðisyfirvalda. Aldurhnignir og ellihrumir voru settir í fyrsta forgang, grálit gamalmenni, hornkerlingar og hrukkóttir heldriborgarar í annan forgang, síðmiðaldra, síðskeggjaðir og fullorðnir framlínustarfsmenn í þriðja forgang og miðaldra merkikerti í fjórða forgang. Þegar ákveðið var að setja í forgang alla þá sem væru með undirliggjandi sjúkdóma kom í ljós að stór hluti landsmanna er með ýmiskonar undirliggjandi sjúkdóma. Það er bara misjafnt hversu langt undirliggjandi sjúkdómarnir eru og undir hverju þeir eru liggjandi. Þar af leiðandi er annar og þriðji hver maður í bólusetningarforgangi. Lífstílsbloggarar virðast ekki vera þar á meðal, sem er auðvitað með ólíkindum sé litið til þjóðhagslegs mikilvægis þeirrar stéttar.

Mörgum manninum er það mikið hjartans mál að komast til útlanda eftir hömlur og helsi síðustu missera – í þeirri trú að bólusetningarnar bjargi málunum. Langeygðir, langþreyttir og D-vítamínsnauðir eyjaskeggjarnir róa í gráðið þar sem þeir bíða fölir og forpokaðir eftir sprautunni og réttlæta kaup á utanlandsferð fyrir sjálfum sér og öðrum með þeim rökum að grasið sé miklu grænna hinum megin. Aukinheldur hafi þeir fengið upp í kok af íslenska grasinu eftir rúmt ár á beit í túnfætinum heima á hinum dimmu og drungalegu veirutímum. Sólarstrendurnar, stórborgirnar og stuðið á meginlandinu heilla hina auðtrúa og ginkeyptu og ekki vantar gylliboðin og afslættina. Gömul og endurunnin flugfélög vakna af dvala auk þess sem ný spretta fram og landflutningar á suðrænar slóðir eru í farvatninu. Ferðamannaiðnaðurinn býður þess að rísa bráðlega úr öskustónni og hefja hér efnahagslífið úr öldudal kóvidkrísunnar og upp í hæstu hæðir að nýju. Sjálfur horfi ég agndofa á aðfarirnar og barnslega eftirvæntingu ferðaþyrstra, blöskrast á því hvernig allt er í heiminum hverfult og held áfram að jórtra svarfdælska grasið múlbundinn og blár af kulda í vindþurrkuðum túnfætinum heima. Heima er best því þar er engin pest. Það er að segja ef riðuveiki, þunglyndi, flasa, vélindabakflæði, liðagigt og garnaveiki eru ekki talin með.

Ég hef ekki alltaf verið uppfullur af heimóttarskap, ótrúlegt en satt. Í eina tíð var ég heimsborgari sem lét sig ekki muna um ferðalög yfir hnöttinn þveran og endilangan til að auka víðsýni og þekkingu á veröldinni, komast á hömlulaust kvennafar og til að sukka, djamma og djúsa á erlendri grund. Skemmst er að minnast þess þegar ég fór ásamt góðum félögum og vinum í dagsferð á Stade de France í París til að horfa á íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu etja kappi við það franska. Þá skrapp ég ásamt bekkjarfélögunum til Mexíkó og Bandaríkjanna skömmu fyrir bankahrunið og einnig hef ég étið skerpikjöt og drukkið Færeyjabjór í Færeyjum að hætti heimsborgara. Rosalega flott allt saman en frekar tímafrekt. Þökk sé heimsfaraldri kórónuveiru hef ég komist að því að það er hægt að framkvæma alla þessa hluti gegnum sjónvarpið, tölvuna og smáforrit í snjallsíma án þess að hreyfa sig spönn frá rassi. Nema kannski ekki hvað varðar skerpikjötið. Félagsleg einangrun er mun skemmtilegri þegar hún er kölluð sjálfskipuð sóttkví. Kannski ekki gott fyrir geðheilsuna en það var reyndar ekki úr háum söðli að detta þar.

Bíddu bíddu, hvað með nýjustu #metoo bylgjuna, stríðsástandið á Gazasvæðinu og yfirvofandi sigur Íslands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva? Já ég vissi ekki alveg hvað ég gæti lagt til málanna þar þannig að ég ákvað bara að fjalla um þetta í bundnu máli.

Heimurinn er uppfullur af eymd
og auðmýktin er fyrir löngu gleymd.
Einar búa konur kúgun við -
en kannski vinnur Ísland júróið?

Já ég veit, þetta var kannski ekki alveg nógu gott. Ekki frekar en ástandið í heiminum almennt. Hvað ætla ég að gera í því? Nú auðvitað að hringja í 113 og væla pínu. Ekki veitir af.

Þess má til gamans geta að samkvæmt rannsóknum getur um fjórðungur drengja ekki lesið sér til gagns. Í ljós kom að allir drengirnir sem töldust til þess hóps voru að lesa bloggsíðu Einars Haf. Þar les aldrei neinn neitt af gagni og því komu niðurstöður rannsóknarinnar nákvæmlega ekkert á óvart.

Einar ekki alveg beinar.

Tilvitnun dagsins:

Allir: ÚTLÖND!!!!

One thought on “Orðin afléttari”

  1. Góðar minningar rifjaðar þarna upp. Frakkland, Mexíkó og Bandaríkin 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *