Orðin í ótrúlegu banastuði

Sumarbjörtu lesendur.

Auðvitað gæti ég hafið þessa bloggfærslu á einhverskonar sjálfsvorkunn, vonleysi og angist sem vissulega er full innistæða fyrir – en þess í stað ætla ég að láta sem ekkert sé og tala fjálglega um að allt sé í stakasta himnalagi og með þvílíkum ágætum. Vinsamlegast takið viljann fyrir verkið. Þeim sem hafa meiri áhuga á sjálfsvorkunn, vonleysi og angist er bent á nýútkomna skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um tilvistarvanda hjúkrunarheimilanna. Þess má geta að margir minna heitustu aðdáenda eru vistmenn á hjúkrunarheimilum. Guð blessi þá alla.

Sjaldan greinist smitið langt frá sóttkvínni. Og þó… Því miður virðist veiran skæða enn leika lausum hala óbeisluð úti í samfélaginu og á meðan svo er heldur hún hræddri þjóð sem og mannkyninu öllu í heljargreipum. Síðan síðasta bloggfærsla fór í loftið hafa verið gerðar sjö tilslakanir og átta herðingar á hinum ýmsu lögum og reglum er snúa að sóttvörnum innanlands og fyrirkomulagi á landamærunum. Landamærin já..hún getur verið harðsnúin mærin sú. Ha? Já, það hefur nefnilega margoft komið fram í máli sóttvarnarlæknis að hann sé áhyggjufullur vegna þess að landamærin leki. Ég skil vel að það valdi honum áhyggjum – aumingja mærin. Það er huggun harmi gegn að mær með lekanda og lek vandamál fær oftar en ekki bót meina sinna innan heilbrigðiskerfisins. Vonum það besta. Ekki er kyn þó landamærin leki, botninn er dottinn úr sóttkvínni. Já einmitt…ég fann málsháttabókina! Betri er krókur en covid því sá hlær best sem síðast fær ekki covid.

Og þá að íþróttafréttum. Forseti Real Madrid var nýverið lagður inn á nýstofnaða ofurdeild borgarsjúkrahússins í Madríd með mjög alvarlegan siðferðisbrest og fjórða stigs fjárkláða. Af hverju var hann lagður inn á ofurdeildina? Almenna deildin, skurðdeildin, göngudeildin, geðdeildin og lyflækningadeildin höfðu bara ekki efni á honum. LOL.

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður, Ungmennafélagið Atli, Ungmennafélagið Skíði, Búnaðarfélag Svarfdæla, Umf. Narfi og Kvenfélagið Tilraun munu hafa uppi áform um að taka sig út úr hinni hefðbundnu deildar- og meistarakeppni og stofna nýja ofurdeild að evrópskri fyrirmynd. Viðræður um sjónvarpsrétt að hinni nýju ofurdeild standa yfir en jafnvel er talið að félögin geti haft tugi eða hundruði króna upp úr krafsinu. Það sem helst kemur í veg fyrir að fjárhæðirnar sem um ræðir eru ekki hærri er sú staðreynd að ekkert þessara félaga leggur stund á keppni heldur er aðalatriðið að vera með.

Já og hvað er eiginlega málið með þessa tveggja metra reglu? Ég er bara 1,76. LOL LMAO.

Nú er sumarið komið og veturinn horfinn á braut. Fari hann í friði. Sumar og vetur frusu ekki saman hér í Svarfaðardal eftir því sem ég kemst næst. Það að sumar og vetur skuli ekki hafa frosið saman mun vita á vont og er það nokkur nýbreytni og þar af leiðandi skellur, því það hefur jú allt verið í lukkunnar velstandi hjá okkur hingað til. Í þessu samhengi velti ég fyrir mér…ef að Phizer og AstraZeneca frjósa saman, boðar það gott kannski? Nú er bólusett sem aldrei fyrr og er þar öllu til tjaldað og engu til sparað – sem er ekki ný bóla hér á landi. Hérlend yfirvöld sópa að sér þeim bóluefnum sem bjóðast og þiggja alla ölmusu sem berst að handan yfir hafið og hingað heim. Við tökum Guðs lifandi fegin við öllum efnum sem eitthvað bólar á því betra er að vera bólusettur en illa settur. Tala nú ekki um að vera framsettur. Já eða veðsettur. Sama hvað hver segir, allt snýst þetta um það að ná sér í nægjanlega mikið mótefni í tæka tíð til að geta djammað og djúsað af sér rassgatið um verslunarmannahelgina með góðri samvisku. Já og sennilega allar helgar upp frá því. Þetta djamm djammar sig ekki sjálft. Kannski tekst okkur þetta með því að kreista sjöunda skammtinn út úr hverju bóluefnisglasi sem rekur á fjörur okkar. Já við Íslendingar höfum alltaf verið nýtnir og stundum ýtnir en í öllu falli skrýtnir. Skringilegheit eru landlæg á Íslandi, ekkert bóluefni er nothæft gegn slíku. Sem er skringilegt út af fyrir sig, já og sprenghlægilegt.

Yfirvöld hafa nú birt svokallaða afléttingaráætlun í fjórum liðum sem sögð er eiga að varða leiðina aftur til hins eðlilega lífs. Þó má deila um hversu eðlilegt það líf hafi verið. Í mínu tilfelli var það til dæmis ekki mjög eðlilegt enda ekkert eðlilegt við það að vera kynþokkafullur áhrifavaldur fastur í líkama örventrar feitabollu. Skítt með það. Gangi áætlanir stjórnvalda eftir verður búið að sprauta faraldurinn og stærstan hluta landsmanna niður í lok júní og mun þjóðlífið þá verða hömlulaust á ný með tilheyrandi hópknúsum og kynsvalli – rétt eins og allt var fyrir covid. Skemmst er að minnast þess þegar útrásarvíkingarnir fengu að ganga hömlulaust um fjárhirslur þjóðarinnar skömmu fyrir bankahrunið og skilja eftir sig sviðna jörð – öll munum við hvernig það fór. Spennandi verður að sjá hvaða ósköp munu dynja yfir næst þegar ég og öll íslenska þjóðin förum fram úr okkur. Sem mun vonandi gerast fyrr en síðar.

Eldgosið í Geldingadölum…eða Merardölum….eða Fagradalsfjalli heldur áfram að spúa baneitruðu gjalli og eiturgufum út í andrúmsloftið – á sama tíma og umhverfisráðherra hrósar happi yfir 2% samdrætti í koltvísýringsútblæstri Íslendinga milli áranna 2018 og 2019. Karlgreyið. Ekki nóg með að Íslendingar þurfi að kolefnisjafna bílaflotann, skipaflotann, flugvélaflotann og iðrakveisur Einars Haf heldur þurfum við nú líka að kolefnisjafna eldgosið í Geldingadölum….eða Merardölum…..eða Fagradalsfjalli. O jæja, líklega best að hætta þá þessu blaðri og halda áfram að moka ofan í skurðina. Já meðan ég man; Einar á Urðum, hoppar á hurðum og skítur í skurðum. Jafn fyndið núna og það var í 2. bekk.

Lög um sóttkví spila á flautu
svíður mér undan spritti blautu
niður mig gref í grænni lautu
grafkyrr bíð ég eftir sprautu. 

Þess má til gamans geta að þeir sem telja sig vera of létta ættu hiklaust að skella sér í afléttingu og aflétta sig hið snarasta.

Algjörlega Einar

Tilvitnun dagsins:

Allir: Aflétting!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *