Mótefnasnauðu lesendur.
Í þrítugasta og sjötta sinn hættir Einar Haf að blogga til þess eins að geta snúið aftur á ritvöllinn, ráðvilltari og óskiljanlegri en nokkru sinni fyrr. Líkt og í öll hin skiptin þegar ég hætti finn ég mig knúinn til að snúa aftur á öldur ljósvakans vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Oft hefur ástandið verið ógnvænlegt en þó sjaldan eins rosalega ógnvænlegt og nú. Jarðskjálftar, kvikuinnskot og kórónuveira svo ekki sé minnst á dularfullt símtal dómsmálaráðherra við lögreglustjóra síðdegis á aðfangadag. Hvað var svona dularfullt við símtalið? Ég veit það ekki. Í þau skipti sem ég fæ dularfull símtöl veit ég ekki einu sinni hver það er sem er að hringja, ég heyri bara þungan andardrátt á hinum enda línunnar og svo ekki meira. Lengi vel hringdi enginn í mig en það var trúlega vegna þess að ég var ekki með síma. Eða var því kannski öfugt farið?
Stjórnvöld og almenningur bíða nú þess sem verða vill varðandi bólusetningar hér á landi en líkt og með mjög mörg önnur mál veit enginn hvað gerist. Leikskipulagið, hin svokallaða „íslenska aðferð“, gengur út á að bíða af sér leiðindin og vona það besta. Upphafleg bólusetningaráætlun stjórnvalda og sóttvarnaryfirvalda gerði ráð fyrir því að bóluefnið kæmi með vorskipunum en nú er jafnvel talið að það komi ekki fyrr en með haustskipunum. Samkvæmt sömu áætlun stóð til að bólusetja Þorra þjóðarinnar fyrir sumarið en ekki hefur enn fengist uppgefið hvaða Þorri það er sem verður svo heppinn. Ég hef legið yfir bólusetningardagatalinu sem stjórnvöld gáfu út fyrir nokkru og hef orðið margs vísari. Samkvæmt dagatalinu eru nú að baki Píningsvetur, Sultarvor, Skítasumar og Nístingshaust síðan faraldurinn hófst. Nú stendur yfir svokallaður Vonleysisvetur og ljóst að áfram þurfa hinir dansleikjaþyrstu að þreyja Þorrann, Góuna og Lóuna en síðan þegar sumri hallar verður vonandi hægt að fara að knúsa fast, kasta grímunni og dansa vangadans í hverjum krók og kima. Þórólfur sóttvarnarlæknir og leiðtogi lífs okkar og ljós í kóviddrunganum hefur látið í ljós þá bjargföstu skoðun sína að óskynsamlegt sé að aflétta hömlum nú í miðjum jarðhræringum á Reykjanesi. Þetta er trúlega alveg rétt hjá honum, enda hrærður en ekki hristur. Ein þeirra fjölmörgu sviðsmynda sem búið er að teikna upp hjá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð sýnir að ef hömlum yrði aflétt eru allar líkur á að þúsund gáfuðustu Íslendingarnir, þ.e. áhrifavaldarnir og samfélagsmiðlastjörnurnar, myndu hópast saman með símana sína hringinn í kringum Keili og Fagradalsfjall. Þar myndu þeir bíða þess í ofvæni, óaðfinnanlega klæddir og farðaðir, að jörðin opnaðist undir fótum þeirra og upp myndu stíga sótsvartir vítislogar og rauðglóandi hraunkvika sem gætu skilað allt að þúsund lækum á dag, þ.e. ef næst að taka mynd á réttu augnabliki. Þetta vilja yfirvöld skiljanlega ekki hætta á að gerist, því sé betra að bíða bara heima í einrúmi við tölvuna og bíða nýrra frétta af óróapúlsvaktinni. Nema auðvitað ef þú ert staddur í Grindavík, þá máttu bara dúsa heima við kertaljós og klæðin rauð í heimatilbúnu rafmagnsleysi.
Nú þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum og óvissa og kvíði ráða ríkjum í þjóðfélaginu hafa margir þingmenn þungar áhyggur af því að vita ekki hvaða orðaskipti áttu sér stað í símtali dómsmálaráðherra við lögreglustjóra síðdegis á aðfangadag. Stóru málin, mikið rétt. Ég veit það fyrir víst að flestir þingmenn lesa þessa bloggsíðu og því get ég róað taugar ykkar og birt hér nokkurn veginn orðrétt hvað átti sér stað í þessu umrædda símtali. Ég tek það fram að það var ekki ég sem var að hlera fyrir 10 þúsund króna fréttaskot í DV heldur var það Gáttaþefur, sem er þekktur fyrir að þefa uppi alls kyns óþef, sem var með nefið í nágrenninu og hleraði símtalið. Ring ring. Hæ. Halló, lögreglustjórinn hér. Hver er þetta? Þetta er Áslaug dómsmálaráðherra. Já komdu sæl. Sæl vertu. Ert þú ekki býsna góð í eldhúsinu? Ég er í smá vandræðum með sósuna, það vilja alltaf koma kekkir í hana hjá mér og allt fer í einn graut. Hvað ætti ég að gera? Þegar allt hleypur í kekki og allt fer í graut? Já akkúrat. Einmitt…og salta það? Aha. Meðan ég man svona í algjöru framhjáhlaupi, hvaða verklagsreglur er lögreglan með þegar ráðherrar láta góma sig á of fjölmennum samkomum sem brjóta sóttvarnarreglur? Ha, hræra vel upp í þessu og sjóða meira? Já hræra upp í sósunni en ekki fjölmiðlum? Já ég er að tala um sósuna, ekki ráðherrann. Sjóða meira? Já einmitt, já ég prófa það. Gleðileg jól sömuleiðis. Bæ.
Fyrir nokkrum vikum var mér falið það verkefni að skrifa þorrablótsannál fyrir rafrænt þorrablót í Svarfaðardal sem sett var á netið 20. febrúar. Auðvitað axlaði ég ábyrgð og tók verkið að mér, enda tilbúinn að deyja fyrir klúbbinn og rúmlega það þegar kemur að Umf. Þorsteini Svörfuði, sem heldur jú þorrablótið að nafninu til. Í ljósi þessa þarf varla að koma á óvart að ég hafi látið lítið fyrir mér fara síðustu vikur, enda mjög auðvelt að kalla yfir sig skít og skammir ef maður stígur feilspor við annálsskrifin. Sölvi á Hreiðarsstöðum las annálinn í ró og næði inn á myndband heima í stofu svona eins og verið væri að fara með húslestur eða lesa brot úr Passíusálmunum og engum dósahlátri var bætt inn í myndbandið þannig að erfitt var að greina hvaða skrif hefðu þótt fyndin og sniðug og hvaða skrif hefðu þótt ófyndin og ósniðug. Ekki hef ég þó orðið fyrir neinu aðkasti síðan blótið var sett inn á jútjúb og því lít ég svo á að verkefnið hafi heppnast. Vonandi þarf þessi viðburður aldrei aftur að fara fram gegnum netið enda frekar erfitt að hala niður hákarli og hrútspungum gegnum tölvuna þó vissulega megi vel streyma brennivíninu.
Þessa dagana telur þjóðin fram til skatts eins og hún eigi lífið að leysa. Allar krónur eru vel þegnar í tóman ríkiskassann því margt smátt gerir lítið eitt. Þeir sem eru með svokallaðar svartar tekjur eru sérstaklega hvattir til að telja þær fram á gráa svæðinu á framtalinu. Sjá nánar á skattur.is. Taka skal fram að hafi menn keypt málverk á sölusýningu í Ásmundarsal á Þorláksmessu er það frádráttarbært frá skatti gegn framvísun kvittunar en sekt vegna brota á sóttvarnarlögum sem óhjákvæmilega fylgir er það að vísu ekki.
Samkvæmt bóluefnadagatalinu er frekar illt í efni en frekar langt í bóluefni. Eftirspurn eftir bóluefni er gríðarleg á heimsvísu og sprautufíklum hefur fjölgað, þ.e. þeim hefur fjölgað sem eru fíklar í hvers kyns sprautur sem innihalda bóluefni. Sjálfur var ég mikið að vinna með bóluefni þegar ég var unglingur en það var þá aðallega gröftur sem á fagmáli kallast unglingabóluefni. Er hægt að láta bólusetja sig við leiðindum? Þá hljóta lesendur bloggsíðu Einars Haf að vera í forgangshóp.
Eins og staðan er í dag mega 50 manns koma saman hér á landi. Ekki er vitað hversu margir mega koma í sitt hvoru lagi. Enn er hin svokallaða tveggja metra regla við lýði hjá Víði sem er slæmt fyrir mig enda er ég bara 1,76 metrar samkvæmt vegabréfinu. Þá ríkir enn grímuskylda þar sem æskilegri fjarlægð verður ekki við komið. Auðvitað fer það eftir því hver á í hlut hverju sinni hvaða fjarlægð er æskileg. Ef ég er nýbúinn að keyra skít á völl og það hefur kannski slest á mig ein volg lensa er æskileg fjarlægð um 4-5 metrar en ef ég er nýbúinn í sturtu og búinn að setja á mig svitalyktareyði má vel sætta sig við 1,5 – 2 metra. Spennandi verður að sjá hvaða tilslakanir verða settar fram næst, gefið að jarðhræringum, kvikuinnskotum, óvissuástandi og dularfullum símtölum linni einhvern tímann.
Kýrin mín hún Skrauta kunni á skauta fagmannlega á fauta heyrðist flauta grösin át með Gauta sem át grauta bóluefni Pfizers naut að sprauta.
Þess má til gamans geta að samkvæmt þeim sviðsmyndum sem við höfum teiknað upp eru nokkrar líkur á að það gjósi áður en yfir lýkur eða jafnvel fyrr en síðar en ekki mikið síðar en það nema síðar sé eða síður.
Einar á Fagradal.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Sprauta takk!!
Allir: Eldgos!!