Mót við áraorð

Góðir landsmenn.

Nú við áramót er það eina rétta í stöðunni að líta aðeins um öxl, líta aðeins á öxl, gá hvort öxlin sé í ábyrgð og axla síðan ábyrgð, líta til baka yfir farinn veg, líta í mörg horn enda í mörg horn að líta og líta á staðreyndir málsins. Hinu ólýsanlega fordæmalausa ári 2020 er rétt í þann mund að ljúka en því getur varla lokið alveg án þess að ég, Einar Haf sameiningartákn og sjálfskipaður áhrifavaldur, setji punkt aftan við það og kveðji árans árið með viðhöfn. Svona áramótahugvekjur eru einmitt kjörinn vettvangur til þess en það gátu þið svo sem sagt ykkur sjálf. Líkt og jafnan áður er hugvekjan að mestu unnin upp úr áramótahugvekjum forsætisráðherra, biskups og forseta; orðalagi og uppröðun texta er aðeins lítillega breytt.

Einar Haf áhrifavaldur segir þú? Já heldur betur, við sjáum mynd því til staðfestingar.

Róhóhólegur kúreki. Ég er kannski áhrifavaldur á svarfdælska bloggmarkaðnum en annars trúlega alls ekki. Ég uppfylli þó flest skilyrði til að geta talist áhrifavaldur á landsvísu. Ég held úti bloggsíðu, er með Instagram reikning, tala fallega um ákveðnar neysluvörur, er ljós yfirlitum og hef með mér góðan kjörþokka, er með þrýstnar línur, stóran rass og stór brjóst. Þetta tékkar í öll boxin en virðist því miður ekki duga til. Það gengur kannski bara betur næst. Mjög svo viðeigandi frasi þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir landsmenn. Íslendingar eru þrautseig þjóð, eins og komið hefur fram í öllum áramótahugvekjum mínum fram til þessa. Hér í harðbýlu landi elds og íss hefur þjóðin þraukað við kröpp kjör og þrengingar alveg frá því land byggðist. Hallæri, stórviðri, gengisfall, plágur, farsóttir og fjölbreytilegar hörmungar hafa dunið yfir með reglubundnum hætti og oft á tíðum valdið gríðarlegum skaða. Af ótrúlegri hörku og með íslensku geðveikina að vopni hefur okkur ævinlega tekist að ná okkur á strik að nýju. Þegar rætt er um íslensku geðveikina er að sjálfsögðu átt við afar heiftarlega persónuleikaröskun og alvarlegar ranghugmyndir Íslendinga um stöðu sína í samfélagi þjóðanna. Mikilmennskubrjálæðið hefur komið okkur í gegnum allar kreppur hingað til og ekki er útlit fyrir að nein breyting verði á því í bráð. Höfum þetta hugfast þegar öll sund virðast lokuð og allar bjargir bannaðar. Höfum einnig hugfast að það þarf töluvert mikla þrautseigju til að komast klakklaust í gegnum þessa áramótahugvekju. Þrautseigja, mjög svo viðeigandi hugtak þegar árið 2020 er annars vegar.

Samstaða hefur verið mjög áberandi á því fjárans ári sem senn mun springa í loft upp á svörtum næturhimninum. Þá er að sjálfsögðu átt við óeiginlega samstöðu því það er ekki í anda gildandi sóttvarnarreglna að standa mikið saman þessa dagana. Heil þjóð hefur í fleiri mánuði hlýtt þríeykinu svokallaða í einu og öllu og farið með gát þegar hin skæða kórónuveira og reiðisköst Kára Stefánssonar eru annars vegar. Ferðumst innanhúss, hlýðum Víði, við erum öll Alma-nnavarnir og göngum um gólf fyrir Þórólf. Mjög svo kunnuglegt allt saman. Að vísu eru nokkrir frjálslyndir ráðamenn undanþegnir hinni almennu samstöðu og hafa einhverjir þeirra meira að segja lagt sig fram um að fara á svig við gildandi sóttvarnarlög. Ekki er þó rétt að benda á einhverja sökudólga í þessu samhengi því þessar vinkonur knúsa sig víst ekki sjálfar og þessar sölusýningar á Þorláksmessu sækja sig ekki sjálfar. Allavega ekki edrú. Það er veiran sem er óvinurinn, munum það. Já og svo auðvitað gaurinn í Wuhan sem át leðurblökuna. Það var nú aldeilis góð hugmynd. Leðurblökuát, mjög svo í anda viðurstyggilegheitanna sem koma upp í huga manns þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir landsmenn. Engan gat grunað fyrir ári síðan að árið 2020 myndi einkennast af hömlum, höftum, boðum og bönnum. Í dag er bannað að fara í líkamsræktina, bannað að fara í messu og bannað að halda fjölmennar veislur. Engin kaffihlaðborð, ekkert gangnaball og engin verslunarmannahelgi….eða svona næstum því. Engan gat grunað að nú um þessi áramót, hvar við erum stödd einmitt núna, yrði aðal umfjöllunarefni þjóðlífsins bóluefni frá góðhjörtuðum bandarískum lyfjarisa og hversu snögglega sé hægt að sprauta heila þjóð með efninu. Ég get varla beðið eftir því að fylgjast með því í ofvæni árið 2021 hvernig margbreytileg bóluefni munu hríslast um æðar þjóðarinnar svo unaðshrollur hljótist af í beinni útsendingu á öldum ljósvakans. Engan gat grunað að Ísland myndi vinna Eurovision keppnina sem fór þó ekki fram. Engan gat grunað að fjarfundir myndu slá í gegn. Engan gat heldur grunað að farþegaflug milli landa myndi svo gott sem leggjast af. Mesti skellurinn er þó auðvitað að völva Vikunnar skyldi ekki sjá neinn þessara atburða fyrir. Ófyrirsjáanleiki, mjög svo einkennandi orð þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir Íslendingar. Ég get ekki lagt mat á það hvernig til hefur tekist við að koma okkur í gegnum árið 2020. Það er ljóst að margt hefur verið vel gert en einnig að mistök hafa látið á sér kræla. Átti að herða, slaka, herða, slaka, herða, herða, slaka eða herða, slaka, slaka, herða, slaka, slaka, herða, slaka? Þessu velta menn fyrir sér. Vitaskuld er auðvelt að vera vitur eftir á en jafnvel ég á erfitt með það á stundum sem þessari. Hvað mun gerast á komandi ári? Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar efni kennt við ból. Ha? Munu Íslendingar ná að semja við góðhjartaða lyfjarisann Pfizer um meira og örara bóluefni í stærri skömmtum?

Verður hópknús á Austurvelli 17. júní? Verða þrjú gangnaböll á Höfða? Verður fólk heima með Helga fram á jólaföstu 2021? Hversu margir ráðherrar munu fara á svig við eigin tilmæli og sóttvarnarlög? Spennan er vissulega óbærileg, þó ekki jafn óbærileg og framsetning þessara sundurleitu hugsana hér í áramótahugvekju allra landsmanna. Óbærilegt er einmitt mjög svo einkennandi ástand þegar árið 2020 er annars vegar.

Íslendingar geta státað sig af svo ótal mörgu eins og komið hefur í ljós á þessu makalausa ári. Hér er loftið tært og ljósblikið skært. Hér er fífilbrekka gróin grund og grösug hlíð með berjalautum. Hér er öflugt heilbrigðiskerfi, gott flæði upplýsinga og traustir innviðir. Hér eru sóttvarnarreglurnar svo góðar að ekki einu sinni ráðherrum sem setja þær tekst að fara eftir þeim. Ísland er í svo öfundsverðri stöðu að mörgu leyti. Mikilvægt er að við höldum því vel til haga og bendum öðrum þjóðum á það ef svo ólíklega vill til að við þyrftum að upphefja okkur á þeirra kostnað. Grunnreglan er að upphefja sig á kostnað annarra. Þjóðrembingur og heimóttarskapur er einmitt eitt af því fáa jákvæða sem mér dettur í hug þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir landsmenn. Líkt og með öll fyrri hallæri er það íslenska sauðkindin sem mun koma okkur í gegnum núverandi hörmungarástand, þrátt fyrir landlæga riðuveiki og þrátt fyrir að nánast ekkert sé greitt til bænda fyrir að stunda sauðfjárbúskap. Hvað sem öllu líður er þetta krúnudjásnið í flóru landsins, verndardýrlingur þjóðar vorrar og ljúfmeti á veisluborðum um jól og áramót. Alltaf er sauðkindin til staðar fyrir okkur hvort sem um ræðir dýrindis steikur, lopa eða bara félagsskap þegar einmanaleikinn sækir að á köldum vetrarkvöldum. Hvergi á byggðu bóli er fjárdráttur jafn algengur og hér á landi miðað við höfðatölu og auðvitað væri það aldrei mögulegt nema vegna hinnar íslensku sauðkindar. Lýsingarorðið kindarlegur er mjög viðeigandi þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir Íslendingar. Tímarnir breytast og mennirnir þreytast. Árið sem nú er rétt í þann mund að líða undir lok hefur á köflum verið óútreiknanlegt, hlægilegt, grátlegt, leiðinlegt, einmanalegt, fordæmalaust, heimilislegt og bráðsmitandi. Líkamsrækt breyttist í heimaleikfimi. Megrunarkúr breyttist í sófakúr. Sóttvarnarlæknir breyttist í rokkstjörnu. Þakið á fjóshlöðunni á Urðum breyttist í brak úti á túni. Sýnatökupinnar urðu þyngdar sinnar virði í gulli. Denni dæmalausi heitir núna Denni fordæmalausi. Hafi árið kennt okkur eitthvað er það einmitt það að allt getur gerst, allt er breytingum háð og engu er hægt að taka sem gefnum hlut. Hverfulleikinn er yfirþyrmandi þegar árið 2020 er annars vegar.

Bóluefni berst frá Pfizer 
frábært, töff og frekar næs er
Skjótum burtu leiða og sorg
svifrykskæfum bæ og borg. 

Þegar allt kemur til alls er það eina sem hægt er að gera að þakka fyrir það sem maður hefur, gleyma því sem maður hefur glatað og gráta í hljóði það sem maður hefur ekki. Sprengjum burtu leiðindin og setjum heimsmet í svifryksmengun. Skjótum á okkur, skjótum okkur í fótinn og látum árið líða í aldanna skaut því vonandi kemur það aldrei til baka. Horfum jákvæð og bjartsýn fram á veginn, annars vegar og hins vegar, enda árið 2020 um það bil að fara veg allrar veraldar.

Ég þakka lesendum fyrir samfylgdina á árinu sem er senn á enda og óska ykkur öllum fjarsældar á komandi ári.

Heimasmitgátarherbergið á Bessastöðum 31. desember 2020.

Einar Okkar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:

Allir: BOMBA!!

One thought on “Mót við áraorð”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *