Orðin inn úr horninu

Stórtöpuðu lesendur.

Janúar. Jafnvel nafnið á þessum mánuði er leiðinlegt. Það gildir reyndar líka um bloggsíðu Einars Haf. En þarf janúar endilega að vera svona íþyngjandi og niðurdrepandi? Þarf endilega að vera með þetta þunglyndisraus og þennan bölmóð? Ekkert endilega, en það er bara svo miklu auðveldara en hitt. Þið vitið, glaðlyndi og svoleiðis. Oj bara.

Íslenska landsliðið í handknattleik stóð í ströngu á Evrópumótinu í handbolta sem fram fer í Póllandi þessa dagana. Strákarnir okkar hafa þar att kappi við milljónaþjóðir og unnu alla leiki sé horft til höfðatölu. Þannig að úrslitin sjálf skipta kannski minna máli. Miðað við höfðatölu fáum við líka miklu fleiri brottvísanir en önnur lið og við tökum mun lengri leikhlé. Allt er þetta jú leikur að tölum. Fjölmiðlar fylgja strákunum okkar eftir hvert fótmál og leita viðbragða þeirra í sigrum og ósigrum. Misvel liggur á strákunum okkar eins og gengur. Eftir skellinn gegn Króatíu var augljóslega þungt hljóð í okkar mönnum. Sumir hafa allt á hornum sér, sérstaklega þó hornamennirnir. Persónulega myndi ég bara taka símaviðtöl við línumennina, enda fá þeir jú borgað fyrir að vera á línunni. Bravó Einar, bravó.

Burt séð frá höfðatölu þá gekk þetta mót vægast sagt illa hjá okkar mönnum. Það er þó huggun harmi gegn að við fáum strákana okkar heim og getum knúsað þá. Fast. Og lengi.

Á sama tíma og öryrkjar og gamalmenni skrimta við fátæktarmörk og hjúkrunarheimili eru rekin með tugmilljóna tapi þá gengur alveg blússandi vel að selja hátt í 10% þjóðarinnar miða á tvenna tónleika með Justin Bieber – á uppsprengdu verði. Svipað hlutfall þjóðarinnar ætlar til Frakklands næsta sumar að horfa á fótboltastrákana okkar elta hverja tuðruna á fætur annarri undir styrkri stjórn Heimis og Lars. Bílasala hefur sjaldan verið meiri og fasteignir spretta upp eins og gorkúlur. Er eitthvað bogið við þetta? Nei alls ekki, höldum bara áfram að pína gamla fólkið – framtíð okkar veltur á því að gamla fólkið leggi allt sitt og meira til af mörkum til samfélagsins. Eins og það hefur jú gert alla tíð. Framtíð þessa lands er gamla fólkið. Virkjum gamla fólkið. Og ævisparnað þess.

Forsetaframbjóðendum fer nú ört fjölgandi og sýnist sitt hverjum. Enn sem komið er er Ástþór Magnússon fremstur í flokki en skammt á hæla hans koma Donald Trump og Hillary Clinton. Ég að misskilja? Aldrei.

Þættirnir Ófærð eru gríðarlega umtalaðir, enda horfa um tveir af hverjum þremur landsmönnum á þættina. Virtum leikhúsgagnrýnendum er farið að leiðast þófið og kófið nú þegar fjórir þættir af tíu eru búnir en því ber þó kannski að taka með fyrirvara í ljósi fjölda þeirra þátta og leikverka sem viðkomandi gagnrýnandi hefur rakkað niður í gegnum tíðina. Veit Jón Viðar hver er morðinginn? Nei.

Enn styttist í að þorrakúrinn hefjist. Bóndadagur markar upphaf Þorra, sá dagur er einmitt nú á föstudaginn. Hvernig er haldið upp á þann dag? Það er gert með því að snæða hákarl, hrútspunga, magál og hangikjet, svolgra í sig mysu og brennivín og yrkja bögur. Enn bagalegt. Svo styttist nú einnig í þorrablót Svarfdælinga sem fram fer á Rimum laugardagskvöldið 30. janúar. Hvað mun gerast þar? Enginn veit. Þó veit ég að starfsmaður vísnahorns bloggsíðu Einars Haf er að bauka eitthvað – og sá hefur nú nokkuð óhreint mjöl í sínu pokahorni. Úff.

Dagur bóndans dettur á
dylst það engum kjafti
rengi, magáll, rúgbrauð smá
rek ég við af krafti.

Þess má geta að engin ær reis upp meðan á gerð bloggfærslunnar stóð. Ef það er eitthvað sem ég er smeykur við þá er það uppreist ær.

Einar ær.

Tilvitnun dagsins:
Bogi róni: Ég er bara kenndur á yfirborðinu en undir niðri er ég blá edrú. Ég er nefnilega svo yfirborðskenndur.

One thought on “Orðin inn úr horninu”

  1. Ég er brjálaður við þig. Af hverju? Það veit ég ekki. Verð brjálaður út janúar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *