Nýárslegu lesendur.
Nýtt ár, nýjar væntingar, ný sýn, nýtt fólk, ný vonbrigði, ný hringrás, nýtt vín og gamlir belgir. Segir einn gamall belgur; Einar Haf. Hvenær skyldi maðurinn þroskast og hætta þessum barnaskap? Það er mjög góð spurning. Svarið fæst alveg örugglega ekki í þessari bloggfærslu, en við getum samt lifað í voninni.
Nú eru síðustu áramótabrennurnar kulnaðar, síðasti flugeldurinn sprunginn og síðasta jólasteikin snædd. Lífið er aftur komið í gömlu skorðurnar og ekkert framundan nema dimmblátt svartnættið, drungi og depurð. Eða hvað? Ekki endilega nei. Ljósið í myrkrinu er auðvitað að Alþingi hefur brátt göngu sína á ný eftir jólaleyfi og svo ætla strákarnir okkar að skora hverja stórþjóðina á hólm á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi nú um miðjan mánuðinn. Þar verður sko aldeilis skurk á skelinni.
Talandi um kulnaðar brennur, þrettándabrenna Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar fór að mestu friðsamlega fram við Tungurétt í Svarfaðardal að kveldi þrettánda dags jóla. Eignatjón varð nokkuð en það var viðbúið, enda erum við að tala um gömul áburðarbretti, eldfiman vökva og rokeldspýtur. Veður var með ágætum, bálkösturinn þurr á manninn og eldsneytið fljótandi í brúsum og tunnum þannig að ekki var að sökum að spyrja. Nokkurt fjölmenni mætti til að vera viðstatt herlegheitin sem og skothríð björgunarsveitarinnar á Dalvík þegar leikar stóðu sem hæst. Ekki var hægt að heyra annað en að samkoman þætti takast ágætlega, sjálfur var ég of upptekinn við að hella olíu á ófriðarbálið ásamt félögum mínum. Og ekki í fyrsta sinn.
Fyrirséð er að sviptingar verða á fjölmiðlamarkaði á árinu 2016. Hið svokallaða Netflix ryður sér nú til rúms þar sem notendum bjóðast fjölmargir þættir og afþreying á hlægilega lágu verði. Erfitt verður fyrir einkareknar hérlendar sjónvarpsstöðvar og bloggsíður að keppa við þetta. Dagar sjónvarpslausra fimmtudaga virðast svo óralangt í burtu nú þegar holskefla sjónvarpsþátta og kvikmynda eirir engum sem fyrir verður. Hvernig nokkur maður kemst til þess að horfa á alla þá þætti sem framleiddir eru, það veit ég ekki. Ég hef nóg með það eitt að komast gegnum þessa bloggfærslu.
Tilhleypingar þóttu takast ágætlega þessi jólin að sögn hins kindarlega Gandí Laufasonar talsmanns hrúta í fjárhúsunum á Urðum í samtali við heimildamann bloggsíðu Einars Haf. Nokkuð hafi gengið á þegar beiðsli náðu hámarki um og eftir aðfangadag jóla en það hafi ekki verið neitt sem vösk sveit hrúta réði ekki við. Eitthvað var um uppbeiðsli en tekið hefði verið á hverju tilfelli fyrir sig og það afgreitt samviskusamlega. Samtalið við Gandí varð frekar snubbótt enda var stutt í morgungjöf, hungrið farið að sverfa að og hann hafði þar af leiðandi allt á hornum sér. Engin smá horn það.
Talandi um að hafa allt á hornum sér; það er orðinn árlegur viðburður að allt verður vitlaust þegar listamannalaunum er úthlutað. Hneyksli vikunnar er einmitt þetta. Enn og aftur var Einar Hafliðason bloggsíðuritari hundsaður þegar listamannalaunum var úthlutað, einhverra hluta vegna. Næst þegar listamannalaunum verður úthlutað mun Einar sjálfur velja einhvern í úthlutunarnefndina – þá skulum við sjá hvað gerist.
Listamenn semja og skrifa
skálda og leita hughrifa
kröpp eru kjör
en svo verður fjör,
á einhverju verða að lifa.
Undirbúningur fyrir þorrablót Svardælinga á Rimum 30. janúar næstkomandi er hafinn. Ýmiskonar leynimakk og undirferli nefndarmanna og ábyrgðaraðila einkenna þann tíma sem nú fer í hönd. Mun Einar Haf eitthvað koma nálægt þessu? Ó nei, ekki segja það. Það er bara eitt sem ég hef um þetta að segja: múhahahahahaha.
Engar kvikmyndir voru teknar upp af auðmönnum í fangelsi meðan á gerð þessarar bloggfærslu stóð.
Einar lævi blandinn.
Tilvitnun dagsins:
Nurse #2: Mrs. Nordberg, I think we can save your husband’s arm. Where would you like it sent?
Gleðilegt nýtt ár. Hneisa með listamannalaunin.