Orðin með grímu, hanska, gleraugu, belti, axlabönd, brynju, svuntu og hjálm

Sárgrætilegu lesendur.

Velkomin á þennan upplýsingafund bloggsíðu Einars Haf. Ég heiti Einar og með mér í anda í dag eru þau Þórólfur og Alma. Það fékkst því miður enginn táknmálstúlkur til að túlka fyrir okkur að þessu sinni og ég veit ekki hvernig ég á að túlka það. Fyrst eru það tölur dagsins og að þessu sinni byrjum við á úrtölum, gjörið svo vel.

Sé ég tár á hvarmi? Já ekki bara eitt tár heldur heilt táraflóð sem streymir niður kinnarnar. Er það út af ástandinu i heiminum? Nei bara út af nýju bloggfærslunni hans Einars Haf. Ég held vart vatni yfir þessu. Volæðið nær nýjum hæðum og lægðum og ég vil alveg endilega draga ykkur lesendur niður á mitt plan og bjóða ykkur að engjast um í eymdinni með mér. Biden gegn Trump, nema bara á bloggformi. Aldnir hafa orðið…ennþá eldri.

Fiskidagurinn mikli, Gleðigangan, Reykjavíkurmaraþonið, Icelandic Airwaves, Menningarnótt í Reykjavík, Akureyrarvaka, 9 líf Bubba, Ólympíuleikarnir, gangnaballið, stóðréttarballið, kaffihlaðborð kvenfélagsins, hópknús, fyndnar bloggfærslur Einars Haf og Klaustursbarkvöld Miðflokksins. COVID-19 hefur þurrkað þetta allt saman út og mun meira til. Maður er ekki lengur manns gaman nema kannski af margra metra færi, vel sprittaður, með grímu og bak við glervegg. Mannamót eru í besta falli vafasöm og raunar stórhættuleg í meira lagi ef um er að ræða ótengda aðila. Jú það er kannski í lagi en bara svo lengi sem ekki eru teknar neinar myndir. Ferðamála- og nýsköpunarráðherra komst að því fullkeyptu í sumar þegar hún lét taka myndir af sér í þéttum hópi vinkvenna. Hún baðst afsökunar á því eftir á. Ekki á því að hafa verið of nálægt ótengdum og óskyldum aðilum heldur baðst hún afsökunar á því að það hefði verið tekin mynd og sett á samfélagsmiðla. Eðlilega. Engir atburðir eiga sér stað í raun og veru nema þeim séu gerð myndræn skil á samfélagsmiðlum. Þetta vitum við áhrifavaldarnir. Skömmu eftir vinkonuhitting ráðherrans var tveggja metra reglan færð niður í einn metra og hugtakið „tengdir aðilar“ gert enn loðnaðar og teygjanlegra. Einmitt það sem við þurftum alls ekki. Þegar værð færðist yfir mannskapinn og Þórólfur leyfði sér að glotta út í annað svo sást í hvítar veirufríar tennurnar fór allt til andskotans. Veiruskrattinn náði sér á strik, höfuðborgarsvæðið breyttist í rauðglóandi stórsýkt hættusvæði, Kári Stefánsson dró augað enn meira í pung en áður og Þorgerður Katrín fór í golf í Hveragerði, enda gilda almenn lög og tilmæli sóttvarnaryfirvalda ekki um alla svona almennt. Fuss og svei. Það eina sem við getum gert til að vinna bug á heimsfaraldrinum er að sýna samstöðu. Það gildir að vísu ekki um alla því þessi forgjöf lækkar sig jú ekki sjálf, burtséð frá því hvort það geysi einhver bévítans heimsfaraldur eða ekki.

Góðir landsmenn. Við erum öll á sama báti. Eða í sama báti. Eða kannski í sömu skútunni. Þjóðarskútunni. Skútunni sem siglir í covid-hafróti Atlantshafsins gegnum bárur, brim og voðasker. Skútunni þar sem seglum er yfirleitt hagað eftir vindi, að minnsta kosti þegar það hentar. Skútunni þar sem allar ferðir eru án fyrirheits. Farþegar á almennu farrými eru vel flestir orðnir sjóveikir og langþreyttir á veltingnum en nokkrir þeirra efnameiri voru séðir og komu sér frá borði með þyrlu fyrir nokkru síðan. Skipstjórinn sér lítið sem ekkert hvað er framundan enda bæði með grímu, skjöld og hlífðargleraugu auk þess sem að vera orðinn vel hífaður af öllu sprittinu. Allt mun þetta þó reddast, þó svo að skútan muni velkjast um stefnulaust úti á rúmsjó í marga mánuði í viðbót munum við ná til lands á endanum. Jafnvel þó hinn almenni farþegi hafi fyrir löngu lagt árar í bát….þetta er reyndar ekki árabátur svo það kemur ekki að sök. Einhverjir vilja meina að við séum alls ekki öll á sama báti eða í sömu skútunni heldur sigli sumir lygnan sjó á fyrsta farrými á skemmtiferðaskipi meðan aðrir berjast um í margra metra ölduhæð á þræla galeiðu úti á rúmsjó. Hvað sem því líður ætla ég að sigla minn sjó eftir sem áður, enda ekki kallaður Einar Haf út í bláinn.

Svokallaðir sófasérfræðingar hafa verið nokkuð áberandi í tengslum við fréttaumfjöllun undanfarið. Ég hefði einmitt þurft á góðum sófasérfræðingi að halda því sófinn hjá mér er farinn að gliðna í sundur og það þarf sérfræðing til að laga það. Annars er í þessu samhengi trúlega ekki átt við hina bókstaflegu sófasérfræðinga heldur frekar þá sem fylgjast með þjóðmálaumræðunni álengdar og vita allt betur en aðrir. Þessa dagana á þetta einna helst við um ráðstafanir í sóttvarnarmálum. Auðvitað átti ekki að gera þetta svona og hins veginn – það átti að gera þetta hins veginn og svo svona. Auðvitað átti ekki að herða, slaka, herða, slaka, herða, slaka og herða á sóttvarnaraðgerðum heldur átti að herða, herða, herða, herða, slaka, herða, slaka, herða, herða á sóttvarnaraðgerðum. Ég þykist nú vita að í þessu máli eins og fleirum gildi hið fornkveðna að auðveldara sé um að tala en í að komast. Hvað gerir svo sóttvarnarlæknir næst? Hverjir þurfa að loka og hverjir mega hafa opið? Hve lengi þarf að vera í sóttkví? Verður Íslandsmótið í knattspyrnu klárað á Dalvíkurvelli? Þessum spurningum og fleirum er afar erfitt að svara eins og sakir standa. Öllum má þó vera það ljóst að hér eftir sem hingað til mun sóttvarnarlæknir hafa alla þræði í hendi sér og mun hann koma til með að dæma lifendur og dauða. Hmm…nei ég meinti að hann mun koma til með að vera með sálarlíf heillar þjóðar í lúkunum eitthvað áfram.

Þríeykið svokallaða stendur í ströngu og skyldi engan undra að farið sé að gæta þreytumerkja í lund þess og fasi. Öll erum við mannleg og öll gerum við mistök. Víðir yfirlögregluþjónn gerði mistök þegar hann leyfði Eiríki frá Hamri landsliðseinvaldi og Frey Alexanderssyni aðstoðarþjálfara að horfa á leik Íslands og Belgíu úr vígbúnu glerbúri á Laugardalsvelli. Það voru líka mistök hjá Þorgrími Þráinssyni að knúsa strákana okkar eftir sigurinn á Rúmeníu, líkt og síðar kom í ljós. Það voru sennilega bara mistök að leyfa allt þetta tuðruspark yfirhöfuð því þó menn slyppu við Covid gætu þeir marist, tognað, brotnað eða hreinlega örkumlast á losaralegum Laugardalsvelli. Ekki er útlit fyrir neina íþróttaiðkun á næstunni meðan þriðja bylgja leiðinda og ömurlegheita gengur yfir landið og miðin. Ég stalst þó til þess áðan að tefla gegnum veraldarvefinn og biðst ég afsökunar á því.

Nú stendur til að herða mjög lög og reglur sem gilda um flugeldaskothríð kringum áramótin – enda ekkert vit í því að leyfa eitthvað sem gæti talist skemmtilegt á árinu 2020. Undir því yfirskyni að draga úr mengun er lagt til að aðeins megi selja flugelda milli klukkan 02:40 og 04:50 aðfaranótt 31. desember og að aðeins megi skjóta þeim upp meðan útvarpsstjóri segir „Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna“ um klukkan 00:02 á gamlárskvöld/nýársnótt. Gott og blessað…eða hvað? Hvað með fjárhag björgunarsveitanna sem við megum ekki vera án? Þarna tel ég að dómsmálaráðherra hafi ekki alveg hugsað málið til enda og sé í ákveðinni þversögn við sjálfa sig. Hvers vegna? Jú, á meðan hún leggur til að skerða aðgengi að flugeldum og skerða þannig fjárhag björgunarsveitanna er lagt til að auðvelda aðgang að áfengi sem aftur þýðir auknar tekjur í ríkissjóð. Ættu ekki þessar tvær meginstoðir skemmtanahalds um áramót; skoteldar og áfengi að sitja við sama borð? Er í lagi að selja áfengi í matvöruverslunum en ekki flugelda? Hver er munurinn? Rjómatertur eða skottertur – allt eru þetta tertur og tertur fást jú út í búð. Mun Björgunarsveitin á Dalvík selja Víking Gylltan í fjáröflunarskyni um áramótin? Þarna þurfa menn að hugsa málin til enda áður en allt fer úr böndunum.

Brátt mun batna ennþá frekar tíðin
bleikir verða akrar, fögur hlíðin.
Lokum okkur af og leysum vanda,
látum sprittið vinna á þessum fjanda.

Sameinuð við stöndum er á reynir
í stríðinu menn berjast ekki einir.
Hvenær má ég knúsa næsta mann?
Hvenær má ég rembingskyssa hann? 

Þess má til gamans geta að þessi bloggfærsla var tilnefnd til Grímuverðlauna en tapaði fyrir Grími Grímssyni.

Einar grímulaus.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GRÍMUR!!!

One thought on “Orðin með grímu, hanska, gleraugu, belti, axlabönd, brynju, svuntu og hjálm”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *