Birt í jólablaði DB-blaðsins 2025.
Ágætu lesendur.
Um jólin upp ég augun glenni
eigra um búðir, boga spenni.
Könnu set á stól
syng svo heims um ból,
bara ef ég nenni.
Já það er rétt – það er alveg sama hvaða jólablað í byggðarlaginu þið lesið, vonbrigðin eru ætíð hin sömu þegar kemur að þætti JólaEinars Haf. Haf-ið þið ekki áhyggjur af því, eða jú kannski.
Í hugum margra er það ómissandi liður í undirbúningi jólanna að hrista hausinn, ranghvolfa augunum, klappa saman lófunum, stappa niður fótunum, rugga sér í lendunum, snúa sér í hring og blöskrast yfir nýjustu vitleysunni frá JólaEinari Haf, sem hann ber á borð fyrir lesendur DB blaðsins. Svona hefur þetta verið lengi og trúlega mun þetta háttarlag Einars um síðir ganga að innlendri blaðaútgáfu endanlega dauðri. Sú þróun er löngu hafin. Ef það gerist verður engum blöðum að fletta, um það er engum blöðum að fletta.
Jólahefðir fólks eru margar og mismunandi. Sumum finnst gaman að baka kökur. Mér finnst gaman að borða kökur. Sumum finnst gaman að þrífa. Mér finnst gaman að standa fyrir þrifum. Sumum finnst gaman að horfa heilalaust á amerískar jólamyndir. Mér finnst gaman að sitja í andakt framan við sjónvarpið og bíða spenntur eins og músagildra eftir afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga á Alþingi. Það gerist yfirleitt svona korteri fyrir jól eða jafnvel bara um jólin, enginn veit. Þingmönnum er ekkert heilagt á aðventunni þegar kemur að tekjuöflun fyrir ríkissjóð og þetta er þar af leiðandi pínu eins og að horfa á spennutrylli sem þú veist ekki hvort muni setja þig á hausinn eða ekki. Nú um áramót munu allra handa gjöld hækka, mismikið. Má þar á meðal nefna áfengisgjöld, kílómetragjöld, þinggjöld, fargjöld, leigugjöld, veggjöld, sóknargjöld, bílastæðagjöld, veiðigjöld, töðugjöld og innflutningstolla en folatollar haldast að mestu óbreyttir. Fram hefur komið að æ sér gjöf til gjalda en hvers eiga lesendur að gjalda?
Það hefur verið í mörg horn að líta hjá jólasveinafylkingunni í þingstörfunum upp á síðkastið. Nýlegar umræður um samgönguáætlun gáfu góð fyrirheit um framhaldið. Vegaframkvæmdir í Svarfaðardals- og Skíðadalsbotnum eru sem fyrr áætlaðar frekar síðar en fyrr, en þó snemma í nálægri fjartíð. Kjetkrókur Ármannsson innviðaráðherra hefur látið hafa eftir sér að krókur sé mun betri en kelda og því verði byrjað að bora í Fljótunum um leið og hann verði búinn að lesa alla skýrsluna frá háskólanum um hagkvæmni gangnagerðar. Askasleikir Ingi Kristinsson menntamálaráðherra tjáði Skólameistarafélaginu að það væri ekkert víst að margir fengju endurráðningu, enda hefðu sumir skólameistaranna verið óþekkir samanber símtal Grýlu Sæland til eins þeirra út af týndum skóm barnabarns fyrr á árinu. Þá kvaðst Askasleikir ósammála þeirri fullyrðingu að bókvitið yrði ekki í askana látið. Það mætti vel prófa að láta bókvitið í askana, í sparnaðarskyni. Skyrjarmur Katrín Friðriksson matvælaráðherra tjáði blaðamönnum að þeir slettu skyrinu sem ættu það en lagði jafnframt til að umbylta landbúnaðarkerfinu. Efla þyrfti nýsköpun og jaðargreinar á borð við skelrækt þannig að nóg yrði til handa öllum þegar kæmi að því að lepja þyrfti dauðann úr skel í stórum stíl. Þvörusleikir Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur sleikt hverja þvöruna á fætur annarri á erlendri grundu og hyggst áfram gera víðreist og viðreisn á nýju ári, enda margborgi sig fyrir hagsmuni Íslendinga að sleikja upp þá sem öllu ráða úti í hinum stóra heimi. Leppalúði Davíð Gunnlaugsson er búinn að fá sig fullsaddan, eins og sést á honum. Hann hyggst rassskella alla jólasveinana í ríkisstjórninni fljótlega upp úr áramótum og jafnvel bróka þá líka, en sú áætlun er í daglegu tali nefnd Brókun 35.
Nú í aðdraganda jólanna hefur sannkallað og sannkristið kaupæði runnið á stóran hluta landsmanna, eina ferðina enn. Það er allt í lagi að leyfa sér þegar kemur að jólagjöfum, sérstaklega ef hin kristnu gildi eru höfð í hávegum. Það hef ég alltaf sagt, enda les maður þetta út úr jólaguðspjallinu. Barnið hjalar í jötunni á meðan vitfirringarnir þrír þræða allar búðir í Betlehem í leit að hinni fullkomnu gjöf. Langar barnið í gull, reykelsi eða mirru? Æi skítt með það, við kaupum bara allt heila klabbið og gefum því. Með samhentu og samkristnu átaki mun okkur takast að koma jólaversluninni aftur í hæstu Golgatahæðir – dýrð sé smávöruverslun og Guði í upphæðum. Já, engum smá upphæðum. Og hvaða gjafir á að færa barninu í jötunni í ár? Er-fræjer, snjallúr eða ísvél? Æi skítt með það, við kaupum bara allt heila klabbið og gefum því.
Jólaskammdegið, ah já. Þessi yndislegi tími drunga og svartnættis. Ótrúlega margir hafa gaman af nætursortanum og geta ekki hugsað sér að berja sólina augum eða líta bjartan dag á ný. Aðrir eiga erfitt með að lyfta höfði frá kodda og komast ekki undan sænginni, vegna skammdegisþreytu. Þreyta getur reyndar verið margskonar. Ein tegund þreytu er svokölluð klukkuþreyta, sem hefur einmitt gert vart við sig nú í svartasta skammdeginu. Svoleiðis þreyta á ekki bara við um þá sem eru orðnir þreyttir á klukkunni og endalausum umræðum um hana heldur líka þá sem telja að klukkan hér á landi sé kolvitlaus. Sérfræðingar segja að klukkan sjö á morgnana sé klukkan í raun hálf sex. Hádegismaturinn ætti ekki að vera fyrr en hálf tvö og svo er kaffitíminn mjög nálægt kvöldmatnum í raunveruleikanum. Svo veit ég ekki hvaða áhrif þetta hefur á klukkubúðirnar, sem eru að vísu alltaf opnar. Þreyta ungmenna á morgnana er rakin til þessarar svokölluðu klukkuvitleysu. Hún er ekki rakin til orkudrykkjaþambs, níkótínpúðainntöku, stanslauss sjónvarpsgláps, símaskrolls og snjalltækjaneyslu öll kvöld og fram á nætur. Nei alls ekki. Við kennum auðvitað klukkunni um þetta. Hún er vandamálið.
Nýverið var greint frá því að Íslendingar væru þyngstir allra Norðurlandaþjóða og stæðu mjög framarlega hvað varðar fitu í alþjóðlegum samanburði. Ég heyrði þessa frétt í útvarpinu aðeins óljóst, enda var ég akkúrat með eyrun full af mæjónesi á þeim tímapunkti.
Verða jólin rauð eða hvít, brún eða græn? Veðurspár eru ekki á einu máli um það. Hlákan undanfarið hefur farið afar illa í skíðamenn, enda er rosalega erfitt að renna sér yfir urð og grjót. Hugur minn er ekki aðeins hjá skíðamönnum heldur einnig þeim sem eiga enn frekari hagsmuna að gæta; snjókerlingum og snjókörlum. Úff.
Snjókarlinn Snæfinn ég sá
með skelfingarsvip svo mér brá.
Hlákan hún olli
að hann varð að polli
sem endaði loks út í á.
Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Einar Hafliðason.