Orðið fyrir hnjaski

Hæglátu lesendur.

Já það er ekki allt sem sýnist. Allt lítur út fyrir að vera slétt og fellt utanfrá séð en undir appelsínuhúðuðu yfirborðinu er klístur og slím hvar myrkur og drungi grúfir yfir öllu. Þarna er ég auðvitað að tala um yfirborðið á mér. Vá ekkert smá yfirborð. Húðin er stærsta líffærið, sérstaklega hjá mér.

Metan er einfaldasta samband kolefnis og vetnis sem til er. Metan er lyktarlaus gastegund og skaðlaus við innöndun. Hláturgas er hins vegar myndað úr einni súrefnisfrumeind og tveimur niturfrumeindum – og var upphaflega notað til svæfinga á sjúkrahúsum. Taugagas fer pínu í taugarnar á mér eins og ég mun nú lýsa í löngu máli. Æi Einar, viltu gjöra svo vel að hætta þessum gaslýsingum og halda áfram með bloggfærsluna. Úbbs, já fyrirgefðu – ég sé alveg gasalega mikið eftir þessu.

Nissan Kasskæ (næstum rétt skrifað) hefur nú í nokkur ár komið mér á milli staða með ágætum árangri. Úr góða heiminum í vonda heiminn. Úr debet og kredit í ær og kýr. Úr fásinni í fjölda. Úr öskunni í eldinn….og þannig mætti áfram telja. Nú, mætti áfram telja? Jæja þá held ég áfram. Úr einu í annað. Úr borg í bæ. Úr dimmu í dagsljós. Æi Einar, viltu gjöra svo vel að hætta þessum þraslýsingum og halda áfram með bloggfærsluna. Úbbs, já fyrirgefðu. Allavega, Qasskvæ (næstum rétt skrifað) gaf merki um stórfellda bilun með rauðu vélarljósi þegar ég var staddur á Árskógsströnd að reyna að koma mér í öndvegi íslenskra dala. Þetta þýddi að ég var nauðbeygður til að staðnæmast á Árskógsströnd – en þar stoppa fáir nema af illri nauðsyn.

Á heimstíminu hraðann jók
en hvumsa þá ég eftir tók
tómatrauðu ljósi.
Hvorki draumur eða djók
dæsti og fékk mér sopa af kók
þó öl ég frekar kjósi.

Þegar þarna var komið sögu sá ég fram á að við Ytri Vík þyrfti ég að dúsa þar til hjálp bærist. Þar hef ég ekki dvalið langdvölum síðan í grunnskólapartíi þegar við bekkjarsystkinin horfðum saman á hryllingsmyndina The Dentist 2 á VHS og mögnuðum upp sameiginlegan ótta við tannlækna. Þar sem ég lulla eftir veginum sé ég hins vegar BHS verkstæði blasa við í fjarska í vegkantinum – verkstæði sem hefur reyndar verið á sölu um langt skeið og þar af leiðandi ekkert sjálfgefið að verkstæðið stæði þarna ennþá. Hrósaði ég verulega miklu happi aldrei þessu vant, tók beygjuna inn á planið og drap samstundis á bílnum. Eftir að hafa opnað húddið og séð ekkert athugavert í fljótu bragði komst ég að þeirri niðurstöðu að ég veit ekkert um Qhasskæ (næstum rétt skrifað) bíla og gangverk þeirra, þar sem vélarljósið var rautt en vélin ekki rauð. Bíllinn er hins vegar rauður, það er að segja þegar Vegagerðin er ekki nýbúin að hefla mold inn á svokallaðan malarveg í Svarfaðardal sem síðan blotnar þannig að leðjan smyrst undir og utan á bílinn sem gefur skemmtilegan brúnleitan keim. Það er önnur saga og jafnvel enn átakanlegri. Casshqvæ (næstum rétt skrifað) er enn á BHS verkstæðinu þegar þetta er ritað en frumskoðun leiddi í ljós slitna viftureim og sár á sálinni. Hugsanlega mun rætast úr þessum vandræðum síðar meir en ég brá á það ráð í millitíðinni að fá bíl hjá Hákoni bloggaðdáanda á langtímaleigu – þannig að ég gæti haft mig heim í Svarfaðardal og skammast mín. Æi Einar, viltu gjöra svo vel að hætta þessum braslýsingum og halda áfram með bloggfærsluna. Úbbs, já fyrirgefðu.

Og þá að alþjóðamálum. Þar er nú aldeilis glatt á hjalla og kátt í hverjum bæ. Hagsæld og hamingja, leikur og gleði, þar sem fólk af ólíkum ætternum og uppruna, ólíkum kynjum, stöðu og stétt unir sér vel í sátt og samlyndi, friði og kærleika. Þetta hélt ég að minnsta kosti þar til ég fór að skoða fréttir og fann ekkert nema stríð, drónaskap, hungursneið, hatur, höft og sundrungu. Það gengur bara betur næst.

Ég skaust til Færeyja með Ungmennafélaginu Óþokka um daginn, til að spila fótbolta, skoða frystigeymslu og drekka Föroyja bjór. Allt gekk það eftir. Tilgangurinn var líka sá að draga með mér þokuna sem plagað hefur gangnamenn í Svarfaðardal – og það er hugsanlega mér að þakka að það var ekki þoka um seinni göngur, hún var í Færeyjum. Ég fór meiddur í ferðina og er ennþá meiddur eftir ferðina, eftir að hafa beyglað undir mig hnéð í fyrri göngum – og hafði ekki einu sinni kind upp úr krafsinu. Þar fór beyglað hné fyrir lítið. Lesendur hefðu mögulega óskað þess að ég hefði beyglað rithöndina í staðinn en því miður fyrir þá….Æi Einar, viltu gjöra svo vel að hætta þessum maslýsingum og halda áfram með bloggfærsluna. Úbbs, já fyrirgefðu.

Nú um helgina fara fram stóðréttir í Svarfaðardal. Já ég skil. Verður þetta eins og í fyrra þegar stóðið rétt stóð rétt inni í réttinni og stóð ekki á sama vegna þess hve lengi réttin stóð? Hmm já eitthvað svoleiðis. Annars er ég enginn hestamaður, ég er miklu meiri hrossakjötsmaður. Karlakór Dalvíkur ætlar einmitt að halda hrossakjötskvöld á Rimum eftir hálfan mánuð. Já ég skil. Verður þetta eins og í fyrra þegar stóðhesti var umbreytt í hrossakjöt og það stóð ekki á mannskapnum að borða hann og hesturinn stóð ekki í neinum? Af hverju þarf ég alltaf að tala um þetta í þátíð? Jú, það er miklu fyndnara. Allavega meðan á því stóð……stendur.

Sprettan í sumar hefur verið með eindæmum góð og hinir djörfustu bændur jafnvel náð að slá fjórum sinnum. Eru þetta verulegar andstæður við sumarið 2024 þegar heyfengur var bæði lítill og lélegur. Grasið kemur sér vel ef að bændur og búpeningur eiga að lifa af veturinn. Gras er auðvitað ekki það sama og gras, það er til háliðagras, vallarfoxgras, rýgresi og língresi en túnvingull vex villtur og ratar ekki heim. Æi Einar, viltu gjöra svo vel að hætta þessum graslýsingum og halda áfram með bloggfærsluna. Úbbs, já fyrirgefðu.

Ég segi "shit" með enskum hreim,
sem flestum þykir frekar leim.
Skyldi Kasskæ komast heim?
Kannski ef fæst ný viftureim.

Hér næst stóð til að fjalla um gjaldþrot Play, einokun Icelandair og sterka stöðu flugfélagsins SAS en þar sem ég verð örugglega beðinn um að hætta þessum SASlýsingum er best að sleppa þessari umfjöllun.

Einar stóð á ströndu og í réttum.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GAS GAS GAS LÝSING!

2 thoughts on “Orðið fyrir hnjaski”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *