Nokkuð góðu lesendur.
Hver er maðurinn? Maðurinn sem neitar að hætta? Maðurinn sem neitar að gefast upp? Maðurinn sem neitar að horfast í augu við sannleikann? Maðurinn sem neitar að gefa lesendum grið? Maðurinn sem neitar staðreyndum? Maðurinn sem neitar að skrifa skiljanleg inngangsorð þegar hann bloggar? Já, sá er maðurinn. Það hlaut að vera.
Bíddu, var þessi bloggsíða ekki löngu aflögð? Jú, sem betur fer og þó fyrr hefði verið. Raunar átti að senda bloggsíðuna í úreldingu og lóðbeint í spilliefnagáminn í Sorpu en þar var því miður neitað að taka við henni.
Hvað hefur annars gerst frá síðasta bloggi? Nánast ekkert. Jú kannski má nefna að ég tók þátt í pollamótinu á Akureyri með Óþokkum og þáði með þökkum en ekki í óþökk Birgis Össurar Óþokka. Það var þá þokkalegt. Ég var að miklu leyti ónotaður og ólofaður varamaður sem sagði ofnotaða og ofmetna brandara. Þó gerði ég ákveðna lukku á lokahófi Óþokka á því sviði sem mér gengur einna best á. Ekki knattspyrnusviðinu heldur á að-gera-sig-að-fífli-sviðinu. Og það á sviðinu. Já einmitt. Við Fíllinn frændi minn vorum með uppistand og upplestur eins og síðustu ár, en ekki er vitað til þess að áður hafi komið fram frændur í dýraríkinu þar sem annar er fíll og hinn asni. Efnistökin í mínu erindi voru fyrst og fremst eigin andleg vanlíðan sem brýst fram í aulabröndurum, kvalarfull sálræn togstreita smáhrifavalds og persónulegar hrakfarir í vinnu og einkalífi, sem létu viðstadda auðvitað veltast um af hlátri og það með réttu. Sem betur fer var búið að færa lokahófið í mun stærra húsnæði en síðustu ár, þannig að það var engin hætta á troðningi líkt og FM95BLÖ lentu í í Laugardalshöllinni þegar allir voru í spreng á sama tíma. Munið þið þegar Gillz var hálfber framan á símaskránni? Var hann þá ekki bláber eða krækiber? Það man ég ekki.
Hvað fleira hefur gerst frá síðasta bloggi? Sama og ekkert. Ég fór beint heim af pollamótsballinu, út í dráttarvél og hóf að slá rest af fyrri slætti en hætti fyrirslætti, enda ósofinn og viðskotaillur með eindæmum. Allt gekk þetta þó áður en næsta rigningarskúr kom en hennar var ekki langt að bíða. Það er búið að heyja rúmlega 250 rúllur, þrátt fyrir andleysi, kjarkleysi og þurrkleysi. Þá er búið að slá kirkjugarðinn á Urðum tæplega tuttugu og sjö sinnum, enda sprettutíð verið sérdeilis góð og þá sérstaklega á vígðum blettum. Líkt og oft áður í heyskap á Urðum eru flest heyvinntæki biluð og úr sér gengin en ganga samt, stundum á lyginni. Pöttinger sláttuvélinni féll allur ketill í eld, enda komin með nóg af hæðum, hólum, lægðum og lautum á flestum túnum á landareigninni. Jón Dýri dráttarvél er aldrei í fullkomnu lagi, ekki nú frekar en endranær. Að þessu sinni eru það leki og olíusmit en einnig hefur örlað á ofhitnun glussa og surgi í útvarpstæki. Massey Ferguson 5445 er alltaf biluð, bara mismikið biluð. Aðvörunarljós logar í mælaborði, vélin kemst ekki í lágadrifið og handbremsan er beinstífari en þingmenn Viðreisnar þegar þeir hugsa um ESB. Það eru til fleiri Massey Ferguson vélar á bænum en þær eru auðvitað ekki í toppstandi. Vandamálin eru af ýmsum toga; óþéttar pakningar, glussaleki, bilaðar lyftur, útafeyddir rafgeymar og almennt annarlegt andlegt ástand. Hvort takist að ljúka heyskap verður bara að koma í ljós en það veltur á gamansemi veðurguðanna og góðmennsku Sölva Hreiðarsstaða og Kjartans Hofs.
Hefur eitthvað fleira gerst frá síðasta bloggi? Hér um bil ekkert. Jú það er reyndar búið að drena kringum hluta íbúðarhússins þökk sé Magnúsi Hrafnsstaða. Gripið var til þessara ráðstafana í kjölfar stóra lekamálsins sem kom upp í kjallaranum í fyrra og hitteðfyrra. Það er líka ólíðandi með öllu að Strumpasafnið, barbídúkkurnar, heilu árgangarnir af Húsfreyjunni og önnur ómetanleg menningarverðmæti í kjallaranum eigi á hættu að fara á flot í hvert sinn sem það kemur mígandi rigning ofan á frosna jörð.
Það hefur sem sagt ekkert merkilegt gerst frá síðasta bloggi? Eiginlega ekkert. Jú kannski það að ég reyndi að koma Nissan Qashqai árg. 2016 með óþéttu hurðagúmmíi, beinni innspýtingu og drullugum undirvagni gegnum skoðun en mistókst hraparlega í fyrstu tilraun. Skoðunarmaðurinn var ekki ánægður með aðalljós bílsins og þrátt fyrir að mér hafi mislíkað skoðun skoðunarmannsins á hann auðvitað rétt á sinni skoðun. Í ljós kom að ljósin lýstu ekki beint fram á veginn heldur á ská og stillibúnaðurinn virkaði ekki. Að endingu kostaði þetta nokkra daga á verkstæði, nýtt aðalljós og aðra heimsókn í bifreiðaskoðunina. Jújú, ég hugleiddi alveg að skipta um skoðun en nei – ég gerði það ekki.
Bílljós sem ávallt lýsa vildu mér
þau loga enn.
Í gegnum þokufeld og fuglager,
sem gargar senn.
Hjá Frumherja fer í gegnum stórar dyr
og reyni að fá skoðun eins og fyrr.
Nú er ein stærsta ferðahelgi ársins, verslunarmannahelgin, liðin hjá og horfin í óminnishaf tímans. Um verslunarmannahelgina gera verslunarmenn og aðdáendur þeirra sér glaðan dag, enda hefur verslun hérlendis gengið með miklum ágætum síðustu misseri. Afar vel hefur gengið að velta öllum kostnaðarhækkunum og launahækkunum beint út í verðlagið og alltaf borgar almenningur brúsann með bros á vör. Vonandi náum við að halda áfram á sömu braut. Þessir peningar eyða sér ekki sjálfir.
Sjálfur sótti ég útihátíðina Halló Steindyr í Svarfaðardal og hafði gaman af líkt og fyrri daginn. Hvaða fyrri dagur var það? Sennilega miðvikudagur. Um helgina fór ég einnig í fertugsafmæli þeirra Aspar og Þorbjargar ásamt fjölmörgum öðrum menningarvitum og fólki sem státar af andlegu ríkidæmi. Ólíkt þeirri andlegu sandauðn sem þessi bloggsíða býður upp á. Þá rak niður fjóra girðingarstaura, sló kirkjulóðina, týndi ber og efaðist um sjálfan mig. Sem sagt, mjög hefðbundin verslunarmannahelgi.
Hefur þá örugglega ekkert meira gerst frá síðustu bloggfærslu? Um það bil ekkert. Jú ég er búinn að stemma af nokkra bókhaldsliði og stramma af nokkra hjöruliði. Ég reyndi síðan að hemja ungnaut í fjárhúshólfinu en þegar ég í ógáti sagði nautinu að ég væri ekki alveg hættur að blogga tók það á rás, hoppaði yfir girðinguna, hoppaði fram af túnbakkanum og tók á rás fram Svarfaðardal. Eftir að hafa farið þrjá kílómetra á innan við tíu mínútum snéri nautið við við samkomuhúsið Höfða, enda enn langt í gangnaball, hélt í suður og straujaði svo yfir á og yfir í Búrfell. Þar mætti Guðrún bóndi og tók nautið hreðjartaki og hélt því þar til við Kalli á Hóli mættum með múl og góða skapið. Vissulega er þessi frásögn ögn stytt en alls ekkert ýkt. Nautið hefur ekki fengið útivistarleyfi síðan þetta var en ef þetta skyldi gerast aftur er ljóst að nautaveiðar verða gefnar frjálsar.
Fjölmargt annað spennandi hefur ekki gerst síðan síðasta bloggfærsla fór í loftið en nánar verður fjallað um það í næstu bloggfærslu, sem er væntanleg um miðjan nóvember.
Einar verslingur.
Tilvitnun:
Allir: VEERRSSSLLLAAAA!!!!