Orðin blótandi

Súru lesendur.

Þar sem undirritaður er enn að ná áttum að loknu þorrablóti verður ekkert vitrænt fært fram í þessari bloggfærslu. Hér koma hins vegar nokkrir kaflar úr hinum svarfdælska þorrablótsannál sem fluttur var á þorrablótinu á Rimum laugardagskvöldið 1. febrúar 2025. Fyrst er þar að nefna ævintýri sem því miður komst ekki að öllu leyti fyrir á myndbandsupptöku sem gerð var af annálsflutningnum og er sýnileg á youtube.

Ævintýrið um Brekkubónda, Bakkabræður og hrútinn í sauðagærunni.

Á bæ þeim er Brekka heitir í Svarfaðardal bjó bóndi einn fyrir löngu. Hann var frægur að endemum fyrir ýmislegt, þar á meðal fyrir smölun. Þegar saga þessi gerist var áliðið hausts og plastbíllinn rétt ókominn. Höfðu ýmsir villuráfandi sauðir enn ekki skilað sér heim af fjalli. Þar á meðal var sauður Jóns Garðarssonar sem saknað var frá Hrafnsstöðum. Átti sauðurinn að vera sauðmeinlaus, gæfur og innundir sig, ekki ósvipað fólkinu á Hrafnsstöðum. Maður kallaður Hrappur…og það með réttu, taldi sig hafa séð sauðinn spígsporandi ofan fjallgirðingar. Hann þyrfti að handsama hið snarasta, þar sem búið væri að selja kjötið af honum fyrirfram beint frá býli fyrir stórfé. Það er að segja sauðinn, ekki Hrappinn. Fregnaði bóndinn í Brekku af þessu og þar sem hann mátti ekkert aumt sjá, allra síst sauðfé utandyra í vondu veðri, rauk hann þegar af stað ásamt liði sínu og fann grip sem hann var fullviss um að væri sauðurinn sauðmeinlausi við skógreitinn ofan við bæinn Tjörn. Hinn meinti sauður brást hinn versti við ónæðinu og rauk í smalana frá Brekku en varð þó að láta í minni pokann.

Þótti Brekkubóndanum og fylgdarliði hans sem sauðurinn væri heldur hrútslegur, pungsíður, augsýnilega spólgraður og alls ekki sauðmeinlaus, hvað þá gæfur. Ræddu smalarnir um þetta sín á milli en komust þó ekki að afgerandi niðurstöðu. Keyrðu þeir því rakleiðis með hinn meinta sauð í Hrafnsstaði þar sem til stóð að Hrappurinn myndi sjá fyrir honum, því fyrr því betra. Hrappurinn og menn hans tóku á móti hinum meinta sauð. Þar á meðal voru frægir Svarfdælskir bræður. Tóku þeir eftir sömu smáatriðum og Brekkubóndinn, enda af sama sauðahúsi;

Gísli, Eiríkur, Helgi, sauðurinn er með horn eins og hrútur.

Gísli, Eiríkur, Helgi, sauðurinn er með risastóran pung eins og hrútur.

Gísli, Eiríkur, Helgi, sauðurinn er spólandi graður eins og hrútur.

Svona ræddu þeir sín á milli drykklanga stund. Allir voru þeir sammála um að þessi sauður væri ekki sauður heldur hrútur og það meira að segja frekar ljótur hrútur.  Loks tók Gísli, Eiríkur, Magnús Helgi Jónsson Garðarsson á Hrafnsstöðum af skarið og sagði;

Gísli, Eiríkur, Helgi, Hrappurinn kallar kútinn. Sauðinn – ekki hrútinn!

Þurfti þá ekki að ræða það frekar, hrúturinn var ekki hrútur heldur sauður.

Hrappurinn og menn hans höfðu vissulega hugleitt að gá í eyru sauðsins til að skoða mark og merki. Það væri þó þeirra skoðun að það skánaði ekkert skrokkurinn við að gá að númerinu í hausnum.

Gísli, Eiríkur, Helgi, sauðurinn lætur svo illa að við skulum slátra honum fyrst og skoða svo merkið.

Þessu samsinntu allir viðstaddir. Allir voru sammála um að sauðurinn myndi veita minni mótspyrnu eftir að hann væri dauður.

Þegar sauðnum hafði verið veitt náðarhöggið var komið að því að gá að númerinu. Sá sem var hugaðastur bræðranna gáði.

Gísli, Eiríkur, Helgi. 45E09, er það sami bær og 33E10? 

Rann nú upp fyrir Gísla, Eiríki, Helga og öðrum viðstöddum að fórnarlambið var alls ekki sauður Jóns Garðars. heldur kynbótahrútur Hjörleifs í Laugasteini.

Hafði Brekkubóndinn gómað hrút Hjörleifs nánast á hlaðinu í Laugasteini og keyrt með hann í opinn dauðann á Hrafnsstöðum.

Hvorki Gísli, Eiríkur né Helgi, hvað þá Hrappurinn, þorðu að hringja í Hjörleif til að tilkynna honum þetta ótímabæra andlát kynbótahrútsins. Því varð úr að Berglind á Hrafnsstöðum hringdi í Kristján á Tjörn, notaði sína alþekktu kvenlegu blíðu og auðmýkt og færði honum dánartilkynninguna, sem hann gæti svo áframflutt Hjörleifi bróður sínum.

Stór orð voru látin falla í þessu símtali á kjarnyrtri íslensku en til að særa ekki blygðunarkennd blótsgesta verða þau ekki höfð eftir hér. Það sama má segja um viðbrögð Hjörleifs, sem hefur ekki farið eins hátt upp á háa C síðan hann söng síðast með Tjarnarkvartettinum. Eftir að hafa sökkt sér ofan í Brennu-Njálssögu voru mannvíg honum ofarlega í huga á þessum tímapunkti. Fór Hjörleifur fram á fimmföld manngjöld fyrir hrútinn og að auki krafðist hann þess að fá annan hrút í stað þess sem veginn var.

Gísli, Eiríkur, Helgi, ekki er kyn þó keraldið leki – hrúturinn er suður í Borgarfirði.

Fóru þeir bræður því þangað, á ræktunarbúið Hest, keyptu dýrasta lambhrútinn sem fyrirfannst og færðu Hjörleifi. Er um að ræða einn dýrasta og mesta kynbótagrip sem sést hefur í Svarfaðardal nokkru sinni. Sauður Jóns Garðars. er ófundinn enn og ekkert er vitað hvar hann er niður kominn. Það er ótrúleg tilviljun að um svipað leyti og þessir atburðir gerðust héldu starfsmenn Dalvíkurbyggðar mikla veislu í Árskógi þar sem boðið var upp á dýrindis sauðakjöt í svartri sósu. Hins vegar er sauðahangikjötið sem snætt er úr Hrafnsstaðatroginu í kvöld með sterku hrútabragði.

Gísli, Eiríkur, Helgi, það er allt í lagi. Bölvaður Hrappurinn étur allt og hrútakjötið líka!

_ _ _ _ _

Í annálnum var einnig minnst á heyskap og hrakfarir honum tengdum.

Heyskapur gekk afleitlega. Í byrjun september, þegar plastbíllinn var væntanlegur, hömuðust Svarfdælingar við heyskap. Einar á Urðum sá fram á mikinn þurrk, rauk því af stað og eyddi hálfum degi í að slá túnbleðil sem var óvenju lítið grýttur miðað við Urðatún, aðeins um 40% stórgrýti. Slátturinn  gekk nokkuð vel en að honum loknum var meðalvindur úr suðvestri kominn vel yfir 40 metra á sekúndu og heyið löngu horfið. Ysta hringinn á túninu þurfti Einar að slá með rúðuþurrkurnar í botni til að sjá út, enda fauk heyið út í buskann jafn óðum og það kom undan ljánum. Það litla hey sem ekki fauk út í móa skrælnaði á nærstöddum girðingarstaurum. Þar sparaði Urðabúið mörg þúsund krónur sem annars hefðu farið í að borga K20 ehf. fyrir rúllubinding.

Á himni sólin skín
og sunnangolan hvín
tætir hann traktorinn
um túnið með ljáinn sinn
á meðan heyið fýkur burt.

Enn bætir bylinn í
er blika goluský
Einar þó áfram slær
í angistarkasti hlær
á meðan heyið fýkur burt.

Kveða vindarnir vögguljóð og feigðarspá
Veðurstofan sýndi storm í kortasjá
en aulinn engan gaum því gaf,
grautarhausinn Einar Haf
og heyforðinn fauk allur eitthvað burt.

Fokið í flestöll skjól
fauk hey um dal og hól
tvístruðust tuggurnar
tárvotur Einar var
á meðan heyið fauk allt burt
á meðan heyið fauk allt burt

_ _ _ _ _

Það var líka minnst á ár kvenna.

Trausti og Ása á Hofsá leiddu síðustu þorrablótsnefnd. Trausti hefur löngum þótt hallur undir kvenfólk og haft mikinn áhuga á því. Þetta eru engar fréttir. Í aðdraganda síðasta blóts lagði Trausti á það mikla áherslu að fylla Rima af barbídúkkum og skreyta húsið bleikt hátt og lágt, svo mjög að jafnvel Ásu blöskraði og kallar hún nú ekki allt ömmu sína í þessum efnum.

Sumir finna barnið í sjálfum sér en þarna fann Trausti konuna í sjálfum sér – og hefur ekki litið til baka síðan. Á meðan stórbændur í dalnum skipulögðu tækjaskoðunarferð til Danmerkur skellti Trausti sér frekar með kvenfélaginu Tilraun í hjálpartækjaskoðunarferð til Tékklands.

Það býðst til Prag að fara
og fyrr það mátti vera,
nú fylkja konur liði
um fríhöfnina þvera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í hönd
með húrrahróp og skálum
karlar vilja koma með
í kossaflens og mikið tjútt
það einn fær hann Trausti krútt...

En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.
En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.

Ýmsir sussa og sveia
og skilja ekki kvennanna hlið
þá heyrist Trausti segja
þetta kemur karlapungum ekkert við.

En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.
En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.

Áfram stelpur, stöndum saman
staupum okkur, höfum gaman
kveðum niður karlaveldið hér.
Kvenfélagið Tilraun tætir
Tékkana í sig og mætir
fer um búðir eins og flugnager.
Trausti er svakalega sætur
stæltur og vaxinn eins og gnýr
notum hann eins og burðardýr.

En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.

_ _ _ _ _

Svo var líka minnst á eitt og annað….

Þór á Bakka kom kátur heim eftir síðasta blót, enda fannst honum hann hafa sloppið ótrúlega billega frá annálnum og mun minna grín var gert að honum en efni stóðu til. Á hlaðinu steig Þór villtan gleðidans en mundi þá allt í einu eftir svellinu sem hann stóð á. Hann mundi líka eftir því að hann væri kominn nokkuð vel við skál. Hann mundi eftir því að hann væri árinu eldri en í fyrra og hefði þar af leiðandi átt að drekka einum bjór færra en í fyrra. Þá mundi hann ennfremur eftir því að hafa nýlega stórslasast á gönguskíðum. Þetta allt og meira til gat Þór rifjað upp meðan hann sveif láréttur í loftinu og snérist eins og þyrla – en eftir að hafa lent flatur á svellinu mundi hann ekki meira. Kristín fór inn á undan bónda sínum og beið léttklædd eftir honum í rúminu en þegar ekkert bólaði á honum fór hún að gá út á hlað. Fann hún hann þar, reifaðan og liggjandi í götu. Henni fannst ekkert athugavert við að sjá Þór liggjandi á hlaðinu, hann væri sennilega að dytta að púströrinu á heimilisbílnum, þessi elska. Þór er enn að jafna sig á byltunni en púströrið á heimilisbílnum hefur sjaldan verið betra.

Veiðifélag Svarfaðardalsár var á sínum tíma flestum gleymt. Sárafáir sóttu aðalfundi félagsins, sem voru yfirleitt haldnir árlega á tveggja ára fresti. Í dag er staðan allt önnur. Árið 2024 var áhuginn slíkur að haldnir voru tveir aðalfundir sama kvöldið. Þetta var í lok maí, rétt áður en plastbíllinn átti að koma. Aldrei hafa jafn margir sótt fundi veiðifélagsins og umrætt kvöld. Að vísu voru það ekki umræður um veiðar og afla sem drógu fólk að, enda gafst enginn tími til að ræða slík smáatriði. Fundargestir mættu á Rima til að fylgjast með framfylgni við fundarsköp og til að sjá hver stjórnarmanna myndi reiðast fyrstur, verða vitlaus og hlaupa út. Stjórn veiðifélagsins vildi í ljósi atburða ársins á undan hafa vaðið fyrir neðan sig. Mönnum þótti ljóst að illir andar hefðu hreiðrað um sig innan félagsins og til að kveða þá niður var ákveðið að fá særingamann á fundinn. Þegar enginn slíkur fannst var í staðinn ákveðið að fá sæðingamann á fundinn. Tilvalið þótti að fá Rabba sem fundarstjóra enda með sköp á heilanum, bæði fundarsköp og kýrsköp.

Óþarfi er að hafa mörg orð um það hér hvernig tíðarfarið var síðasta sumar, enda er sannleikurinn stundum lygilegri en skáldskapur. Vegna alls þess sem á undan hafði gengið varðandi síðbúið vor, ótíð, ónýt tún, langdreginn heyskap og uppskerubrest vissi enginn hvenær göngur og réttir ættu að fara fram.  Árni Siggi fjallskilastjóri og fjallskilanefnd vissu það ekki, Gunnar í Göngustaðakoti formaður dreifbýlisráðs vissi það ekki, bændur vissu það ekki og kindurnar vissu það ekki. Sveitarstjórn vissi það ekki og fannst því gáfulegt að spyrja Árskógsströndunga hvenær þeir ætluðu í göngur. Svör þeirra voru teygjanleg og loðin – eins og þeir sjálfir. Dreifbýlisráð tók loks af skarið og ályktaði að göngur í Svarfaðardal skyldu hugsanlega gengnar aðra helgi í september ef bændur vildu en það gæti líka gengið að ganga einhverja aðra helgi í september. Þá yrðu seinni göngur örugglega seinni. Í kjölfarið hófu menn að klóra sér í höfðinu yfir dagatalinu og rífast um hvaða helgi teldist vera önnur helgi í september og hvaða helgi teldist einhver allt önnur helgi í september. Símtæki Árna Sigga fjallskilastjóra var rauðglóandi eins og hann sjálfur í margar vikur, þar sem bændur og búalið hringdu án afláts og færðu rök fyrir því með og á móti að færa göngurnar eða færa þær ekki. Nokkuð bar á svonefndu Ragnars Reykás heilkenni í símtölum við fjallskilastjóra þar sem sumir sem hringdu voru komnir í hrópandi mótsögn við sjálfa sig jafnharðan og vildu jafnvel í sama símtalinu færa göngurnar og færa þær ekki.

Mikill uppgangur var í svarfdælskri sauðfjárrækt á árinu. Á Tjörn töldu Jón Bjarki og Björk skynsamlegast að saga gat á gamla mykjuhúsið og breyta því í fjárhús. Munu þetta vera fyrstu fjárhúsin í dalnum þar sem kindurnar eru hafðar í mykjuhúsinu en mykjan geymd á hæðinni fyrir ofan. Þegar mykjuhúsið verður orðið fullt af kindum sjá Jón Bjarki og Björk fyrir sér að nýta plássið undir kirkjugólfi Tjarnarkirkju til að hýsa sauðfé. Þannig yrði einnig úr sögunni hið þráláta vandamál varðandi það hvernig best sé að kynda kirkjuna.

Jón Bjarki og Björk töldu skynsamlegt að tæma mykjuhúsið áður en gat var gert á það. Í Brekku var þessu öfugt farið. Gurra fannst skynsamlegt að gera gat á gamla mykjuhúsið meðan það var enn fullt af skít, enda eygði hann von um að selja rándýra lífræna mykju í Syðra-Holt. Skemmst er frá því að segja að Gurri fékk lífrænu mykjuspýjuna beint í fangið, rann í hægðum sínum og hægðum búpeningsins niður undir reiðveg og endaði brúnflekkóttur og flæktur í túngirðingunni. Skriðþungi mykjunnar sannfærði ábúendur í Brekku endanlega um að færa þyrfti heimreiðina út í Brekkukot og tengja nýrri heimreið þar, þar sem koma mætti upp hringtorgi og mislægum gatnamótum. Sveitarfélagið hafnaði alfarið að taka þátt í kostnaði við nýja heimreið, þar sem ábúendur hefðu getað sagt sér það sjálfir að til að búa í Brekku þyrfti bæði að keyra upp brekku og niður brekku.

Doddi og Ella á Jarðbrú ákváðu öfugt við marga aðra að draga saman seglin í sauðfjárræktinni. Hefur Doddi haft allt á hornum sér síðan. Þegar hann beið eftir plastbílnum sá hann kindur við húshornið hjá sér. Við það snöggreiddist hann, hringdi í Hrísa Gvend og hellti sér yfir hann svo um munaði. Hrísa Gvendur kom aldrei þessu vant ekki upp orði en eftir um það bil tíu mínútna samfelldan reiðilestur fattaði Doddi að hann hafði ætlað að hringja í Gurra í Brekku en ekki Hrísa Gvend. Bað Doddi þá Hrísa Gvend um að skila þessari kveðju sinni orðrétt til Gurra og skellti á.

Það hefur verið vitað lengi að á Sökku væri afburðagott sauðfé, að minnsta kosti var það álit Þóru og Sveins – sem selja kynbótagripi beint frá býli. Gæði Sökkufjárins voru gerð sveitungum ljós haustið 2024 þegar Sökkubúið skilaði í fyrsta sinn opinberri afurðaskýrslu fyrir sauðfé. Þar kom meðal annars fram kjötmat þeirra Þóru og Sveins. Aldrei hafa sést viðlíka tölur í Svarfaðardal fyrir lögun; 9,5 fyrir bakvöðva og 21 fyrir læri. Meira að segja drekalömbin á Búrfelli litu út eins og kettlingar í samanburðinum. Til að bregðast við þessari óvæntu samkeppni afréðu þau Guðrún og Gunnar að kaupa hrút af Sökkubúinu á fengitímanum, fyrir morðfjár. Eftir skamma dvöl á Búrfelli þótti þeim vera orðið ljóst að hrúturinn frá Sökku myndi ekki koma til með að kynbæta Búrfellsstofninn nema síður væri. Eftir mikið og ákaft þukl töldu þau að læraeinkunn hrútsins væri að minnsta kosti tvöfalt of há. Þegar þetta var borið undir Þóru taldi hún að hugsanlega hafi hún fyrir mistök þuklað Svein en ekki hrútinn og þar af leiðandi gefið einkunn í samræmi við það.  

_ _ _ _ _

…og að lokum.

Dularfullir atburðir áttu sér stað í fjósinu á Ytra Hvarfi að loknu síðasta blóti. Á öryggismyndavél sáust nokkrir skuggalegir menn brjóta sér leið inn í fjósið. Þar ráfuðu þeir um allt, opnuðu hlið, létu mjaltaþjóninn reyna að mjólka sig og drukku loks mjólkina frá smákálfunum.

Eftir blótið finnum fjör
og förum ekk‘að hátta
við getum djammað duglega
og djúsað fram til átta.
drykkjusvall er strembið starf
við staulumst heim í Ytra Hvarf
já lygilegt var þetta þorrablótsgeim
en nú þorum við ekki að fara heim.

Við læðumst hægt um lítið fjós
og leggjumst þar í jötu
draugfullir og drafandi
við drekkum mjólk úr fötu.
Við bullum smá í beljunum
og bjórinn gefum kálfunum
já lygilegt var þetta þorrablótsgeim,
en nú þorum við ekki að fara heim.

Við munum hvorki stað né stund
er stíft við drekkum bjórinn
ef partýið í pásu fer
þá pissum við í flórinn
við drekkum oss til óbóta
og ælum ögn á róbóta
að morgni þá enginn neitt veit eða man
hvorki Hlini né Styrmir né Einar Dan.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GAAAMMMAAANNN!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *