Orð á tungunni

Góðir Íslendingar.

Í tilefni dags íslenskrar tungu nú um helgina er ekki úr vegi að tala tungum tveim og hver er betur til þess fallinn en sá tungulipri froðusnakkur Einar Haf? Jú ég veit reyndar um mjög marga sem væru mun betur til þess fallnir en Einar Haf en því miður er bara ekkert annað í boði hér á bloggsíðu Einars Haf. Svekkjandi, já vissulega en samt ekkert sem ætti að skjóta lesendum skelk í bringu.

Kosningabarátta stendur nú sem hæst fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember næstkomandi. Hvert þó í logandi. Um það bil tíu flokkar bjóða fram og því ljóst að einhverjir munu bera sigur úr býtum á meðan aðrir munu fara halloka. Stjórnmálafræðingar eru ekki á einu máli um útkomuna en það er ekki bara óvissa í könnunum. Það er líka vatn í könnunum, best að fá sér sopa. Ah, þetta var nú gott. Í kosningabaráttunni er bæði rætt um málefni en einnig persónuleg hneykslismál og eldgamla skandala sem nú eru dregnir fram í dagsljósið. Talandi um það. Eða skrifandi. Undirritaður hóf bloggskrif á blogcentral vefsíðu á því herrans ári 2006. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og mikið hland hefur runnið gegnum klóakrörin á sama tíma. Ólíkt sumum öðrum hef ég ekkert þroskast í bloggskrifum mínum á tæpum tveimur áratugum. Ég er enn þann dag í dag harður talsmaður feðraveldisins, uppfullur af karlrembu, hroka og minnimáttarkennd með það sérstaka áhugamál að níða skóinn af minnipokamönnum og minnihlutahópum. Svona hófst fyrsta bloggfærslan árið 2006:

Þrátt fyrir gífurlegan fjölda áskorana, faxbréfa og flöskuskeyta hef ég nú nýskráð þessa skemmtilegu bloggsíðu. Hér verður bryddað upp á hinum ýmsu nýjungum, svo sem bráðfyndnum þýðingum á rúnaletri, brotum af því besta úr sígildum íslenskum bókmenntaþrekvirkjum, eins og símaskránni og svo auðvitað persónulegt skítkast og móðursýki út í menn og málefni líðandi stundar. Það er svo annað mál hvort einhver nennir að lesa slíkt, en það verður bara að koma í ljós.

Vá, þetta er jafnvel verra en mig minnti. Jæja, gott að allir séu búnir að gleyma þessu. Hörmungar líðandi stundar eru alveg nógu slæmar þó það þurfi ekki að bæta gömlu hörmungunum við.

Eins og einhverja gæti rekið minni til átti ég sæti í síðustu þorrablótsnefnd. Sæti sæti. Nokkuð hafði dregist að umrædd nefnd myndi hittast og ljúka störfum sínum með formlegum hætti. Blótið fór fram í byrjun febrúar en nefndin hittist loks á lokafundi nú í nóvember. Sumir elska góðan drátt en það er önnur saga. Mér er hér um bil aldrei boðið í mat af augljósum ástæðum en þarna var loks komið að því, pítsur, kex, ostar og allskonar gúmmelaði sem beið á fundinum. Daginn fyrir fund var ég einu sinni sem oftar að vandræðast, að þessu sinni með glussatengi sem ég þurfti að skipta um á Ferguson dráttarvélinni. Á tenginu var plasttappi og í hugsunarleysi stakk ég honum upp í mig meðan ég hélt á slöngu fullri af glussa í hinni hendinni. Ekki vildi betur til en svo að þegar ég beit í plasttappann losnaði framtönn í efri gómi og veltist hún nú um uppi í trantinum á mér eins og brjóstsykur. Umrædd tönn brotnaði fyrir margt löngu, einhvern tímann á regnvotum uppstigningardegi í lok tuttugustu aldar í glímu minni við smákálf. Sá stökk upp undir hökuna á mér þannig að höggið braut báðar framtennur í efri gómi. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið en stundum launar kálfurinn með ofbeldi, það er önnur saga. Nú var ég sem sagt á leið í matarboð með lausa framtönn, í viðbót við lausa skrúfu. Lokafundur þorrablótsnefndar gekk ágætlega. Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé barnalegri en gengur og gerist en ég kom með fullan poka af barbídúkkum á fundinn til að leika með (leifar frá síðasta þorrablóti), tók svo út úr mér tönnina og byrjaði að borða eins og ekkert væri sjálfsagðara. Af tönninni er það að segja að hún var límd upp í mig á ný morguninn eftir og hef ég getað tuggið sömu tugguna án vandkvæða síðan.

Ætla ég mér að skrifa á jólakort í ár? Já það var nú planið en hins vegar gera yfirvöld sitt allra besta til að koma í veg fyrir það. Nýjasta útspilið var að loka pósthúsinu á Dalvík og koma fyrir einhverju nýmóðins póstboxi sem maður kemur engu tauti við. Ber póstboxið póstinn út? Ég efast um það. Póstburður er raunar afar íþyngjandi fyrir Póstinn og því hefur stórlega verið dregið úr honum og eflaust mun sú þróun halda áfram. Þetta dregur þó ekki úr mér kjarkinn, ég skal finna einhver ráð til að koma annarlegum og vafasömum boðskap mínum á framfæri við vini og vandamenn, dulbúinn sem jóla- og nýárskveðja.

Er hægt að snúa úr úr nöfnum allra þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram á landsvísu? Ég er ekki viss. Sjálfhælisflokkurinn, Samhyglingin, Vinstri alveg grænir, Framógnarflokkurinn, Viðrekst, Pífretar, Sósulistaflokkurinn, Flokkur fokksins, Smiðflokkurinn og Lýðhæðisflokkurinn. Nei það er líklega ekki hægt, þið afsakið það.

Sjálfur átti ég sæti sem varamaður í kjörstjórn Dalvíkurbyggðar og hefði því með réttu átt að vinna á kjörstað í Dalvíkurskóla 30. nóvember næstkomandi. Áður en Bjarni Ben. boðaði til kosninga hafði ég hins vegar skráð mig á jólahlaðborð þennan sama laugardag. Þegar ég bar saman kjörseðilinn annars vegar og matseðilinn hins vegar komst ég að þeirri niðurstöðu að halda mig við jólahlaðborðið en láta kosningarnar afskiptalausar, enda lítið bitastætt á kjörseðlinum samanborið við matseðilinn. Þessi matgræðgi mín varð til þess að kjósa þurfti nýja kjörstjórn í Dalvíkurbyggð. Ég veit ekki alveg hvernig mér á að líða með þessi tíðindi, enda er ég með öllu óvanur því að losna úr embætti sem ég á annað borð læt plata mig til að taka að mér. Kannski er þetta það sem koma skal, hver veit. Hvað er svo eiginlega á matseðli jólahlaðborðsins? Skelk í kjúklingabringu, snúið roð í hund og fiskur í skötulíki. Nei bíddu, þetta var það sem var í boði á kjörseðlinum. Æi skiptir ekki máli.

Kennarar eru nú í verkfalli. Það er að segja sumir, ekki allir. Formaður kennarasambandsins segir að ekki sé verið að mismuna öllum börnum, bara sumum. Hið opinbera er ekki til í að borga öllum milljón á mánuði, bara sumum. Já ég skil. Vilja ekki allir leysa þessa kjaradeilu og aflýsa verkfalli? Ekki allir, bara sumir. Læknar, sumir en ekki allir, ætla sér líka í verkfall og þá fyrst er nú hægt að fara að biðja Guð að hjálpa sér. Allavega ættu sumir að gera það, kannski ekki allir.

Jónas Hallgrímsson bjó til fjöldann allan af nýyrðum á sinni tíð og hafa mörg orða hans lifað góðu lífi allar götur síðan. Þar á meðal má nefna orð eins og kosningaloforð, kosningaskjálfti, uppbótarþingmaður, jöfnunarsæti, hræðsluáróður, fagurgali og flottræfilsháttur en orðið flokkræfilsháttur er því miður ekki til í orðabókinni enn sem komið er.

Framboðnir lestrinum ljúka
í loforðaflaumnum er kátt.
Sumir í kjörklefa kúka
ef kjósanda brók er í brátt.

Verndum tunguna, pössum tennurnar og lyftum andanum.

Einar ullandi með íslenskri tungu.

Tilvitnun dagsins:

Allir: TUUUUNNNNGGGGAAAAAA.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *