Orðin miklu miklu meira eftirá en síðast og þar síðast og jafnvel þar áður

Langþráðu lesendur.

Lok. Sins. Endur. Koma.

Já þessi taumlausi gleðskapur heldur nú loks áfram eftir aðeins nokkurra mánaða hlé, án þess að nokkuð fáist við ráðið og hugsanlega eins og ekkert hafi í skorist. Bloggarinn og blóðfitukeppurinn Einar Haf er búinn að hrista upp í spikinu, lesendum, sjálfum sér og kokteilnum og bíður þess nú að geta þambað af stút í þessu bráðfjöruga eins manns partýi sínu. Enginn vandi að detta í það enda keppast nú smásalar við að þverbrjóta áfengislöggjöfina og auðvelda aðgang almennings að áfengi með alls kyns klækjabrögðum og útúrsnúningum. Hagkaup breytist í Þvagkaup, Nettó í Gettó og Krónan í Rónann. Full. Langt gengið. Svo er kannski ráð að fá sér eins og eitt rauðvínsglas líka til að skola niður óbragðinu sem ég er með í munninum. Hvaða þrúgur er verið að drekka? Djöfulinn kemur þér það við! Já ég skil, þrúgur reiðinnar. Eins og venjulega.

Einhverjir gætu hafa tekið eftir því en ég hef verið orðlaus nú í margar vikur og mánuði og ekki komið upp svo miklu sem einu bloggi. Hvað skýrir þessa æpandi þögn? Gúrkutíð? Tímaskortur? Ritstífla? Týnt lykilorð inná bloggsíðuna? Hægðateppa? Stjórnarslit? Skortur á listamannalaunum? Já samblanda af öllum þessum atriðum en auk þess hef ég hreinlega verið kjaftstopp alveg síðan Halla forseti keypti sér nýjan rafmagnsbíl og lét taka af sér mynd. Er það kannski það merkilegasta sem hefur gerst frá síðustu bloggfærslu?

Júlí

Glænýr forseti vor lenti milli tannanna á fólki í kjölfar þess að hafa keypt sér rafmagns Volvo. Vá, það er svakalegt. Það var ekki bara kosið taktískt í forsetakosningunum, það var líka keypt taktískt. Byrjað að halla undan fæti strax Halla? Einar hættu þessu. Mynd af þáverandi verðandi forsetahjónum framan við nýja Volvo rafmagnsbílinn var umsvifalaust sett á netið í auglýsingaskyni og það látið fylgja með að bíllinn hafi fengist á góðum afslætti. Forstjóri bílasölunnar tók það að vísu fram að þessi góði afsláttur stæði öllum til boða sem væru með fullar lúkur fjár og því væri alls ekkert óeðlilegt þarna á ferðinni. Gengur ekki illa að keyra bílinn þegar maður er með fullar lúkur fjár? Veit ekki. Það er svo algjör tilviljun og ótengt bílakaupunum að þessi sami forstjóri bílasölunnar var á gestalistanum þegar nýr forseti tók við embættinu skömmu síðar. Spillingin getur greinilega komið aftan að manni hljóðlaust og straujað yfir mann, svona eins og rafmagns Volvo. Halla undir flatt? Já takk. Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég bauð bílasalanum hjá Bílalífi að birta mynd af mér opinberlega þegar ég keypti af honum Nissan Quashqai árg. 2016 þarna um árið – en hann hafnaði því.

Um svipað leyti og þessir atburðir gerðust horfði ég á í andakt þegar ólympíuleikarnir voru settir í París í Frakklandi. Hvert voru þeir settir? Allavega ekki til hliðar. Engu var til sparað, íburður gríðarlegur, öryggisgæsla sú mesta sem sést hefur og allt gert til að fanga hinn sanna ólympíuanda í eitt skipti fyrir öll. Það munaði ekki um það. Keppnin fór vel fram í flestum greinum nema þríþraut sem var þrautin þyngri, enda var varla hægt að synda í Signu nema í kafarabúningi og með þvottaklemmu á nefinu sökum mengunar. Íslensku keppendurnir stóðu sig afar vel miðað við höfðatölu. Sem fyrr voru það óheppni, dagsform, taugaspenna og smæð lands vors sem komu í veg fyrir framúrskarandi árangur. Mun ganga betur næst? Ég veit það ekki. Ætli muni ekki ganga svona lala, enda verða næstu ólympíuleikar í LA.

Af tíðarfari í mánuðinum er það helst að segja að það var rysjótt. Það sama má reyndar segja um tíðahvörfin. Heyskapur gekk afar hægt, ef hann þá gekk yfir höfuð. Ef það var þurrt í einn dag var kvittað fyrir það daginn eftir með rigningu og þannig liðu vikurnar ein af annarri. Eðlilega var veðurfræðingum kennt um ástandið, því ef þú hefur engan til að skjóta þá skýtur þú auðvitað sendiboðann.

Teigaráin var kúkabrún á litinn og þar af leiðandi veiddust engar bleikjur í Svarfaðardalsá neðan Teigarár, bara brúnkur.

Nokkurrar ólgu, hugsanlega bólgu, gætti á stjórnarheimilinu og ljóst að verulega grunnt væri orðið á því góða milli ráðherra vegna ágreinings í fjölda mála. Nokkrir ráðherrar hringdu í ríkislögreglustjóra; alls ekki til að beita hann þrýstingi í málefnum hælisleitenda heldur bara til að vita hvernig hann hefði það.

Blindrafélagið, Landssamtök Þroskahjálpar og Pietasamtökin hringdu öll og þökkuðu mér af heilum hug fyrir veitta styrki gegnum tíðina…og báðu jafnframt um meira enda væri hart í ári og peningar af skornum skammti. Ég játti því en benti jafnframt á að það væri meira í lífinu heldur en peningar og skellti á.

Einar Haf ætlaði að blogga í lok þessa mánaðar en skriplaði á skötu og því fór sem fór.

Ágúst

Enn á ný gaus kröftuglega í námunda við Grindavík. Líkt og í fyrri gosum var heppnin með okkur að mestu leyti og hin bullsjóðandi og bráðdrepandi kvika kom upp utangarðs en ekki innan. Ég er samt pínu hræddur um að næsta gos muni fara bæði fyrir ofan varnargarð og neðan en tíminn einn getur leitt það í ljós.

Nýr forseti var settur inn……í embætti. Húrra húrra húrra húrra. Nokkrir fóru á Húrra og héldu upp á þetta. Nokkurrar sundurþykkju gætti í stjórnarráðinu, enda límið farið úr ríkisstjórninni og herinn orðinn höfuðlaus. Kata Jak fór á atvinnuleysisbætur. Hún á ekki rafmagns Volvo.

Verslunarmannahelgin fór afar vel fram og reyndar framhjá mér, enda of upptekinn við að ljúka fyrri slætti. Þetta er nú bara fyrirsláttur. Jæja já. Sem fyrr var þjórhátíð í Eyjum vinsælust en fast á hæla hennar komu Ein með velgju á Akureyri og Halló Steindyr í Svarfaðardal. Mannfall var óverulegt en eignatjón allnokkuð eins og við mátti búast.

Af tíðarfari í mánuðinum er það helst að segja að það var rysjótt eins og í júlí. Það sama má reyndar segja um tíðahvörfin eins og í júlí. Heyskapur gekk afar hægt, ef hann þá gekk yfir höfuð…eins og í júlí. Ef það var þurrt í einn dag var kvittað fyrir það daginn eftir með rigningu og þannig liðu vikurnar ein af annarri eins og í júlí. Eðlilega var veðurfræðingum kennt um ástandið eins og í júlí og voru margir slegnir. Sérstaklega í miðbæ Reykjavíkur um helgar.

Teigaráin var ekki bara kúkabrún heldur hljóp hún líka í kekki og rann út úr sínum venjulega farvegi. Grímur gröfumaður bjargaði því.

Kýrin Salóme gleymdi því um stund að hún væri kýr og tróð sér inn í hænsnakofann. Ein hæna dó úr hræðslu og eggjaframleiðsla á Urðum dróst tímabundið saman. Enn þann dag í dag ná eggjabændur ekki að framleiða nóg af eggjum fyrir innlendan markað.

Ákveðið var að fresta göngum og hafa fyrri göngur þegar seinni göngur áttu að vera en seinni göngur enn seinna. Sumir töldu að göngurnar ættu að vera fyrr en síðar, aðrir vildu hafa þær síðar en það var ekki fyrr en síðar sem það var ákveðið að hafa þær síðar.

Krabbameinsfélagið, Bergið og SÁÁ hringdu öll og þökkuðu mér af heilum hug fyrir veitta styrki gegnum tíðina…og báðu jafnframt um meira enda væri hart í ári og peningar af skornum skammti. Ég játti því en benti jafnframt á að það væri meira í lífinu heldur en peningar og skellti á.

Einar Haf ætlaði að blogga í þessum mánuði en kembdi ekki hærurnar og því fór sem fór.

September

Göngur og réttir fóru fram um miðjan september. Til stóð að gangnamenn fengju far upp á fjallatoppa með þyrlu Árna Helgasonar en þegar göngurnar loks brustu á var snjólínan komin langleiðina niður að girðingu, þyrluflugið úr sögunni og flestar kindurnar komnar heim – enda var þeim ekki sagt frá því að göngunum hefði verið frestað um viku. Landabandið spilaði á gangnaballinu á Höfða, hvar posi var nú í fyrsta sinn notaður við miðasölu. Hvað næst spyrja einhverjir, gervigreind? Að morgni föstudags um gangnahelgina ákvað lögreglan á Norðurlandi eystra að ekki væri nóg að Sissi og Bergur væru dyraverðir eins og síðustu áratugi og því var Einar Haf munstraður sem dyravörður nr. 3 þrátt fyrir flekkótt mannorð. Hvernig stóð ég mig svo sem dyravörður? Mjög vel, dyrunum var ekki stolið og það var nú fyrir öllu.

Það voru líka seinni göngur og seinni sláttur sem mátti ekki vera mikið seinni en slapp til. Undirritaður sló eitt lítið og krúttlegt tún að morgni dags en fyrir hádegi gerði suðvestan storm þannig að allt lauslegt fauk, þar á meðal heyið af túninu. Þarna spöruðust nokkrir þúsundkallar í rúllubinding og vesen. Stórt tré ofan við íbúðarhúsið á Urðum brotnaði í látunum en svo bregðast krosstré sem önnur.

Líkt og í öðrum mánuðum hríðaði í fjöll í þessum mánuði og raunar gott betur en það. Almennt var tíðarfar rysjótt en tíðahvörf voru hverfandi. Kartöfluuppskera var rýr og kom þar enn og aftur í ljós að þú uppskerð alls ekki alltaf eins og þú sáir. Hver sáði? Nú auðvitað Adam.

Teigaráin var kúkabrún lengi vel en upplitaðist þegar á leið. Áfram hélt þó að molna undan jöklinum á Teigardalnum, alveg eins og molnaði undan ríkisstjórninni.

Stígamót, ADHD samtökin og félag áhugafólks um símasölu hringdu öll og þökkuðu mér af heilum hug fyrir veitta styrki gegnum tíðina…og báðu jafnframt um meira enda væri hart í ári og peningar af skornum skammti. Ég játti því en benti jafnframt á að það væri meira í lífinu heldur en peningar og skellti á.

Einar Haf ætlaði að blogga í þessum mánuði en rasaði um ráð fram og því fór sem fór.

Október

Vinstri grænir fengu grænar bólur af ríkisstjórnarsamstarfinu en voru samt alveg til í að vera með fram á sumar. Bjarni Ben. beið ekki boðanna og sprengdi stjórnina strax, einn og óstuddur. Kosningar voru boðaðar í lok nóvember samkvæmt kosningalögunum og um sama leyti yrðu jólalögin tekin fyrir, samkvæmt jólalögunum.

Þónokkuð margir flokkar ætla sér að bjóða fram, sumir bjóða fram aftur og aðrir bjóða aftur fram. Hvað snýr fram og hvað snýr aftur? Man það ekki. Nokkrir umkomulausir og jafnvel erindislausir þingmenn hafa gengið kaupum og sölum nú í aðdraganda kosninga. Hvað kostar einn svona slarkfær þingmaður með miðlungs hugsjónir og stefnumál í dag? Trúlega alveg milljón með uppreikningi. Dýrt spaug það. Græningjar voru það grænir að halda að þeir gætu fengið ókeypis þingmenn til að manna framboðslista en þegar það dæmi gekk ekki upp hættu þeir við framboð.

Nýverið fór ég í sólarhrings reisu til Reykjavíkur, gisti á Hótel Bjössa og fór í Þjóðleikhúsið í fyrsta sinn, svo eitthvað sé nefnt. Þar sáum við Bjössi leikverkið Eltum veðrið. Þar er á ferðinni melódramatískt íslenskt raunsæislágmenningarleikhús eins og það gerist best, sem hentar mér ágætlega verandi unnandi lágmenningar. Varla þarf að skoða þessa bloggsíðu lengi til að sannfærast um það. Sýningin er uppfull af kúkabröndurum og neðanbeltisgríni og auðvitað er það partur af gríninu að ríkissjóður standi straum af slíku. Eftir leikhúsið löbbuðum við aðeins í miðbænum og börðum þar margt fólk……..augum. Næsta sýning sem ég ætla að sjá mun vera í smíðum þessa dagana og er þar einnig á ferðinni lágmenning sem skrapar svo sannarlega botninn. Vinnuheiti sýningarinnar er „Draumur á kosninganótt“ og mun hún skarta mörgum helstu atvinnupólitíkusum landsins auk minni spámanna. Ekki er búið að ráða í öll aðalhlutverk en Dagur B. Eggertsson verður í aukahlutverki, svo mikið er víst.

Teigaráin er orðin blá, alveg eins og það sem drukkið er í Teignum um göngurnar.

Hrekkjavakan hefur heldur betur hafið innreið sína í íslenska dægurmenningu. Þá klæða börnin sig í skondin og skelfileg dulargervi, dulbúast jafnvel sem vampírur, banka upp á hjá fólki og betla sælgæti ellegar hræða líftóruna úr viðkomandi. Hmm nei bíddu, kannski er ég að ruglast á hrekkjavökunni og meðmælasöfnun fyrir alþingiskosningarnar. Þá klæða frambjóðendur sig í skondin og skelfileg dulargervi, dulbúast jafnvel sem hugsjónafólk, banka upp á hjá fólki og betla meðmæli ellegar hræða líftóruna úr viðkomandi.

Almennt var tíðarfar rysjótt í mánuðinum, tíðaverkir tíðir og auðvitað hefur snjóað ofan í kaupið.

Samhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar og Kvennaathvarfið hringdu öll og þökkuðu mér af heilum hug fyrir veitta styrki gegnum tíðina…og báðu jafnframt um meira enda væri hart í ári og peningar af skornum skammti. Ég samþykkti að styrkja öll samtökin og meira til og í beinu framhaldi sótti ég um styrki til þessara sömu hjálparsamtaka, enda peningar mínir orðnir af skornum skammti vegna hárra greiðslna til hjálparsamtaka.

Einar Haf ætlaði að blogga í mánuðinum. Gekk það eftir? Ég veit það ekki, þið verðið bara að skoða bloggsíðuna til að komast að því.

Í skammdegi svörtu ég kýs
skandall ef eldfjallið gýs,
verður það vandamál nýs
valdaflokks? Holdið brátt rís.

Vá, þvílík lágmenning. Jæja það var ekki við öðru að búast.

Einar endurvakinn og hrekkjavakinn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HRÆÆÆÐÐÐIIIILLLEEEGGGTTT…….

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *