Góðir Íslendingar.
Hæ hó og jibbí jei, það er kominn 17. júlí. Í tilefni þess að nú eru áttatíu ár og einn mánuður liðin frá stofnun lýðveldisins Íslands er við hæfi að forneskjulegasta bloggsíða lýðveldissögunnar láti á sér kræla, fjallkallinn Einar Haf íklæðist skautbúningi og skrúfi frá fagurgalanum og hátíðarhjalinu sem nóg er til af á lager. Er hægt að virkja þennan fagurgala? Nei hann er friðaður, alveg eins og meiriparturinn af landi míns föður þó það sé laugað bláum straumi.
Bíddu nú við, var ekki haldið upp á þjóðhátíðina 17. júní ? Jú en það voraði bara svo seint í Svarfaðardal þetta vorið að ég er mörgum vikum á eftir – og var ef til vill ekki á það bætandi.
Góðir landsmenn. Þau áttatíu ár og eini mánuður sem liðin eru frá lýðveldisstofnun hafa svo sannarlega ekki verið dans á rósum og oftar en ekki hafið þið landsmenn góðir þurft að súpa seyðið af því. Þú segir ekki. Þó ég komi af fjöllum sem fjallkall þá veit ég þá staðreynd manna best að hér hafa allra handa hörmungar, hrun, óveður, mannskaðar, áhrifavaldar, plágur, aflabrestir, hallæri, verðbólgur, grátur og gnístran tanna dunið yfir og valdið árlegum búsifjum. Þá er nú gott að berja fjallkallinn……augum, hlýða á fagurgalann og hátíðarhjalið og fyllast bjartsýni og stolti.
Það hefur ýmislegt breyst á áttatíu árum og einum mánuði. Þjóðfélagsgildin hafa breyst. Ferðamannafjöldinn hefur breyst. Tölvutæknin hefur breyst. Samgöngur hafa breyst. Veðurfarið hefur breyst. Heimsmyndin hefur breyst. Já já, bla, bla, þetta vita nú allir. Væri ekki fljótlegra að telja upp það sem hefur ekki breyst? Upptalningablæti bloggarans Einars Haf hefur ekki breyst, óblíð náttúruöflin hafa ekki breyst og þá hefur ósnortin náttúra ekki breyst og er ég ósnortinn vegna þessa. Óttaleg froða er þetta, ef ég væri þið þá myndi ég nú bara gelda…….varhug við því sem fjallkallinn heldur fram. Best að drepa….þessu á dreif og fjalla um eitthvað annað.
Pollamótið á Akureyri stóð svo sannarlega undir nafni þetta árið, enda pollar úti um allt vegna sudda og rigningar. Ingó Veðurguð, Páll Óskar og Blaz Rocca skemmtu gestum eins og árið væri 2008, ég skoraði með vippu eins og árið væri 2004 og síðan fór ég með gamanmál á lokahófi Umf. Óþokka eins og árið væri 1987. Gamalt grín er líka grín og þar af leiðandi sé ég ekki eftir neinu.
Heyskapur í Svarfaðardal er nokkru seinna á ferðinni en oft áður en þó alls ekkert út úr korti. Altjón og kaltjón á túnum hefur valdið verulegum skaða hjá mörgum og uppskera rýr sökum þessa. Ég er ekki hlessa. Nýræktir og rennisléttir blettir áttu að koma grænir undan snjó en komu annað hvort gulir, gráir, hvítir eða alls ekki undan snjó. Flestir hinna dauðu bletta hafa verið plægðir og ísáðir á ný utan fótboltavöll Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar við Rima. Sá blettur er jafn steindauður og líflaus og hann var fyrir mánuði síðan en þó hefur þar verið leikin knattspyrna af miklum móð eins og ekkert væri sjálfsagðara. Vallarvörður (sem er varla vörður) segir að hér sé um nýstárlega tilraun að ræða með svokallað hybrid gras, þ.e. gras sem er alvöru gras en samt gervigras. Á Urðum hefur ekki þurft að plægja eða ísá þar sem tún hafa komið tiltölulega vel undan svellavetrinum mikla. Brattar og hallandi grjóturðir kalla ekki allt ömmu sína og kala síður en flatar nýræktir og þess vegna er það svo þetta árið að ósléttustu og grýttustu túnin eru jafnframt bestu túnin. Öðruvísi mér áður brá.
Talandi um halla. Halla Tómasdóttir var í síðasta mánuði kjörin forseti Íslands. Næsta verk þingmanna verður að húrrahrópa fyrir nýkjörnum forseta í Alþingishúsinu við hátíðlega athöfn og þá verður nú glatt á halla….hjalla.
Við þinglok voru gerðar fjölmargar lagabreytingar og þá þurfti líka að laga breytingar sem gerðar höfðu verið á áður löguðum lögum og breyta þeim. Hver var fenginn til að laga breytingarnar? Veit ekki.
Tuðrusparkarar og íþróttabullur hafa nú lagt undir sig Ríkisútvarpið og riðlað allri dagskrá vegna eigin hagsmuna. Evrópumótið í fótbolta er nýafstaðið en þar var það helst riðlakeppnin sem náði að riðla keppninni og riðla dagskránni. Ólympíuleikarnir í París eru svo handan við hornið og þá er nú einnig heldur betur von á riðlun – sérstaklega í rómverskri glímu. Ákveðið var að í sumar skyldi Ríkisútvarpið bara segja gamlar fréttir og því hafa sjöfréttir breyst í níufréttir en samt eru þar sagðar fréttir sem voru nýjar klukkan sjö. Ertu að tala um nýju fréttirnar? Nei, níufréttirnar. Já einmitt.
Á Ólympíuleikunum munu Íslendingar taka þátt í nokkrum keppnisgreinum og mun að líkindum nást góður árangur sökum hagstæðrar höfðatölu. Að afstöðnum ólympíuleikunum fer svo fram ólympíumót fatlaðra venju samkvæmt og þar má einnig gera ráð fyrir góðum árangri Íslendinga. Í því samhengi eru sérstaklega nefndar íþróttagreinar á borð við hnútukast siðblindra, 400 metra gönuhlaup og 50 kílómetra göngu með frjálsri aðferð – en Íslendingar hafa þróað ákveðinn stíl í þeirri grein sem gengur út á að draga lappirnar en halda samt jöfnum hraða út í gegn.
Kallinn var kenndur við fjall
og kveðskapur þar upp úr vall.
Ég víst stefn'á verðlaunapall
og vonandi uppsker þá skjall.
Þetta var ekki nógu gott en bíðið bara – lengi getur vont versnað.
Einar varla fjallkall.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Hættu með þessar tilvitnanir!!!