Orðin upp frá dauðum

Lesendur?

Nei varla. Það skiptir samt engu máli. Það sem mestu máli skiptir er endurkoma Einars Haf inn á ritvöllinn, óforskammaðri, óhamingjusamari og illa innrættari en nokkru sinni fyrr. Hvers eiga lesendur að gjalda? Gott þú spurðir. 5.990 kr. plús vsk. og seðilgjald. Ef einhver sofnar leggst gistináttaskattur ofan á.

Síðan ég bloggaði síðast hefur eitt og annað fréttnæmt átt sér stað. Til að mynda hélt ég eitt stykki tvenna karlakórstónleika í Dalvíkurkirkju. Allt í lagi – ég hélt ekki tónleikana en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Það fór þó aldrei svo að fólk þyrfti að borga fyrir að heyra mig syngja. Ekki mig beint en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Já þú varst búinn að segja það. Var ég búinn að því? Ekki ég beint en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Æi þetta þýðir ekkert, næsta mál takk.

Lögmálið um framboð og eftirspurn gildir á mörgum sviðum en það gildir hins vegar ekki um bloggsíðu Einars Haf. Það gildir heldur alls ekki þegar horft er til forsetakosninganna, sem fyrirhugaðar eru 1. júní næstkomandi. Offramboð er af frambjóðendum, sem hafa aldrei verið fleiri en því miður fyrir þá verða þeir ekki allir kosnir því ekki verður á allt kosið og ekki verða allir kosnir. Hver mun enda sem forseti? Bíðið aðeins meðan ég hlunka mér á for-setuna og hugsa málið.

Katrín hefur úti klær
og klókar Höllur báðar tvær
kjósendurna góma.
Steinunn Ólína er fær
og innilega Jón Gnarr hlær
Baldur borðar rjóma.

Viktor eða Ásdís Rán
og enginn getur verið án
Eiríks, hvað þá Helgu.
Arnars þokki þykir lán
Ástþór flaggar friðarfán
a - en ég fæ velgju.

Já ég veit, þetta var kannski ekki alveg nógu gott. Sem er einmitt nýtt slagorð bloggsíðu Einars Haf.

Ef mig vantar segla á ísskápinn, fer ég þá í Seglagerðina? Bara pæling.

Sjálfur er ég varamaður í kjörstjórn Dalvíkurbyggðar en ég veit ekki hve lengi það mun vara. Nú eru teikn á lofti um að ég muni koma inn af varamannabekknum og taka sæti sem aðalmaður fyrir forsetakosningarnar – það er að segja svo lengi sem landskjörstjórn og yfirkjörstjórn lesa ekki þessa bloggsíðu og kippa mér úr umferð á grundvelli almannahagsmuna. Hvað felst svo í því að vera aðalmaður í kjörstjórn? Það er nú ýmislegt. Til dæmis fæ ég að taka út kjörklefana. Af hverju ætti samt að taka út kjörklefana þegar það er nýbúið að setja þá upp, inni? Ruglingslegt. Þá er einsýnt að ég fái að njóta umtalsverðra matar- og kaffiveitinga á kostnað útsvarsgreiðenda en að mínu mati er þeim peningum vel varið. Ofan í kaupið fæ ég að geifla mig og gretta framan í kjósendur þegar þeir mæta á kjörstað, sem er engin kjörstaða fyrir kjósendur. Hugsanlegt er talið að utankjörfundaratkvæðum fjölgi verulega þegar þetta spyrst út.

Það kemur fyrir stöku sinnum að ég er beðinn um að koma fram og fara með fleipur, undir því yfirskyni að um gamanmál sé að ræða. Varla þarf að taka það fram að í þau fáu skipti sem nærveru minnar er óskað sem skemmtikrafts er það iðulega í gegnum frændhygli og klíkuskap. Eitt þessara skipta var nú nýverið þegar Kristján föðurbróðir minn bað mig um að koma á Lionsfund og fara með gamanmál. Ég samþykkti það auðvitað, enda var það tekið skýrt fram að það væru veitingar á fundinum. Að kveldi fundardags var ég auðvitað með allt lóðbeint niður um mig, sveittur, vansvefta og ekki búinn að klára að skrifa það sem ég ætlaði að segja. Það gekk þó ekki að mæta alltof seint því þá myndi ég missa af því að fá að trana mér fram. Ég hljóp því út í bíl, sem stóð í halla aldrei þessu vant og opnaði bílstjórahurðina annars hugar. Ekki vildi betur til en svo að hurðin opnaðist beint á kjaftinn á mér, þökk sé afstöðu bílsins, þannig að skarð kom við annað munnvikið og blóðbragðið lék um tunguna. Auk þess bólgnaði efri vörin hægra megin samstundis, þannig að engu líkara var en ég hefði verið byrjaður að fá mér fylliefni í vör samkvæmt forskrift Ásdísar Ránar – en snúist hugur og hætt við á miðri leið. Þarna varð ég fyrsti maðurinn sem vitað er til að hafi lent í árekstri við eigið ökutæki, án þess að ökutækið væri í gangi og án þess að nokkur væri um borð í ökutækinu. Varla þarf að taka það fram að ég þurfti ekki að segja neitt á Lions fundinum, fundargestir skelltu upp úr við það eitt að sjá mig.

Svarfdælska vorið er í kaldara lagi og gróður lítt tekinn að lifna við eftir klakabunka og kuldasvelju vetrarins. Allt er seinna á ferðinni nú en í fyrra, meira að segja þessi bloggfærsla. Í eðlilegu árferði hefði þessi bloggfærsla verið fyrir tveimur eða þremur vikum síðan en því er ekki að heilsa þetta árið. Ekki er að fullu komið í ljós hvaða tún verða dauðkalin eða ekki dauðkalin og þá er ekki vitað hvaða túnbleyta mun á endanum þorna og hvaða túnbleyta er komin til að vera í sumar. Hér á bæ er að byrja að koma grænn litur á hin harðgerðu og grýttu tún og þá er torfan í kirkjugarðinum tekin að grænka. Þó það nú væri.

Og þá að stóra vallamálinu. Valla? Varla. Glæsivöllur við félagsheimilið Rima er alls ekki grænn þessa dagana. Lengi vel var hann skjannahvítur, síðan svellgrár en þegar þetta er ritað er hann gulur. Stjórn Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar hyggst funda um ástand vallarins en það eru nokkrir möguleikar í stöðunni.

  • Sá fræi í frjóan svörð og vona það besta.
  • Plægja völlinn og setja niður fóðurkál eða kartöflur.
  • Semja við verktaka og breyta vellinum í malarvöll.
  • Kaupa malbik og breyta vellinum í flugvöll.
  • Kaupa græna málningu og mála völlinn grænan.
  • Spóla til baka um 20 ár og færa fótboltaæfingar sumarsins fram á Flötutungur – sem eru allt annað en flatar.

Ekki er vitað hvað verður ofan á en ljóst er að það verður völlur á stjórn félagsins þegar ákvörðun liggur fyrir.

Stundum er krísa og kal í túnum
kuldi og vosbúð og lítið í kúnum.
Spurningu þeirri svarað skal
skyld'aftur koma vor í dal?

Um síðir taka að grænka tún 
og trúlega lyftist á bændum brún.
Æðri völd hafa ei um það val
það mun aftur koma - vor í dal.

Rétt er að minna á að ef þú vorkennir ekki sjálfum þér, hver á þá að gera það?

Einar á ný.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HALLÓ EINAR!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *