Orðin almáttug

Krossóttu lesendur.

Já mikið ofboðslega er þetta nú allt sorglegt. Tárin streyma niður kinnar lesenda og sorgin heltekur hug og hönd nú þegar það er lýðnum ljóst að bloggarinn Einar Haf er ekki dauður úr öllum æðum eins og getgátur höfðu verið uppi um heldur er hann nú upprisinn, upptrekktur og uppveðraður. Gat nú skeð að þetta myndi gerast á lengsta og sorglegasta degi ársins. Varla var á það bætandi, Jesús Kristur. Ótrúlega sorglegur þessi gaur. Jesús? Nei, Einar Haf auðvitað.

Af hverju þarf þetta að vera svona sorglegt? Nú auðvitað af því að það stendur í Biblíunni. Jesús var krossfestur á föstudaginn langa en reis svo á þriðja degi aftur upp frá dauðum – enn eitt kraftaverkið í langri röð kraftaverka sem frelsarinn framkvæmdi á sinni tíð. Hvaða lærdóm má draga af þessu? Til dæmis þann lærdóm að áður en það er hægt að hafa gaman þarf stundum að hafa pínu leiðinlegt. Upp upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með. Hugur og tunga hjálpi til, herrans pínu ég minnast vil. Ég vildi s.s. bara minnast herrans pínu, ekki mikið. Vá, ekkert smá sorglegt.

Líkt og Þorgeir Ljósvetningagoði forðum liggja nú fjölmargir undir feldi og velta vöngum yfir því hvort einmitt núna sé rétti tíminn að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Eins og staðan er í dag er mun meira framboð af forsetaframbjóðendum heldur en eftirspurn en að vísu hafa sumir farið óvart í framboð – eins og gerist. Sjálfur nýti ég þessa páska eins og alla aðra páska til íhugunar, meðal annars um forsetaembættið. Þar leita ég bæði inn á við og út á við með það markmið að öðlast frið. Vá þetta rímaði. Það er af litlu að taka þegar horft er inn á við enda er ég lítill í mér en af nógu er að taka út á við enda holdmikill og vel á annað hundrað kíló fullklæddur. Varla þarf að taka fram að ég er reiðbúinn að vinna á þverpólitískum grundvelli og taka samtalið við grasrótina, að öðrum kosti reyki ég grasrótina. Það þarf heldur varla að taka það fram að enn sem komið er hefur enginn komið að máli við mig og ég hef ekki fengið neina hvatningu eða áskorun af nokkru tagi um að bjóða mig fram. Engu að síður ber ég hag landsmanna fyrir brjósti og því íhuga ég alvarlega að halda blaðamannafund á heimili mínu fljótlega, með leyfi mömmu og pabba, til að ræða við fjölmiðla um embætti forseta Íslands. Ætla ég sem sagt að bjóða mig fram? Nei, ég ætla að ræða um embætti forseta Íslands; sem þýðir að fara yfir stjórnskipun landsins, lesa upp 26. greinina, útskýra málskotsréttinn og enda svo á bubblum og brauðréttum. Myndu einhverjir blaðamenn mæta á þennan fund? Tja, ég reikna fastlega með fulltrúum Norðurslóðar, DB blaðsins, Andrésar Andar, Húsfreyjunnar og Lifandi vísinda, það er að segja ef ég borga nógu mikið. Vá, ekkert eðlilega sorglegt.

Hvað er annars að frétta af hinum kristnu kaupsýslumönnum? Kannski það helst að Landsbankinn keypti Tryggingamiðstöðina, til húsa að Golgötu 7, en gleymdi að skoða eigendastefnuna og láta eigendur sína og yfirboðara vita. Þetta gerðist áður en haninn gól þrisvar þó svo að bankaráð hafi afneitað því tvisvar. Eða var það öfugt? Tilgangur kaupanna mun vera sá að græða meiri peninga en það virðist hafa komið ótrúlegasta fólki algjörlega í opna skjöldu. Ótrúlegt að banki ætli sér að stækka og græða meira, það er galið. Það felast reyndar líka annars konar tækifæri í þessum kaupum. Ég held að það muni koma mjög vel út að viðskiptavinir bankans geti átt þess kost að tryggja sig fyrir of háum þjónustugjöldum og of háum vöxtum um leið og þeir eiga viðskipti við bankann. Hafa ráðherra bankamála, bankasýsla, bankaráð og Pontíus Pílatus bankastjóri keppst við að þvo hendur sínar af málinu með grænsápu og sterkum hreinsiefnum en allt hefur komið fyrir ekki og ljóst að lortarnir leynast víða. Óttalegt væl er þetta. Ég meina, hver hefur ekki lent í því að fara í búðina og kaupa eitthvað án þess að það hafi verið á innkaupalistanum? Ofboðslega er þetta sorglegt.

Nýverið tókst óprúttnum náungum að stela peningatöskum sem öryggisverðir Happadrættis Háskólans gættu, um hábjartan dag. Ekki er ljóst hvort um var að ræða óánægða miðaeigendur eða einhverja sem gleymdu að endurnýja fyrir síðasta útdrátt en sama hvort er er ljóst að svikin eru veruleg. Ekki er vitað hversu mikið Júdas og vitorðsmaður hans höfðu upp úr krafsinu en það voru að minnsta kosti 30 silfurpeningar. Það er reyndar frekar sorglegt.

Happadrætti Háskólans? Ekki DAS? JÚ….DAS!? Annað var það ekki. Sorglegt.is.

Líkt og stundum áður var messað í Urðakirkju að kveldi Skírdags. Eftir leiðindaveður og snjókomu undanfarið var síður en svo greiðfært upp að kirkjunni þegar messudagurinn rann upp. Eftir að hringjari og sláttumaður kirkjunnar hafði barist gegnum harðfennið með álskóflu úr Víkurkaup þótti sýnt að ekki næðist að gera messufært í tíma, enda var búist við hátt í tug gesta. Var því ræstur út verktaki á risastórri gröfu svo hreinsa mætti fönnina af Guðs vegum. Í veröld eru margir stígir hálir og það gilti svo sannarlega um stíginn sem Maggi verktaki mokaði upp að kirkjunni. Máttu klerkur, kór, organisti og kirkjugestir hafa sig alla við að standa í lappirnar á svellbunkunum til og frá kirkju en allt hafðist það með Guðs blessun. Af messunni sjálfri er það helst að frétta að sett var nýtt svarfdælskt met í 60 metra altarisgöngu með frjálsri aðferð þar sem séra Erla bauð oflátur og Steinunn sóknarnefndarformaður fylgdi með blóð Krists, bikar lífsins í kjölfarið. Fyrra metið var 18,96 sekúndur en nýja metið er 14,85 sekúndur og verður erfitt að bæta það. Hversu sorglegt?

Á páskunum ég pæli í 
að plana framboð, út af því
að kjósendur mig vilja.
Launahækkun langar í
og löng og fokdýr helgarfrí
það allir hljóta að skilja. 

Þessi páskahugvekja var í boði Biskupsstofu, Límtré vírnets, Golgata tannkrems og Smíðaverkstæðis Jóseps ehf.

Einar í kross.

Tilvitnun dagsins:

Allir: JESÚS KRISTUR!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *