Ár við orðamót

Góðir landsmenn.

Það er góður og gamall siður, nánast skylda segja sumir, að staldra við nú um áramót og líta til baka yfir farinn veg. Ekki bara líta yfir farinn veg heldur góna yfir farinn veg og í einstaka tilfellum mæna yfir farinn veg. Þá er einnig gott að horfa um öxl, horfa reiður um öxl, henda reiður á öxl – það er að segja hvaða öxl það er sem verið er að horfa yfir. Svo má líka yppa öxlum ef á annað borð er búið að tékka á öxlunum og smyrja öxlana. Hvað með að líta í eigin barm? Æi má ég þá frekar biðja um að fá að líta á einhverja aðra barma. Hrifnastur er ég af barmi örvæntingar en það er annað mál. Þetta áramótaávarp er augljóslega ekki unnið með aðstoð gervigreindar. Til stóð að ávarpið yrði textað á síðu 888 í textavarpi en því miður varð að hætta við það vegna alvarlegrar bilunar. Ekki í textavarpinu heldur í höfundi ávarpsins. Það gengur bara betur næst.

Ágætu landsmenn. Náttúruöflin hafa minnt verulega á sig á árinu sem er að líða. Það er ósköp eðlilegt að þau skyldu minna á sig enda höfðu margir gleymt þeim. Þó að jarðskjálftar, eldgos, frost og fárviðri séu fréttaefni þá er fegurðin og ástin já og sólskinið hið rétta efni. Söngur um lífið, texti Þorsteinn Eggertsson? Já mér fannst þetta bara passa svo vel hér. Það er líka mjög algengt að það sé vitnað í kvæði og ljóð í svona áramótaávörpum. Til dæmis þetta kvæði hér. Nú árið er liðið í aldanna skaut og kýrin hún Skrauta eignaðist naut. Hmm…nei þetta var víst ekki rétta kvæðið. Jæja en hvað með það. Allar líkur eru á því að náttúran haldi áfram að láta okkur finna til tevatnsins árið 2024 en trúlega munu hinir náttúrulausu sleppa billega. Sjálfur er ég í brimvarnarbúningi í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa niður í kartöflugeymsluna og bíða af mér hörmungarnar.

Undurfögru landsmenn. Stríðsátök og styrjaldir áttu verulega sterka endurkomu á árinu sem er við það að springa í tætlur. Rykið var dustað af gömlum kreðsum og átökum austurs og vesturs og hergagnaframleiðsla stóð í miklum blóma. Mikið var að gera hjá öllum hjálparsamtökum og flóttamannabúðir voru því miður vinsælustu búðirnar enn eitt árið, rétt á undan fangabúðunum. Allar líkur eru á því að blóðsúthellingarnar og tortímingin haldi áfram árið 2024 hvað sem líður öllum ályktunum og samþykktum öryggisráða, allsherjarþinga og þjóðarleiðtoga. Sjálfur er ég áfram í felum heima hjá mér með rafvarnarbúnað íklæddur stingheldu vesti, tilbúinn að hlaupa út í hlöðu og bíða af mér hörmungarnar.

Yndisfríðu landsmenn. Íslensk þjóð er þrautseig þjóð. Hér hefur kynslóð eftir kynslóð þraukað gegnum aflabresti, kal í túnum, drepsóttir, plágur, hallæri, óblíð náttúruöfl, válynd veður, bloggfærslur Einars Haf og ýmsar aðrar hamfarir sem of langt mál væri að telja upp í stuttu áramótaávarpi. Þegar öll sund virðast lokuð og enga von að finna stígum við Íslendingar upp, bítum á jaxlinn og komumst í gegnum erfiðleikana með óútskýrða, innistæðulausa og óbilandi bjartsýni að vopni. Það munum við halda áfram að gera, enda engin ástæða til annars. Hvernig þá? Iss, það reddast. Þetta gildir þó ekki um mig því sjálfur er ég svartsýnn og vonlítill í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupast undan merkjum og bíða af mér hörmungarnar.

Forkunnarfögru landsmenn. Íslenska sauðkindin heldur áfram að berjast í bökkum og þá er ég auðvitað að tala um alla matarbakkana sem innihalda gómsætt lambakjöt. Í gegnum aldirnar hefur sauðkindin haldið lífinu í hræddri þjóð á norðurhjara og mun gera það áfram, sérstaklega ef tekst að vinna bug á landlægri riðuveiki og tilheyrandi leiðindum. Það þurfti auðvitað lífstílsbónda til að ýta úr vör arfgerðargreiningum og ræktun kinda með verndandi arfgerðir gegn riðu en það hafði dýralæknum og spekingum Matvælastofnunar aldrei dottið í hug – enda hafa skoðanir þeirra og starfsaðferðir byggt á hinni síðklassísku dramakvikmynd Lömbin þagna. Ég er því miður ekki með neitt verndandi gen enn sem komið er og því kannski best að ég haldi mig í felum heima hjá mér, íklæddur sauðagæru og ullarsokkum, tilbúinn að hlaupa af mér hornin og bíða þannig af mér hörmungarnar.

Andlitsfríðu landsmenn. Ísland er fegursta land í heimi og íslensk orka er að öllum líkindum besta orka sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Grænt rafmagn skoppar hjalandi í lækjarfarvegum niður flúðir og fossa, um stokka og steina og beint inn í innstungur landsmanna. Landsmenn taka við orkunni fegins hendi þar sem hún bunar úr innstungunum og hlaða með henni rafmagnsbíla, rakvélar, snjallsíma, tölvuúr, eldhúsáhöld, unaðstæki, ennisljós, ostaskera, útvörp, hitapoka og handklæðaofna svo eitthvað sé nefnt. Grænu orkuskiptin hafa verið til umræðu í ófá skipti og eru það einmitt nú meðan ég ekki skipti um umræðuefni. Stjórnvöld hafa ákveðið að keyra orkuskiptin í gegn en hins vegar eru engar líkur á því að allir fái það rafmagn sem þeir vilja árið 2024 enda vantar sárlega fleiri virkjanir og fleiri innstungur. Stefna yfirvalda er sett á að kolefnisjafna sig einhvern tímann þegar líður á öldina en þó er enginn tilbúinn til að fækka flugferðum, minnka neyslu eða gera eitthvað sem gæti orðið til þess að minnka útblástur og kolefnisfótspor. Hvernig kemur þetta allt heim og saman? Það gerir það örugglega ekki. Ég hugsa að það sé öruggast að ég haldi mig í felum heima hjá mér, við hliðina á batteríunum, rafmagnstöflunni og olíutanknum, tilbúinn að hlaupa svokallað skammhlaup sem gæti reyndar endað með hörmungum.

Dúllubossalegu landsmenn. Auðvitað voru það ekki stríðsfréttir, hamfarafréttir, verðbólgufréttir, loftslagsfréttir eða flóttamannafréttir sem voru mest lesnu fréttir ársins. Það voru bleiku fréttirnar á Smartlandinu og víðar sem nutu mestrar hylli og skyldi engan undra. Fréttir af fræga, fallega og ríka fólkinu eru þær fréttir sem mestu skipta almenning. Já og svo reyndar fréttir af hvalveiðum. Kristján Loftsson fellur undir allt ofangreint og ætti því með réttu að vera manneskja ársins. Áhrifavaldarnir okkar reyndu sitt besta við að létta okkur lundina á árinu sem er við það að líða og gekk það flestum vel. Ég fylgdi nokkrum áhrifavöldum eftir á árinu og var ávíttur fyrir það af Persónuvernd en slapp við kæru. Ég misskildi víst aðeins hvernig maður fylgir áhrifavöldum eftir, það er ætlast til þess að maður geri það gegnum samfélagsmiðla en ekki bílaeltingaleiki, gluggagægingar og persónunjósnir. Eitt minna fjölmörgu áramótaheita verður að fylgja færri áhrifavöldum eftir á árinu 2024, enda smáhrifavaldur sjálfur. Það gæti orðið erfitt að fylgja mér eftir, enda er ég í felum heima hjá mér, liðleskja ársins, tilbúinn að hlaupa í hvalspik sem væri reyndar engin hörmung.

Yfirkrúttuðu landsmenn. Eitt fjölmargra áhugamála Íslendinga er að fylgjast með stjórmálum og framferði stjórnmálamanna, bæði innan og utan þings. Nokkur merkileg pólitísk mál áttu sér stað á árinu sem senn er á enda. Bera þar hæst afsögn fjármálaráðherra, tilkoma nýs utanríkisráðherra og ólga kringum formann Sjálfstæðisflokksins. Bíddu nú við, er þetta ekki allt sami maðurinn? Jú reyndar en það hefur löngum þótt happadrjúgt í íslenskri pólitík að vera margfaldur í roðinu. Hvað ætla ég að fá mér í kvöldmat á eftir? Snúið roð í hund – en það tengist þessu máli að vísu ekki á nokkurn hátt. Gera má ráð fyrir því að einn og einn stjórnmálamaður verði hafður að bitbeini og jafnvel bitinn af tík, það er að segja pólitík, á árinu 2024. Þó ég sé að flytja ykkur þetta áramótaávarp og hljómi alveg eins og forsætisráðherra er ég ekki stjórnmálamaður. Hvað þá? Nú ég er auðvitað í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupast undan pólitískri ábyrgð og bíða þannig af mér hörmungarnar.

Snoppufríðu landsmenn. Afrek Íslendinga á íþróttasviðinu voru mörg og merkileg á árinu sem er alveg við það að klárast. Við náðum sundmanni á pall, fótboltamanni á vog og kraftakarli á sterum. Nei bíddu við, þetta var reyndar ekki alveg rétt. Æi hvað með það. Íslenska karlalandsliðið í handbolta var nokkuð illa liðið í upphafi árs sem endaði með þjálfaraskiptum þegar nokkuð var liðið. Á árið. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta lenti í hremmingum og framlengingu sem varð til þess að framlengja þjáningar liðsins. Merkilegasta afrekið var örugglega það að Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður hélt úti tveimur fótboltaæfingum í viku síðasta sumar fyrir eldri og yngri iðkendur. Hélt úti? Já æfingarnar voru haldnar úti. Hvernig eru annars mörkin á fótboltavellinum við Rima? Þau eru kassalaga með götóttum netum. Já ég skil. Ýmsir spekingar hafa nú valið flottasta mark ársins og er það vel. Samtök sauðfjárbænda völdu einnig flottasta markið en það var blaðstýft aftan hægra, alheilt vinstra. Reikna verður með því að margir íþróttamenn fari yfir mörk á árinu 2024. Sjálfur er ég vitaskuld í felum heima hjá mér á stuttbuxum og takkaskóm, tilbúinn að hlaupa í mark sem yrði hörmung fyrir ásigkomulag marksins.

Frygðarlegu landsmenn. Verslun og þjónusta eru meðal hornsteina íslensks samfélags, rétt á eftir landbúnaði, sjávarútvegi, nýsköpun, ferðaþjónustu, fiskeldi, undaneldi, flugeldi, ylrækt, skógrækt, órækt, vaxtarrækt, menntastofnunum, heilbrigðisstofnunum og þjóðkirkjunni. Smásalar hafa átt gott ár, enda engin smá sala sem þar á sér stað. Milliliðir hagnast vel á því að vera milliliðir en það er allt í lagi enda hafa bændur bara gaman af því að geta lagt sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni við verðhækkanir og verðbólgu. Skítt með eigin afkomu. Þá er óhætt að nefna kynlífstækjabransann sem hefur átt gríðarlega fullnægjandi ár. Salan hefur toppað sig skipti eftir skipti og neytendur hafa unað sér vel við unað og annan munað. Sjálfur er ég að verslast veslast upp í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa í næsta kauphlaupi sem gæti endað með vísaskuld og hörmungum.

Sætu sætu landsmenn. Þegar öllu er á botninn hvolft og allt kemur til alls er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn þegar horft er fram til ársins 2024. Þetta segi ég auðvitað með krepptar tær og lygaramerki en það þarf varla að taka það fram miðað við allt sem áður hefur verið nefnt í þessari áramótahugvekju. Hugvekja? Meira svona, hugógnvekja. Múhaha. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar rokk og ról, tæki og tól, gleði og gól, könnu upp á stól, álf út úr hól, Sollu í kjól, BDSM hálsól og svo að ári önnur jól. Vonandi. Þetta skiptir samt ekki öllu máli. Aðalmálið er að sprengja árið sem er við það að renna sitt skeið í loft upp með heilsuspillandi flugeldum, lífshættulegum skottertum og baneitruðum blysum og leitast þannig við að toppa alla svifryksmæla sem fyrirfinnast um byggð og ból. Það er eina rétta og viðeigandi leiðin til að ljúka þessu guðsvolaða ári. Hvernig ætla ég að ljúka þessu ári? Nú auðvitað með því að vera í felum heima hjá mér á skautbúningi þegar árið líður í aldanna skaut, tilbúinn að hlaupa frá logandi ragettu sem annars gæti valdið mér og öðrum hörmungum.

Í árslok ég af angist fyllist
og auðmjúkur ég felli tár.
Yfir harmi heimsins tryllist
er hugsa um hið liðna ár. 

Ég trúi þó að batni tíðin
og tel að friður komist á,
þó síðar verði hættir hríðin
og hugljúft lognið brestur á. 

Húðstinnu landsmenn. Jónas Hallgrímsson hefði orðið 216 ára á árinu sem er að líða hefði hann lifað – sem hefði reyndar gengið nærri kraftaverki. Hann er nú þegar búinn að snúa sér sautján hringi í gröf sinni vegna þess skáldskapar sem hér hefur verið borinn á borð fyrir lesendur. Ég skammast mín og held því áfram að vera í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa sem fætur toga frá lesendum sem annars gætu valdið mér hörmungum.

Að lokum óska ég öllum lesendum nær og fjær gleðilegs árs og þakka um leið samfylgdina, samkenndina, samstöðuna og samlesturinn á árinu sem er að líða. Njótið áramótanna hvort sem þið eruð í felum heima hjá ykkur eða ekki.

Bílskúrinn á Bessastöðum, 31. desember 2023.

Einar Okkar Hafliðason

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *