Fyrirgefanlegu lesendur.
Nú spyrja sig eflaust einhverjir þeirrar spurningar. Hvers vegna í ósköpunum gat ég ekki hundskast til að setjast niður fyrir lifandi löngu og deila hugleiðingum mínum með ykkur lesendum í hnyttinni bloggfærslu? Góði besti, það hefur nú aldrei gerst. Jæja þá, en af hverju að þegja svo vikum skiptir? Og eiga það á hættu að verða sviptur himinháum listamannalaunum fyrir vikið? Fyrir þessari löngu þögn eru margar mismunandi, misgóðar og mistrúverðugar ástæður sem full ástæða er til að fara á mis við en verður nú engu að síður gerð grein fyrir. Þið ráðið svo alveg sjálf hverju þið trúið. Já einmitt, trúlega.
1. Ég hef ekki getað bloggað af því að það er búinn að vera svo mikill kuldi og vosbúð allan marsmánuð. Þar af leiðandi hafa bæði tölvan og bloggið verið frosin. Það verður ekki á allt kosið, enda frosið en ég get samt ekki verið í síma að ríma í tíma og ótíma. Loksins kom þíða og jafnvel blíða en þá voru svo margir uppteknir við að ríða og skíða. Takk fyrir þíðinguna en um þýðingu og talsetningu sá Veturliði Guðnason.
2. Ég hef ekki getað bloggað af því að ég var settur sáttasemjari í deilu Eflingar við SA þarna um daginn og var illa settur í kjölfarið. Lengi vel stefndi í óefni en þó komst loks skriður á viðræðurnar þegar samninganefndirnar funduðu sitt í hvoru lagi, það er að segja lokuðu sig af í sitt hvoru herberginu og töluðu við sjálfa sig en ekki hvora aðra. Þegar nefndirnar settust aftur sitt hvoru megin við sama samningaborðið fór allt í bál og brand. Allt útlit var fyrir að setja þyrfti lög á verkfallið og var þá verið að hugsa um nokkur vel valin júróvísjónlög sem hafa oft á tíðum sameinað stríðandi fylkingar og jafnvel þjóðina alla. Ég sá fyrir mér að klára deiluna hægt og hljótt með því að taka lítil skref og funda um nætur en niðurstaðan núna hlaut auðvitað að verða nei eða já, sama hvað þú og þeir segja. Málinu lauk með miðlunartillögu sem var samþykkt með semingi í símakosningu. Tillagan hlaut 8 stig frá Eflingu, 10 stig frá SA en 12 stig frá hlutlausri dómnefnd. Þá veistu svarið. Síðan kjaraviðræðum lauk hefur verðbólgan bólgnað úr hófi fram og raunar svo mjög að allar forsendur áður gerðra kjarasamninga eru brostnar. Þá þarf auðvitað að setjast niður aftur og hækka launin meira sem aftur á móti hækkar kostnað fyrirtækja og atvinnurekenda sem hækka þá verðið til að viðhalda góðri arðsemi – sem tekur í pyngju launþega sem þurfa þá að semja um hærri laun. Þá þarf auðvitað að setjast niður aftur og hækka launin meira sem aftur á móti hækkar kostnað fyrirtækja og atvinnurekenda sem hækka þá verðið til að viðhalda góðri arðsemi – sem tekur í pyngju launþega sem þurfa þá að semja um hærri laun. Svona gæti ég haldið áfram í allt kvöld og ætti raunar að gera það í þágu þjóðarhags. Þeir sem vilja geta skipt yfir á RÚV 2 en hinir mega halda áfram hér. Það eru jú ekki mikið fleiri rásir í boði.
3. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég þurfti að gera ársreikning fyrir Ungmennasamband Eyjafjarðar. Sem gjaldkeri hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að losna nú loksins úr embættinu með því að gera ársreikning sem sýndi algjört mettap og fjármálaóreiðu. Að vísu hafði tapið legið lengi í loftinu, enda hefur kostnaður vegna aldarafmælis sambandsins verið fyrirséður í um 100 ár en það er önnur saga. Eftir að hafa ráðfært mig við baklandið og tekið samtalið við grasrótina sá ég þó þann eina kost að axla ábyrgð og neita að segja af mér sem gjaldkeri heldur bjóðast til að halda áfram og vinna á breiðum grundvelli þvert á flokka. Helstu rökin voru auðvitað sú að einhvern þyrfti til að hreinsa upp skítinn og að enginn væri betur til þess fallinn en sá sem skeit í upphafi. Nákvæmlega eins og fyrir tveimur árum. Heyra mátti saumnál detta þegar gjaldkeri las upp ársreikninga á ársþingi UMSE í Árskógi og spennan var ekki bara í hárinu heldur lá hún einnig í loftinu. Enginn baulaði, enginn klappaði og enginn gerði athugasemd heldur sátu þingfulltrúar og störðu á ræðupúltið eins og naut á nývirki. Gjaldkerinn var endurkjörinn og allir lifðu hamingjusamir til æviloka, nema hugsanlega gjaldkerinn.
4. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að John Deere dráttarvélin fór ekki í gang. Þegar frostið hafði verið um og yfir 10 stig í fleiri sólarhringa sagði Jón Dýri hingað og ekki lengra og steinstoppaði í miðri heimreiðinni á Urðum. Urðum við að gera eitthvað í því? Já auðvitað. Kalli á Hóli dró vélina úr alfaraleið og mælti um leið með undraefni sem fengist í Motul og myndi duga til að brenna burtu vatnið úr olíuleiðslum vélarinnar og hreinsa pípurnar. Ég keypti undraefnið í lítravís og dældi því bæði á dráttarvélina, bílinn og sjálfan mig. Allt hefur gengið smurt síðan. Eins gott að það er til nóg af Costco klósettpappír í Víkurkaupum á Dalvík. Sjitt.
5. Ég hef ekki getað bloggað vegna heimsmeistaramótsins í Brús sem Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður stóð fyrir. Spilað var um hin virtu alþjóðlega verðlaun Gullkambinn og var gríðarlega hart barist. Nokkuð var um klórningar, jananir, voganir og uppbeiðsli og stundum hélt kolur slag. Þegar spurt var að leikslokum kom í ljós að liðið Atgeir hafði sigrað og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Jú reyndar. Æi þið vitið hvað ég á við.
6. Ég hef ekki getað bloggað vegna tímaskorts. Fyrst slítur vinnan mann í sundur og svo slítur hún í sundur fyrir manni daginn og svo er það sjálfboðavinnan sem getur tekið drjúgan tíma einnig. Nýjasta dæmið er auðvitað þegar Höfðinn var leigður út til menntaskólanema sem þökkuðu fyrir sig með því að brjóta eldhúskranann. Enginn húsvörður er á Höfða í fullu starfi, aðeins húsnefnd full í starfi og framkvæmdanefnd á fullu í starfi og öðrum störfum. Húsnefnd og framkvæmdanefnd funduðu um eldhúskranann og hvort hægt væri að fá vaskinn endurgreiddan en það reyndist vera í lagi með vaskinn, það voru bara blöndunartækin sjálf sem tjónuðust. Húsnefnd keypti ný blöndunartæki í Víkurkaupum og nú er beðið eftir því að húsnefnd og framkvæmdanefnd nái saman um uppsetningu nýs eldhúskrana þannig að áfram verði hægt að leigja Höfða út með góðri samvisku. Auðvitað fer dýrmætur bloggtími í þetta allt saman. Ég er þó búinn að fyrirgefa menntskælingum eldhúskranabrotið enda var um fyrsta brot að ræða.
7. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég komst í tilfinningalegt uppnám og varð orða vant yfir vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Á Alþingisrásinni í sjónvarpinu, sem fer að verða eina virka innlenda sjónvarpsrásin fyrir utan RÚV, sameinast svæsið raunveruleikasjónvarp, hægvarp, andvarp, æðarvarp, kúluvarp og illa skrifuð sápuópera í einn graut. Grauturinn sýður svo upp úr reglulega og breytist í einn kekkjóttan viðbrenndan klump þannig að úr verður hin besta skemmtun fyrir áhorfandann. Raunar ætti að gera Alþingisrásina að læstri sjónvarpsstöð og innheimta gjald af áskrifendum til að standa straum af vantraustskostnaði skattgreiðenda ár hvert.
8. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að mig skorti orð og skorti setningar sem ekki er nú þegar búið að bera á borð fyrir lesendur oftar en góðu hófi gegnir. Ég ætlaði að fá nýjustu og fullkomnustu gervigreind sem völ er á til að skrifa bloggfæsluna fyrir mig því það sér jú enginn muninn á gervi og raunveruleika lengur. Gervigreindin neitaði hins vegar að taka til við bloggskrif af ótta við að bíða álitshnekki ef þetta kæmist upp.
9. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég var í sigurvímu eftir 7-0 sigur karlalandsliðs okkar í knattspyrnu gegn Lichtenstein. Aldrei hefur landsliðið okkar unnið jafn stóran sigur í keppnisleik og því ástæða til að fagna þessu vel, ekki síst þegar horft er til þess að við erum smáþjóð norður í ballarhafi og raunar hrein heppni að hér sé hægt að leggja stund á knattspyrnu yfir höfuð. Það kom mér því nokkuð á óvart þegar þjálfari landsliðsins var rekinn nokkrum dögum eftir þennan glæsta sigur. Það er ekki einu sinni víst að 8-0 sigur hefði bjargað honum úr Vanda. Nú er þeim möguleika velt upp að ráða einn allsherjarþjálfara sem geti þá bæði sinnt þjálfun karlalandsliðsins í handbolta og karlalandsliðsins í fótbolta. Góð hugmynd sem fellur raunar vel að markmiðum ríkisstjórnarinnar um sparnað og sameiningar í opinbera geiranum eins og kemur fram í nýbirtri fjármálaáætlun. Stefnan er sett á að handbolta- og fótboltaliðið geti komist að nýju í fremstu röð og spilað fyrir troðfullri þjóðarhöll um leið og hún rís, sem verður líklega haustið 2042.
10. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég hef verið of upptekinn við að tína til afsakanir fyrir því að blogga ekki. Vá djúpt.
Bloggsins brim á svorfnum klettum lendir bloggarinn í djúpa vísu hendir. Þrasið þagnar, fólki er ei um sel þögnin fer mér óskaplega vel.
Þess má til gamans geta að lóan kom 26. mars en fór aftur 28. mars. Það gengur bara betur næst.
Einar af sakandi.
Tilvitnun dagsins:
Allir: REKINN!