Flóttalegu lesendur.
Orðatiltækið að hjakka í sama farinu kemst upp á algjörlega nýtt og áður óþekkt stig í hugum lesenda þar sem þeir fylgjast með síendurteknum og örvæntingarfullum tilraunum mínum til að vera sniðugur og skemmtilegur hér á bloggsíðu allra landsmanna. Auðvitað bind ég bagga mína ekki sömu hnútum og samferðamenn mínir og því skyldi engan undra þó allt fari í hnút og hlaupi í kekki eða ekki. Heyri ég gráthljóð? Nei þetta var sennilega bara ekki, eða ekki.
Hið svokallaða hryðjuverkamál er jafn torskilið og inngangurinn sem þú varst að lesa. Nýjustu vendingar minna helst á illa skrifaða sápuóperu þar sem faðir ríkislögreglustjóra reynist einn stórtækasti byssubrjálæðingur og vopnasali landsins, flæktur inn í vopnaviðskipti við vafasama vandamenn, menn í vanda og einstaklega einkennilega einstaklinga með kynlegar kenndir og meinlegar meiningar. Ríkislögreglustjóri hefur sagt sig frá málinu vegna óvæntra fjölskyldutengsla en hvað sem því líður er ljóst að næsta fjölskylduboð verður vandræðalegt. Lögmaður þeirra sem setið hafa í gæsluvarðhaldi vegna málsins svo vikum skiptir segir að aðeins hafi verið um misheppnaðan brandara að ræða og að aldrei hafi staðið til að myrða einn eða neinn. Æi dreptu mig ekki. Þess má til gamans geta að ég hef mjög oft sagt misheppnaða brandara og nokkrir lesendur bloggsíðunnar hafa drepist úr leiðindum en samt sem áður hef ég aldrei verið hnepptur í gæsluvarðhald. Það mál er sem betur fer ekki til rannsóknar.
Guðjón löggupabbi er bæði sætur og klár búinn að vera í vopnabransa í sautján ár. Vopnvæðir bófa og ræningja og dóttur um leið gerir vanhæfa.
Dagur einfaldra var haldinn hátíðlegur nú fyrir skemmstu. Á þeim degi er einfaldur almúginn plataður upp úr skónum og sokkunum með alls kyns einföldum og margföldum gylliboðum og afsláttarauglýsingum þar sem ódýrum raftækjum, gerviefnaríkum fatadruslum og gagnslausu dótaríi er prangað inn á ginkeypt fólk í stórum stíl, kaupmönnum til hagsbóta. Auðvitað læt ég ekki gabba mig svona. Ég fer sko ekki að rjúka til og kaupa eitthvað dót á afslætti sem ég get keypt á fullu tvöföldu okurverði alla aðra daga ársins. Nei takk.
Gegnum netið næla sér í dót neysluóðir kreditkortafantar rassgat hreyfa ekki hætishót heldur kaupa það sem engan vantar.
Dagur einfaldra er vissulega góður en dagur íslenskrar tungu er enn betri. Dagur íslenskrar tungu er raunar ágætur dagur til að velta fyrir sér stöðu tungumálsins, þessarar þjóðargersemi sem mótar alla okkar hugsun og hegðun. Þetta er líka ágætis tímapunktur til að ausa úr skálum reiði sinnar vegna þeirrar óþolandi boðflennu sem enska er í okkar daglega tungutaki. Þar er ég auðvitað ekki undanskilinn með öll mín ókei og hæ og bæ og seif og dánlód og guð má vita hvað. Orðskrípið síngulsdei er eitthvað sem á auðvitað að bannfæra með lögum strax í dag, alveg eins og þeinksgivíng, hallóvín, blakkfrædei og sæbermondei. Fuss og svei. Jónas Hallgrímsson snýr sér eflaust marga hringi í gröfinni meðan hann þarf að hlusta á þessar yfirgengilegu enskuslettur allar saman og skiptir þá engu hvort um ræðir bólugrafinn bloggara, siðblint markaðsfólk, ómálga útvarpsfólk eða snjalltækjasjúka samfélagsmiðlafíkla . Ekki hefði Jónasi líkað betur að labba gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar þessa dagana þar sem allt er morandi í enskuslettum og málsóðar vaða uppi með subbuskap. Þar er til dæmis ekki talað um hlið heldur er talað um geit. Geit eitt, geit tvö, geit þrjú og svo framvegis. Passengers to London, plís gó tú geit nömber næn. Óskiljanlegt. Þarna þarf augljóslega að koma hlutunum í rétt horf. Hreinlegast hefði verið að kveikja bara strax í bévítans geitinni. Hvað er svo málið með þetta búst dott komm sem er alltaf verið að auglýsa? Hver fjandinn er það? Talið íslensku! Og Serranó, fress happí mex? Mér er flökurt. Út af serranó vefjunni? Nei bara út af enskuslettunum.
Tunga íslensk yfir Hraundranga af ensku bólgin er horfin til himna, hryggur þráir sveinn í djúpum dali.
Útgáfa lestrarefnis stendur í miklum blóma þessar vikurnar eins og sést vel á nýútkomnum bókatíðindum. Engu máli skiptir þó bóklestur dvíni og læsi hraki, eftirspurn eftir bókum er áfram mjög mikil og stöðug. Eftirspurn eftir krassandi rannsóknarskýrslum hefur einnig aukist stórlega. Það eru því gleðifréttir að nú hefur Ríkisendurskoðun loks tekist að ljúka viðamikilli skýrslu sem fjallar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr á árinu. Skýrslan kemur mátulega inn í jólabókaflóðið og án efa mun hún leynast í býsna mörgum pökkum þessi jólin. Efni skýrslunnar er hefðbundið og formfast en þó skáldlegt á köflum. Sagan rís einna hæst þegar svokallaðir kjölfestufjárfestar fá að kaupa hluti í Íslandsbanka á vildarkjörum og selja svo þessa sömu hluti skömmu síðar með margra milljóna gróða. Þetta mun vera hin svokallaða íslenska leið sem er ætíð farin þegar íslenskir bankar eru seldir. Sumir sem lesa skýrsluna telja að ekkert hafi verið gert á rangan hátt við sölu Íslandsbanka en aðrir sem lesa skýrsluna telja að varla hefði verið hægt að klúðra hlutunum á stórkostlegri hátt, nema þá hugsanlega ef bloggsíðu Einars Haf hefði verið boðið að kaupa hlut í bankanum. Ráðamenn og bankasýslumenn hyggjast axla ábyrgð með því að sitja sem fastast, enda væri það óábyrgt að flýja af hólmi í miðjum hildarleiknum. Ég ætla að bíða eftir því að skáldskapurinn verði tekinn fyrir og krufinn til mergjar í Kiljunni en þangað til tjái ég mig ekki frekar um málið. Enda bundinn. Trúnaði.
Bankasýslan kann ekki á excel ekki getur það nú endað mjög vel í skýrsluflóði skammlaust mér ég drekki og axla ábyrgð með því að hætta ekki.
Nú er stutt í að heimsmeistaramótið í tvískinnungi og siðblindu hefjist í ofríka dvergríkinu Katar. Þessa dagana streyma þangað heilu þotufarmarnir af oflaunuðum og oföldum knattspyrnuköppum hvaðanæva að. Þeir ætla sér að sprikla á nýslegnu og ilmandi Katörsku grasi næsta mánuðinn eða svo og keppa í leiðinni um heimsmeistaratitilinn. Sigurlaunin eru ekki af verri endanum, gullstytta úr 18 karötum, frítt flug með Katar erlæns og nokkur hundruð dánarbú farandverkamanna sem létu lífið við byggingu hinna glæsilegu og glænýju Katörsku fótboltavalla. Dómgæsla á mótinu verður nokkuð ströng og ekki verður hikað við að nota svokallaða myndbandsdómgæslu. Dómari, var þetta ekki brot? Leikbrot, jafnvel stílbrot? Nei þetta var bara ósköp venjulegt og saklaust mannréttindabrot og því má leikurinn halda áfram. Koma svo!
Olíuauðvald alheim platar heims á enda loksins ratar æru margur maður glatar mitt í sandauðn suðrí Katar
Þess má til gamans geta að íslensk tunga er jafn góð hvort sem hún er töluð, íbitin, léttsöltuð eða reykt. Nammi.
Einar tungulipur.
Tilvitnun dagsins:
Allir: KATAR!!!!