Orðalabbilabb

Glensuðu lesendur.

Já nú þegar spaugið er í mikilli uppsveiflu og sprellvísitalan í hæstu hæðum er ekki úr vegi að taka þátt í gríninu og gantast svolítið með fjallhressum lesendum sem taka gríninu auðvitað vel, hlæja dátt og brosa í kampinn. Hvað er það sem er svona fyndið? Bara allt saman. Hótanir um kjarnorkustyrjöld, hryðjuverkaógn, vopnaframleiðsla, dópsmygl, verðbólgan, Flokkur fólksins og fyrsta haustlægðin. Það er bara ekki annað hægt en að glotta við tönn. Ef þú ert ekki viss, þá er kominn tími á fliss.

Elísabet Englandsdrottning lést nýverið í hárri elli og þjóðarsorg var lýst yfir í Bretlandi. Þetta gerðist í beinu framhaldi af heimsókn minni og fleiri knattspyrnukempa til Bretlandseyja helgina fyrir göngur en þó mun ekki vera neitt augljóst orsakasamhengi þarna á milli. Helgarferðin til Portsmouth gekk nokkuð vel, þar sem bæði var spilaður fótbolti, áhorfður fótbolti og drukkinn fótbolti….já eða eitthvað annað sem var þægilegra að koma niður. Ég gæti vel hugsað mér að prófa þetta aftur eftir svona 4-5 ár en það er um það bil sá tími sem líður á milli utanlandsferða hjá mér. Síðan ég kom heim hef ég reynt að kolefnisjafna mig og sigrast á sótskömminni. Ég sleppti því til dæmis að nota bílinn minn í fleiri fleiri daga heldur ýmist hafði ég hægt um mig innan girðingar eða gekk upp um fjöll og inn til dala í leit að fé – eins og gjaldkera sæmir.

Já göngur og réttir fóru fram í Svarfaðardal nýverið. Þegar ég verð orðinn stór fæ ég mér kannski riðufríar kindur en sem stendur er ég ekki fjáreigandi, bara aðdáandi. Göngurnar gengu ágætlega alveg þangað til að þokan gráa kom til skjalanna og setti allt úr skorðum. Skyggnið fór úr því að vera ágætt og yfir í að vera ekki neitt en skyggnið á derhúfunni hélst óbreytt. Á föstudeginum var gengið í fjallinu hér fyrir ofan og á laugardeginum gekk ég í Teignum. Þrátt fyrir þoku var þar mikill glaumur og gleði og lét ég reyna á raddböndin, ýmist þegar ég þurfti að hóa á eftir kindum eða þegar ég söng með vaskri sveit gangnamanna. Á sunnudeginum var svo komið að því að halda fyrsta gangnaballið á Höfðanum í þrjú ár. Undirbúningur ballsins var samkvæmt gamalli forskrift sem seint hefur klikkað. Undirbúningstékklisti velunnara og ballhaldara Höfða er langur þegar kemur að þessum hápunkti gangnahelgarinnar.

  • Sækja um tækifærisleyfi.
  • Borga fyrir tækifærisleyfi.
  • Fara í leyfi til að hafa tíma til að græja leyfi.
  • Ráða dyraverði, sem eru reyndar sjálfráða….sjálfráðnir.
  • Ráða hljómsveit.
  • Ráða ráðum sínum.
  • Ráða sér ekki fyrir kæti.
  • Fá gamlan Hilux sem miðasölubíl og koma bílnum fram á Höfða.
  • Taka sundur borðin á Höfða og pakka ofan í skúffu.
  • Raða stólunum á Höfða inn á baðherbergi eftir Tetris aðferðafræði.
  • Bæta á klósettpappír og handþurrkur.
  • Forða ónýta tunnugrillinu af Höfða heim í skúr þannig að enginn grillist á ballinu.
  • Koma útrunna namminu sem Umf. Þorsteinn Svörfuður á frá Rimum og fram á Höfða, ef ske kynni að einhver gæti selt það í sjoppunni á ballinu.
  • Setja djammflekana fyrir gluggana á Höfða og verða flekaður.
  • Útvega skiptimynt.
  • Bleyta upp í Höfðastimplinum þannig að hægt sé að stimpla fólk inn á ballið og losna við stimpilgjöld.

Nánast allt gekk upp hvað varðar ballið. Um 200 manns mættu og dönsuðu við tjúttaða tóna Landabandsins. Það eina neikvæða kom í ljós morguninn eftir en það var óhittni notenda níkótínpúða. Þeim virðist fyrirmunað að hitta ruslatunnuna. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fyrir skemmtunina, sjáumst á næsta balli.

Já talandi um skemmtun. Helgina eftir fyrstu göngur var farið í aðrar göngur. Allt aðrar göngur. Aftur var blíðskaparveður og gott skyggni á föstudeginum og aftur var kafþoka og skyggnislaust á laugardeginum. Freistandi hefði verið að halda annað gangnaball enda aðrar göngur en úr því varð ekki. Stutt er þó í að ballþyrstir komist á stóðréttarballið um næstu mánaðarmót. Hversu lengi stóð réttarballið? Æi ég man það ekki alveg.

Ég hef ekki aðeins nýtt haustleyfið til að skreppa til Portsmouth og fara í göngur. Ég hef líka stundað skítmokstur af ákafa, ásamt ýmsu fleiru sem þarf að gera á haustin til sveita. Skítmoksturinn er ýmist framkvæmdur með stórri dráttarvél eða skóflu og skítnum dreift á tún með gamaldags snigildreifara eða taðdreifara. Ég hef passað mig á því að dreifa engum skít nálægt Urðakirkju, enda væri þá um að ræða svokallaðan hólí sjitt og það er eitthvað fyrir lengra komna.

Hér næst átti að koma yfirgengilega fyndin umfjöllun um verðbólguna og fimmaurabrandari í lokin en vegna verðbólgunnar brann fimmaurinn upp meðan ég var að hugsa málið. Leitast verður við að hafa næsta verðbólgugrín verðtryggt.

Vopn og verjur, stormar, stríð
strekkingsvindur, bleytuhríð
á meðan heimsins hrylling lít
í hægðum mínum moka skít. 

Í næsta þætti af sápuóperunni Flokkur fól(k)sins á Akureyri; efstu konur móðgast og fatta ekki dónabrandarana, efsti maður á lista sendir þeim tölvupóst og segir þær vera geggjaðar, enda menntaður geðlæknir. Fyrrverandi kosningastjóri býður fram klofið og uppsker hlátur. Leggur hann eitthvað meira á konur í rúminu en bara hendurnar? Við fylgjumst spennt með í næstu viku.

Einar fram- og afturgenginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GAMAN!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *