Góðir landsmenn.
Við áramót er gott að staldra aðeins við og líta til baka yfir farinn veg, horfa um öxl, reisa sér hurðarás um öxl, dytta að öxlinum og öxlunum, líta í eigin barm, líta á aðra barma, barma sér, naga sig í handarbökin og draga saman spekingsleg hugðarefni í áramótahugvekju eins og þeirri sem þú hefur nú hafið lestur á. Að öðrum kosti eru líkur á að árinu ljúki aldrei og það kærum við okkur ekki um. Ekki í þessu tilfelli að minnsta kosti. Áramótahugvekjan að þessu sinni byggir á öllum helstu minnisblöðum sóttvarnarlæknis frá árinu sem er að líða, enda endurspegla minnisblöð sóttvarnarlæknis breytingar á sálarástandi heillar þjóðar frá einum tíma til annars. Þess má til gamans geta að sé hugvekjan flutt á táknmáli er nóg fyrir þann sem flytur að baða út öllum öngum, gretta sig og hrista hausinn á víxl – það dekkar að fullu innihald hugvekjunnar.
Móðir landsmenn. Íslensk þjóð er þrautseig þjóð. Landsmenn eru fullir….af langlundargeði og þolinmæði. Það sannast best á því að ár eftir ár kemst þjóðin í gegnum áramótahugvekjur Einars Haf og það án þess að blikna. Hér á eyjunni bláu við ysta haf hafa plágur og hallæri dunið yfir frá því Ingólfur nam land og oft á tíðum stráfellt heilu fjölskyldurnar og frændgarðana en samt berjumst við áfram, þreyjum þorrann og þraukum í þeirri von að brátt komi betri tíð með blómi í haga og bollu í maga. Vonbrigðin verða alltaf jafn mikil þegar sannleikurinn kemur í ljós en samt höldum við áfram, með þá óbilandi trú í brjósti að vont geti ekki versnað út í hið óendanlega og að þess í stað fari okkur að ganga allt í haginn. Nú þegar heimurinn er endanlega á heljarþröminni og heimsendastemmning svífur yfir vötnum er um að gera að kveikja ljós og biðja til Guðs um að allt fari vel að lokum, þó svo að innst inni vitum við auðvitað betur.
Bíddu við, átti þessi hugvekja ekki að blása fólki bjartsýni og baráttuanda í brjóst? Jú auðvitað. Hver nennir svo sem að lesa raunsæjar áramótahugvekjur. Íslendingar eru í fremstu röð á svo mörgum sviðum mannlífsins að það er með ólíkindum. Við erum fegurst, sterkust, gáfuðust, efnuðust og fyndnust, með örfáum undantekningum. Við erum með hæsta nýgengi smita, hæsta viðbúnaðarstig á sjúkrahúsinu og hæsta slaufunarstuðul á byggðu bóli. Við erum í raun langfremst meðal jafningja þegar tekið er tillit til höfðatölu en sé það ekki gert erum við eins og sandkorn í eyðimörkinni, dropi í hafinu, krækiber í helvíti og smit í heimsfaraldri. Höfðatalan hefur oft bjargað okkur þegar kemur að alþjóðlegum samanburði og eflaust mun hún gera það áfram á árinu 2022.
Fróðir landsmenn. Nú um áramót er hugur okkar gjarnan hjá þeim sem eiga um sárt að binda. Það getur verið af ýmsum ástæðum. Lasleiki, ástvinamissir, félagsleg einangrun, veiruleg einangrun, sóttkvíarsorg, hraðprófshræðsla og útskúfunarótti. Fólk með óhreint mjöl í pokahorninu hefur átt erfitt uppdráttar á árinu en þó er líklegt að súrir karlapungar nái vopnum sínum að nýju á næsta ári og að þolendur verði aftur þolendur og gerendur gerendur. Mögulega verður SÍS endurvakið á næsta ári í breyttri mynd – og nú sem Samtök Íslenskra Slaufara. Ég ætlaði að spyrja Völvu bloggsíðu Einars Haf álits á þessu áðan en það var því miður ekki hægt vegna völvubilunar. Er þá nokkuð annað að gera í kvöld en að verða ölvaður? Eða mölvaður? Bölvaður! Nei ætli ég hafi mig ekki bara hægan og gerist kannski pínu völvaður – en alls ekkert meira en það.
Hlaðvörp spruttu upp eins og njólar á árinu sem er að líða. Varla máttu tveir spjallarar koma saman án þess að upptökutækið væri sett í gang og útkoman, einnar til sex klukkustunda langt blaður, sett á allar helstu streymisveitur, kerfisveitur, hitaveitur og akveitur…eða feitur strax að spjallinu loknu. Engin leið er að komast yfir allt spjallið og óhjákvæmilegt að maður missi af einhverjum perlum sem standa upp úr moðhaugnum. Besta hlaðvarp ársins var klárlega hlaðvarpið hjá hænunum á Urðum sem víluðu ekki fyrir sér að verpa hér og þar um hlaðið og það meira að segja án þess að láta húsbændur sína vita. Næst besta hlaðvarpið var trúlega hlaðvarpið Einar konur sem fjallaði að mestu um það sem konur vilja ekki vera…..Einar.
Yfirstandandi heimsfaraldur, yfirstandandi jarðhræringar og yfirvofandi vöruskortur, hallæri, áburðarverðshækkanir og almennar hörmungar hafa og munu án efa halda áfram að þjappa þjóðinni saman og bæta liðsheildina þegar fram líða stundir. Ástandið sem ríkt hefur síðustu misseri hefur kennt okkur að standa saman sem einn maður, ein kona eða einn kvár. Þá á ég við að standa saman sem einn maður, ein kona eða einn kvár með eins til tveggja metra millibili. Annað væri bara galið. Þegar heimsfaraldrinum loks lýkur, sirka árið 2027, hver verður lexían sem situr eftir? Að oft sé betur heima setið en af stað farið? Að það geti verið gáfulegt að afgreiða stutta fundi gegnum netið? Að kojufyllerí geti verið góð skemmtun? Eða mun faraldurinn kenna okkur að meta betur gæðastundir með öðru fólki? Ef ég væri forseti eða forsætisráðherra að flytja áramótaávarp myndi ég koma með svarið við spurningunni en þar sem þetta er áramótahugvekja Einars Haf er engin von til þess að svör fáist.
Glóðir landsmenn. Á árinu tókst okkur í sameiningu að fjölga ráðherrum og ráðuneytum og mun það án efa koma okkur til góða síðar þegar skera þarf niður í ríkisrekstri og fækka ráðherrum og ráðuneytum. Ég meina, það er ekki hægt að spara nema eyða fyrst, er það? Það er sama hvort þú spyrð vísinda-, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mennta-, menningar-, viðskipta- og barnamálaráðherra eða umhverfis-, loftslags-, grænorku-, grasasna- og grænkeraráðherra. Allir eru sammála um ágæti þess að fjölga ráðuneytum og straumlínulaga ráðherratitla.
Sjóðir landsmenn. Það er ekki góðæri í landinu. Hins vegar eru góðar ær í landinu, sem er mun betra. Hvar værum við ef ekki væri til staðar íslenska sauðkindin? Þjóðargersemin, bjargvætturinn og bjartsýnisvaldurinn sem veitt hefur svo mörgum sólargeislum inn í líf okkar sem landið byggjum. Ég get alveg sagt ykkur það. Við værum í bráðum háska, svöng og skjálfandi af kulda. Þegar hættur steðja að og tregi og sorg fylla hjörtu og hugi er það yfirleitt íslenska sauðkindin sem kemur til bjargar, með brosi sínu og blíðu. Landlæg riðuveiki, fjárkláði og ný reglugerðardrög um að engar kindur megi bíta gras í yfir 700 metra hæð og í meira en 30 gráðu halla eru dæmi um atriði sem myndu hafa neikvæð áhrif á flestar dýrategundir en ekki íslensku sauðkindina. Hún stendur þetta allt af sér og eflist við hverja raun – og er þannig fyrirmynd fyrir okkur sauðina. Nei ég meina mannfólkið.
Framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu hefur unnið ótrúlegt þrekvirki síðustu misseri og það er fórnfýsi, gæsku og þanþoli þessa fólks að þakka að heilbrigðiskerfið og þar með heilsufar heillar þjóðar er ekki gjörsamlega sprungið í tætlur. Eflaust mun það gerast árið 2022 ef fram heldur sem horfir. Það má þó alltaf vona að staða mála skáni með aukinni inntöku koffíndrykkja, bætiefna, bótóx og áhrifavaldavarafyllinga sem láta okkur líða betur. Hmm…nei er þá ekki betra að taka lýsi, borða lambakjöt og drekka mysu með? Það tel ég að muni vera. Gott fyrir bragðlaukana, meltinguna og útlitið. Íslenskt lambakjöt á diskinn minn. Rétt er að taka fram að þessi umfjöllun er ekki kostuð af Bændasamtökum Íslands en ef þið hins vegar viljið að ég veki athygli á málstað ykkar hafið þá endilega samband á smahrifavaldur@hotmail.com – ég er alveg til gegn vægri þóknun og smávegis af unnum kjötvörum. Já ég er að tala við ykkur Bændasamtök.
Rjóðir landsmenn. FÍS, félag íslenskra smáhrifavalda, var ekki stofnað á árinu en hins vegar hefði mátt stofna slíkt félag. Ört stækkandi hópur fólks sem hefur þann eina tilgang og markmið að hafa áhrif á annað fólk, ýmist til góðs eða ills, á skilið að því sé hampað í hugvekju sem þessari. Hvernig hafa áhrifavaldar og smáhrifavaldar hjálpað okkur gegnum hrakningarnar á árinu sem er að líða? Nú auðvitað með því að birta af sér athyglisverðar og ögrandi myndir í alls konar stellingum og deila með okkur almúganum, með því að kynna fyrir okkur vörur og þjónustu sem okkur væru annars ókunn og með því að sýna svart á hvítu að lífið þurfi ekki alltaf að vera erfitt og leiðinlegt heldur geti það verið glansmynd, freyðivín og utanlandsferðir á öllum tímum árs. Gæti ég tilheyrt þessum hópi? Já klárlega, samanber þegar ég fór og naut með mínum bestu gegnum Instagram, Facebook, Tik Tok og Snapchat – svona eins og fólk gerir.
Já og munið, ef þið takið ekki mynd af atburðinum og setjið á samfélagsmiðla þá átti viðkomandi atburður sér aldrei stað. Fór ég á klósettið áðan og kastaði af mér þvagi? Bíddu aðeins, ég ætla að gá inn á Instagram – það ætti þá að detta inn þar.
Hljóðir landsmenn. Þegar öllu er á botnin hvolft og þegar allt kemur til alls er ekki um að villast að sama hvernig okkur farnaðist á árinu og sama hversu sár og svekkt við erum með niðurstöðuna þá er árið vissulega að líða og á miðnætti tekur við nýtt ár. Ár með fleiri væntingum og enn fleiri vonbrigðum. Eins og alltaf. Það er rétt svona í lokin að vitna í eitt fremsta skáld Íslendinga fyrr og síðar, Hallgrím Pétursson, en hann hefði orðið 407 ára gamall í ár hefði hann lifað.
Upp upp mín sál og allt mitt geð upp mín terta og ragetta með með hugvekju árinu geri skil lesandans pínu ég minnast vil.
Hmm, eitthvað fór nú úrskeiðis þarna en það er hvort sem er ekkert að marka þetta, enda var Passíusálmabókin mín ekki innsigluð og því gæti hver sem er hafa átt við ljóðlínurnar.
Að endingu óska ég ykkur farsældar á komandi ári og þakka um leið fyrir samfylgdina, lesturinn og samskiptin á fjárans árans fárinu og árinu sem er sem betur fer við það að springa í loft upp. Njótið áramótanna sem best þið getið en gangið þó hægt um gleðinnar dyr, hægar en nokkru sinni fyrr.
Eldvarnarbirgið á Bessastöðum, 31. desember 2021.
Einar Okkar Hafliðason