Orðin ranglega flokkuð

Kjörgengnu lesendur.

Þar sem gríðarleg óvissa ríkir enn um endanleg úrslit Alþingiskosninga, gríðarleg óvissa ríkir enn um hið pólitíska landslag að loknum kosningum, gríðarleg óvissa ríkir enn um hinar langdregnu jarðhræringar á Reykjanesskaga, gríðarleg óvissa ríkir enn um afléttingar samkomutakmarkana og gríðarleg óvissa ríkir enn um hversu margar bloggfærslur með óskiljanlegum inngangsorðum Einar Haf á eftir óritaðar, hef ég ákveðið að auka enn á þessa óvissu með því að draga fram í dagsljósið afar óvissa og loðna bloggfærslu sem mun ekkert gera annað en að auka á hina gríðarlegu óvissu sem enn ríkir. Spæling.

Sláturtíð er nú nokkuð langt á veg komin. Er nokkuð fyndið við það? Nei alls ekki, enda er mér ekki hlátur í hug, heldur slátur. Þetta vitið þið auðvitað, lömbin mín góð. Það munar um hvern dilk á þessum viðsjárverðu tímum sem við lifum á, hvort heldur sem er lífs eða liðinn. Við þurfum klárlega á sauðkindinni að halda til að þrauka hina dimmu og drungalegu vetrarmánuði sem nú fara í hönd, eins og margsinnis hefur komið fram á þessari bloggsíðu. Við þurfum ullina til að halda á okkur hita í vetrarkuldunum, við þurfum lærin, hrygginn og innmatinn í frystikistuna til að lifa af Þorrann og seðja sárasta hungrið og við þurfum hrútaskránna og kindakynlíf í fjárhúsunum á aðventunni til að drepast ekki úr leiðindum á tímum heimsfaraldurs og samkomutakmarkana. Til vara er gott að eiga Hrútinn Hrein á DVD og VHS.

Í sláturhúsum landsins eru dilkarnir flokkaðir af þar til gerðum kjötmatsmönnum. Auðvitað er best að lenda í E flokki (E fyrir Einar) en U sleppur líka alveg til. Það getur alltaf gerst að skrokkarnir séu ranglega flokkaðir og er þá um að ræða mannleg mistök. Svo eru einnig dæmi um einstaka úlf í sauðagæru en þannig svik koma yfirleitt fljótlega í ljós á sláturhúsinu og leiða þá til verðfellingar. Það verða ekki bara mistök í sláturhúsinu. Eftir kosningarnar í Suðurkjördæmi kom í ljós að fullorðinn Framsóknarlitaður frambjóðandi í sauðalitunum sem upphaflega hafði verið flokkaður í M flokk vegna afar sterks hrútabragðs reyndist við nánari athugun vera villtur forystusauður og eineltisfórnar-lamb sem tilheyra ætti D flokki. Það sem kom mest á óvart við þetta var sú staðreynd að það voru hvorki kjötmatsmenn né kjósendur sem uppgötvuðu mistökin heldur var það sauðurinn sjálfur. Þykir málið nokkuð neyðarlegt, enda sjaldgæft að kjósendur séu svo grátt leiknir.

Hér áður fyrr voru Miðflokksmenn ábyrgir og einnig vel birgir en það hefur nú breyst, samanber hið afar torskilda líkingamál sem sett var fram í efnisgreininni hér á undan. Ef Birgir veikist og Erna varaþingmaður tekur sæti hans á þingi fjölgar í þingflokki Miðflokksins en að sama skapi fækkar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þar sem þingmaðurinn og varaþingmaðurinn eru ekki lengur í sama flokknum. Sjálfstæðismenn eru ágætlega birgir en samt eiga þeir nokkuð undir því að Birgir haldist heill og sneiði hjá öllum helstu plágum og umgangspestum til að þurfa ekki að taka veikindaleyfi. Það skýtur því skökku við að Sjálfstæðismenn eru þessa dagana margir hverjir afar óvægnir í gagnrýni á Þórólf sóttvarnarkóng og krefjast þess að öllum sóttvarnartakmörkunum innanlands verði aflétt hið snarasta. Aumingja Birgir, vonandi verður hann áfram duglegur að taka lýsi, spritta sig og forðast margmenni þegar inflúensan, RS veiran og COVID-19 fá að nýju lausan tauminn á hinum fjölmörgu sameiginlegu snertiflötum þjóðlífsins. Hvernig er best að forðast þessa snertifleti? Kannski er bara best að vera í byrgi….eða birgi.

Óhætt er að segja að lagning rafstrengs í jörð í Svarfaðardal hafi fallið í mjög grýttan jarðveg hér í landi (grjót)Urða. Við sjáum mynd.

Haka í gólf, ég er svo hissa. Ekki nóg með það. Bæjarhlaðið var tætt í sundur og mokuð hola til að tengja rafmagn inn í íbúðarhús og önnur hola til að tengja Guðshúsið við nýja rafstrenginn, enda ekkert sjálfgefið að vera í stuði með Guði án rafstrengs. Holurnar, sem eflaust voru búnar til í góðri trú, voru grafnar í láréttri slyddu, svo kom meiri slydda og loks snjókoma og meiri snjókoma. Vinnuflokkurinn glaðbeitti flúði af hólmi þegar bleytuhríðin og slyddan bundu endi á Svarfdælska sumarævintýrið. Snjórinn er farinn þegar þetta er ritað, rétt eins og RARIK, en eftir sitja heimilismenn á Urðum með sárt ennið og bæjarhlað sem búið er að leggja í rúst. Og ekkert bólar á verktökunum sem sóru þess dýran eið að laga til eftir sig. Þetta þarf ekki að koma á óvart þegar slagorð RARIK er skoðað en það er: Þegar þú ert kominn ofan í holu….hættu þá að moka.

Ég hef tekið eftir því að áhrifavaldarnir og smáhrifavaldarnir, kollegar mínir, eru duglegir að nota svokallaða filtera þegar þeir láta taka af sér myndir til að setja á samfélagsmiðla. Myndir með filter skila að jafnaði fleiri lækum, koma betur út hvað varðar kynþokka og stíl og bæta á allan hátt viðfangsefnið til muna, að sögn þeirra sem til þekkja. Það sé heldur ekkert verra að setja smá stút á varirnar, slíkt eykur á þokkann. Ég ákvað um daginn að ég hefði engu að tapa og prófaði því að fara að fordæmi félaga minna. Útkomuna má sjá hér.

Hér notaðist ég við hefðbundinn lagskiptan olíufilter en eflaust er hægt að finna betri filtera. Lesendur geta vitaskuld dæmt um það sjálfir en ég er nú ekki frá því að ég sé mun myndarlegri þegar ég nota filterinn.

Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir en ekki er vitað hvort notaður verði filter þegar stjórnin verður mynduð. Þrætueplin eru mörg og viðfangsefnin risastór og flókin en það sem helst tefur viðræður þeirra Katrínar, Bjarna og Sigurðar er trúlega sú óvissa sem fylgir því að vita ekki hversu margir þingmenn eru í hvaða flokki frá degi til dags. Við fylgjumst spennt með. Það minnir mig á það já, best að blettahreinsa spennitreyjuna þannig að hún sé klár þegar mennirnir í hvítu sloppunum koma að sækja mig.

Íþróttaspriklið á Rimum hefur nú hafið göngu sína að nýju eftir að hafa legið niðri í rúma 19 mánuði vegna heimsfaraldurs. Gjaldkeri Umf. Þorsteins Svörfuðar tekur þessu fagnandi enda vonir bundnar við að sjoppusala glæðist að nýju en að sama skapi ríkir nokkur óvissa um holdarfar gjaldkerans til framtíðar þar sem þeim kaloríum sem hann brennir í spriklinu er samstundis bætt við aftur með inntöku á ýmsu góðgæti úr sjoppunni. Við munum fylgjast afar vel með þessu máli áfram, það er að segja mittismáli gjaldkera. Ekki veitir af.

Það rignir stöðugt, rök er sál 
rennvot verða engi og tún
þyngist lundin þvöl og hál
og þruman rauða er orðin brún

Þess má til gamans geta að Landspítalinn væri í miklu betri málum ef ekki væri fyrir allt þetta veika fólk.

Einar í f(l)okki.

Tilvitnun dagsins:

Allir: BIRGIR!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *