Úr sér gengnu lesendur.
Já þetta er í alvörunni að gerast. Einar Haf rekur loks af sér slyðruorðið, snýr upp á sig, snýr sér í hringi, snýr út úr og snýr aftur á veraldarvefinn, sprittaðri en nokkru sinni fyrr. Það útskýrir hvers vegna hann (ég sem sagt) er svona þvoglumæltur. Sem sést reyndar ekki gegnum netið. Hjúkk.
Áður en lengra er haldið eru hér nýjar tölur úr Norðvesturkjördæmi. Sjálfhælisflokkurinn 570 atkvæði, Framstæðiflokkurinn 380 atkvæði, Sósulistaflokkurinn 150 atkvæði, Samhyglingin 270 atkvæði, Vinstri alveg grænir 330 atkvæði, Auðir og ógildir 100 atkvæði og þá má geta þess að í orðinu Norðvesturkjördæmi eru 6 atkvæði. Við fylgjumst spennt með áfram.
Ég hef ekkert getað bloggað síðustu vikur þar sem ég hef verið í tilfinningalegu ójafnvægi og þjakaður af sálarangist og andlegum innantökum vegna viðskilnaðar við fararskjóta minn og einkavin til 11 ára, Subaru Impreza Sedan árg. 2003 með rifnu sætisáklæði, brotinni undirhlíf og bjór í skottinu. Höfum við félagarnir ekið saman gegnum þykkt og þunnt, í skini og skúrum, um rennislétt malbik og holótta malarvegi, dýpstu jarðgöng og hæstu fjallaskörð. Þegar kílómetramælirinn var að detta í 296 þúsund kílómetra missti Súbbi vatnið. Oftast er það jákvæður fyrirboði þegar einhver missir vatnið en ekki í þessu tilfelli þar sem þetta þýddi að hitinn rauk upp úr öllu valdi og óþægilega stutt var í að syði upp úr. Sem betur fer tókst að forða því en vatnskassinn var ónýtur og góð ráð afar dýr. Eftir nokkurra vikna afneitun beit ég loks á jaxlinn og ákvað einhliða að komið væri að kveðjustund. Reyndar ekki alveg einhliða því ég fékk tilboð í Súbba sem ég taldi mig ekki geta hafnað. 1 milljón? Hálf milljón? Nei, 50 þúsund kall. Hver getur hafnað því?
Það kom sér svo sem ágætlega að selja Súbbann rétt fyrir göngur og réttir. Það var jú ekki eins og ég væri að fara að keyra mikið, því þá myndi þetta heita keyrslur – ekki göngur. Og að göngum loknum var miklu betra að verða slompaður og fá far heldur en að þurfa að keyra sjálfur, bláedrú og þurrpumpulegur. Göngurnar gengu ágætlega, veður var að mestu gott, kindurnar fallegar og félagsskapurinn frábær. Ekki fékkst leyfi frá Þórólfi sóttvarnarlækni til að halda hefðbundið gangnaball en hins vegar hafði Þórólfur ekkert um það að segja að haldið var upp á 30 ára afmæli Urðaréttar á Höfðanum að kvöldi sunnudags. Plötusnúðurinn DJ Húlíó þeytti skífum og glaðir gangnamenn og áhangendur þeirra hristu úr sér mestu strengina eftir erfiði helgarinnar og fögnuðu um leið afmæli réttarinnar. Aldrei hefur afmæli skilaréttar verið fagnað jafn ákaft. Að vísu voru ekki allir afmælisgestir meðvitaðir um hverju væri verið að fagna þetta kvöld en það er algjört aukaatriði. #openthegates
Og hér voru að koma nýjar tölur úr Norðvesturkjördæmi. Prímatar 300 atkvæði, Flokkur fólsins 440 atkvæði, Viðreisnarvon 220 atkvæði, Auður og Ógildur 50 atkvæði, tónlistarmaðurinn Auður 1 atkvæði og Söngvakeppni Sjónvarpsins 139 krónur hvert atkvæði. Við fylgjumst mjög spennt með áfram.
Þó svo að heima sé best þá hentar bíllaus lífstíll mér illa til lengdar. Ég meina, ég væri ekki með þessa bloggsíðu ef ég væri ekki reglulega úti að aka. Það þurfti því ekki endilega að koma á óvart þegar spurðist til mín þræðandi bílasölur í Reykjavík leitandi að álitlegri sjálfrennireið, gónandi á gljáfægðar glæsibifreiðar og rennandi hýru auga til aksturseiginleika, aukabúnaðar og auðþrifinna aftursætisáklæða. Reykjavík hafði lítið breyst á þeim tveimur árum sem voru liðin frá síðustu heimsókn minni þangað. Götur í miðbænum lokaðar vegna framkvæmda (trúlega sömu götur og síðast meira að segja), umferðarteppur og öngþveiti á helstu gatnamótum og það var auðvitað úrhellis rigning.
Viti menn, eftir nokkra umhugsun og ráðgjöf frá Dodda (greifanum af Klaufabrekknakoti) tók ég þá ákvörðun að festa kaup á Nissan Qashqai beinskiptri bifreið árgerð 2016 með dökkrauðu lakki, óslitnu sætisáklæði og innbyggðum leiðarvísi. Ekki veitti af, annars væri ég trúlega enn villtur í einhverju skuggalegu iðnaðarhverfi í Reykjavík. Ég rataði heim og hef haldið kyrru fyrir þar að mestu síðan, svona meðan Nissan er að venjast aðstæðum. Svarfdælingar, hafið varann á ykkur. Rauða þruman er mætt á malarveginn. Vonum það besta.
Nýrra fregna úr Norðvesturkjördæmi er að vænta eftir um það bil tvær efnisgreinar. Spennan er óbærileg.
Nú stendur til að innleiða svokölluð hraðpróf sem eiga á fljótlegan hátt að skera úr um hvort sá er þreytir prófið sé smitaður af COVID-19 eður ei. Eru miklar vonir bundnar við að hraðprófin varði leiðina til varanlegs hömluleysis áður en langt um líður. Nýjasta útspil stjórnvalda er að leyfa fjölmenna viðburði að undangengnu hraðprófi. Þá eiga viðburðargestir sem sagt að greinast neikvæðir á hraðprófi áður en þeir mæta á viðburðinn. Hafi einhverjir gaman af hraðprófinu er auðvitað hægt að sleppa viðburðinum og dunda sér bara við prófið. Og ef þú meiðir þig má taka sjúkrapróf.
Ofurgraðir, ofurlaunaðir og ofmetnaðir knattspyrnumenn hafa verið milli tannanna á fólki upp á síðkastið og kemur það alls ekki til af góðu. Staða mála innan Knattspyrnusambands Íslands er afar alvarleg um þessar mundir þar sem kynferðisofbeldi nafntogaðra landsliðsmanna virðist hafa verið þaggað skipulega niður. Hver vissi hvað og hver vissi ekki hvað er ekki vitað með vissu. Það eina sem vitað er með vissu er að einhverjir eru með óhreint mjöl í pokahorninu, einhverjir eru með skituna upp á bak og einhverjir hefðu átt að vera farnir út af í kalda sturtu fyrir mörgum fótboltaleikjum síðan. Fuss og svei. Hvernig er hægt að snúa blaðinu við og gera betur? Í framtíðinni sjá menn fyrir sér að notast verði við svokölluð graðpróf áður en valið er hverjir komast í landsliðshópinn, til að koma í veg fyrir að skandalar og ofbeldismál eigi sér stað síðar meir.
Það er helst að frétta úr Norðvesturkjördæmi að nú hafa nánast öll atkvæði verið talin hér í Borgarnesi og því stutt í að talning vandkvæða hefjist. Mun sú talning þó vera nokkrum vandkvæðum bundin þar sem fulltrúar yfirkjörstjórnar gleymdu innsiglunum heima hjá sér og því verður ekki hægt að innsigla neinn kosningasigur að sinni – og afar líklegt að framkvæmd kosninganna verði kærð til lögreglu. Við fylgjumst óstjórnlega spennt með áfram.
Nýverið fékk ég tilboð um að sinna veislustjórn í lokahófi meistaraflokks knattspyrnuliðs Dalvíkur/Reynis. Tilboðið hljóðaði upp á veislustjórn í skiptum fyrir frían mat, drykk og far heim. Ég tók tilboðinu, steig á stokk, át og drakk. Ég uppskar nokkur fagnaðarlæti, bæði þegar ég steig á stokk, át og drakk – og því get ég með sanni sagt að þetta hafi gengið ágætlega. Ég stóð mig raunar það vel á þessu lokahófi að skömmu síðar hringdi yfirmaður kjörstjórnar Dalvíkurbyggðar í mig og réð mig til að vinna í kjördeildinni í Dalvíkurskóla á kjördag – enda væri það greinilegt að þarna væri á ferðinni ábyrgur, trúverðugur og alvörugefinn maður sem væri alls ekkert að grínast. Pínu skellur fyrir mig persónulega, en gott og vel. Tilboð kjörstjórans hljóðaði upp á að vinna í kjördeildinni, taka á móti atkvæðum íbúanna og merkja við þá í kjörskrá í skiptum fyrir frían mat og drykk og ríflegt tímakaup – en farinu heim yrði ég að redda sjálfur. Ég tók tilboðinu, tók á móti atkvæðum og tók svo til við að borða rúnstykki, prins póló, súkkulaðiköku og lambakjöt. Kjörfundur stóð frá klukkan 10-22 en neysla matar og drykkjar stóð yfir frá klukkan 08:30-22:30. Það má öllum vera það ljóst að það er ekkert grín að vinna við svona kosningar. „Ekkert grín“ er einmitt eitt helsta slagorð þessarar bloggsíðu en það er önnur saga.
At-kvæði Úr kjördeild heyrast hróp og köll kátt er þar á hjalla kjörseðlabunkar eins og fjöll - er búið að telja þá alla?
Síðustu fregnir úr Norðvesturkjördæmi herma að talningu sé að mestu lokið og að talningarmönnum sé öllum lokið. Nokkrir framboðslistar hafa verið taldir af en sú niðurstaða verður að öllum líkindum kærð og farið fram á endurtalningu. Yfirkjörstjórn vill þó árétta að ekki verður á allt kosið, enda myndi slíkt ekki samræmast kosningalögum. Það gengur bara betur næst.
Einar að telja.
Tilvitnun dagsins:
Allir: TELJA!!!
Hvernig hefur nýi bíllinn það? Hafa sveitungar þínar tekið hann í sátt?
Rauða þruman er bara í nokkuð góðu formi. Sveitungar mínir eru enn að venjast breytingunum, það gæti tekið einhvern tíma.