Orðin laus við hömluleysi

Samkomnu lesendur.

Sóttvarnaryfirvöld fóru þess á leit við mig að ég kæmi með uppbyggjandi og bjartsýna bloggfærslu til að bæta úr því voveiflega ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Ég hafnaði því auðvitað alfarið enda engar líkur á því að skrif mín geti talist uppbyggjandi eða bjartsýn. Ég ætla þess í stað að koma með raunsætt sjónarhorn á stöðuna sem uppi er, mála skrattann á vegginn og tala umbúðalaust, enda búið að banna flest allar tegundir umbúða vegna umhverfissjónarmiða. Veiruskrattinn er kominn til baka úr sumarfríi, meira smitandi en nokkru sinni fyrr. Og þar af leiðandi er ég ekki lengur hömlulaus yfir ástandinu heldur er ég orðinn hamlaður og hamslaus yfir ástandinu.

Já loksins gerðist það. Hömluleysið og hamsleysið skall á. Veislur og samkvæmi liðins ár haldin kvöld eftir kvöld með tilheyrandi djammi og drykkjulátum. Sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn og lögreglumenn unnu baki brotnu við að halda þjóðfélaginu á floti og miðbær Reykjavíkur breyttist í vígvöll skemmtanalífsins. Og hvað svo? Jú viti menn, COVID-19 mætti aftur og er nú enn á ný á allra vörum, í allra eyrum og í sumra nösum. Bólusetningar draga vonandi úr mestu hörmungunum og alvarlegustu veikindunum en það virðist þó ekki ætla að duga til. Herða, slaka, herða, slaka, herða, slaka aðferðin verður því viðhöfð áfram. Nú á einmitt að fara að herða skrúfuna á ný og skrúfa fyrir skrúfusleiki og aðra óæskilega nánd en skrúfan hefur verið laus síðustu vikur – og þess vegna er ástandið kannski eins og það er. Ég er búinn að vera með lausa skrúfu lengi og þess vegna er þessi bloggsíða eins og hún er. Afsakið.

Hið svokallaða Delta afbrigði, sem virðist samkvæmt fréttum vera bráðsmitandi andskoti, hefur nú hreiðrað um sig hér á landi og skyldi engan undra. Ég er reyndar mjög hissa að enginn hafi séð þetta fyrir enda hefur Delta flugfélagið flogið með fullar vélar hingað til lands í allt sumar. Og hvað skyldi Delta flugfélagið svo koma með til landsins? Tja, það skyldi þó ekki vera Delta afbrigðið? Það væri afbrigðilegt ef svo væri ekki. Til stendur að herða að nýju aðgerðir á landamærum. Ég er alveg hættur að fylgjast með því í hverju þær aðgerðir eru fólgnar, enda hef ég ekki farið út fyrir Norðurlandsfjórðung síðan COVID-19 farsóttin skall á. Það er fyndið af því það er satt. Sennilega á að taka upp úrvinnslusóttkví, áttfalda skimun, þukl og þreifingar á óbólusettum, tvöfalda vinnusóttkví, speglun og þrefalda skimun á illa settum og einfalda sóttkví, tvöfalda skrúfu, fjórfalda skimun og nettar strokur á hálf bólusettum og full bólusettum, sem sumir eru kannski full bólusettir fyrir minn smekk. Því miður mun þetta sennilega ekki duga til. Það mun örugglega einhverjum takast að smygla veirunni inn í landið með handfarangrinum. Bévítans apakettirnir. Og á meðan smitast hnípin, ómenguð og varnarlaus þjóð á norðurhjara, með eða án bóluefnis.

Hlátur getur verið smitandi. Djammið getur verið smitandi. Ferðir til útlanda geta verið smitandi. Hætturnar leynast víða. Hömluleysið getur líka verið smitandi. Síðan hömluleysi var líst yfir í lok júní hefur dagbók lögreglunnar boðið upp á hópslagsmál, flöskukast, eignaspjöll, hlandspreng á almannafæri og ofurölvun svo eitthvað sé nefnt. Kaflinn í dagbók lögreglunnar um rafskútuslys drukkinna hefur verið sérlega svæsinn. Engir háttvirtir, hvítvínsþambandi ráðherrar í Ásmundarsal hafa komið við sögu í dagbók lögreglunnar upp á síðkastið en kannski mun það breytast nú þegar næturlífið í miðbænum verður höftunum og hömlunum að bráð á nýjan leik og hasarinn færist annað.

Í fótbolta er manni refsað grimmilega fyrir öll mistök. Það kom greinilega í ljós á Pollamótinu sem ég tók þátt í fyrir skömmu með liði Umf. Óþokka. Ég gerði þau mistök að fá mér ekki bjór fyrir fyrsta leik sem varð til þess að sá leikur tapaðist. Annars gekk mótið ágætlega. Ég spilaði sem framstæður varnarmaður…nei ég meina framsækinn varnarmaður og skoraði meira að segja mark í síðasta leiknum og gulltryggði sigur. Algjört „haka í gólf“ augnablik. Liðið sem við spiluðum við þá hafði að vísu gert þau mistök að drekka kassa af bjór fyrir leikinn en það skyggir þó ekkert á sigurinn. Lokahóf Óþokka fór vel fram, enda að mestu hömlulaust. Hömlulausastur var án efa bloggarinn Einar Haf sem tróð sér inn á skemmtidagskránna til þess eins að gæta eigin hagsmuna og auglýsa bloggsíðuna einarhaf.is. Hóf Þórólfur sóttvarnarlæknir að skrifa nýtt minnisblað þá þegar, enda ljóst að hömluleysi sem þetta gengi einfaldlega ekki upp.

Fullur sjálfstrausts eftir markið og ekki lengur fullur af alkóhóli eftir harkið hélt ég rakleitt heim eftir Pollamótið og tók til við að slá tún og engi í Urðalandi eins og ég gat. Ýmsir takmarkandi þættir valda því að sláttur hér í landareigninni er frekar hæggengur, enda heitir jörðin ekki Urðir út í bláinn. Grjót hér og grjót þar og grjóturðir alls staðar. Afar lítið hefur rignt það sem af er sumri sem veldur því að grjóthörð tún brenna og taka á sig gulbrúnan lit í stað þess hefðbundna græna sem flestir bændur vilja hafa á túnunum. Það breytti því þó ekki að ég sló til og sló frá mér og sló allt sem ég gat slegið og fékk svo verktaka til að klára dæmið. Gunnar múgaði og Kalli rúllaði. Eftir það sló ég á létta strengi en svo sló að mér þannig að ég ákvað að láta þar við sitja.

Áður en þessir atburðir urðu héldu þeir Jói Pé og Króli ásamt hljómsveit tónleika í samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal. Já einmitt. Það gerðist. Rúmlega 120 manns mættu og hlýddu á í afar góðri stemmningu og óaðfinnanlegum aðstæðum. Þegar fréttist að Einar Haf hefði sótt um tækifærisleyfi mætti lögreglan reykspólandi á staðinn og gekk úr skugga um að ekkert misjafnt ætti sér stað á svæðinu. Sem það gerði auðvitað ekki. Það eina misjafna var þegar Einar Haf hellti upp á lapþunnt kaffi en það lagaðist þegar kleinur voru drifnar fram og boðnar til sölu til ágóða fyrir samkomuhúsið. Tilboðið Kleina og Króli mæltist ágætlega fyrir. Að vísu héldu einhverjir að hér væri grín á ferðinni sem það var auðvitað ekki. Höfðust 16.500 kr. upp úr krafsinu sem kemur sér vel í því harða árferði sem samkomuhúsavelunnarar búa við þessa dagana. Jói Pé og Króli fengu sér hvorki kaffi né kleinu heldur héldu þeir uppi rífandi stuði allt þar til yfir lauk. Mun hróður hins aldna samkomuhúss hafa aukist nokkuð eftir þessa vel heppnuðu tónleika og var hann þó all verulegur fyrir. Hlutlaust mat.

Nú er hverju æskugoðinu á fætur öðru slaufað (e. cancelled) og hver afhjúpunin og hvert hneykslismálið rekur annað. Maður er eiginlega orðinn verulega hneykslaður á því hversu mörg hneykslismál þetta eru og mér er misboðið vegna þess hve mörgum er misboðið. Gestalistinn er orðinn auður en kannski væri ráð að pakka í töskurnar og flytja til Bahama með það sama. Af ótta við lögbann og himinháar fjárkröfur verður ítarlegri umfjöllun um mannlega eymd og persónulega harmleiki nafntogaðra einstaklinga að bíða betri tíma. Spennandi.

Það er ekki nóg með að COVID-19, hraunrennsli, nefrennsli, lúsmý og uppstillingarnefnd Miðflokksins leiki þjóðina grátt. Til að bæta gráu ofan á svart skeði sá leiði atburður nýverið að óprúttnir tölvuþrjótar brutu sér leið inn á Instagram reikninga allra helstu lífstílsbloggara og áhrifavalda Íslands með þeim afleiðingum að reikningarnir lokuðust. Fyrir vikið setti marga hljóða og heyra mátti grátur og ekkasog víða, a.m.k. frá mér. Sem betur fer hefur nú ræst úr þessu og lífstílsbloggararnir og áhrifavaldarnir limafögru, þrýstnu og ástsælu hafa endurheimt reikninga sína. Þess má geta að ég bauð nokkrum tölvuþrjótum að hakka sig inn á Instagram reikninginn minn en þeir höfnuðu því allir. Töluverður persónulegur skellur en það gengur bara betur næst.

Hvað er annars að frétta af Ólympíuleikunum?

Í Tókýó keppt er í skvassi og sundi
samhæfðum dýfingum og tækvondó
Í skylmingakeppninni hátt stundi Mundi
og sagði að nú væri komið nóg. 
Hann þoldi ekki lengur að þvælast á sjó.

COVID-19 hefur auðvitað veruleg áhrif á Ólympíuleikana eins og flest annað. Engir áhorfendur fá að mæta á svæðið, keppendur mega ekki taka höndum saman og sóttvarnarreglur eru afar harðar. COVID hefur líka haft áhrif á íþróttakeppnina sjálfa. Sem dæmi um það má nefna nýjar keppnisgreinar á borð við 200 metra grímuburð, 100 metra spritthlaup og samhæfða sóttkví. Ég ræð mér varla fyrir spennu. Búist er við afar góðu gengi íslensku keppendanna miðað við höfðatölu. Áfram Ísland.

Einar í höftum.

Tilvitnun dagsins:

Allir: NEEEEEIIIIIIIIIIII

2 thoughts on “Orðin laus við hömluleysi”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *