Heimkomusmitgátlegu lesendur.
Loksins erum við laus við pláguna. Laus við vágestinn sem valdið hefur okkur óbætanlegu tjóni, heilsubresti, fjárhagstjóni, fjörtjóni, fjöldauppsögnum og almennum leiðindum. Nei ég er auðvitað ekki að tala um COVID-19 heldur er ég að tala um bloggarann Einar Haf. Hann er sem betur fer horfinn af sjónarsviðinu. Er það ekki annars örugglega? Hmm…ég er ekki alveg viss. Best að lesa aðeins lengra og reyna að átta sig á þessu. Lesa lengra í þessari nýju bloggfærslu frá Einari Haf meinar þú? Já….heyrðu bíddu við….Ó NEI!!!!!!!!!
Þessi ótímabæra, óskammfeilna, ósvífna og óumbeðna endurkoma Einars Haf var alls ekki í kortunum. Ekki frekar en slydda í júlí, endurkoma Guðjóns Þórðarsonar í fótboltann eða flugfreyjulaust flugfélag. Beðist er velvirðingar á öllum fyrrgreindum atburðum, þetta kemur vonandi ekki fyrir aftur.
Þegar gerði góða þurrkatíð nú í lok júní ruku Svarfdælingar til, brýndu ljáinn og hófust handa við að slá tún og engi sem mest þeir máttu í þeim tilgangi að koma vetrarforðanum í plast. Gekk það að mestu vel fyrir sig og náðu bændur góðu fóðri en í mismiklu magni þó. Á sumum stöðum komu tún kalin og hvít undan vetri en það var sem betur fer lítið um það á Urðum enda túnin gömul, grýtt, harðgerð og hallandi. Ég tók að mér það hlutverk að vera maðurinn með ljáinn hér á bæ. Eftir að hafa tekið aukaskammt af sjóveikipillum og farið eina ferð í ríkið tókst mér að klára að slá mest krefjandi túnin – og þegar upp var staðið raunar öll túnin sem slá átti. Fyrri slætti lauk á merkilega skömmum tíma en fyrirslætti er langt því frá lokið. Eftir að hey var hirt af túnum hefur nokkuð borið á áburði sem borinn var á og hefur alla burði til að auka sprettu og almenna velsæld þegar fram líða stundir.
Nú fyrir skömmu tók ég ásamt fleirum þátt í hinu árlega Pollamóti á Akureyri. Var það hin besta skemmtun og raunar jókst skemmtunin eftir því sem sprittnotkun útvortis og sprittnotkun innvortis jókst – í þágu sóttvarna. Pollaliðinu sem ég spilaði með var úthýst með tilheyrandi hreinu lofti og sólbrúnku en allir aðrir flokkar spiluðu að mestu innandyra í Boganum. Væntingar um árangur hjá mínu liði voru undir meðallagi og árangurinn var í meðallagi undir væntingum sem voru undir meðallagi. Voru þær væntingar undir væntingum. Leikkerfið sem við spiluðum var svokölluð 3-2-1 sóttvörn. Kerfið gekk út á það að fyrst var sótt og svo var farið í vörn. Þetta virkaði ekki sem skyldi en það gengur bara betur næst. Mín besta frammistaða kom tvímælalaust á lokahófi Umf. Óþokka þar sem ég steig á stokk og dró sjálfan mig sundur og saman í háði við gríðarlega góðar undirtektir viðstaddra. Skyldi engan undra þegar haft er í huga hver ég er.
Nýverið komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að biskup Íslands hefði brotið jafnréttislög þegar karlkyns sóknarpresti var úthlutað brauði í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli en kvenkyns sóknarprestur sat eftir með sárt ennið. Þarna klikkaði biskup illilega á því að gá ekki undir hempur umsækjenda og þreifa fyrir sér til að tryggja jafnrétti en ég áfellist hana reyndar ekki fyrir þessi mistök. Þetta var jú einu sinni skipan sóknarprests í Hvalfjarðarstrandarprestakalli en ekki Hvalfjarðarstrandarprestakonu. Rétt er að hafa í huga að það eru allir jafnir frammi fyrir Guði en sumir eru að vísu jafnari en aðrir. Það er ekki víst að ég jafni mig á þessu alveg strax, jafn heimskulega og það kann að hljóma.
Nýverið var svokölluð hestamessa sungin hér í Urðakirkju. Þar sem ég sit einmitt núna með fartölvuna og notast við svokallaða skýjalausn þar sem gögnin mín vistast sjálfkrafa í skýinu einhvers staðar uppi í sjöunda himni. Nettengingin er líka alveg himnesk. Það er þó önnur saga. Um var að ræða venjulega messu nema með hestaívafi. Segir sig kannski sjálft. Líkt og ávallt var heilmikið tilstand af hálfu heimilisfólskins á Urðum sem rýkur ævinlega upp til handa, fóta og kökukefla þegar sóknarprestum Dalvíkur- og Möðruvallaprestakalls (en ekki konu) dettur í hug að messa í kirkjunni. Slett var í nokkrar tertur, eplaköku og kruðerí, hellt upp á kaffi og þeyttur rjómi og veitingarnar bornar út á þar til gert veisluborð sem við höfðum stillt upp á hlaðinu. Það varð til þess að loksins tók að rigna sem var gott fyrir túnin sem aftur er svo gott fyrir hestana. Nú er ég hins vegar kominn langt út fyrir efnið. Hestamessan já. Þetta var fyrirtaks messa og hin ánægjulegasta kvöldstund, tileinkuð hestamönnum. Hestunum sjálfum var ekki hleypt inn í kirkjuna en þeir fengu að vera í girtu hólfi skammt frá og gera sín stykki þar meðan þeir heyrðu óminn úr guðshúsinu. Þeir vösku hestamenn sem komu ríðandi á fákum sínum til kirkju hlustuðu í andakt á séra Magnús hrossabrest…eða öllu heldur hrossaprest slá í klárinn og ríða á vaðið með hverju guðsorðinu á fætur öðru. Mætingin var vel viðunandi en þess má til gamans geta að messuboðið var ekki sent út símleiðis eða með pósti heldur var það sent út með faxi. Drottinn, miskunna þú hross. Að endingu fór hver til síns heima saddur og sæll. Endir.
Í fleiri vikur setið hef og svitnað sopið kók og étið feitt og fitnað það er ansi mikið að ég COVID-19 kenni um það. Afar fáir kæra sig um kallinn hjá kunningjum í gleymsku og dá er fallinn einkalífið allt í spað ég COVID-19 kenni um það. Ólyktin hér ætlar flest að kæfa og ælubragðið allt að yfirgnæfa í mánuð hef ei farið í bað ég COVID-19 kenni um það. Í fjöllum hríð því júlí boðar haustið hroll og vosbúð fólk er ekki laust við kulnun jarðar á sér stað ég COVID-19 kenni um það. Þetta ljóð er frekar falskt og lúið frábært þætti ef það væri búið sem skáld hef ég ekkert afrekað ég COVID-19 kenni um það.
Þess má til gamans geta að engum flugfreyjum var hótað við gerð þessarar bloggfærslu, nema ef átt er við blíðuhót.
Einar á skeiði.
Tilvitnun dagsins:
Allir: COVID-19!!!
Varst nálægt því að verða forseti á Pollamótinu. Mæli með því að þú farir í næstu kosningar í Hvíta Rússlandi. Tekur þær.
Já ef ég finn svona mikinn meðbyr getur vel verið að ég slái til ☺️