Orðin dæmalaust fordæmalaus

Tilslökuðu lesendur.

Árið 2020 hefur það sem af er boðið upp á endalaust glens, grín og kaldhæðni á háu stigi. Því er það trúlega að bera í bakkafullan lækinn að ætla að fara að spauga eitthvað með ástandið hér á opinberum vettvangi veraldarvefsins. Ég get hins vegar ekki setið lengur þegjandi undir þessu öllu og í ofanálag er sjálf Hvítasunnan ný afstaðin. Þá er heilags anda minnst en það er einmitt þessi heilagi andi sem knýr mig áfram í skrifunum að þessu sinni. Samkvæmt loftgæðamælinum í Urðakirkju á hádegi í dag voru 0,2 míkrógrömm af heilögum anda á hvern rúmmetra en 1,7 míkrógrömm af kirkjuflugum og 2,2 míkrógrömm af postulegri blessun. Því má segja að loft hafi verið lævi blandið og skyldi engan undra.

Nú í byrjun maí gerði staðbundið suðvestan fárviðri í Svarfaðardal með þeim afleiðingum að þak og þakkantur fuku af aldraðri fjóshlöðu sem hér stendur og lenti brakið niðri á túni eftir að hafa haft viðkomu á nokkrum útihúsaþökum til viðbótar og skemmt þau. Til mikillar mildi slasaðist enginn en nokkrum blöskraði. Sem dæmi um hvassviðrið þá fauk þornaður skítur sem borinn hafði verið á heimatúnið og sú mykja sem lenti ekki á íbúðarhúsinu og heimilisfólkinu lenti á öðrum túnum hér utar í landareigninni. Að mínu mati var þetta táknrænt fyrir þá mánuði sem liðnir eru af árinu 2020. Hlaðan sem skemmdist er byggð rétt fyrir miðja síðustu öld og þoldi greinilega ekki þá 50 metra á sekúndu sem boðið var upp á þennan daginn þegar verst lét. Björgunarsveitin á Dalvík bjargaði því að ekki fór enn verr þennan dag og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Síðustu daga hafa smiðir unnið að viðgerðum og endurbótum og er meðal annars búið að stækka hurð sem var sunnan á hlöðustafninum sem skemmdist, þannig að nú er hægt að keyra þar inn og út á liðléttingi. Framkvæmdirnar verða að nokkrum hluta fjármagnaðar af vátryggingafélaginu en einnig hef ég í hyggju að ná niður kostnaðinum með því að bjóða styrktaraðilum að setja vörumerki sitt á nýju hlöðudyrnar gegn sanngjarnri greiðslu. Vonandi fá þær hugmyndir betri hljómgrunn en þegar ég freistaði þess að fá ÁTVR til að styrkja altarisgönguna í Urðakirkju forðum.

Vorverk standa nú yfir í Svarfaðardal og raunar víðar. Sauðburði er víða lokið, jarðvinnsla og áburðardreifing er langt komin en girðingarvinna á nokkuð í land ennþá. Allavega hér á þessari landareign þar sem fjallgirðingin er ekki „nema“ einhverjir fimm kílómetrar og fremur illa farin eftir átök vetrarins. Ég myndi sennilega slá á létta strengi af þessu tilefni ef ekki vildi svo illa til að strengirnir eru allir meira og minna slitnir. Leiðindi.

Talandi um leiðindi. Nú virðist vera yfirvofandi borgarastyrjöld í Bandaríkjunum, ástand heimsmálanna er voveiflegt og örbirgð og hungursneyð blasir við milljónum manna, kvenna og barna. Alda mótmæla hefur skollið á flestum ríkjum Bandaríkjanna eftir nýlegt lögregluofbeldi og útlitið er svart. Ekki náðist í Öldu mótmæla vegna þessarar umfjöllunar.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur verið á nokkru undanhaldi hér á Íslandi síðustu vikur og þykjast einhverjir sjá út úr kófinu eins og það er kallað. Þetta má þakka fumlausum og fáguðum viðbrögðum viðbragðsaðila og Þórólfs sóttvarnarlæknis sem sótt var að á tímabili. Hlýðni almennings hefur spilað stóra rullu í baráttunni við veiruna og hafa allir lagst á eitt þegar kemur að félagslegum fjarlægðarmörkum, þrotlausum handþvotti og því að halda sínum vandamálum innan veggja heimilanna en bera tilfinningar sínar ekki á torg. Auðvitað, það er mun meiri smithætta á torgum heldur en inni á heimilum. Lykillinn að árangri í baráttunni við pláguna er sá að gera líf sitt markvisst leiðinlegra en áður og sneiða hjá öllum bráðsmitandi og stórhættulegum skemmtilegheitum. Þetta hefur haft veruleg áhrif á mig og mína tómstundaiðju enda var ég vanur því mér til skemmtunar að leggja leið mína inn á hjúkrunarheimili og sjúkrastofnanir hér áður fyrr til þess eins að hnerra duglega út í loftið og knúsa svo varnarlausa og bláókunnuga langlegusjúklinga. Þá þótti mér fátt ánægjulegra en að fara í ræktina til að nudda svitanum á æfingatækin og strjúka rökum þjóhnöppunum eftir bekkjunum í búningsklefanum. Þetta þurfti ég að gefa upp á bátinn í þágu sóttvarna ásamt einhverju öðru sem mig minnir að hafi verið kallað félagslíf en er nú löngu gleymt. Þema ársins 2020 = Leiðindi = Öruggt og áhyggjulaust líf. Segir sig sjálft. Góða „skemmtun“ áfram.

Yfirvöld eru þessa dagana að telja í sig kjark til að geta opnað landið að nýju fyrir ferðamönnum án þess að ferðamennirnir þurfi í sóttkví við komuna til landsins. Ekki eru allir á eitt sáttir varðandi þetta mál, enda hefur það margoft sýnt sig að flest hið illa sem plagar Íslendinga kemur að utan. Hver man ekki eftir riðuveika hrútnum sem var fluttur hingað frá Bretlandseyjum á 19. öld? Við erum enn að súpa seyðið af því. Hver man ekki eftir Tyrkjaráninu, móðuharðindunum og spænsku veikinni? Hver man ekki eftir iðnaðarsaltinu, pönkinu, Bobby Fischer og Keikó? Ég held að við ættum að passa okkur áður en við förum að hleypa hverjum sem er hingað á eyjuna okkar hreinu og fögru aftur. Við erum nefnilega fullfær um að klúðra málunum sjálf og þurfum engin útlend áhrif til þess. Til dæmis hefur umgengni við sumar náttúruperlur versnað til muna eftir að ferðamennirnir fóru og Íslendingar sátu einir að óspilltri náttúru. Það er ekki svo mikill munur á spilltri náttúru og óspilltri náttúru. Bara eitt ó…eða Ó! – og þá er búið að spilla öllu.

Covid-19 hefur ekki greinst í Svarfaðardal enn sem komið er svo vitað sé og er það vel. Hér áðan var minnst á riðuveikan hrút frá Bretlandseyjum og raunar er það mín tilgáta að veira á borð við þá sem veldur Covid-19 þrífist ekki hér á svarfdælskri grund þar sem veiran þarf að lúta í lægri haldi fyrir riðu, gin- og klaufaveiki og öðrum búfjársjúkdómum sem hafa þrifist hér mun lengur og erfitt er að gera burtræka. Meira að segja fyrir útlenska drepsótt.

Nú er hin svokallaða tveggja metra regla orðin valkvæð. Þetta þýðir að einstaklingar geta verið nær hvorum öðrum en sem nemur tveimur metrum en þeir geta líka verið fjær. Annar tveggja getur ákveðið að vera nær en hinn fjær og er það undir hverjum og einum komið þegar svo er komið. Ef upp kemur smit hefði viðkomandi einstaklingi verið nær að vera fjær en vonandi nær hann sér samt fljótt aftur. Vegna tveggja metra reglunnar hefur skemmtanahald verið með fremur óhefðbundnu sniði undanfarið, það er að segja það skemmtanahald sem á annað borð hefur ekki verið slegið af. Aðeins má hafa bari og skemmtistaði opna til kl. 23:00 og því hefur fólk þurft að grípa til þess ráðs að sturta í sig mun fyrr og á mun skemmri tíma en venjulega – í þágu sóttvarna. Ef þú þarft að æla eftir stífa seinniparts hraðdrykkju er gott að viðhalda tveggja metra reglunni þannig að gumsið lendi ekki á næsta manni. Þrátt fyrir allra handa hörmungar og hömlur er gert ráð fyrir að gangnaball Svarfdælinga í samkomuhúsinu Höfða fari fram án hafta sunnudagskvöldið 13. september. Á teikniborðinu er að bjóða upp á sérstakt úrræði fyrir þá sem vilja halda tveggja metra reglunni á ballinu með því að girða af lítil tveggja metra svæði úti á túninu norðan við húsið með öflugri rafmagnsgirðingu – svokölluð VIP stæði. Þar getur fólk hólfað sig af og heyrt óminn af ballinu um leið, að því gefnu að það hafi greitt aðgangseyrinn. Leitað verður ráða hjá almannavörnum, sóttvarnarlækni, fjallskilastjóra, biskupsstofu og héraðsdýralækni þegar nær dregur varðandi nánari útfærslu.

Eftir langan og grimman vetur eiga ýmsir um sárt að binda. Þar á meðal hinar svarfdælsku vegstikur sem liggja margar hverjar í valnum. Fyrir skemmstu tók ég mig til og samdi ljóð hinni svarfdælsku vegstiku til heiðurs.

Í vegkantinum stóð hún hrein og fögur
húðin gul með gráleitt endurskin.
Hávaxin og fríð en frekar mögur
framhjá henni æddi umferðin.

Að vísa veginn gerði hún með sóma
villtir gátu rambað rétta leið,
svo laus við allan hroka og hleypidóma
hjálpað gat hún bílstjórum í neyð.

Svo ríkti dimmur vetur yfir dalnum
drifhvít mjöllin færði allt á kaf.
Vegvísirinn liggur nú í valnum
vetrarríkið lifði ekki af.

Snjóblásarinn sundur hana tætti
sendi burt á feðra sinna fund.
Mærin gul sem eitt sinn vegar gætti
götótt liggur nú á kaldri grund.

Er ég að gleyma einhverju? Nei ég hef engu gleymt. Eða jú kannski. Man það ekki alveg. Það kemur þá bara í ljós í næstu bloggfærslu.

Þess má til gamans geta að grasið er ekki endilega grænna hinum megin. Það veltur á því hversu grænt það er þeim megin sem þú ert.

Einar í tvo metra.

Tilvitnun dagsins:

Allir: LEIÐINDI!!!

2 thoughts on “Orðin dæmalaust fordæmalaus”

  1. Ég er að vinna með tveggja og hálfs mánaðar regluna í tengslum við lestur á bloggsíðum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *