Orð í verulegum páska

Uggandi lesendur.

Í ljósi stöðunnar sem uppi er í þjóðfélaginu og vegna skorts á andlegri næringu um páskana hef ég ákveðið, að höfðu samráði við Biskupsstofu, prestaráð, almannavarnir og ríkisráð að ráðast í gerð eins og einnar páskahugvekju til opinberrar birtingar. Á efnisskránni er meðal annars útdráttur úr passíusálmunum, opinskátt viðtal við páskahérann, páskaeggjafeluleikur, biblíulegar tilvísanir og beitt umfjöllun um krossfestingar að fornu og nýju. Rúsínan í pylsuendanum er svo hið árlega kraftaverk. Ekki reyndist unnt að fá Jesús til að breyta vatni í vín að þessu sinni en þess í stað mun Áslaug Arna dómsmálaráðherra breyta ÁTVR í vefverslun í lok bloggfærslunnar, sem telst nokkurt kraftaverk. Við fylgjumst spennt með. Eða ekki.

Rétt er að halda því til haga að í dag er föstudagurinn langi, sorglegasti dagur ársins samkvæmt kristnu tímatali. Það er því auðvitað engin tilviljun að hugvekjan sé birt á þessum degi.

Jesús Kristur var fyrsti áhrifavaldurinn sem eitthvað kvað að. Fræðimenn eru ekki sammála um hversu marga fylgjendur hann átti enda hefur Instagram reikningur hans ekki varðveist en þó er vitað að þeir skiptu hundruðum þúsunda. Líkt og gamla testamentið greinir frá fékk Jesús flest læk þegar hann gekk á vatni, enda hafði þá lítið sem ekkert vatn runnið til sjávar. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Lækin voru litlu færri þegar Jesús brauðfæddi þúsundir fylgjenda sinna með fimm brauðum og tveimur fiskum en önnur kraftaverk féllu nokkuð í skuggann af þessu. Nú þegar allt er í kalda koli, ruglað og öfugsnúið í veröldinni er rétt að minnast lífshlaups frelsarans og þeirra ótrúlegu þjáninga sem hann upplifði í þágu mannanna. Lesendur tengja hugsanlega eitthvað við þetta þegar þeir pína sig gegnum þessa hugvekju.

Jesús Kristur er enn þann dag í dag í fremstu röð meðal áhrifavalda. Þetta sést ágætlega á því að nú safnar almenningur hári án afláts og gengur um í þægilegum klæðnaði, ekki ósvipað og frelsarinn gerði undir það síðasta. Von er á afar neikvæðum hagvexti en mjög jákvæðum hárvexti hér á landi næstu vikurnar, eða þar til óhætt verður að opna hársnyrtistofur að nýju. Spennan er óbærileg. Allavega sú sem er í hárinu.

Eins og einhverjir muna var helgidagafriður hér á landi afnuminn með lagasetningu á Alþingi síðasta sumar, í boði nýfrjálshyggju og algjörlega í minni óþökk. Höfðu margir léttþenkjandi píratar, lattélepjandi 101 himpigimpi og auðtrúa trúleysingjar hugsað sér gott til glóðarinnar og sáu fyrir sér hömlulaust fjör, drykkju, dans og bingóspil á föstudaginn langa. Þvílík flón. Æðri máttarvöld (almannavarnir í samstarfi við almættið) gripu sem betur fer í taumana og lögðu blátt bann við öllum mannamótum og skemmtanahaldi næstu vikurnar, þannig að helgidagafriðurinn er rækilega tryggður. Mátulegt á þessa bingósjúku vitleysinga sem þurfa nú annað hvort að sitja heima hjá sér og skammast sín eða fela sig í sumarbústaðnum í óþökk Víðis Reynissonar. Verði þeim það að góðu.

Yfirstandandi samkomubann hefur haft gríðarleg áhrif á allt þjóðlífið. Þó eru undantekningar þar á. Ég verð til dæmis lítið var við þetta persónulega enda alvanur því að loka mig af og bíða af mér allskonar hörmungar og leiðindi. Þá gengur lífið nokkurn veginn sinn vanagang í Svarfaðardal og til sveita almennt – enda auðveldara að eiga við óværur eins og þá sem nú gengur yfir í dreifbýlinu. Ýmsar ytri aðstæður hafa hægt á dreifingu kórónaveirunnar í Svarfaðardal, svo sem viðvarandi ófærð og holóttir malarvegir. Það eru því engir á ferð nema þeir nauðsynlega þurfi þess. Bændur halda sínu striki og gera allt eins og venjulega nema hvað að það má ekki flaðra upp um sæðarann, kjassa sorphirðumennina, knúsa mjólkurbílsstjórann, sleikja upp olíubílstjórann eða þreifa á fóðurblöndubílstjóranum sem stendur. Von er á risastóru hópknúsi þegar sóttvarnarlæknir gefur grænt ljós á slíkt.

Síðustu vikur hefur það komið bersýnilega í ljós að margir hverjir þola engan veginn við heima hjá sér og stefnir víða í óefni. Dæmin eru mýmörg. Makinn nöldrandi, krakkarnir gargandi, kötturinn hvæsandi, hundurinn organdi, sjónvarpsfréttirnar hræðandi og taugatitringurinn undir niðri kraumandi. Þeir sem lifa tvöföldu lífi hafa orðið sérstaklega illa úti við þær aðstæður sem nú ríkja og hafa sumir neyðst til að sinna viðhaldi heima hjá sér í staðinn. Tilboð byggingavöruverslana eru dæmi um það. Þá eru innbrotsþjófar margir hverjir komnir á atvinnuleysisbætur enda ekki nokkur lifandi leið að brjótast einhvers staðar inn þegar allir eru heima hjá sér.

Nú á dögum er hver búðarferð verulega áhættusöm. Engin leið er að vita hver hefur hnerrað hvar, hver hefur slefað yfir hvaða súkkulaðibréf og hver hefur nuddað sér upp við hvaða Cherios pakka. Hver snerting er varasöm, jafnvel baneitruð – og því eru skipulag og leikkerfi mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Ég fór í Nettó á Glerártorgi nú í aðdraganda páskanna til að fylla á forðabúr Urðabænda. Mætti ég afar vel undirbúinn til leiks, vopnaður mílulöngum innkaupalista. Í aðdragandanum hafði ég tekið þrjá myndbandsfundi með sjálfum mér þar sem ég skoðaði upplegg andstæðinganna og þá hafði ég rissað upp hvernig leikkerfi ég myndi spila þegar á hólminn væri komið. Aðalmálið var að skapa sér pláss á vellinum og viðhalda tveimur metrunum. Kerfið sem ég lagði upp með var kairó hægri með júggafærslu-spritt-grænmeti-brauð-mjólkurkælir-nammi-brauð-kex-súpur-álegg-kjötmeti-nammi-frystir-nammi-frystir-nammi (gabbhreyfing)-lífrænt (stutt stopp)-súpur-sósur-niðursuða-nammi-klósettpappír-nammi og drykkjarföng en auðvitað riðlaðist leikskipulagið eitthvað þegar í búðina var komið. Það spilar jú enginn betur en andstæðingurinn leyfir og enginn kaupir meira en innkaupalistinn og inneignin á kortinu leyfir. Dómarar og línuverðir voru á hverju strái og dæmdu umsvifalaust skref aftur á bak og tvo metra ef ástæða þótti til. Fólkið á moppunum var mjög virkt og sprittkeimurinn sveif yfir rekkunum. Vel gekk að komast að afgreiðslukassanum þar sem ég sveif inn af tveggja metra línunni eftir gott gegnumbrot. Eftir sprittaða kortastraujun forðaði ég mér á hlaupum með allt góssið.

Samkvæmt því sem ég hef í heimóttarskap mínum látið frá mér fara í páskahugvekjum fyrri ára eru algjörir draumapáskar í uppsiglingu. Fólk er ekki erlendis á skíðum að góðæra sig í drasl eða sleikjandi sólina við Miðjarðarhafið. Ó nei. Fólk er þess í stað guðhrætt heima hjá sér að hugsa um krossfestingu Krists á meðan það snæðir kindabjúgu. Getur þetta verið eitthvað dásamlegra? Ég held ekki. Óttist eigi kæru landar. Sauðkindin mun koma okkur í gegnum þetta hallæri líkt og öll hin fyrri. Sannið þið bara til.

Þjóðin núna þjökuð er
þjáist líkt og frelsarinn.
Líf mun lagast, trúið mér
ljósgeislinn er upprisinn.

Ef einhverjir vilja negla mig fyrir þetta þá verð ég að taka þann skell. Annars vona ég að þið eigið ánægjulega páskahátíð og gleðilega upprisu.

Þessi krossfesting var í boði Límtré vírnets og Golgate, tannkrem fyrir lengra komna.

Friður sé með yður. Amen.

Bak við predikunarstólinn í Urðakirkju, föstudaginn lengsta 2020.

Séra Einar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:

Allir: ÞAÐ ER BARA EIN F***ING REGLA…OG ÞAÐ ER AÐ NEGLA!

2 thoughts on “Orð í verulegum páska”

  1. Takk lesandi nr. 1.
    Ég set villur í bloggfærslurnar viljandi, svona til að krydda þetta fyrir lesendur 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *