Orðin verulega jólaleg

Erindi í tilefni yfirvofandi jólahátíðar, birt í jólablaði DB blaðsins 2019. Birt hér á netinu í dag í tilefni afmælis Einars Haf, ábyrgðarmanns og eiganda einarhaf.is. Einarhaf.is – lögheimili hins raunverulega sannleika á veraldarvefnum síðan árið 2015. Góðar stundir.

Jólalegu lesendur.

Ritstjóri þessa ágæta blaðs sem þið eruð nú að lesa vildi tjalda öllu til þegar kæmi að jólaútgáfunni. Það er vel skiljanlegt, fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er og allra síst nú þegar hátíð ljóss, friðar og fullkomnunaráráttu er á næsta leyti. Í ljósi þessa kann það sem hér fer á eftir að koma spánskt…eða svarfdælskt fyrir sjónir. JólaEinar Haf…gjörið þið svo vel. 

Hvað er málið með jólasveinana? Förum aðeins yfir þetta. Stekkjarstaur kom fyrstur, hann spilaði á hristur og gerðist síðan þyrstur. Giljagaur var annar, í amstri jólaannar hann sagði sögur sannar. Stúfur hét sá þriðji og ég á í vandræðum með að ríma við það.  Já nú streyma þeir heldur betur til byggða, úfnir og uppivöðslusamir með afar undarlegan ásetning í huga. Þessir góðlegu sveinar sem gefa þægum börnum gott í skóinn, syngja jólalög óumbeðið og blaðalaust og borða mandarínur í öll mál. Sagnfræðingar hafa löngum velt fyrir sér uppruna sveinanna og hvað þeim gengur til en ekki komist að neinni niðurstöðu ennþá. Talið er að jólasveinar hafi borist hingað með fyrstu landnámsmönnunum og fljótlega náð að hreiðra um sig í íslenskri náttúru í félagi við kindur, kýr og annan búfénað. Þeir hafi hins vegar ekki náð sér almennilega á strik fyrr en eftir siðaskipti, af augljósum ástæðum. Um leið og jólin komu til sögunnar komust jólasveinarnir í tísku og hafa þeir náð að viðhalda almennum vinsældum sínum fram á þennan dag þrátt fyrir að hafa hvorki tileinkað sér nútímatækni eða siðmenntaða lifnaðarhætti. Jólasveinarnir gætu þó þurft að fara að hugsa sinn gang í náinni framtíð og stofna instagram reikning ef þeir ætla ekki að láta brúnlitaða og bikiníklædda áhrifavalda hrekja sig burt af vinsældamarkaðnum. Það er önnur og sorglegri saga.

Nú standa yfir tilhleypingar, öðru nafni fjárdráttur, í fjárhúsum landsmanna – sem segja má að sé nokkuð kindarlegt. Gjálíf kindanna er fyrirboði stórhátíðanna sem framundan eru og jólin byrja svo sannarlega ekki í IKEA heldur í fjárhúsinu (undantekningin á því er ef að geitin brennur). Þó er vissulega frekar lágt risið á þeim hrútum sem hefur verið skipt út fyrir aðkeypt og kynbætt ofurmódel í stráum sæðingamanna. Ráðunautar hafa nefnilega heilaþvegið marga sauðfjárbændur og talið þeim trú um að fyrir rétt verð fái þeir að vori lömb til undaneldis sem sverja sig í ætt við þær glansmyndir sem sjást í hinni árlegu hrútaskrá ef viðkomandi bændur láta sæða með sæði umræddra hrúta-ofurmódela. Í hrútaskránni er hins vegar búið að teygja og toga ýmislegt til á myndunum sem þar birtast af hrútunum; þykkja bakvöðva, breikka bil milli framfóta og setja fyllingu í brjóst og varir svo eitthvað sé nefnt. Eins og tæknin er í dag er ekkert mál að blekkja grunlausa lesendur. Líkt og á áðurnefndu instagrammi er ekki allt eins og það sýnist í þessari hrútaskrá. Hinir óheppnu og afskiptu hrútar sem spilaðir eru af meðan sæðingamaðurinn athafnar sig farast úr vonbrigðum og greddu en sumir bændur hafa leyst þetta skemmtilega vandamál með því að láta hrútana horfa á beina útsendingu frá Alþingi. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að stíft áhorf á umræður frá Alþingi drepur alla kynhvöt og hefur svæfandi og sljóvgandi áhrif bæði á menn og skepnur.

Fjárhús koma einmitt mikið við sögu í jólaguðspjallinu þar sem greint er frá fæðingu frelsarans. Þau María og Jósep enduðu í fjárhúsinu á Betlehemsvöllum á sínum tíma þar sem allt var uppbókað í gistihúsum bæjarins. Samtímaheimildum ber saman um að þar hafi verið á ferðinni asískir ferðamenn í norðurljósaskoðun sem uppbókuðu öll gistipláss á svæðinu hvort sem það voru hótel, gistiheimili eða AirBnB heimagistingar. María og Jósep enduðu því í fjárhúsinu á miðjum fengitímanum eftir að hafa klofað skaflana og hríðarbylinn í skammdegisgaddi eyðimerkurinnar. Ætla má að í fjárhúsinu hafi verið mikið líf og fjör eins og yfirleitt er í fjárhúsum á þessum árstíma. Raunar voru það mjög líklega ekki bara vitringar sem komu í heimsókn þetta kvöld heldur einnig bændur og sæðingamenn sem voru að líta til með gangi mála hjá kindunum. Engum sögum fer af sauðburðinum í Betlehem vorið eftir en að öllum líkindum var hann alveg himneskur.

Kaupmenn hafa nú í aðdraganda jólanna gert allt sem í þeirra valdi stendur til að pranga inn á neytendur alls kyns dóti og gúmmelaði sem neytendur höfðu ekki hugmynd um að þeir þyrftu á að halda fyrr en kaupmennirnir seldu þeim þá hugmynd. Allt byrjaði þetta á hinum svokallaða svarta föstudegi og ekki tók betra við á stafrænum mánudegi sem stóð jafnvel í marga daga eins undarlega og það kann að hljóma. Síðan þá hefur neyslan stigvaxið og sér enn ekki fyrir endann á nú þegar skammt er til jóla. Þökk sé góðhjörtuðum lánastofnunum og aðilum á borð við Netgíró þarf ekki að borga neitt fyrr en í febrúar, sem betur fer. Ef neyslukapphlaupið heldur fram sem horfir mun febrúar ekki færa okkur neina svarta föstudaga eða stafræna mánudaga heldur miklu frekar fátæka föstudaga, lögheimtu laugardaga og skuldafangelsis sunnudaga. Gætum hófs og eyðum ekki í óþarfa. Við skulum heldur ekki eyða okkar dýrmæta tíma á aðventunni í lestur misgáfulegra pistla sem skilja ekkert eftir sig. Eða hvað? Haha…þarna plataði ég ykkur laglega.

Hvað er svo best að fá í skóinn? Nú auðvitað innlegg. Eða þá táfýlusprey í einhverjum tilfellum.

Mastercard eða vísa? Vísa skal það vera. Hún hljómar svona:

Í fjárhúsi frelsarans boðskapur skýr
þulinn er upp fyrir stóra og smáa;
fagnið þið lífinu fallegu dýr
friður á jörð milli hrúta og áa.

Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Einar Hafliðason

One thought on “Orðin verulega jólaleg”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *