Góðir Íslendingar.
Við áramót er það hverjum manni hollt og nauðsynlegt að staldra aðeins við og líta yfir farinn veg, horfa í eigin barm og annarra, barma sér, horfa um öxl, yppa öxlum og fyllast heift og reiði yfir öllu því sem miður fór á árinu sem er alveg við það að renna sitt skeið. Áramót eru kjörinn tími til að gráta það liðna, sýta það sem ekki varð og tárast yfir því sem ekki verður. Núna til dæmis eru einhverjir lesendur þessarar síðu gnístandi tönnum yfir því að þessi áramótahugvekja skuli hafa farið í loftið. Þessi áramótahugvekja er að mestu unnin upp úr áramótaávarpi forsætisráðherra sem lekið var á netið, nýársprédikun biskups sem einnig var lekið á netið og nýútkominni bók Jóns Baldvins sem enginn vildi leka á netið. Lesendur mega því eiga von á farsakenndri og ótrúverðugri hugvekju með trúarlegu ívafi en það er engin breyting frá fyrri árum.
Hvað hefur áunnist og hvers er að vænta á ári komanda? Það er ekki nema von að spurt sé. Þó nokkuð hefur áunnist á árinu í eilífri kjarabaráttu hinna vinnandi stétta. Það sem bar hæst í kjarabótum ársins sem er hér um bil alveg að líða undir lok voru tvímælalaust launahækkanir og stytting vinnuvikunnar. Vinnuveitendur náðu þar að gabba saklaust launafólk og verkalýðsforystuna upp úr skónum einu sinni enn þar sem árið 2020 er hlaupár og þar af leiðandi lengra en hin fyrri ár – og því verður þessi stytting vinnuvikunnar að engu þegar árið 2020 verður tekið saman þar sem unnar klukkustundir verða alveg jafn margar og áður. Spæling.
Ísland er harðbýlt land og hér býr þar af leiðandi harðgert fólk. Óblíð náttúruöfl og margháttuð hallæri hafa mótað íslenska þjóðarsál í aldaraðir og gert okkur Íslendinga að því sem við erum í dag. Hér hefur þjóðin þraukað gegnum drepsóttir, plágur, stórviðri og hörmungar af ýmsu tagi og þrátt fyrir mikið mannfall oft á tíðum rísum við alltaf upp sterkari og einbeittari á eftir (það er að segja þeir sem lifa af drepsóttirnar, plágurnar, stórviðrin og hörmungarnar), staðráðin í að þrauka áfram hér norður við ysta sæ afskipt frá hinum stóra umheimi. Þetta kemur ágætlega fram í kvæðinu Fóbó eftir hinn geðþekka gyllitannarappara Herra Hnetusmjör:
Spilaði aldrei fóbó, spila showin (Já)
Ég seldi ekki kókó, seldi tónlist (Já)
Lærði ekki fyrir tíur, lærði á leikinn (Já)
Og ég pældi ekki í píum, pældi í pening (Já)
Spilaði aldrei fóbó, spila showin (Já)
Ég seldi ekki kókó, seldi tónlist (Já)
Lærði ekki fyrir tíur, lærði á leikinn (Já)
Og ég pældi ekki í píum, pældi í pening (Já)
Já hér hefði ég kannski átt að vitna í skáld á borð við Jónas Hallgrímsson, Davíð Stefánsson eða Kristján frá Djúpalæk en ég vildi prófa að poppa þetta aðeins upp og vera hipp og kúl. Það voru mistök. Sú kynslóð sem erfa mun landið hefur nú þegar slegið tóninn eins og þetta dæmi sýnir og raunar ekki bara slegið tóninn heldur rappað falska engilsaxneskublandaða tóna svo mjög að mörgum hrýs hugur. Ég er einn þeirra enda tel ég mig hvorki tilheyra gömlu eða nýju kynslóðinni. Ég er einhvers staðar á óræðu svæði þarna á milli og brúa kynslóðabilið; hneykslaður á öllu sem hristir í stoðum gamalla og góðra gilda en samt í leit að viðurkenningu yngri kynslóða og þrái fátt heitar en að þykja móðins.
Fátt þykir einmitt meira móðins en að vera áhrifavaldur á samfélagsmiðlum. Áhrifavaldar eru margir hverjir í guðatölu og hafa skipað sér sess meðal þeirra sem helst sjá þjóð vorri farboða, ásamt sjómönnum, bændum, ferðaþjónustuaðilum og fasteignasölum. Enginn hefur þó enn fattað nákvæmlega hvernig þessir áhrifavaldar gagnast okkur en þeir gera það nú samt. Lýtalæknar fagna til að mynda mjög þessum vinsældum enda er það áhrifavöldum að þakka að ungmenni greiða lýtalæknum himinháar fjárhæðir í skiptum fyrir fallegri kjálkalínur, þrýstnari varir og útblásnari þjóhnappa svo eitthvað sé nefnt. Útlitið er svo sannarlega gott og verður trúlega enn betra á næsta ári þökk sé lýtalæknunum. Hún hefur nú aldeilis með sér útlitið hún Fríður. Já hún hefur það frá föður sínum, hann er lýtalæknir (Kaffibrúsakarlarnir, mæli með – þetta er ekki auglýsing samt #ad). Eini gallinn er að áhrifavaldar hafa hrifsað til sín stóran hluta þess fjár sem fyrirtæki hér á landi eyða í auglýsingar og styrki og eftir sitja afreksíþróttamennirnir okkar fjársveltir og árangurssnauðir – og ná ekki að tryggja sér sæti á næstu ólympíuleikum, hvað þá að fjármagna ferðina. Rétt væri að senda áhrifavaldana á ólympíuleikana í Tókýó á næsta ári þar sem væri til dæmis hægt að láta þá keppa í fyrirhuguðum sýningargreinum á borð við pósur, 100 metra lífsgæðakapphlaup og sjálfshygli án atrennu. Nei ég segi svona bara.
Krúttupúttulegu landsmenn. Íslensk þjóð er þjóð meðal þjóða en þá er ég bara að vísa til svona meðalþjóða. Hér á Íslandi er loftið tært, náttúran einstök, vatnið ferskt, íbúarnir gáfaðir og áramótahugvekjurnar óskiljanlegar. Hér er siðgæði mest, spilling minnst og sakleysið alltumlykjandi. Við erum sterkust, heilsusamlegust, sjálfbærust, jafnréttust, jafnlaunavottuðust, lyfjuðust og fallegust miðað við höfðatölu. Já við höfum náð ótrúlega miklum árangri á ótrúlega stuttum tíma í sögulegu samhengi miðað við höfðatölu. Og jafnvel þó við miðum ekki við höfðatölu erum við samt best. Rétt er að hafa þetta í huga þegar gefur á bátinn og við þurfum á hughreystingu að halda. Höfin súrna, heimurinn hlýnar og öfgarnar aukast en það er ekki við okkur að sakast enda erum við svo fá og svo saklaus og í þörf fyrir grimmt kolefnisfótspor til að lifa af samanber það sem áður var nefnt.
Góðir landsmenn. Hinn kyngimagnaði sagna- og menningararfur okkar Íslendinga er óþrjótandi uppspretta nýrrar hugsunar og nýrra tækifæra fyrir karlmenn. Jónas Hallgrímsson, Hallgrímur Pétursson, Þórbergur Þórðarson, Egill Skallagrímsson, Halldór Laxnes, Sjón, Megas og Matthías Jochumsson eru aðeins nokkrir þeirra karla sem náð hafa að kafsigla konur í áramótahugvekjum á borð við þessa gegnum árin og áratugina. Sagnaarfurinn er körlum í hag enda er sagan skrifuð af körlum og fjallar um karla í öllum meginatriðum. Konum hefur sem betur fer fjölgað á seinni árum og eru þær nú nokkuð áberandi en betur má ef duga skal. Hér á bloggsíðu Einars Haf er unnið samkvæmt jafnréttisáætlun og byggt á kynrænu sjálfræði, kynjasamþættingu og samþættum jafnréttissjónarmiðum. Það sem hefur helst staðið þessari stefnu fyrir þrifum er sú staðreynd að það vinnur engin kona hér við bloggsíðuna og raunar má þakka fyrir ef ég vinn sjálfur hér.
Líkt og hér hefur verið nefnt hefur ótal margt orðið til þess að við höfum getað lifað af kynslóð eftir kynslóð hér í þessu norðlæga harðbýla landi. Aðalatriðið er þó ónefnt og það er íslenska sauðkindin. Sauðkindin, þessi tignarlega og ærlega skepna sem skipar fastan sess í öllum áramótahugvekjum Einars Haf. Sauðkindin sem með gæsku sinni og gjafmildi hefur haldið lífinu í okkur Íslendingum með kjöti, ull og innmat að ótöldum félagsskapnum. Göngur og réttir eru ein fjögurra stórhátíða í Svarfaðardal (ásamt jólum, páskum og þorrablóti) og þar fer sauðkindin fremst í flokki. Já, hún er fremst og smalarnir koma í humátt á eftir. Þið skiljið. Sauðkindin spilar stóra rullu í félagslífi hinna dreifðu byggða en það skilja borgarbúar auðvitað ekki. Í landinu búa tvær þjóðir; þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hinir kindarlegu og oft á tíðum rafmagns- og hitavatnslausu dreifbýlingar hins vegar.
Góðir landsmenn. Hvað svo sem nýárs blessuð sól boðar okkur er ljóst að það er full ástæða til bjartsýni og svartsýni nú um áramót. Við skulum gleðjast en ganga þó afar hljóðlega um gleðinnar dyr. Við skulum gera vel við okkur í mat og drykk án þess þó að ofgera okkur. Við skulum stunda heilsusamlegt líferni en þó ekki gleyma að lifa og njóta. Við skulum horfa á áramótaskaupið og hlæja en gráta samt pínu líka. Við skulum sprengja tívolíbombur en samt hugsa hlýlega til umhverfisins og mengunarinnar sem er allt að drepa. Við skulum halda áfram að lifa hálft í hvoru á góðan og slæman hátt því það er jú það sem gefur lífinu gildi. Umfram allt skulum við hugsa fallega til sauðkindarinnar meðan við borðum lambakjötið.
Í upphafi skyldi endinn skoða. Þess vegna skil ég það ósköp vel ef þið hafið byrjað að lesa hugvekjuna hér. Þið ráðið svo sem hvort þið byrjið á byrjuninni eða ekki. Nú um áramót er ný byrjun, nýtt upphaf og Einar Haf. Tækifærin bíða okkar. Það er bara spurning hvernig við bregðumst við. Verður heppnin á okkar bandi? Munum við verða Evrópumeistarar í handbolta? Mun Ástþór Magnússon fara í forsetaframboð? Fer nýtt flugfélag í loftið? Verður malarvegurinn í Svarfaðardal friðaður? Hættir Einar Haf ekki örugglega að blogga? Enginn veit hvað verður en þó er vitað að allt fer einhvern veginn sama hversu tvísýnt það kann að vera.
Tappinn brátt úr flösku fer,
fögnum nýju ári.
Gleðjumst eins og kostur er
engu störtum fári,
þó togni stöku nári.
Þegar öllu er á botninn hvolft og þegar allt kemur til alls er ekkert annað hægt að gera um áramótin en að slá öllu upp í kæruleysi, láta allt reka á reiðanum og láta gamla árið lönd og leið. Að því sögðu óska ég ykkur öllum gleðilegs árs með þakklæti fyrir dyggan stuðning og auðsýnt vinarþel á árinu sem er að líða. Megi nýja árið færa ykkur öllum gleði, frið og færri vandræðalegar bloggfærslur.
Ræstikompan á Bessastöðum 31. desember 2019
Einar Okkar Hafliðason
Tilvitnun dagsins
Allir: FYLLERÍ!!!
Gleðilegt nýtt ár og takk kærlega fyrir skrifin undanfarin ár.