Orðin þokkafull og fyllri

Fullu lesendur.

Máninn veður í skýjum. Ég veð elginn og lesendur vaða reykinn. Íslenska þjóðin veður í villu og svima og sama hvaða veður er, þá gerum við ekki veður út af því. Ég læt aldeilis vaða á súðum hér í inngangi en stundum verður bara að láta vaða.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að engir kvótaeigendur voru krossfestir við gerð þessarar bloggfærslu. Hins vegar ætla ég að vera með kvót í lok bloggfærslunnar. Kvót er það sem að á íslensku heitir tilvitnun (e. quote) . Þarna var ég aðeins að gera að gamni mínu svona í tilefni af nýliðnum degi íslenskrar tungu. Tungan sú er kannski með svartan blett á sér – það fer eftir því við hvern er átt hverju sinni. Það er önnur saga.

Í gær var sem sagt haldið upp á dag íslenskrar tungu. Dagurinn er tileinkaður hinum tungulipru og þeim sem ganga um með lafandi tungu dagana langa. Það er vel við hæfi að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember skuli hafa orðið fyrir valinu enda á íslensk tunga honum mikið að þakka. Ástarstjörnu yfir hraundranga skýla næturský – í Kaupmannahöfn orti og fór á kenderí. Vinsældir Jónasar hafa aukist verulega hin síðari ár í kjölfar þess að 10.000 króna seðillinn var búinn til og gefinn út honum til heiðurs. Síðan þá hefur Jónas verið auðfúsugestur í hverju veski.

Það kostar einmitt bara nokkra Jónasa að láta hressa upp á eigið útlit. Nú færist það sífellt meira í vöxt að fólk fari í fegrunaraðgerðir sem eru jafnvel framkvæmdar af viðvaningum í heimahúsum, baksundum og bílskúrum. Þá er alls konar hættulegum eiturefnum á borð við kítti, frauð og sílikon sprautað í líkama fólks og skinnbútar færðir til með frumstæðum verkfærum utan alls regluverks og án eftirlits heilbrigðisyfirvalda. Sérstaklega hafa saklausar og varnarlausar ungar stúlkur og aðþrengdar ráðvilltar eiginkonur orðið fyrir barðinu á fegrunaraðgerðaplágunni enda hafa vitfirrtir samfélagsmiðlar og klæðalitlir brúngljáandi áhrifavaldar brenglað gildismat þeirra svo mjög að allri skynsemi er kastað fyrir róða. Allar konurnar vilja jú fá fylltar varir, lögulega líkamsbyggingu og fullkomna kjálkalínu. Útlitið hefur oft verið slæmt en aldrei sem nú. Þá er ég ekki að tala um útlit umræddra kvenna heldur mitt eigið útlit. Annars er fólk yfirleitt mun fallegra fyrir fegrunaraðgerðirnar heldur en að þeim loknum. Í skrifum mínum gegnum árin hef ég lagt mikla áherslu á innri fegurð þar sem það er marg sannað að flagð er undir fögru skinni. Tal mitt um innri fegurð tengist því ekki á nokkurn hátt að ég sé stórbeinóttur, með skakkt nef og í yfirþyngd. Alls ekki. Ef og þegar ég ákveð að fara í fegrunaraðgerð verður það gert að mjög ígrunduðu máli, eftir mikla yfirlegu og að undangengnu útboði meðal iðnaðarmanna og verktaka á evrópska efnahagssvæðinu sbr. lög um opinber útboð þegar um stórframkvæmdir er að ræða.

Það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að málefni Sundskála Svarfdæla skuli ekki hafa komist á dagskrá í þjóðmálaumræðunni í kjölfar hins eftirminnilega viðtals sem tekið var við mig í skálanum í maí síðastliðnum. Einhvern tímann hefði tímamótasjónvarpsviðtal á borð við það sem hér um ræðir dugað til sýnilegs árangurs en sú hefur ekki verið raunin. Ástæðan er sennilega sú að gríðarlegt magn skandala og hneykslismála hefur dunið yfir ráðamenn, fréttastofur og athugasemdakerfi með afar reglulegu millibili allt þetta ár og sér ekki fyrir endann á – enginn má vera að því að koma sundskálanum í nothæft standa á ný. Eftir sit ég einn og yfirgefinn klæddur sundskýlu og froskalöppum á botni sundskálans og bíð næsta flóðs. Tárin stirðna á köldum (rass)kinnunum þar sem ég ligg klesstur við þurran og kaldan bakkann, strandaður eins og búrhvalur á Böggvisstaðasandi.

Í gær var kveikt á jólakettinum við Lækjartorg við mikinn fögnuð og skrílslæti viðstaddra. Grýla og Leppalúði mættu á svæðið og sungu fyrir börnin og látið var í veðri vaka að jólin væru rétt handan við hornið – sem er vafasöm fullyrðing um miðjan nóvember. Ég er hins vegar mun meira hugsi yfir því að það megi kveikja á jólakettinum en það má ekki kveikja í jólageitinni. Dæmigert. Það kann að hljóma undarlega að Grýla og Leppalúði skuli hafa verið á svæðinu þar sem enn eru rúmar 5 vikur til jóla. Þau voru hins vegar bara að nýta ferðina þar sem þau þurftu í kaupstaðinn hvort sem er. Grýla átti pantaðan tíma í litun, plokkun, klippingu, vax og varafyllingu og Leppalúði var beðinn um að mæta á fund hjá stéttarfélagi trölla til að gefa sitt álit á fyrirhugaðri styttingu vinnuvikunnar. Hvað jólageitina varðar þá er ekki öll von úti enn því lengi lifir í gömlum geitum…hmm ég meinti glæðum.

Allt er fyrir pening falt
fegurð jafnvel kaupa má
Sveini frænda þótti snjallt
sílikon í sig að fá.

Þrýstnar varir hefur hann
hárið liðað niðrá þjó
brúnkan toppar blökkumann
af bótoxi á meira en nóg.

Brjóstin eru stór og stinn
stæltir eru kálfar hans
kjálkalínan, kroppurinn
kynþokki og elegans.

- - - - - - - -
Aldur sigra skrokkinn kann
skorpnar húðin eins og tré
brátt mun ellin brjóta mann
brjóstin lafa niður á hné.

Þess má til gamans geta að fáir staðir eru betur til þess fallnir að frysta eignir heldur en frystihús, sem eru beinlínis hönnuð til þess.

Einar forkunnarfagur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: SÍLIKON!!!

2 thoughts on “Orðin þokkafull og fyllri”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *