Orðin úrbeinuð

Kjötuðu lesendur.

Loksins loksins loksins loksins er ég kominn á nagladekk. Sumarið er liðið og sláturtíðin búin. Já lömbin hafa þagnað og sláturleyfishafar ragnað. Smalar fá góðu verki fagnað og það er alveg magnað. Hmm, þetta var nú ekki alveg nógu gott. Hvað sem því líður þá líður þessi inngangur áfram eins og blóðtaumar á sláturhúsgólfi og að endingu fer allt í svelginn.

Nú eru frystikistur landsmanna óðum að fyllast af góðmeti sem sláturtíðin skilaði af sér. Góður vetrarforði þar. Innmatur, læri, hryggir, hakk og sperðlar – eitthvað sem stendur með manni í norðan hríðinni. Í reykingakofanum hangir jólahangikjötið og fær á sig jólalegt yfirbragð gegnum dökkgráan reykinn sem leggur frá brennandi taðinu. Sveitarómantíkin er allsráðandi. Miðað við hversu langt er liðið frá síðustu bloggfærslu hefði það ekki komið á óvart að heyra að ég hefði lokast af inni í reykingakofanum og kæmist ekki í tölvu til að blogga en ég get fullvissað ykkur um að það er ekki rétt. Hefðu lesendur orðið hryggir við að missa bloggarann Einar Haf? Nei varla, enda mun betri hryggir í reykingakofanum.

Það hefur löngum þótt ástæða til að messa yfir bændum og búaliði á Urðum og reyndar á nágrannabæjum einnig. Kirkja mun hafa staðið á Urðum frá því snemma á 14. öld, ef ekki lengur, guðhræddu heimilisfólkinu ýmist til armæðu eða ábata. Ýmislegt hefur gengið á í trúmálum Urðamanna og framdælinga gegnum tíðina. Til að mynda fauk Urðakirkja og brotnaði í spón í september árið 1900 í kirkjurokinu svokallaða. Hermt er að þáverandi bóndi á Urðum hafi legið flatur ofan á laskaðri altaristöflunni úti í Urðaenginu til að varna henni frekari skemmdum og til að varna því að suðvestan rokið feykti töflunni í næstu kirkjusóknir með tilheyrandi eftirmálum. Trúarofstækið var mikið á þessum tíma og guðhræðslan í hæstu hæðum. Því var kirkjan endurreist nánast um leið og lægði og tekin í gagnið á ný árið 1902. Síðan þá og ef til vill frá árdögum kirkjunnar hefur það ævinlega orsakað mikið tilstand og jafnvel uppþot þegar prestinum á hverjum tíma dettur það í hug að nú sé kominn tími á að messa á Urðum. Boð eru látin út ganga með landpósti og á netinu að nú skuli messa og ævinlega hrekkur heimilisfólkið á Urðum jafn mikið í kút við að heyra þessi tíðindi. Það er nefnilega þannig að samkvæmt aldagamalli hefð eru lagðar þær kvaðir á heimilisfólk að þrífa kirkjuna hátt og lágt fyrir hverja messu, skófla út kirkjuflugunum og köngulónum og þurrka af sakramentinu án þess að láta það verulega eftir sér. Heimilisfólk skal sitja stjarft undir predikun prests og iðrast hinna fjölmörgu synda sinna. Síðan skal heimilisfólk bjóða heim í bæ með bros á vör að athöfn lokinni og bjóða þar upp á kaffi og meðlæti handa presti, kór, organista og kirkjugestum og gæta þess ávallt að nóg sé til þannig að enginn líði skort, hvorki andlega né líkamlega. Þetta er mátulegt á heimilisfólkið fyrir að láta sér detta í hug að hafa kirkju á bæjarhlaðinu. Reyndar voru það forfeðurnir (eða forforforforforforforforfeðurnir) sem ákváðu það en það skiptir engu máli. Þeir sem helst sækja messur nú til dags eru tilneydd fermingarbörn sem þurfa ákveðinn lágmarksfjölda messa til að geta fermst til fjár að vori. Ég persónulega hef alltaf gaman af því að fara í messu, enda starfsmaður kirkjunnar til fjölda ára og guðhræddur mjög, sláttumaður, varahringjari og leiðsögumaður – auk þess sem ég hef selt saklausum sóknarbörnum heilagar altaristöflur með góðum árangri í nokkur ár. Það eru allir jafnir frammi fyrir Guði…en sumir eru reyndar jafnari en aðrir.

Það eru ekki bara reykingakofi og kirkja á Urðum. Það er líka heimilisdraugur á bænum, sem er reyndar alvanalegt til sveita. Draugurinn hefur látið reglulega á sér kræla í gegnum tíðina. Stundum er hann í fjósinu og veldur undarlegu bauli og halaslettum þar, stundum í dráttarvélunum sem gerir þær óstarfhæfar og stundum í íbúðarhúsinu sem lýsir sér í ýmiskonar vandræðagangi og vandræðalegum draugagangi. Hann hefur jafnvel brugðið sér í sláttuorf og heyvinnutæki ef sá gállinn er á honum. Þetta er nú enginn ærsladraugur heldur meira svona fúllyndur íslenskur skammdegisdraugur – eða ég ímynda mér það. Nýverið voru báðar stærri dráttarvélarnar á bænum bilaðar. í Jóni Dýra sem ber nafn með rentu (John Deere) er stöðugur ljósagangur í mælaborðinu, með öðrum orðum draugagangur sem sér enn ekki fyrir endann á. Félagi hans Ferguson steindrap á sér við reykingakofann (kannski fékk hann reykeitrun) og harðneitaði að fara í gang aftur fyrr en Þór allsherjarviðgerðarmaður á Bakka hafði skipt um dælu í honum. Þar laut véladraugurinn í minnipokann, að minnsta kosti um stundar sakir. Það er ef til vill ekkert skrýtið að ósýnileg öfl séu á ferðinni í landareigninni enda kirkja og tveir kirkjugarðar á staðnum. Ég hef gert mitt besta til að halda öllum góðum ofan- og neðanjarðar með því að slá kirkjugarðana og kirkjulóðina samviskusamlega og hreinsa burt illgresi og óværu. Ef einhver er ósáttur við umhirðuna fæ ég örugglega að vita af því fyrstur manna.

Nú hefur það komið upp úr dúrnum að orkudrykkir eru stórhættulegir og alls ekki eins orkuríkir og efni stóðu til í upphafi. Bíðið aðeins meðan ég tek hökuna upp af gólfinu. Eða ekki. Fólk er þambandi koffíndrykki daginn út og daginn inn þökk sé góðri markaðssetningu og fáklæddum áhrifavöldum. Auðvitað eiga þessir áhrifavaldar miklu frekar að drekka mjólk og neyta íslenskra landbúnaðarafurða sem gefa hraustlegt og gott útlit en það þykir greinilega ekki nógu móðins. Bændasamtökin gætu nú alveg laumað að mér nokkrum mjólkurfernum og eins og einu krydduðu lambalæri í staðinn fyrir jákvætt umtal um íslenskar landbúnaðarafurðir árum og áratugum saman en ég er greinilega ekki nógu áhrifamikill áhrifavaldur til þess. Skellur.

Ætli sé ekki gott að reykja jólahangikjötið við brennandi IKEA geitina? Þá fær maður fram þennan skemmtilega sænska hálmkeim. Nei maður veltir því fyrir sér. Jólin þín byrja ekki í IKEA heldur í reykingakofanum.

Kirkjan opnast, koma sóknarbörnin
klerkur hlýjan faðm út breiðir.
Í neyð er bænin besta vörnin
allir brosa, engir reiðir,
Halla húsfrú tertu sneiðir.

Engir fjárfestingasjóðir fóru á hausinn við gerð þessarar bloggfærslu en það munaði litlu.

Einar á nöglum. Ekki nálum.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GAMMA!

One thought on “Orðin úrbeinuð”

  1. Kærar þakkir fyrir þína þjónustu í gegnum árin EinarHaf.is. Landbúnaðurinn væri svo sannarlega ekki samur í dag ef ekki væri fyrir þig og þína bloggsíðu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *