Drýgindalegu lesendur.
Það rignir úti og það rignir inni og það rignir í sálu minni. Ég heilsa ykkur vel blautur og rakur en það tengist veðrinu að vísu ekki neitt. Votviðrið veldur kvöl og angist og heilinn er svampkenndur og deigur eins og niðurrignt moldarsvað á útskitnum túnbleðli. Vonandi er það bót í máli að þessi bloggfærsla er afar rakadræg.
Vorrigningar og haustrigningar hafa undanfarið sameinað krafta sína og himnarnir bókstaflega grátið. Tárin streyma niður kinnar móður náttúrunnar og umkomulausir menn og málleysingjar á jörðu niðri geta lítið annað en forðað sér í skjól. Góðu fréttirnar eru þó þær að samkvæmt Veðurstofu Íslands hefur aldrei rignt svo mikið að ekki stytti upp aftur. Fastlega má búast við því að slíkt hið sama verði uppi á teningnum núna.
Nokkur styr hefur staðið um ríkislögreglustjóra undanfarið. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna. Ég veit bara að hann ýjaði að því í viðtali að víða væri pottur brotinn innan raða lögreglunnar og að jafnvel liðist þar spilling. Eitthvað talaði hann um hjaðningavíg og illdeilur og raunar leitaði hann víða fanga í efnistökum sínum. Lögreglumaður leitar fanga, væntanlega er það bara partur af starfslýsingunni. Og þó. Eitthvað hefur það komið til tals að lögreglumenn landsins gangi ekki í takt þegar kemur að klæðaburði. Nú á að bæta úr því og koma öllu lögregluliðinu í samstæðan klæðnað. Það verða sem sagt engar tískulöggur að störfum í framtíðinni heldur verða allir skikkaðir í sama búninginn. Mönnum verður þó áfram frjálst að vera með eigin handjárn með eða án loðfóðringa.
Ærslabelgirnir og grallaraspóarnir í hljómsveitinni Hatara urðu landi og þjóð til sóma síðasta vor þegar þeir barkasungu sig inn í hugi, hjörtu og hljóðhimnur Evrópubúa með hinu melódramatíska popplagi Hatrið mun sigra. Þetta muna allir. Það muna líka allir að uppi varð fótur og fit þegar sprelligosarnir drógu upp fána Palestínu í miðri atkvæðagreiðslunni og flögguðu upp í opið geðið á Ísraelsmönnum sem vissu vart hvaðan á sig stóð leðrið. ….ég meinti veðrið. Snarlega var klippt á fánaveifu Hatara og myndavélarnar stilltar á eitthvað miklu saklausara og barnvænna eins og t.d. Albanska fúlskeggjaða transmenn eða brjóstaskoru frá Norður Makedóníu. Stjórnarmönnum samtaka Evrópskra sjónvarpsstöðva var ekki skemmt þó vissulega hafi þeim þótt framlag okkar afar listrænt og flutt af alúð. Nú hefur það sem sagt komið á daginn að við Íslendingar höfðum ekki aðeins 10. sætið upp úr krafsinu heldur einnig 5.000 evru sekt. Hatarar eru vitaskuld engir borgunarmenn fyrir slíku en íslenska ríkið og Ríkissjónvarpið eru aflögufær og því er gert ráð fyrir því að ósköpin verði gerð upp á allra næstu dögum. Væntanlega mun Felix Bergsson sjálfur fljúga með seðlana í lokuðu umslagi til höfðustöðva Eurovision og afhenda þá í eigin persónu. Að vísu mun þetta sektaruppgjör þýða að það verða ekki til neinir peningar til að borga Guðjóni Skarphéðinssyni miskabætur fyrir að hafa þurft að sitja saklaus í fangelsi og einangrun svo vikum og mánuðum skipti út af Geirfinnsmálinu en það geta jú ekki allir fengið það sem þeir eiga skilið . Raunar komst ríkislögmaður að því að þetta væri Guðjóni bara sjálfum að kenna enda hafi hann mátt vita betur en að láta loka sig inni saklausan allan þennan tíma.
Göngur og réttir og afturgöngur og afturréttir fóru fram í Svarfaðardal nýverið með tilheyrandi þrammi, hói, gelti og surgi í talstöðvum. Fátt var um fé og færra um fína drætti en stemmning var góð og mannskapurinn kindarlegur heilt á litið. Eins og áratuga hefð er fyrir náði gleðin hámarki á réttarballi í samkomuhúsinu Höfða að kveldi sunnudags. Margt var um manninn og léku þeir Stulli, Danni og Guðmann listavel á hljóðfærin auk þess sem þeir léku á alls oddi. Dansinn dunaði og hinar ríflega sjötíu ára gömlu gólffjalir fengu að finna fyrir því. Velunnarar Höfða sáu um miðasölu og siðgæðisvörslu og fórst það afar vel úr hendi. Eins og flest annað um gangnahelgina er haldið fast í gamlar hefðir og því var það afar viðeigandi að ég, Einar Haf, lyki sjoppuvaktinni og sendi sveitta ballgesti brosandi út í nóttina eða brosandi upp í bíla til Sissa og Bergs dyravarða. Sjálfur fór ég brosandi upp í bíl til Stulla, fór yfir One Way Ticket syrpuna með honum á leiðinni heim og sofnaði loks sáttur – enda ekki annað hægt.
Nú á enn einu sinni að freista þess að auðvelda fólki hér á landi að kaupa áfengi. Í þetta skiptið er þó ekki verið að tala um vín í matvöruverslanir heldur er verið að tala um vín í netverslanir. Þvílík og önnur eins þvæla. Auðvitað á bara að halda sig við að hafa þetta allt í röð og reglu. Mat í matvöruverslunum, net í netverslunum og áfengi í áfengisverslunum. Annars fer þetta allt bara út í tóma vitleysu. Kannski er ég eitthvað að misskilja þetta mál en mér er alveg sama. Einstrengingsháttur og þvermóðska eru hvort eð er þau vopn sem ég gríp helst til þegar kemur að umræðu um óheftari aðgang að áfengi.
Eins og flestir vita er skítur afar verðmætur áburður (e. good shit). Bændum þykir vænt um skítinn sinn og kappkosta að dreifa honum af natni á tún og engi í von um mikla og góða grassprettu á vorin og sumrin. Mikill skítmokstur hefur staðið yfir undanfarið eins og alvanalegt er á haustin. Hér í Svarfaðardal hafa mörg tún fengið dökkleitt yfirbragð síðustu vikur og angan í samræmi við það; lykt sem margir elska (e. I love it!). Þetta er ekki ósvipað ástandinu og anganinni í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þessa dagana þar sem ýldulyktin og stækjan hefur fyllt vit nefndarmanna og fundir einkennst af skítlegu eðli. Hvað mun spretta af þeim skít þegar fram í sækir? Væntanlega bara illgresi og njóli.
Sumir iðrast gjörða sinna
aðrir iðrakveisu fá,
sumir ilm af túnum finna
aðrir drullað fá sig á.
Þessi bloggfærsla var svo langdregin að það hætti að rigna áður en gerð hennar lauk.
Einar á haugsugunni.
Tilvitnun dagsins:
Allir: DRULLA!!!
Vilt þú áfengi í matvöruverslanir Einar?
Ég var að vona að bloggfærslan hefði svarað þeirri spurningu 😀