Orðin undir framfærsluviðmiðum

(G)öfugu lesendur.

Það er ekki um að villast, þið hafið náð að villast inn á slóð nýjustu bloggafurðar Einars Haf, þekkts ofstopamanns og skoðanaböðuls – þar sem hann lætur móðan mása og blása. Engin pása? Neibb.

Nú rekur hver stórhátíðin aðra. Fiskidagurinn mikli, Gleðigangan, Hundadagar, Tvímánuður, nýtt tungl og Menningarnótt í Reykjavík. Endapunktur verður rekinn á öll þessi gengdarlausu hátíðarhöld með stærstu hátíðinni af þeim öllum; göngum og réttum í Svarfaðardal og réttarballi í samkomuhúsinu Höfða að kveldi sunnudagsins 8. september. Þetta vita auðvitað allir. Meðan ég man; sjoppunefnd auglýsir eftir ábyrgum og siðferðislega réttþenkjandi starfsmanni til að sinna sælgætissölu og siðgæðisvörslu í samkomuhúsinu Höfða sunnudagskvöldið 8. september frá kl. 21:00-01:20. Ríkrar þjónustulundar krafist og verulegs viðskiptavits. Meira um það síðar.

Auðvitað hefði átt að slá nokkrar flugur í einu og sama högginu og sameina eitthvað af þessum hátíðum, til að spara fólki ómakið við að þræla sér út helgi eftir helgi með tilheyrandi ferðakostnaði, rándýru uppihaldi og hausverk á sunnudögum.
Fiskidagurinn mikli sameinaðist til að mynda hinsegin dögum í ár enda var allt frekar öfugsnúið á Dalvík og í næsta nágrenni. Það rigndi meira að segja pínu á Fiskidaginn. Það hefði aldrei gerst hefði ekki verið um hinsegin Fiskidag að ræða. Eftir á að hyggja hefði mátt sameina Gleðigönguna og Reykjavíkurmaraþonið í eina stóra hraðgöngukeppni þar sem fljótasti og hýrasti þátttakandinn myndi standa uppi sem sigurvegari, gefið að hann kæmi öfugur yfir endalínuna. Eða afturábak. Hendum bara hinu tilgangslausa Color run í þetta líka og þá ertu kominn með litagleði, svita og hýrlegheit í einum og sama rándýra viðburðinum – fyrir gott málefni. Betra gerist það varla.

Samfélagsmiðlar eru þessa dagana uppfullir af fólki sem skráð hefur sig til leiks í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar góðum málefnum og krefst þess að fá læk út á það. Raunar er einn helsti tilgangur hlaupsins að safna lækum handa hinum bágstöddu og þurfandi. Ég fell nú ekki fyrir þessu svo auðveldlega. Komið ykkur í mark fyrst og ég skal taka mark…á þessu og skoða þetta með að læka. Í ár verður keppt í nokkrum flokkum venju samkvæmt. 10 kílómetra hlaup, maraþon og hált maraþon….hmm ég meinti hálft maraþon. Þá verður hægt að hlaupa af sér hornin, hlaupa á sig og hlaupa út undan sér á afmörkuðu svæði. Ég kann miklu fleiri svona; hlaupa undir bagga, hlaupa í þvotti og hlaupa í spik (sjá Einar Haf). Væri ég ekki svona merkilegur myndi ég hlaupast undan merkjum en því verður víst ekki við komið.

Talandi um að læka. Það voru ekki upplífgandi fréttirnar sem bárust nýverið af okkar fremsta, fallegasta, gáfaðasta og besta fólki; sjálfum áhrifavöldunum. Ýmsa setti hljóða og tóku tíðindin afar nærri sér og var ég þar á meðal því ég má jú ekkert aumt sjá og vissulega ber ég hag þessa fólks fyrir brjósti. Jafnvel brjóstum. Hvað er málið? Ég skal segja ykkur það. Samkvæmt tekjublaði DV lifa margir okkar ástsælustu áhrifavalda á lúsarlaunum og eiga hvorki til hnífs né skeiðar. Sem betur fer fyrir þá suma að minnsta kosti fengu þeir hnífa, skeiðar og fleiri eldhúsáhöld að gjöf í skiptum fyrir gott umtal og auglýsingu á samfélagsmiðlum. Einhverjir fengu meira að segja salt í grautinn sem betur fer. Glögglega má sjá af fjölmörgum myndum sem birst hafa af áhrifavöldunum á Instagram og fleiri samfélagsmiðlum og ég hef skoðað ofan í kjölinn að skóinn kreppir víða. Oftar en ekki eru þessar myndir teknar á ódýrum sólarströndum eða í heitum löndum þar sem framfærslukostnaður er mun lægri en hér á landi. Viljum við að þessar vonarstjörnur okkar flýi land vegna bágra kjara? Ég er ekki svo viss. Af myndunum að dæma eru margir áhrifavaldanna skringilega brúnleitir á lit, grindhoraðir og augljóslega vannærðir og þá eru fjárráðin greinilega víða með þeim hætti að í stað venjulegs fatnaðar þurfa áhrifavaldarnir að klæðast skjóllitlum og jafnvel götóttum fatapjötlum og í einhverjum tilfellum gegnsæjum. Eitthvað hefði nú heyrst ef þetta væru alþingismennirnir okkar sem hér væru til umræðu, ég segi nú ekki meira en það. Þögn verkalýðsforystunnar og annarra launþegasamtaka er æpandi í þessu máli. Það má öllum vera það ljóst að áhrifavaldar eru dæmi um starfstétt sem ekki fær borið hönd fyrir höfuð sér og á sér hvergi málsvara þegar kemur að því að gæta hagsmuna og berjast fyrir mannsæmandi kjörum. Ekki er þó öll von úti hvað þetta varðar. Til stendur að hrinda af stað söfnun á Karolína-fund til styrktar illa stöddum áhrifavöldum. Hægt verður að gefa annað hvort 1.000 kr. með millifærslu eða 15 læk á verði 10. Stefnan er að koma öllum áhrifavöldum yfir fátæktarmörk og yfir 1.000 læk en með samhentu átaki mun okkur takast það.

Eins og áður sagði verða göngur í Svarfaðardal helgina 6.-8. september næstkomandi. Aðrar göngur eru áætlaðar viku síðar. Fyrst fara menn sem sagt og ganga og svo ganga menn aftur viku síðar. Eins gott að maður er ekki hræddur við afturgöngur. Ef þið viljið að ég útskýri þetta orðagrín eitthvað betur megið þið koma í samkomuhúsið Höfða sunnudagskvöldið 8. september eftir klukkan 21:00 og ræða þetta við mig. Ég verð á staðnum og mun bæði rukka ykkur inn og mögulega stíga við ykkur dans þegar leikar standa sem hæst.

Bæjarstjórinn í Garðabæ hefur nú opinberlega beðist afsökunar á því og hálfpartinn skammast sín fyrir að vera með eins há laun og raun ber vitni – tvær og hálfa kúlu á mánuði um það bil. Auðveldur peningur, eða hvað? Laun bæjarstjórans ólukkulega jafngilda því að hann fái um það bil 150 krónur frá hverjum íbúa í Garðabæ mánaðarlega. Frábært. Miðað við samskonar aðferðafræði yrði Kata sveitarstjóri á Dalvík að gera sér að góðu 285.000 kr. á mánuði og sveitarstjóri Árneshrepps væri með um það bil 5.000 kr. Skellur. Það gengur bara betur næst.

Ljóð dagsins heitir "Angist áhrifavaldsins" 

Út við ystu sjónarrönd
sit ég einn á sólarströnd
og fáklæddur ég felli tár
fátæktin er býsna sár.

Ó sú pína ó sú raun
að vera með slík lúsarlaun.
Einn í hljóði harm minn ber
hugurinn er sem hálað gler.

Ein er leið úr krísu út
afklæðast og setja upp stút
ungur sexý pósur nam
og hala inn lækum á Instagram.

Þess má til gamans geta að þegar talað er um síðustu hálmstráin er átt við stráin sem gróðursett voru við braggann í Nauthólsvík.

Einar lækandi.

Tilvitnun dagsins

Allir: HLAUP!!!

One thought on “Orðin undir framfærsluviðmiðum”

  1. Hef fulla trú á þér. Þú verður á áhrifavalda listanum á næsta ári.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *