Æru lesendur.
Já, þá er enn eitt árið hafið og enn einn bloggpistillinn hafinn hjá Einari Haf…inn. Nýtt ár færir nýtt upphaf og Einar Haf og nýjar væntingar en því miður bara sama gamla bloggarann sem virðist lítið ætla að bæta ráð sitt. Hvaða bloggari er það? Auðvitað er ég að tala um sjálfan mig en fyrir þá sem ekki vita þá er ég sjálfur eitt helsta umfjöllunarefni mitt hér á bloggsíðunni minni. Ég um mig frá mér til mín. Fór ég í buxurnar úthverfar í morgun? Nei þær voru sjálfhverfar. Eins og ég.
Í lok jóla hélt Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður sína árlegu þrettándabrennu við Tungurétt í Svarfaðardal. Aðstæður á brennustað voru nokkuð óhefðbundnar. Snjóleysið var algjört en jörð afar blaut og spáð roki. Veður var hins vegar með skásta móti um kvöldið þegar kom að íkveikju. Vindur var hægur á Tungunum í samanburði við hvernig hann var fram í Svarfaðardal en þar er suðvestanátt reyndar sú alversta vindátt þegar hvassviðrisgangur er annars vegar. Ég og aðrir vaskir ungmennafélagar kveiktum í bálkestinum á slaginu 20:30 og gerðum við okkur að leik að skvetta olíu á eldinn trekk í trekk með þeim afleiðingum að kösturinn varð alelda á skömmum tíma. Ekki nóg með að við kveiktum í bálkestinum heldur reyndum við að brenna eldgamla sinu og lyng í leiðinni og þá gældu einhverjir við að gera kvenfélaginu Tilraun greiða og brenna úr sér genginn kaffiskúr til kaldra kola en það var horfið frá því á síðustu stundu. Áhorfendur þusti að og stóðu þeir gáttaðir meðan þessu fór fram. Björgunarsveitin á Dalvík kom sér fyrir ofan við þjóðveginn og stóð fyrir flugeldasýningu sem heppnaðist vel, vindur var ennþá hægur þegar þarna var komið við sögu og aðstæður til skothríðar hinar ákjósanlegustu. Það sýndi sig þó að skjótt skipast veður í lofti og um leið og flugeldasýningunni lauk snérist vindurinn á einu augabragði úr suðvestan og vestanátt og yfir í norðanátt í svona 30 sekúndur eða svo. Á þeim tíma stóð reykjarstrókurinn frá brennunni beint yfir áhorfendaskarann sem átti fótum sínum fjör að launa. Eldglæringarnar fuku yfir trylltan múginn og mátti hver bjarga sjálfum sér. Það tókst til að mynda með naumindum að bjarga Hiluxinum á Hóli, brennubíl ungmennafélagsins og miðasöluaðstöðu gangnaballsins á Höfða til fjölda ára. Eftir að þessi tímabundna norðanátt hafði fælt brennugesti í burtu tók vind að blása ákveðið af vestri. Raunar svo ákveðið að um nóttina þurfti að kalla út slökkviliðið þar sem brennan var komin áleiðis til Dalvíkur, en allt fór þó vel að lokum.
Nú í upphafi nýs árs hefur fjöldi fólks strengt sér þess heit að gerast betri manneskjur, hætta að drekka og reykja og borða óhollt og hætta að safna skuldum og spiki og öðru óæskilegu og hætta að stressa sig á hlutunum og lifa þess í stað í núinu. Svona gæti ég haldið áfram lengi en ég ætla ekki að gera ykkur það til geðs. Óþarfi er að taka það fram að flest þessara loforða eru á bak og burt þegar kemur að næstu mánaðarmótum en sumir eru þó staðfastir og ná að halda lengur út. Ég hef ekki strengt neitt áramótaheit að þessu sinni annað en það að ég ætla að byrja á þorrakúrnum þegar bóndadagurinn gengur í garð en þá verð ég reyndar nýhættur á Quality Street kúrnum og jólaölskúrnum.
Íslenska karlahandboltalandsliðið stendur í ströngu þessa dagana þar sem Heimsmeistaramótið í handknattleik stendur yfir í Danmörku og Þýskalandi. Íslendingar hafa spilað þrjá leiki þegar þetta er ritað, unnið einn af því við erum svo góð í handbolta og tapað tveimur sökum óheppni, dómara og fámennis. Liðsmenn íslenska liðsins eru í yngri kantinum og þykja afar efnilegir í faginu en sökum ungæðislegs yfirbragðs er ekki gert ráð fyrir umtalsverðum árangri á þessu móti. Aðalatriðið er sem sagt að vera með, eins og ég hef reyndar alltaf sagt. Halló, er einhver á línunni? Þorgils Óttar? Nei greinilega ekki. Næsta atriði takk.
Íþróttamaður UMSE 2018 var útnefndur með viðhöfn um síðustu helgi í safnaðarheimilinu á Dalvík. Þar var margt um manninn og margar fokdýrar viðurkenningar veittar ásamt vel útilátnum veitingum, allt greitt upp í topp af gjaldkera UMSE – sem var auðvitað á staðnum og hélt fast um veskið. Talsvert góður árangur náðist á íþróttasviðinu á síðasta ári og náðu keppendur innan vébanda UMSE í fjölmarga Íslandsmeistaratitla og landsmótstitla af ýmsu tagi. Þessu ber að fagna og eiga hinir þróttmiklu íþróttamenn allt gott skilið. Hægt er að lesa allt um málið á www.umse.is. Að lokinni verðlaunaafhendingunni héldu flestir til síns heima nema reyndar ég, gjaldkeri UMSE, sem varð eftir og hélt áfram að éta súpuna og borða marengsterturnar. Allt fyrir hag ungmennasambandsins.
Hin óborganlegu Vaðlaheiðargöng hafa nú loksins verið tekin formlega í notkun, nokkrum árum og 8 milljörðum á eftir áætlun. Gjaldtaka í göngin hefur valdið nokkrum heilabrotum enda er ekki ætlast til þess að þú notir þér göngin ef þú átt ekki snjallsíma eða kannt ekki á tölvu. Þá getur þú alveg eins bara verið heima hjá þér eða setið fastur uppi á Víkurskarðinu. Skellur, það verður ekki mokað fyrr en í vor. Kannski. Spæling.
Önnur sería af sjónvarpsþáttunum Ófærð er sýnd um þessar mundir í Ríkissjónvarpinu. Sitt sýnist hverjum en þó virðist vera almenn ánægja með þættina og hið ógnvænlega ástand sem ríkir á Siglufirði og í nærsveitum samkvæmt því sem þar kemur fram. Hver er vondi karlinn í þessari þáttaröð? Jón Baldvin? Nei við skulum róa okkur aðeins, þetta er bara bannað innan 12 ára sko.
Áður en ég fer yfir strikið og byrja að móðga einhverja með ógætilegu orðavali er best að skipta yfir í vísnahornið….og móðga einhvern þar í staðinn.
Í enda jóla brenndum bál
brunnu á fólki ýmis mál
blés af krafti kári.
Og áður en að yfir lauk
brennan niður á Dalvík fauk
sjáumst svo að ári.
Þess má til gamans geta að ég skrifaði þessa bloggfærslu með þrívíddargleraugum en ég hefði eflaust verið mun fljótari að því hefði ég notað lyklaborðið.
Einar útbrunninn.
Tilvitnun dagsins Allir: Gjaldtaka!!!
Til hamingju með daginn Einar bóndi.