Góðir landsmenn.
Það er til siðs að hefja allar áramótahugvekjur Einars Haf á orðunum ‘það er til siðs’. Þetta er ósköp sjálfsagt og eðlilegt. Nú við áramót er rétt að staldra aðeins við og líta til baka yfir farinn veg, hvort sem það er nú beinn og breiður malbikaður vegur eða grýttur og holóttur malarvegur. Þetta vegur maður og metur. Það er ekki nóg að líta bara til baka heldur verður maður líka að líta í eigin barm og jafnvel stara í eigin barm ef barmurinn er þess virði að starað sé á hann. Við erum jú líka á barmi nýs árs, ársins 2019, sem sumir segja að verði ár Einars. Ég kannaði málið betur og komst að því að næsta ár er ár svínsins samkvæmt Kínverjum þannig að sennilega kemur það allt heim og saman. Árinu 2018 getur ekki lokið án þess að ég sletti í eins og eina áramótahugvekju, mér og öðrum til upplyftingar og andlegs innblásturs. Raunar var það krafa stjórnvalda, biskups og Siðmenntar að vegna bágborins og stöðugt hrakandi andlegs heilsufars þjóðarinnar skyldi ég færa landsmönnum glaðlega áramótahugvekju og blása þeim vonir í brjóst um nýtt og betra ár. Og hvað sagði ég við þessari kröfu? Sénsinn bensinn. Þessi áramótahugvekja var að megninu til unnin upp úr skrifum virkra í athugasemdum á árinu auk þess sem ég hleraði nokkur einkasamtöl, símskeyti og smáskilaboð í heimildavinnunni.
Íslendingar eru þrautseig þjóð. Raunar svo þrautseig að sama hvað á dynur þá stendur þjóðin það af sér þvert á spár greiningardeilda, spámanna og erlendra sérfræðinga. Hvers konar plágur, hörmungar og hallæri sem ríða hér yfir trekk í trekk fá þjóðinni ekki grandað og nú hefur þjóðin náð að þrauka eitt ár til viðbótar þó það hafi verið tvísýnt á köflum. Hvernig stendur á þessu? Margir erlendir útlendingar furða sig á því hvernig í ósköpunum sé hægt að lifa af hér á norðurhjara í svartamyrkri og nístandi kulda ár eftir ár eftir ár. Það þarf auðvitað ekki að leita lengi til að átta sig á þessu. Svarið liggur vitaskuld í sagnaarfinum og menningararfleifð okkar. Þegar sultur og hor ætluðu allt að drepa hér á landi í gamla daga þá greip fólk oft á tíðum til þess ráðs að ýmist kveikja í sagnaarfinum til að halda á sér hita eða þá að borða menningararfleifðina sem oftar en ekki var skrifuð á gómsætt kálfskinn. Með þessari sjálfsbjargarviðleitni komst þjóðin í gegnum það versta og stóð sterkari á eftir. Við hugsum hlýlega til forfeðra okkar og genginna kynslóða nú á þessum tímamótum og munum að líf okkar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.
Góðir landsmenn. Nú á árinu sem er við það að renna sitt skeið höfum við haldið upp á 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Íslendingar hafa sem sagt fengið að stjórna sér sjálfir í heila öld með umdeilanlega misgóðum árangri. Skemmst er að minnast þess þegar við sjálf ákváðum að halda fullveldishátíðarfund Alþingis á Þingvöllum nú í sumar og eyða til þess tugum milljóna. Góð ákvörðun hjá okkur. Munum þó að sjálfsákvörðunarréttur okkar örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.
Fæstir vita hvað þetta svokallaða fullveldi þýðir í raun og veru en hafa engu að síður tekið virkan þátt í hátíðarhöldum ársins. Ég er þar á meðal. Margrét Danadrottning kom hingað til okkar í desember og samfagnaði okkur á þessum merkilegu tímamótum. Það er vissulega ákveðin upphefð fólgin í því þegar erlendir þjóðhöfðingjar sýna okkur heiður sem þennan. Af þessu tilefni var líka sýnt beint í sjónvarpi allra landsmanna frá Hörpu þar sem sprenglærðir leikarar, hippsterar, góða fólkið, besservisserar, spíssbúbb, himpigimpi og sinfónían fluttu einhvers konar gjörning í beinni útsendingu. Allt var þetta langt fyrir ofan minn skilning og gott ef Margrét Danadrottning dottaði ekki ofan í sígarettupakkann sinn meðan grænlensk inúítapönkhljómsveit lék á slagverk. Hvernig tengist þetta fullveldinu? Það gerir það alls ekki, nema hvað að þökk sé fullveldinu gátum við sjálf tekið þá ákvörðun að reisa tónlistarhúsið Hörpu undir viðburði eins og þennan sem enginn botnar í. Munum að sjálfsákvörðunarréttur örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er….æi skiptir ekki.
Góðir landsmenn. Fjölmörg hneykslismál hafa komið upp á árinu sem er næstum því alveg að verða búið. Klausturshneykslið, Braggahneykslið, þuklhneykslið, Orku náttúrunnar hneykslið, Strokufangahneykslið, Stóra stafræna þjónustufyrirtækishneykslið, Mótmælamótmælahneykslið og svo mætti áfram telja. Það er óþarfi fyrir mig að fara sérstaklega yfir þessi hneykslismál hér enda hafa virkir í athugasemdum nú þegar afgreitt flest þeirra eftir málefnalegar og vel upplýstar umræður á opinberum jafnréttisgrundvelli veraldarvefsins. Munum að svona safarík hneykslismál örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.
Þetta væri auðvitað ekki alvöru áramótahugvekja eftir Einar Haf ef ekkert væri minnst á landsins einu von, íslensku sauðkindina. Í gegnum árhundruðin súr og sæt hefur þessi kyngimagnaða og glæsilega skepna haldið lífi í hnípinni þjóð (ásamt sagnaarfinum og menningararfleifðinni) með því að halda henni félagsskap, gefa af sér ull og kynstrin öll af kjöti og innmat. Enn þann dag í dag spilar sauðkindin stóra rullu þegar kemur að lífsafkomu hluta þjóðarinnar. Þá er ég auðvitað að tala um þann hluta þjóðarinnar sem kallast milliliðir í smásölu lambakjöts en þessir milliliðir ná til sín þeirri framlegð sem felst í framleiðslu og sölu á lambakjöti. Bændur halda áfram sínu streði kauplaust en af því að þetta er íslenska sauðkindin gera þeir það með bros á vör. Við erum kindarleg þjóð og margir ráðamenn eru sauðir sem jarma framan í þjóðina ár eftir ár. Munum að sauðkind örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju. Hmm, mér finnst ég aðeins vera farinn að endurtaka mig en þetta er að vísu endurtekið efni eins og það leggur sig áramót eftir áramót.
Góðir landsmenn, síðustu misseri hafa verið miklir uppgangs- og velmegunartímar hér á landi. Vesæld og depurð hrunáranna er löngu horfin okkur sjónum og þjóðin tók hinu nýja góðæri opnum örmum líkt og gömlum vin. Nýir bílar, utanlandsferðir í tonnatali, neyslulán, matarsóun af því við höfum efni á því og einbýlishús eins og hver gat í sig látið. Allt þetta og meira til gaf árið 2018 okkur. Ljóst er að það þarf að halda vel á spöðunum á árinu 2019 ef það á að vera hægt að toppa þennan árangur. Útlit er fyrir stöðugan óstöðugleika, harðar deilur og átök um skiptingu þjóðarkökunnar nú eftir áramót þegar kjarasamningar losna. Það má öllum vera það ljóst að illdeilur og argaþras skilar okkur engu en samt sem áður verður sú leið væntanlega farin í komandi samningaviðræðum. Spennandi. Munum að ósætti og innbyrðis átök örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ eru sjálfgefin staðreynd. Hmm, var ekki eitthvað bogið við þetta?
Þrátt fyrir smæðina og fámennið hafa Íslendingar skipað sér í fremstu röð á ótrúlega mörgum sviðum víðsvegar um heiminn. Við eigum hugvitsfólk, íþróttafólk, lífstílsbloggara og listamenn í fremstu röð. Við eigum áhrifavalda sem tugir og hundruðir þúsunda elta á röndum á samfélagsmiðlum. Við eigum fallegt fólk, sterkt fólk, gáfað fólk, réttsýnt fólk og gott fólk. Síðan eigum við reyndar fullt af einhverju afgangsfólki sem fær bætur langt undir framfærsluviðmiðum en það verður víst ekki við allt ráðið. Munum að misskipting lífsgæða örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ eru ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.
Góðir landsmenn. Land okkar liggur fjarri heimsins vígaslóð. Það gæti þó breyst með áframhaldandi hnattvæðingu og firringu nútímamannsins í stafrænu snjalltækjaneyslusamfélagi 21. aldarinnar. Mikilvægt er að við sem þjóð höldum í þau gildi sem sameina okkur. Það er þá einna helst tungumálið okkar, gersemin sem okkur ber skylda til að standa vörð um. Þið sem ætlið í skrúfusleik nú um áramótin ættuð að hafa þetta í huga og gæta tungu ykkar. Munum að tungumál örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.
Það er réttast að gleyma áhyggjum, sorgum og sút og horfa björtum augum til komandi tíma. Bloggarinn Einar Haf mun halda áfram fyrri iðju og atferli ef að líkum lætur, láta misgáfuleg ummæli falla og biðjast svo afsökunar á þeim jafn harðan. Lífstílsbloggarasamfélagið mun halda áfram útskúfun sinni og það mun fylla mig öfund og heift líkt og síðustu ár. Dæmigert. Einhver ekki sjálfgefin staðreynd sem ég ætti að nefna hér? Æi nei best að sleppa því, nóg er það nú samt.
Aftur koma áramót,
ástandið er snúið.
Brennum bálið, skjótum rót
bölið fáum flúið
því þetta ár er búið.
Góðir landsmenn. Að síðustu þakka ég ykkur fyrir árið sem nú er senn á enda. Farið varlega og gætið þess vel að ganga hægt um gleðinnar dyr, þeir sem ætla að ganga um þær dyr yfir höfuð. Lesendum þakka ég fyrir lesturinn og vona að árið 2019 lendi ekki í ólestri.
Fatahengið á Bessastöðum, 31. desember 2018.
Einar Okkar Hafliðason.
Takk fyrir skrifin Einar.