Nýjungagjörnu lesendur.
Það hefur færst nokkuð í vöxt hin síðari ár að auglýsingamennsku og markaðsbraski er laumað aftan að fólki án þess að það verði þess vart. Nú eru það ekki bara sjónvarp, útvarp og dagblöð heldur eru það allra handa áhrifavaldandi samfélagsmiðlar, vefmiðlar, spámiðlar, bloggfærslur, tilfærslur, millifærslur, smáskilaboð, símboð, hugboð, tölvupóstar, gluggapóstar, skyggnilýsingar og leiðalýsingar. Þessi upptalning er ekki tæmandi. Áróðurinn og auglýsingaskrumið er úti um allt. Í þessari áhrifavaldandi bloggfærslu er aragrúi dulinna auglýsinga en þær eru bara svo ofboðslega duldar að þið sjáið þær ekki.
Í þessum áhrifavaldandi inngangsorðum var ég t.d. að auglýsa nýtt rakakrem frá Nivea en þið bara föttuðuð það ekki vegna þess að þetta var svo dulið. Rosalega verður maður rakur af þessu kremi, það svífur bara á mann.
Lesendur þessarar áhrifavaldandi síðu vita það mæta vel að ég hef margsinnis reynt að komast í hóp svokallaðra lífstílsbloggara en án árangurs. Minn lífstíll hefur ekki verið viðurkenndur af þessum áhrifavaldandi samfélagshópi og hefur það vakið hjá mér bæði reiði og öfund sem flest öll skrif mín hafa reyndar verið knúin áfram af. Aldrei hefur neinu fyrirtæki dottið í hug að gefa mér vörur eða gjafabréf gegn því að ég tali vel og fallega um viðkomandi. Þar af leiðandi hef ég aldrei talað vel og fallega um nokkurt fyrirtæki. Þetta er reyndar ekki rétt. Ég er búinn að fá gefins alls konar gjafir frá hinum og þessum einstaklingum og fyrirtækjum. Reyndar hafa það alltaf verið kveðjugjafir og þakklætisvottar sem ég hef fengið þegar ég hef gefið út að ég sé hættur bloggskrifum. Fólki gremst það þess vegna alltaf jafn mikið þegar ég hætti við að hætta og skila gjöfunum til baka. Og talandi um það, ef þið viljið verða jafn rök og ég er núna þá mæli ég eindregið með nýja áhrifavaldandi rakakreminu frá Nivea. Rakakremi? Já og ég get nefnt fjölda raka máli mínu til stuðnings.
Nú um helgina fara fram stóðréttir í Svarfaðardal, þar sem hestamenn og hestakonur leiða saman hesta sína í eins bókstaflegri merkingu og hugsast getur. Ég er hrifnari af því að tala um stóðréttirnar eftir að þær hafa farið fram svo að orðagrínið fái betur notið sín. Þið vitið, þetta orðagrín sem sumir hverjir eru komnir með grænar bólur af. Stóðréttin stendur til, það stendur mikið til núna en það stóð mikið til eftir helgi. Og þá stóð ekki steinn yfir steini. Og mér stóð. Ekki á sama. Stendur stóðið í réttinni? Já núna en eftir helgi get ég sagt: stóðið stóð í réttinni. Hvernig stendur á þessu núna? Hvernig stóð á þessu eftir helgi? Kannski er best að ég láti bara hér við sitja. Eða standa. Standa? Já ég stóð. Hættu þessu.
Svona stóðréttum fylgir oft inntaka áhrifavaldandi drykkja. Bjór er til dæmis mjög áhrifavaldandi drykkur, hann veldur því að maður verður fyrir áhrifum. Ég fór um daginn í svo ansi skemmtilega drykkjarvörubúð þar sem úrvalið var til fyrirmyndar af alls kyns missterkum drykkjum í flöskum og dósum og starfsfólkið var afar hjálpsamt. Ég mæli svo sannarlega með að….úbbs, ég var að fá það staðfest að það hefur ekkert upp á sig að tala fallega um þessa tilteknu búð, enda er hún í einokunarstöðu og er þess vegna ekki að fara að launa mér fyrir gott umtal. Ég verð bara að láta mér það duga að nota rakakremið frá Nivea, maður getur vel orðið fyrir áhrifum af því, allavega nógu rakur til að komast í gegnum þessa bloggfærslu.
Þegar öllu er á botninn hvolft verður maður hreinlega að spyrja sig, hvað er eiginlega málið með þessa áhrifavalda? Hversu mikið stjórna þeir þjóðfélaginu í raun? Er allt sem við gerum og kaupum innblásið af áhrifavöldum okkar? Er það farsælast að vera manns eigin áhrifavaldur í markaðslegu tilliti? Hvað þarf marga áhrifavalda til að selja okkur ljósaperu? Ég meina, skipta um ljósaperu? Því miður náðist ekki í áhrifa-Valda við gerð þessarar bloggfærslu.
Í stóðréttunum liðið stóð
stóð ég hjá og orti ljóð –
stóð hjá mér Bakka Baldur,
Svarfdælskur áhrifavaldur.
Þess má til gamans geta að skítkastið í þessari bloggfærslu var í boði Redrock haugsuganna.
Einar valdur áhrifa.
Tilvitnun dagsins:
Allir: STÓÐ!!!
Ánægður með að þú sért að fara á þessa braut. Hlakka til að sjá næsta blogg frá þér og þínum kostendum.