Orðin fram úr áætlun

Yfirdrifnu lesendur.

Það er til siðs hér á landi að fara fram úr áætlun. Öllu heldur, það er til siðs að búa til áætlanir sem vitað er að muni ekki standast. Alltaf virðist þetta koma hinum almenna borgara jafn mikið á óvart, sem er frekar furðulegt. Menningarhús, náðhús, einbýlishús, fjölbýlishús, gleraugnahús og sjúkrahús. Allt langt fram úr áætlun. Öll jarðgöng fara langt fram úr áætlun, útgjöld opinberra stofnana fara fram úr áætlun, braggar, strá og meira að segja áætlunarbílar fara fram úr áætlun. Þessi inngangur átti bara að vera ein setning en er löngu farinn fram úr áætlun.

Íslendingar eru hneykslanlega hneykslunargjarnir en það stendur yfirleitt frekar stutt yfir. Það er nefnilega skammt stórra högga á milli. Dagur B. (B. stendur fyrir Bragga augljóslega) og félagar hans í Reykjavík hugðust endurbæta bragga í Nauthólsvík fyrir um 150 milljónir króna en kostnaðurinn er kominn vel yfir 400 milljónir króna og ballið ekki búið enn. Óheyrilegur kostnaður hefur farið í hönnun og úttektir og allra handa dútl en steininn tók þó úr þegar það fréttist að við braggann hefðu verið gróðursett höfundarréttarvarin dönsk stingandi strá sem eru ekki endilega á næstu grösum og kostaði sú aðgerð yfir 1 milljón króna. Höfundarréttarvarin strá. Sem sagt, strásett vörumerki. Fólk spyr sig; hvers vegna? Hvers vegna þessi framúrkeyrsla? Hvers vegna dönsk strá? Af hverju ekki íslensk puntstrá sem nóg er til af? Af hverju var ekki bara gróðursettur íslenskur úr sér sprottinn njóli við braggann? Það er nú fátt þjóðlegra en sú illvíga planta sem engin skepna étur og stendur af sér allar plágur og hörmungar, rétt eins og íslenska þjóðin. Það hefði jafnvel mátt blanda saman njóla, kerfli, lúpínu og íslenskum túnfíflum. Þar værum við komin með blöndu sem endurspeglar vel þá flóru borgarstjórnarfulltrúa sem situr í ráðhúsi Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin hefur nú snúið frá villu síns vegar og hyggst koma til vegar nýrri heildstæðri áætlun í vega- og samgöngumálum sem fer vonandi ekki veg allrar veraldar. Áætlun þessi verður væntanlega sama marki brennd og aðrar hérlendar áætlanir sem ég hef nú þegar minnst á, án þess þó að ég ætli mér að færa allt til verri vegar. Samgönguráðherra hefur veg og vanda af áætluninni enda fjallar áætlunin bæði um veg og vanda. Samkvæmt áætluninni er áætlað að fara ótroðnar slóðir jafnt sem troðnar slóðir og mögulega hefla þessar slóðir. Vegakerfið þarf að vega og meta og það má ekki koma í veg fyrir það. Annars vegar verður hafist handa við byggingu annars vegar og hins vegar verður hafist handa við byggingu hins vegar. Svo má heldur ekki alveg gleyma Alveg, tala nú ekki um Kjölveg sem kemur í kjölfarið. Fari allt á versta veg verður farið í það að endurbyggja versta veg. Nokkur jarðgöng eru á dagskránni sem og nefgöng en engin ormagöng verða grafin að þessu sinni. Loks gerir áætlunin ráð fyrir því að hver vegur að heiman sé vegurinn heim. Varla þarf að taka það fram að malarvegirnir fram í Svarfaðardal og Skíðadal verða áfram hafðir holóttir en þó verður þess gætt að smyrja vel af leir og drullu á bestu kaflana ef það er spáð rigningu.

Íslenska karlalandsliðið okkar í knattspyrnu heldur áfram á sömu braut undir stjórn hins sænska Erik Hamren. Nú er liðið án sigurs í 11 leikjum í röð og því er þess varla langt að bíða að farið verði að uppreikna úrslit leikja strákanna okkar miðað við höfðatölu. Með því móti unnust sterkir sigrar bæði á Argentínu á heimsmeistaramótinu og svo á heimsmeisturum Frakka nú um daginn á þeirra eigin heimavelli. Þegar næsti styrkleikalisti FIFA verður birtur þarf sennilega að uppreikna hann með sömu aðferð, svona til að okkur líði aðeins betur.

Allt stefnir í átök á vinnumarkaði á vetri komanda. Fjöldi kjarasamninga losnar um áramót og á nýju ári og hefur verkalýðsforystan komið fram með hinar og þessar kröfur sem atvinnurekendur eru krafðir um að ganga að. Ís fyrir alla, mamma borgar. Yngri konur, eldra viskí, meiri pening. Allt sem við viljum er friður á jörð. Landhelgina út í 12 mílur. Ísland úr Nató, herinn burt. Hækkun lægstu launa, hækkun persónuafsláttar og styttri vinnuvika. Styttri vinnuvika? Já, vinnuvika verður stytt í vinnuvi. Sniðugt. Afar ólíklegt er að atvinnurekendur gangi að þessum kröfum enda telja þeir að slíkt muni riða hinu fremur brothætta atvinnulífi á slig. Fari allt á versta veg verða Pólverjar, Tælendingar og róbótar ráðnir til að sinna þeim störfum sem sinna þarf meðan þjóðin fer í verkfall á nýja árinu. Engar áhyggjur, bloggsíða Einars Haf mun starfa áfram enda þarf hún enga starfsmenn – bara nokkra vel valda algóryþma frá google.

Um síðustu helgi prófaði ég vörur frá fyrirtæki sem kallast Víking brugghús. Ég hafði heyrt vel af þessum vörum látið og ég verð að segja að ég varð fyrir verulegum áhrifum af þessum áhrifavaldandi vörum. Raunar varð ég mun rakari eftir neyslu þessara vara heldur en ég varð af nýja rakakreminu frá Nivea í síðasta bloggi. Til að sannfærast endanlega um þessar vörur væri ágætt að fá nokkrar dósir sendar heim fljótlega, þá get ég gefið endanlega umsögn sem verður alveg örugglega mjög jákvæð. Virðingarfyllst, ykkar einlægur. Einar áhrifavaldur.

Áætlunin aldrei stenst
frekar slæmt en þetta venst,
grátklökkur ég stari á
innflutt visin braggastrá.

Þess má til gamans geta að á vefnum tekjur.is er hægt að lesa sér til um allar dúntekjur Íslendinga árið 2017. Vefurinn er nú þegar orðinn mun vinsælli en bloggsíða Einars Haf og skyldi engan undra.

Einar yfir áætlun.

Tilvitnun dagsins:
Allir: BRAGGINN!!!

One thought on “Orðin fram úr áætlun”

  1. Ég ætlaði að lesa bloggið um helgina en fór nokkra daga fram úr áætlun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *