Orðin línuleg

Virðulegu lesendur.

Beðist er velvirðingar á því að ég hef nú ákveðið að snúa úr sjálfskipuðu bloggsumarleyfi til að koma eins og einni bloggfærslu í loftið. Ekki bara í loftið heldur líka á gólfið og veggina. Yfir og allt um kring. Bloggið er í símanum og tölvunni og jafnvel sjónvarpinu. Bloggið er víða svona eins og Kleppur. Gaga gúgú. Þess má til gamans geta að lögmálið um framboð og eftirspurn gildir ekki þegar kemur að þessari bloggsíðu eins og áður hefur verið bent á.

Sumarið er nú í algjörum algleymingi og sýnist sitt hverjum. Íbúar á Suður- og Vesturlandi hafa varla séð til sólar síðan í maí en á Austurlandi hefur bongóblíðan ráðið ríkjum um margra vikna skeið. Á Norðurlandi hafa skipst á skin og skúrir en þó oftar skin án þess að ég sé að gefa eitthvað í skyn. Fyrri sláttur í Svarfaðardal og nágrenni er langt kominn eða búinn í einhverjum tilfellum en sprettan var snemma á ferðinni þetta árið vegna óafturkræfra gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Eða ég held það að minnsta kosti. Hnattræn hlýnun jarðarinnar sem er í boði mannkynsins nær að vísu ekki til jarðarinnar allrar. Í máli vísindamanna hefur komið fram að við Íslendingar munum sennilega ekki njóta hærri hita í eins miklum mæli og aðrir. Jafnvel að það muni kólna lítið eitt. Því fagna ég mjög enda heitfengur að eðlisfari. Öfgar í veðurfari munu aukast á næstu árum og áratugum og þessa er nú þegar farið að gæta. Til dæmis hafa bændur í Noregi nú lagt fram beiðni til íslenskra bænda um að þeir síðarnefndu selji hinum fyrrnefndu hey vegna þurrka og uppskerubrests. Grasið er ekki bara grænna hinum megin, það er líka vænna hinum megin. Örlög Norðmanna eru í höndum Matvælastofnunar en sú stofnun er nú ekki þekkt fyrir annað en gáfulegar og skynsamar ákvarðanir.

Heimsmeistaramótinu í karlaknattspyrnu sem fram fór í Rússlandi er nú lokið. Guði sé lof segja margir. Heilir 64 knattpsyrnuleikir að baki og ansi mörg mörk en enn fleiri glötuð tækifæri. Mótið hafði komið einna harðast niður á aðdáendum línulegrar dagskrár Ríkissjónvarpsins en þar fór allt á annan endann og öllu var snúið á haus vegna útsendinga frá mótinu. Framlengingar og bollaleggingar um framlengingar og viðbótartíma vítakeppna í HM stofunni gerðu það að verkum að kvöldsvæfir sjónvarpsáhorfendur misstu af heilu og hálfu kvöldfréttatímunum og vissu þess vegna ekkert hvað hefði gengið á þegar þeir sofnuðu og vöknuðu illa áttaðir morguninn eftir. Donald Trump var oftar en ekki búinn að segja eitthvað, búinn að neita því að hafa sagt eitthvað og búinn að biðjast afsökunar á að hafa neitað því að hafa sagt eitthvað áður en viðkomandi sjónvarpsáhorfendur náðu að halda sér vakandi yfir kvöldfréttunum. Þegar keppnin stóð sem hæst misstu hinir kvöldsvæfu jafnvel af tveimur eða þremur kvöldfréttatímum í röð. Bogi Ágústsson var jafnvel kominn hringinn á bindaslánni sinni. Þessu ófremdarástandi er nú lokið. Þó er varla langt að bíða næstu röskunar ef ég þekki íþróttadeildina rétt, það verður eflaust hægt að troða að einhverju handboltamóti, tennis eða boccia þegar kvöldfréttirnar ættu að vera í loftinu. Dæmigert.

Landsmót Ungmennafélags Íslands fór fram á Sauðárkróki um liðna helgi. Þar sveif ungmennafélagsandinn yfir vötnum. Helgina þar áður fór Pollamótið fram á Akureyri. Þar sveif annars konar andi yfir vötnum. Báðir þessir andar eru góðir hvor á sinn hátt. Ég var viðstaddur báða þessa viðburði en tók þó meiri þátt í Pollamótinu heldur en Landsmótinu þar sem ég var í áhorfendahlutverki. Á Pollamótinu lék ég með liðinu Umf. Óþokki og átti nokkrar vafasamar og umdeildar frammistöður. Það gildir líka um frammistöðu mína í lokahófinu þar sem ég brá mér í hlutverk ræðumanns. Hvort það var vegna ræðu minnar eða einhvers annars jókst ölvun töluvert þegar leið á kvöldið en þannig er það bara stundum. Ölvunin hófst reyndar snemma þennan dag þar sem liðið sem ég lék með féll úr keppni strax í 16 liða úrslitum. Það var ákveðið afrek að komast þangað þar sem það voru 15 lið í keppninni.

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er í sumarfríi þessa dagana, að minnsta kosti með annan fótinn. Þar af leiðandi eru margir á faraldsfæti eða á fallanda fæti en ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga enda með báða fætur á jörðinni og bundinn í báða skó í ofanálag. Ekki ætla ég að skjóta mig í fótinn. Því hefur nú verið komið á fót að allir þurfi að fara eitthvað í fríinu, ekki satt? Fótgangandi eða ekki. Ferðamannabransinn er því miður kominn að fótum fram og margir eiga ferðamenn á fæti út af ágangi þeirra. Verður þá uppi fótur og fit en náttúruperlur eru margar hverjar fótum troðnar þó sumir telji að ekki sé fótur fyrir því. Kvennagjá í Mývatnssveit er dæmi um slíkt en þar hefur hallað nokkuð undan fæti eftir að ferðamenn breyttu gjánni í salerni/skemmtistað/baðhús/félagsmiðstöð. Með þessari umfjöllun gerði ég tilraun til að gefa lesendum undir fótinn en það hefur trúlega mistekist hrapalega.

Nú er svo komið að klósett landsmanna verða að vera ókyngreind. Hvað þýðir það? Eitthvað ótilgreint. Eða ókyngreint. Það má sem sagt ekki merkja klósett 21. aldarinnar sem karlaklósett eða kvennaklósett. Þá þarf fólk að fara að gera það upp við sig hvort það er karl eða kona eða eitthvað annað kyn og það eru aðstæður sem ekki má þvinga fólk í. Kynin í dag eru jú miklu fleiri en þau voru hér í eina tíð. Nú er búið að rugla og brengla allt og enginn veit hvers kyns er, hvað svo sem ytra byrðið gefur til kynna. Ég hef í seinni tíð ekki tekið sénsinn á þessu og geng þar af leiðandi örna minna undir berum himni eins og alvöru ferðamenn gera, helst í vitna viðurvist. Þá þarf ég ekki að taka afstöðu í kyngreiningarmálinu. Ef svo ber undir fer ég á fatlaðra klósettið sem er í lagi af því ég er bæði örvhentur og búlduleitur. Á þeirri klósetthurð er ekki mynd af karli, konu, háni eða öðru kyni – bara ókyngreindu fatlafóli í hjólastól. Það höfðar frekar til mín.

Alþingi Íslendinga hélt algjöran hátíðarþingfund í dag til að halda upp á 100 ára fullveldisafmæli. Hátíðarfundurinn fór fram á Þingvöllum að viðstöddum fjölda himneskra herskara erlendra ferðamanna sem í sakleysi sínu héldu að þeir væru bara að fara að skoða þjóðgarðinn og Almannagjá. Gríðarlega flókinn undirbúningur átti sér stað fyrir hátíðarfundinn, búið var að dúndra upp risasviði og ljóskösturum og allt sýnt í þráðbeinni línulegri útsendingu Ríkissjónvarpsins. Það sem rætt var á þessum hátíðarfundi féll algjörlega í skuggann af tali um hversu langt fundurinn hefði farið framúr kostnaðaráætlun og eins fékk heiðursgesturinn, forseti danska þingsins, sinn skerf af athyglinni vegna meintra vafasamra skoðana. Alltaf þarf góða fólkið að eyðileggja svona skemmtilega og krúttlega viðburði hins opinbera fyrir okkur hinum með einhverjum pólitískum rétttrúnaði. Ég gat því miður ekki fylgst með beinni útsendingu frá hátíðarfundinum, ég var upptekinn við að draga ýsur, setja mig á háan hest, drepa tittlinga, brynna músum og sinna öðrum dýratengdum málefnum – án þess þó að fara eins og köttur kringum heitan graut. Mitt sumarfrí hefur farið í það hingað til að inna af hendi alls konar skepnuskap, tuddaskap og heyskap í Svarfaðardal því það er jú ekkert sumarfrí í sveitinni. Þar er keppst við að vinna og vaka, taka til og baka, raka rök og aka fiskum til að flaka. Allt í lagi, þetta síðasta er ekki rétt en mér fannst þetta bara stuðla svo vel. Hvar liggur svo hundurinn grafinn? Nú auðvitað þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Gott á meðan maturinn stendur ekki í frúnni.

Ójöfnuður ríkir hér
ójafnt gefið spilið er
ég sit og hugsa um jafnrétti
á ókyngreindu klósetti.

Þess má til gamans geta að þegar Rúrik Gíslason kom inná á HM um daginn fékk hann 1.200.000 fylgjendur á Instagram á örstuttum tíma, aukning um 1200% frá því sem var fyrir mót. Þegar ég kom inná á Pollamótinu um daginn missti ég tvo fylgjendur á Instagram, minnkun um 67% frá því sem var fyrir mót. Það gengur bara betur næst.

Einar á fótum.

Tilvitnun dagsins:
Allir: ÓKYNGREINDUR!!!

2 thoughts on “Orðin línuleg”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *