Sumarlegu lesendur.
Já það er svo sannarlega óhætt að halda því fram fullum fetum og án þess að hugsa sig tvisvar um að sumarið hefur hafið innreið sína í hugi, hjörtu og á hitamæla landsmanna. Dag eftir dag nær hitinn 10 stigum eða meira, jafnvel 15 stigum. Það kviknar stöðugt á fleiri kolagrillum og trampólínin spretta upp í húsagörðum og á lóðum hvarvetna. Svei mér þá ef ég heyri ekki hnerra vegna frjókornaofnæmis í fjarska. Þetta er allt mjög kunnuglegt. Og sumarlegt. Ég var einmitt að láta skipta um sumarlegurnar í mér, bara svo að þessi bloggfærsla yrði ögn bærilegri.
Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi nú nýverið. Fyrir þá sem ekki vita þá eru eldhúsdagsumræður séríslenskt menningarfyrirbæri sem gengur út á það að setja ofan í við manninn sem var á undan þér í ræðustól og fylgja í einu og öllu hinni skýru línu sem skilur að stjórn og stjórnarandstöðu. Þetta er að einhverju leyti íþróttatengt því það sem kallað er flokkadrættir er auðvitað bara spurning um það hver er í hvaða liði. Engum er hrósað ef hann er í öðru liði en maður sjálfur hvort sem viðkomandi sagði eitthvað gáfulegt eða ekki enda væri það bara dæmi um veikleika og uppgjöf. Enginn gefur sig og allir sitja fast við sinn keip. Félagaskipti eða flokkaskipti eru afar sjaldgæf í þessu tiltekna sporti en það er einna helst að leikmennirnir skipti um skoðun ef þeir komast í stjórn. Á kantinum býður dómarinn með hamar í hönd og er tilbúinn að áminna leikmenn fyrir kjaftbrúk. Það er ekki mikið um meiðsli í þessu sporti en þó veit ég um einn og einn sem hefur orðið málhaltur. Hver vinnur? Það skiptir engu máli, aðalmálið er að vera með og fá greitt þingfararkaup. Eldhúsdagsumræður hafa farið fram á Alþingi í beinni sjónvarps- og útvarpsútsendingu á hverju ári alveg frá því Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930. Að vísu var ekki unnið mikið með beinar útsendingar á þeim tíma en ræðurnar voru teknar upp á garnir og kálfskinn og fluttar milli landshluta svo fólk gæti verið með á nótunum í landsmálaumræðunni.
Aftur kemur vor í dal. Nú springa blómin út í Svarfaðardal og grösin spretta, kýrnar sletta úr klaufunum og lítil lömb hoppa og skoppa um tún og engi. Það styttist í grassláttinn, afsláttinn og ásláttinn en fyrirslátturinn er búinn. Allavega hjá mér. Vegagerðin er meira segja farin að bera ofan í gamla góða malarveginn í Svarfaðardal. Hafi sagan kennt okkur eitthvað er næsta víst að stutt er í rigningu. Grasið veður upp á hinum glæsilega Glæsivelli og stutt er í að knattspyrnuæfingar sumarsins hefjist. Umf. Þorsteinn Svörfuður hefur lítið sem ekkert styrkt sig frá því á síðustu leiktíð enda ekki talin þörf á því. Stjórn félagsins hefur verulegar væntingar um gott gengi í sumar sem er frekar undarlegt í ljósi þess að engir leikir eru fyrirhugaðir, bara æfingar.
Talandi um knattspyrnu, sannkallað heimsmeistaramótsæði er runnið á landann þannig að ekkert verður við ráðið. Ekkert annað kemst að heldur en fótbolti. Í hverju skúmaskoti og krummaskuði, á hverri bensínstöð og á hverju ættarmóti veltir fólk því fyrir sér hvernig strákunum okkar kemur til með að ganga. Góðhjörtuð fyrirtæki og verslanir taka þátt í gleðinni og bjóða alls kyns tilboð og leiki. Það skiptir engu hvort það eru rúm, bílar, sjónvörp, laxabitar, hjólatjakkar, gangráðar, bloggfærslur eða bensíntár. Allt er sett á HM tilboð og þú ert svo sannarlega að missa af miklu ef þú nýtir þér ekki HM tilboðið. Ef þú nýtir þér ekki HM tilboðið ertu að tapa. Auðvitað þarf að kaupa 75 tommu sjónvarp með 49.900 króna afslætti því annars værir þú að tapa 49.900 krónum. Með því að kaupa sjö svona sjónvörp ertu búinn að spara þér nógu mikinn pening til að kaupa þér rúm. Ég ætla að sofa aðeins á þessu. Það er að segja rúminu. Þess má til gamans geta að ef Ísland vinnur HM þá fá lesendur þessa bloggfærslu endurgreidda.
Reikult er rótlaust þangið, rekst það um víðan sjá eins og segir í ódauðlegu ljóði Jóhanns Sigurjónssonar. Já einmitt, ég get líka verið menningarlegur. Og alvarlegur. Og sumarlegur (sjá inngang). Þangið er ekki bara reikult. Ég er reikull. Ég er meira að segja reikull í spori. Hvers vegna? Vegna drykkju auðvitað. Svona fer dagdrykkjan með mann. Að ógleymdri kvöld- og næturdrykkjunni. Góðu fréttirnar eru þó þær að ég drekk aldrei í miðri viku. Ég drekk sem sagt aldrei klukkan 15:00 á miðvikudögum. Ég lít ekki á þetta sem vandamál. Öllu heldur, þetta verður ekki að vandamáli fyrr en mjólkin og mysan klárast því hvað á ég að drekka þá? Ekki selja þeir áfengi í matvörubúðinni. Eftir síðustu blóðgjöf var mér sagt að ég yrði að vera duglegur að drekka. Þessu hef ég fylgt í einu og öllu. Sérstaklega um helgar. Já ég er enn að tala um mjólk og mysu. Ekki selja þeir áfengi í matvörubúðinni. Þið megið ekki misskilja mig svona. Það er sumarball í samkomuhúsinu Höfða næsta laugardagskvöld. Hvað ætla ég að drekka þá? Mjólk eða mysu nema hvort tveggja sé. Kannski bland. Af hverju? Ekki selja þeir áfengi í matvörubúðinni. Ætli ég verði ekki bara að fara í vínbúðina til að tryggja mig, maður veit aldrei hvenær maður lendir í því að hrynja í það. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að verða svangur á leiðinni þangað. Ekki selja þeir matvöru í vínbúðinni.
Fyrir þá sem finnst þessi bloggfærsla of löng; það tók tíu ár að handtaka einhvern vegna sölunnar á Skeljungi. Þið getið bara beðið aðeins lengur eftir því að þetta klárist.
Plastmengun í heimshöfunum stefnir nú í að verða að risavöxnu og nánast óyfirstíganlegu vandamáli komandi kynslóða. Sem betur fer fyrir þær kynslóðir sem nú eru uppi þá stefnir allt í að komandi kynslóðir verði mun gáfaðari og friðsamari en þær kynslóðir sem nú eru uppi. Hvernig veit ég það? Hér er lifandi sönnun.
Enginn er guminn gallalaus
gárungar skripla á skötu.
Ef Dabbi Grensás gengur laus
ég flyt í Flókagötu.
Það er víst einhver HM leikur í gangi í matvörubúðinni. Eða var það kannski í vínbúðinni? Eins gott að þetta er ekki ein og sama búðin, þá myndi maður bara ruglast og þá fyrst yrði fjandinn laus. Best að fá sér bara mjólk. Eða mysu.
Augastað ég hef á mjólk og mysu út í búð
myndi ég vilja heilan helling kaupa.
Í vínbúðinni Dabbi Grensás vildi kaupa snúð
ég held ég verði héðan burt að hlaupa.
Þess má til gamans geta að þegar ferðamannabólan springur kemur ekkert út nema gröftur.
Einar reikull (ekki með hækju) í matvöruvínbúðinni.
Tilvitnun:
Allir: HM!!!
Loksins loksins kom færsla.