Orðin í sviðsljósinu

Aðdáunarfullu lesendur.

Já gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Sumardagurinn fyrsti hefur runnið sitt skeið, eða Sumardagurinn með stóru S-i eins og ég kýs að kalla hann. Af hverju? Jú það var 15 stiga hiti og bongó á Sumardaginn en síðan þá hefur hitinn verið við frostmark og verður það sennilega næstu daga og vikur. Það andar sem sagt ekki bara köldu hér á bloggsíðu sumra landsmanna. Þó byrjað sé að sumra. Að sumra mati. Ó nei vinir mínir.

Þeir sem eru ekki nettengdir og þekkja ekki einarhaf.is eru sérstaklega boðnir velkomnir hingað á bloggsíðuna því ég er jú afskaplega hrifinn af fólki sem er í mótsögn við heiminn og sjálft sig.

Um þarsíðustu helgi tók ég að mér…eða var plataður til að vera kynnir og veislustjóri í 200 manna samkvæmi norðlenskra kórsyngjandi eldri borgara í félagsheimilinu Árskógi. Þetta hljómar lygilega og jafnvel óþægilega en ætti þó ekki að koma á óvart þar sem eldri borgarar eru meðal minna hörðustu aðdáenda og fylgjenda gegnum þykkt og þunnt. Þegar samkomugestirnir sáu í hvað stefndi þustu allir sem vettlingi og göngugrind gátu valdið á barinn og keyptu sér rautt, hvítt eða bjór til að skola niður sprengitöflunum. Svo rammt kvað að þessu að sækja þurfti meira áfengi í næsta þéttbýliskjarna svo hinir ellihrumu myndu lifa kynninn og veislustjórann af. Tókst það? Ég held það en er samt ekki viss. Iss, ég iðrast einskis. Og þó. Það eina sem ég sé eftir svona eftir á að hyggja er að hafa ritskoðað sjálfan mig of mikið fyrirfram enda fékk ég að komast að því fullkeyptu að neðanbeltisgrín og dónabrandarar slá meira í gegn eftir því sem áheyrendur eru eldri. Fólk batnar ekki með aldrinum. Ekki frekar en þessi bloggsíða.

Maður vikunnar…eða viknanna að þessu sinni er Sindri strokufangi sem strauk úr fangelsi og flúði land nú fyrir skemmstu. Sindri náðist nokkrum dögum síðar í Amsterdam í Hollandi en þetta mál ku allt vera byggt á misskilningi þar sem Sindri átti ekkert að vera í fangelsi þegar hann flúði úr fangelsi. Gæsluvarðhaldið var útrunnið og því lítið annað fyrir þennan frækna fanga að gera en að hoppa út um gluggann og beint upp í næsta leigubíl. Hver hefði ekki gert það svo sem? Gera má ráð fyrir því að þegar Sindri sér sér fært að koma heim aftur, sem ku vera næstkomandi föstudag, verði miklir fagnaðarfundir þegar Páll Winkel fangelsismálastjóri og spilakaplaáhugamaður dúkkar upp á flugvellinum. Gert er ráð fyrir að sýnt verði frá þessum skemmtilega og æsispennandi viðburði í beinni sjónvarpsútsendingu, svona eins og þegar Keikó var slakað ofan í víkina sína í Vestmannaeyjum þarna um árið.

Verkalýðsforystan boðar aukna hörku í komandi kjaraviðræðum, bæði andlega og líkamlega hörku. Eða skæruverkfallahörku þar sem fólk fær greitt fyrir að vinna ekki. Það er að segja ef stjórnvöld gera ekki eitthvað róttækt áður. Allt hefur þetta nú heyrst áður og ekkert er nýtt undir sólinni nema það sem er ónýtt. Á sama tíma og almenningur hefur aldrei haft það eins gott að meðaltali þá hefur ójöfnuður aukist verulega að meðaltali og þeir sem skrapa botninn skrapa hann af enn meiri ákafa en áður að meðaltali. Þetta mun auðvitað enda með því að einhverjir fara í fýlu og fara svo í verkfall sem fer svo alveg með almenning og stjórnvöld fara á taugum og semja um launahækkanir sem fara fyrir brjóstið á einhverjum og þá fer höfrungahlaupið af stað þar sem hver launahækkunin hoppar yfir aðra og verðbólgan fer á flug og allt fer fyrir ofan garð og neðan og þannig fór það. Vá hvað þetta var illa skrifuð setning, ég sem hélt að ég hefði farið á námskeið í skapandi skrifum til að bæta úr svona löguðu. Þegar lesendur fara í skæruverkfall er þessu sjálfhætt hvort eð er.

Fjöldi erlendra ferðamanna heldur áfram að mótmæla fjölda erlendra ferðamanna hér á landi. Allar líkur eru nú taldar á því að ferðamannaiðnaðurinn gleypi sjálfan sig með húð og hári áður en langt um líður ef ekki verður gripið í taumana með gjaldtöku eða öðrum meðölum sem draga úr ágangi hinna erlendu gesta. Einu sinni voru þetta auðfúsugestir sem við Íslendingar tókum fagnandi og hleyptum inn á heimili okkar og jafnvel alla leið upp í rúm þar sem náttúran var óspjölluð. Núna eru þetta hins vegar bara gestir sem koma heim til þín hvort sem þér líkar það betur eða verr, setjast rassblautir í sófann og fara ekki einu sinni úr skónum heldur hvíla drulluga fæturna uppi á stofuborðinu. Og þeir spjalla við okkur. Og uppi í rúmi er búið að spjalla náttúruna sem eitt sinn var óspjölluð. Bara gott á meðan þeir kveikja sér ekki í sígarettu líka, bölvaðir melirnir. Ég hef enga lausn á þessu vandamáli, þetta fylgir því bara að vera svona ofboðslega gestrisin þjóð.

Hinir aldurhnignu eilífðarrokkarar og dagfarsprúðu misyndismenn í glamúrrokksveitinni Guns N’ Roses eru á leiðinni til landsins síðar á þessu ári. Þeir stefna á að halda stærstu rokktónleika Íslandssögunnar á Laugardalsvelli þann 24. júlí næstkomandi. Hámarki góðærisins er sem sagt að verða náð og nú fer hver að verða síðastur að næla sér í sneið af kökunni. Við munum jú alveg hvað gerðist eftir síðustu risatónleika á Laugardalsvellinum er það ekki?

Ég man líka hvað ég var að gera fyrir hrun. Ég var í sumarvinnu við að vökva peningatréð í kjallara Sparisjóðs Svarfdæla á Dalvík. Þannig týnist tíminn. Já og peningarnir líka.

Tíminn læknar sérhvert sár
streyma tár af hvörmum niður.
Líða vikur, aldir, ár
agnarsmár er þessi siður,
vísnagerðin tryllir yður.

Já þetta skánar sennilega ekkert úr þessu. Ja…nema ef þetta gerist. Þá er okkur öllum borgið.

Einar á hlutlausa svæðinu.

Tilvitnun dagsins:
>Allir: SKÆRUR!!!

2 thoughts on “Orðin í sviðsljósinu”

  1. Hvernig voru ellismellirnir varðandi farsímana sína? Allir á Snapchat og Instagram að taka upp video af bloggaranum?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *