Trúarlegu lesendur.
Nú þegar þessi sorglegasti dagur ársins er að kveldi kominn er ekki úr vegi að sorglegasti bloggari landsins tjái sig um trúarleg málefni og reyni að láta taka sig trúanlegan. Best að signa sig áður en lengra er haldið og þá er ég ekki að tala um að signa sig inn á facebook. Drottinn tók á sig syndir mannanna hvort sem þeir voru syndir eða ekki. Ég mun ekki taka á mig syndir eins né neins enda hef ég nóg með mínar eigin. Að vísu gerði ég eitthvað í mínum málum annað en sumir þar sem ég gekk til altaris í gærkvöldi og hlýddi á blessunarorð. Þetta mættu ýmsir taka til sín, því það verður orðið of seint þegar í neðra er komið á hinum hinsta degi. Ég þarf ekki að hugsa hlýlega til viðkomandi einstaklinga þá, þeim verður alveg nógu hlýtt í námunda við vítislogana. Já, ég sagði það. Hvað með guðspjallamennina? Þeir vildu bara spjalla, ekkert annað.
Páskarnir eru mesta hátíð kirkjuársins. Þá er krossfestingar og upprisu Jesú Krists minnst. Það er ansi langt síðan þessir atburðir gerðust og eru fólki þar af leiðandi almennt ekki í fersku minni. Flestir hafa gleymt því hvers vegna þeir fá páskafrí. Allt snýst um efnishyggju og veraldleg gæði en andans mál sitja á hakanum. Kristur þjáðist vegna mannanna í gamla daga og hann þjáist örugglega í dag þar sem hann situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs uppi á einhverju skýi og þarf að horfa niður á….eða upp á misgjörðir mannanna niður á….nei ég meina upp á hvern einasta dag. Það hlýtur alltaf að styttast í nýtt syndaflóð og þá gæti það komið sér vel að kunna að synda. Hmm…nei ekki aftur.
Þrátt fyrir að þingmenn njóti páskafrísins eins og aðrir berjast sumir gegn því að hafa frið á helgidögum eins og föstudeginum langa. Á hverju ári kemst það í fréttir þegar einhverjir vantrúaðir athyglissjúklingar spila bingó undir berum himni á föstudaginn langa bara af því það er bannað. Allt er þetta gert til að mótmæla lögum um helgidagafrið. Helgidagafriður á ekki við þegar Helgi Pírati er annars vegar enda enginn friður fyrir honum. Auðvitað er gaman að gera allt sem ekki má og allt sem er bannað. Mig langar til dæmis aldrei eins mikið að byrja að reykja og þegar ég er nýsestur upp í flugvél. Auðvitað væri það gaman að búa í Píratalandi þar sem hægt er að niðurhala löglega og gæða sér á gæðagrasi og kannabis út í hið óendanlega. Adam og Evu langaði ekkert í eplið af Skilningstrénu í aldingarðinum á sínum tíma en af því það var bannað og forboðið þá þurftu þau auðvitað að fá sér bita. Höggormurinn gladdist. Helgi Pírati og félagar hans á þingi munu væntanlega halda áfram að spila bingó inni á Alþingi að loknu verðskulduðu páskafríi sínu.
Kristin trú á í vök að verjast hvert sem litið er. Fólk hefur tapað sakleysinu og barnatrúnni og heimurinn er uppfullur af átökum, ofbeldi og hörmungum. Væri ekki ráð að staldra aðeins við og hugsa um á hvaða vegferð við erum? Erum við að hverfa frá hinu mannlega og yfir í hið vélræna og gervigreinda? Er ekki mál til komið að setjast niður og anda. Lífga aftur við hið mannlega og viðkvæma? Slökkva á símanum, tölvunni og öllum hinum hjálpartækjunum. Æi nei annars, það er ekki góð hugmynd. Klárið allavega bloggfærsluna fyrst, ég fæ nefnilega greitt fyrir hvert orð. Auðveldur peningur.
Alveg frá því fyrsti páskahérinn verpti fyrsta páskaegginu árið sautjánhundruðogsúrkal hafa páskarnir snúist um páskaegg umfram allt annað. Hvert sem litið er eru páskaegg. Þau koma í búðir samhliða þorramatnum og þau eru svo yfir og allt um kring alveg frá því fyrsti Passíusálmurinn er lesinn á Rás 1 og vel fram yfir sjálfan páskadaginn. Smám saman kemur meiri þungi í páskaeggjaumræðuna eftir því sem nær dregur páskum og heilaþvotturinn virkar. Allir fá sér páskaegg af því þannig hefur það alltaf verið. Málshættirnir eru vissulega alltaf næg ástæða til að fá sér páskaegg. Það er jú ekki eins og maður eigi málsháttabók. Eða hvað? Oft er í holti heyrandi nær og oft er í skolti páskaegg. Nei þarna var ég nú bara að gera að gamni mínu og það á sorglegasta degi ársins. Skamm Einar.
Þegar Júdas Ískaríot sveik Jesú Krist tók hann fyrir það 30 silfurpeninga. Hagvöxtur og verðbólga hefðu gert þessi svik mun kostnaðarsamari á verðlagi dagsins í dag. Hins vegar hefur það ekkert breyst frá því á dögum Krists hér á jörðu að hinir efnameiru halda að þeir geti vaðið yfir allt og alla í krafti auðs og valds og alltaf eru það einhverjir sem láta glepjast rétt eins og Júdas forðum. Var Júdas ekki alsæll með silfurpeningana 30? Tja…hann fór reyndar rakleiðis að næsta tré og hengdi sig eftir Júdasarkossinn fræga. Lexían er, ef þú ætlar að svíkja Jesú Krist – vertu þá með plan B.
Nú í dag létu fjölmargir pílagrímar krossfesta sig á Golgata hæð til að minnast atburðanna sem urðu þar fyrir margt löngu og páskahátíðin markast af. Fjölmargir létu krossfesta sig þar saman, eins konar samfestingar sem sagt. Ekki er vitað hvort forstjóri N1 hafi verið þar á meðal en nýverið stefndi allt í að hann yrði krossfestur af verkalýðsforystunni fyrir að hafa þurft að taka á sig milljón króna launahækkun á mánuði árið 2017. Einhver þarf jú að taka á sig syndir atvinnurekenda. Ekki eru þeir syndir. Ohh..Einar, hættu þessu.
Ég ætla ekki að koma aftur með gömlu lummuna um krossfitt keppnina sem haldin var á Golgata hæð í dag og ég ætla heldur ekki að koma með gömlu lummuna um að farísearnir hafi bókstaflega neglt þetta þarna á sínum tíma. Það er einfaldlega ekki viðeigandi. Það sem er hins vegar viðeigandi er að þið, ágætu lesendur, spennið greipar, horfið í gaupnir ykkar og hugleiðið hvað það er sem raunverulega skiptir máli. Þið megið svo gjarnan skrifa athugasemd í formi málsháttar við þessa færslu í beinu framhaldi, gera læk og deila því þið gætuð unnið í hlussustóra risapáskeggjalottóinu sem dregið verður úr að kveldi páskadags. Það er það sem raunverulega skiptir máli. Fyrir mig.
Haldið þið bara áfram að lifa og leika ykkur um páskana. Gerið þið það bara. Ég ætla að halda áfram að loka mig af bak við predikunarstólinn, lesa gömul kristinfræði og fussa og sveia þegar ég heyri minnst á útlandaóða snjallsímasjúka peningasólundandi Íslendinga góðæra sig í drasl hvar sem því verður við komið. Alveg eins og í fyrra.
Kristur drottinn kenndi oss
að kærleikur er bestur.
Frá Júdasi á kinn fékk koss
kappinn negldur var á kross
ég iðka bænalestur
þó ekki sé ég prestur.
Þess má til gamans geta að þessi bloggfærsla er í raun bara umorðun á Passíusálmunum. Upp upp mín sál og allt mitt geð. Upp þetta blogg og allir með. Og svo framvegis.
Einar í háska um páska.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Það er bara ein fokking regla…og það er að NEGLA!!!
Fannst tilvitnunin eiga sérstaklega vel við 🙂
Gaman að heyra, enda eitt af uppáhalds páskalögunum mínum 🙂