Orðin jólaleg

Hátíðlegu lesendur.

Þó það virðist ekki vera svo langt síðan síðast þá líður nú enn og aftur að blessaðri jólahátíðinni. Hátíðinni sem færir okkur birtu og yl þrátt fyrir að úti sé skammdegismyrkur og kuldi. Hátíðinni sem færir okkur nær hvort öðru og sameinar í kærleika. Hátíðinni sem færir okkur konfekt, mandarínur, epli og hangikjöt út í hið óendanlega. Hátíðinni sem færir okkur jólakort og kveðjur um frið og farsæld á komandi ári. Hátíðinni sem færir okkur lögin sem fær hárin til að rísa. Hátíðinni sem færir okkur verðlagið sem fær kreditkortareikninginn til að rísa. Það er að segja Vísa. Hátíðinni sem færir okkur svo ótal margt og við erum uppfull af þakklæti fyrir vikið. Eða er það ekki svo?

Nokkuð hefur borið á því í auglýsingum nú fyrir jólin að talað sé um jólasveininn með ákveðnum greini. Þetta skýtur skökku við. Ég sem hélt að jólasveinarnir væru þrettán. Er kannski komið fram klofningsframboð, svona eins og þegar jólasveinarnir voru allt í einu orðnir einn og átta þarna um árið? Náðist kannski ekki ásættanlegur málefnasamningur þeirra á milli? Þurfti sérframboð til að ná einhverjum sérstökum áherslum fram í jólagjafainnkaupunum? Eða er þetta bara enn eitt dæmið um græðgina í þjóðfélaginu? Ég myndi vilja ná sambandi við þennan jólasvein með ákveðna greininum og biðja hann um að gjöra svo vel að sameina jólasveinafylkinguna að nýju með málefnasamningi sem byggir á breiðri skírskotun, traustu baklandi og síðast en ekki síst þverjólitísku samstarfi og samstöðu. Já þið heyrðuð rétt, þver jólitísku.

Ég fæ stundum að heyra það að allt hafi verið betra í gamla daga. Ekki ætla ég að þræta fyrir það. Í þá daga sætti fólk sig við það að fá kerti og spil í jólagjöf, fólk var nægjusamt og guðslifandi fegið að klæða ekki jólaköttinn, verða úti eða lenda í grautarpotti Grýlu og Leppalúða. Hætturnar leyndust við hvert fótmál. Jólasveinarnir voru óagaðir hrekkjalómar sem voru ekkert í því að gefa í skóinn heldur stálu þeir frekar skónum úr glugganum ef þess var nokkur kostur. Ekki nóg með það, þeir sleiktu þvörur og aska, stálu bjúgum, laufabrauði og kertum, skelltu hurðum og átu jafnvel skyr í leyfisleysi. Síðan þetta var hefur ógrynni vatns runnið til sjávar. Búið er að fylla höfuð fólks af alls kyns ranghugmyndum og græðgi og uppreikna neysluverðsvísitölur og hagvaxtarprósentur fram og til baka þannig að auðvitað er svo komið að ekki fæst neitt við ráðið lengur. Hófstillt fæðingarhátíð frelsarans með gulli, reykelsi og mirru er orðin að tröllvaxinni gullnámu allsnægta og velmegunar, rækilega studd af kaupmönnum, jólahlaðborðum veitingahúsa og tónlistarmönnum sem færa okkur jólin í misjafnlega vel til höfðum hátíðarbúningi hvort sem okkur líkar það betur eða verr á aðeins 9.990 kr. Jólagjafakaup eru komin langt út fyrir öll skynsamleg mörk og sífellt dýpra er seilst í vasa neytenda sem seilast líka alltaf dýpra og dýpra sjálfir. Jólatilboðunum er þrusað yfir fólk í margar margar vikur og auðvitað hafa jólasveinarnir smitast af þessu líka. Þeir eru löngu hættir að hrekkja og stela, núna gefa þeir bara og gefa og gefa ekkert eftir – og jafnvel þó börn séu óþæg gefa jólasveinarnir samt. Bótin í málinu er þó sú að þökk sé Netgíró þarf ekki að borga neitt fyrir þetta fyrr en í febrúar.

Eins og einhverjir muna kannski fæddist frelsarinn í fjárhúsi. Þar er oft mikið líf og fjör á þessum tíma árs eins og allir vita en sjaldan hefur þó fjörið verið eins mikið og í fjárhúsinu á Betlehemsvöllum þarna árið 0. Fornar heimildir greina frá því að sauðburðurinn vorið eftir hafi verið afar blómlegur á þessum slóðum og ljóst að hrútarnir hafa tekið til óspilltra málanna þegar heilagur andi heimsótti þá. Eins og allir vita er það oft þannig að burðir í fjárhúsum draga dilk á eftir sér. Aldrei hefur þó neinn burður dregið eins mikinn dilk á eftir sér og barnsburðurinn sem jólaguðspjallið lýsir. Það er því í öllu falli hjákátlegt að heyra það auglýst að jólin þín byrji í IKEA. Auðvitað byrja jólin þín í fjárhúsinu þegar tilhleypingarnar hefjast. Þetta má öllum vera ljóst.

En af hverju enduðu María og Jósep í fjárhúsinu þetta örlagaríka kvöld? Jú ástæðan var auðvitað sú að þau fengu ekkert herbergi til leigu í gistihúsi þar sem allt var uppbókað. Þar höfðu auðvitað forgang sterkefnaðir ferðamenn frá austurlöndum fjær sem komu í hundruða þúsunda tali í svokallaðar norðurljósaferðir og tepptu öll gistipláss, ferðamannastaði og viðkvæmar náttúruperlur. Það má því vera ljóst að vandi ferðamannaiðnaðarins er ekki nýr af nálinni.

Þegar vetrarveðrin geysa í desember verður manni einmitt hugsað til þess hvernig þetta hafi nú allt saman verið þarna í fyrndinni þegar samgöngur voru mun frumstæðari en nú er og fólk þurfti á milli staða í hvaða veðri sem var. María og Jósep gátu til að mynda ekki reitt sig á björgunarsveitir, snjóbíla eða vélsleða þegar þau börðust í vetrarstórhríðinni milli skafla þarna í eyðimörkinni um árið í leit að gistihúsi. Ekki var gönguskónum eða kraftgöllunum fyrir að fara. Hvað þá vegahandbók eða ferðamannabæklingum þar sem helstu gististaðir eru auglýstir. Nei, aldeilis ekki. Þá þurfti fólk að treysta á hyggjuvitið.

Finnst mér jólin færast nær
fjarska margt ég þarf að gera
fægja spegla og gólfin glær
og gómsætt laufabrauðið skera

Nægur tími enn þó er
eftir fram til jóla
í núvitund ég nýti mér
næturlangt að dóla

Jólahlaðborð held ég á
og hleð þar í mig krásum
jólakort ég krota á
og kaupi skraut í pásum

Nægur tími enn þó er
eftir fram til jóla
í núvitund ég nýti mér
næturlangt að dóla
´
Á tónleikum ég tryllist brátt
tónverk eyrun fylla
veskið opnast upp á gátt
og vextir valda kvilla

Nægur tími enn þó er
eftir fram til jóla
í núvitund ég nýti mér
næturlangt að dóla

Húsið þarf að þrífa allt
og þvottinn saman brjóta
kaupa kjöt og ís og malt
og krydd sem er til bóta

Nægur tími enn þó er
eftir fram til jóla
í núvitund ég nýti mér
næturlangt að dóla

Jólin eru komin kær
kætist barnaskarinn
son guðs ól ein signuð mær
sorgin burtu farin

Nægur tími enn þó er
eftir fram til jóla
í núvitund ég nýti mér
næturlangt að dóla

Þrettándinn er þotinn hjá
þrotinn er minn kraftur
tíminn æðir öllum frá
og bráðum koma jólin aftur

Nægur tími enn þó er
eftir fram til jóla
í núvitund ég nýti mér
næturlangt að dóla

Og svona gengur þetta áfram endalaust 🙂

Takk fyrir mig

Þessi pistill var fluttur við rífandi undirtektir, aðallega þó þeirra sem eru farnir að tapa sjón og heyrn, á jólafundi Lionsklúbbsins á Dalvík 14. desember síðastliðinn. Efni pistilsins var að mestu stolið og staðfært úr eldri bloggpistlum Einars Haf.

Gleðileg jól.

One thought on “Orðin jólaleg”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *