Orð í síma töluð…eða tíma

Kærlegu lesendur.

Já er ekki kominn tími til að láta á sér kræla hér á öldum ljósvakans? Nei, farðu heim til þín aumingi og hættu að trufla okkur. Já fyrirgefið, auðvitað ætti ég að vera löngu farinn heim og búinn að læsa að mér. Og gleypa lykilinn. Hey bíðið nú við, þetta er bloggsíðan mín. Þið getið sjálf bara farið heim til ykkar og læst ykkur inni. Ég ætla að halda áfram mínu striki. Svona. ___________________________
Vá, ekkert smá strik.

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta hefur aldeilis látið deigann síga á Evrópukörfuboltamótinu í Finnlandi undanfarna daga. Það hefur verið á brattann að sækja og það hefur hallað undan fæti gegn hverri risastórþjóðinni á fætur annarri. Himnalengjur og langintesar hafa hreinlega troðið okkur undir í samkeppninni og sjálfstraustið er þar af leiðandi frekar lítið sem stendur. Landsmenn hafa engst sundur og saman framan við sjónvarpsskjáinn og setið stjarfir við viðtækin þar sem grátbólgnir íþróttafréttamenn hafa í beinni útsendingu lýst öllu í smáatriðum. Vissulega mun ganga betur hjá okkur næst enda framtíðin björt og margir ungir og efnilegir leikmenn farnir að stíga fram á sjónarsviðið. Þetta var reyndar líka sagt um bloggsíðu Einars Haf fyrir 10 árum síðan og við vitum jú öll hvernig það fór.

Fræga, fallega og ríka fólkið streymdi í viðhafnaropnun H&M tískuvörurisans í Smáralind nýverið. Eins og fram hefur komið hér á bloggsíðunni var mér ekki boðið enda ekki frægur, fallegur og ríkur heldur óþekktur, ljótur og snauður og án viðurkenningar í samfélagi lífstílsbloggara. Þetta er ekki í fyrsta og ekki í síðasta skipti sem ég er sniðgenginn þegar svona viðburðir og mannamót eru annars vegar. Skemmst er að minnast opnunar United Silicon, Perlunnar, McDonalds, Lindex, Hringrásar og Héðinsfjarðarganganna. Aldrei var mér boðið og alltaf var hið svokallaða þotulið handvalið fram yfir mig. Ég mun ná mér niður á öllu þessu liði þó síðar verði.

Það mætti halda að ég væri eitthvað bitur og öfundsjúkur út í allt þetta fólk sem er að gera það svo gott. Svarið er….já auðvitað. Ég er drifinn áfram af öfund og heift og þeir hvatar hafa raunar knúið þessa bloggsíðu áfram allan þennan tíma.

Fjármálaráðherra er samt ekki ráðherra fjármála. Landbúnaðarráðherra er ráðherra fjármála. Þetta kom glögglega í ljós nýverið þegar sá ráðherra boðaði niðurskurð á fé um 20%. Aumingja féð. Þetta er gert í því augnamiði að lækka kjötfjallið svokallaða. Bændur slátra þar af leiðandi fleiri kindum og lömbum nú til að bregðast við 20% niðurskurðarkröfu og það stækkar kjötfjallið. Hmmm…já það er eitthvað þarna sem gengur ekki upp. Fyrirhugaður 20% niðurskurður gæti líka þýtt að í komandi göngum muni gangnamenn ganga 20% minna, skilja 20% meira eftir af fé á fjalli og drekka 20% meira þegar heim er komið. Síðan er haft orð á því að bændum verði borgað fyrir að hætta og mun felast í því töluverður kostnaður en kostnaðurinn yrði reyndar enn meiri ef það ætti að borga bændum fyrir það að hætta að drekka. Þessi miklu lambakjötsvandræði munu vera tilkomin vegna erfiðleika á erlendum mörkuðum og vegna mislukkaðrar markaðssetningar á kjöti. Þetta er afar einkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að Einar Haf hefur dásamað sauðkindina og íslenska lambakjötið í hverri einustu áramótahugvekju svo lengi sem elstu menn muna. Ég hef nú þegar, í auglýsingaskyni, boðist til að þýða áramótahugvekjurnar á ensku, kínversku og hebresku án endurgjalds fyrir Markaðsráð kindakjöts en fálega hefur verið tekið í það boð mitt enn sem komið er. Kannski eiga þeir eftir að sjá að sér, bölvaðir.

Samkomuhúsið Höfði í Svarfaðardal er einna þekktast fyrir að hýsa gangnaball Svarfdælinga á hverju hausti. Gangnahelgin rennur senn upp og þá er ekki af sökum að spyrja. Enn á ný er komið að því að hið fornfræga ball fari fram og hverjir standa á bak við þetta allt saman? Það skyldu þó ekki vera Einar Haf og félagar hans í skuggaráðuneyti Höfðans? Svei mér þá. Ég mun sem starfsmaður á balli rukka inn, sem starfsmaður á balli selja fólki sælgæti, sem starfsmaður á balli blanda fyrir það drykki og sem starfsmaður á balli dansa við það gegn vægu gjaldi en siðgæðisvarsla verður að vanda innifalin í aðgöngumiðanum á ballið. Hin goðsagnakennda proggrokk sveit Stulli & Danni mun leika fyrir dansi og kór gangnamanna syngur undir. Verður drukkið undir borðum? Nei það held ég varla, enda búið að ganga frá öllum borðunum í þar til gerðar geymsluskúffur. Óþarfi er að taka það fram að allur þjófnaður í sjoppu Umf. Atla/Umf. Þorsteins Svörfuðar (samstæða) verður kærður til Fella löggu.

Gengnar verða göngur senn
ganga um götur dýr og menn
gangnagaman gleður sál
gangnaliðið segir skál.

Því miður gat ég ekki sett saman fleiri svona gangnavísur hér og nú þar sem ég var búinn með gangnamagnspakkann hjá Símanum. Það gengur bara betur næst. Eða gengst.

Einar í göngum.

ps. GAAAAAAAAAAAAMAAAAAAAAAAAAAAAAANNNNNNNNNNN

2 thoughts on “Orð í síma töluð…eða tíma”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *