Þjóðlega orðhátíð

Góðir Íslendingar.

Í tilefni þess að drögum að ávarpi fjallkonunnar á Austur(víg)velli hefur nú verið lekið á netið og drögunum streymt gegnum allar helstu efnisveitur löglega sem ólöglega er ekki úr vegi að birta bút úr þessu ávarpi hér á bloggsíðu hér um bil næstum því allra landsmanna.

Góðir tilheyrendur, vopnaðir sem óvopnaðir.

Ísland ögrum skorið, ég vil nefna þig. Ekki uppnefna, það má ekki. Hér í landi elds og íss þraukar þjóðin líkt og hún hefur gert gegnum árhundruðin – drifin áfram til góðra verka af einhverri ósýnilegri hvöt. Plágur og hörmungar hafa dunið á en ævinlega stendur þjóðin keik og landsmenn horfa bjartsýnir fram á veginn. Hlutverk mitt sem fjallkonu er tvíþætt; annars vegar að koma af fjöllum og hins vegar að berja landsmönnum þjóðarstolti og baráttuanda í brjóst og stuðla þannig að því að áfram dafni Íslandsbyggð um ókomin ár. Þess má geta að fjallkarlinn komst ekki með mér í bæinn að þessu sinni – hann var í ógáti læstur inni á einu af fjölmörgum ferðamannaklósettum Vegagerðarinnar einhvers staðar uppi á hálendinu.

Gegnum aldirnar hafa Íslendingar vegið hvern annan. Þeir hafa líka vegið hvern annan og metið en samt oftar bara vegið hvern annan. Sumir hafa fengið það óþvegið en aðrir hafa vegið og fengið það vegið. Á tímum Sturlunga var enginn maður með mönnum, hvað þá konum, nema hann hyggi einhvern í herðar niður eða væri hogginn í herðar niður sjálfur. Íslendingar þekkja því vel ófriðarástand eins og það sem nú skekur stóran hluta heimsins – og engin(n) er óhultur. Til að stuðla að því að halda friðinn hér á landi mæti ég sem fjallkona vopnuð hingað á Austurvöll, tilbúin að grípa inn í ef þjóðhátíðarhöldin fara eitthvað úr böndunum. Ég er að vísu bara vopnuð skautbúningnum mínum en hann er jú skotheldur eins og allir vita.

Við skulum muna að við erum þjóð meðal þjóða en samt engin meðalþjóð meðal meðalþjóða. Við megum ekki sofna á verðinum þegar kemur að þessum málum, vörðurinn þolir það ekki þegar við sofnum á honum og hann er eflaust vopnaður í ofanálag. Munum að það getur alveg verið þjóðlegt að vera vopnuð. Það er líka þjóðlegt að láta allt reka á reiðanum og gera upp á bak en komast samt upp með það trekk í trekk. Ekki misskilja mig, ég er ekki búin að gera upp á bak sjálf því að fjallkonur og fjallmyndarlegar konur eins og ég gera ekki svoleiðis. Ég var ekki einu sinni viðstödd þegar dúddinn þarna fékk uppreista ær að gjöf frá dómsmálaráðherra. Ég er að tala um alla hina. Ég sjálf kem auðvitað bara af fjöllum.

Gleymum því ekki að þegar þjóðarskútan siglir gegnum ólgusjó ríður á að standa saman og rifja það upp hvað það raunverulega er sem sameinar okkur sem þjóð. Er það óspillt en kannski bráðum spillt náttúra? Er það óbilandi bjartsýni og baráttuþrek? Er það facebookgrúppan um málefni Costco? Nei, það er auðvitað fyrst og fremst fjallkonan sem sameinar þjóðina. Hún holdgervir þjóðarandann með því að koma ævinlega af fjöllum í öllum helstu málum. Hún er hugguleg eins og landsmenn eru allir og umfram allt þá er hún stolt af því að tala fallegt og vandað mál, koma vel fyrir og kunna sig. Tja…ég hélt að þessi myndlíking myndi ganga upp en ég er ekki svo viss lengur.

Áður en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kemur með nýbakaða köku, flexar pexana og brosir tannkremsbrosi framan í Austurvöll langar mig að lesa upp eitt stykki ljóð, svona eins og fjallkonur eru skyldugar til að gera árlega.

Blátt er haf og bleik eru engi
björt eru kvöldin lengi lengi
Svanir á vatninu sofa í ró
skolli mig klæjar í þrýstinn þjó.

Hmmm…þetta eru greinilega bara drög að ávarpi fjallkonunnar – það hlýtur að eiga eftir að breyta þessu eitthvað.

Að formlegri dagskrá lokinni munu vopnaðir lögreglumenn skjóta upp fána – alveg eins og í laginu.

Ísland lengi lifi. Húrra – húrra – húrra – húrra. (þessi lokaorð voru í boði skemmtistaðarins Húrra).

17. júní 2017.
Stéttin framan við Alþingishúsið.
Einar Okkar Hafliðason

One thought on “Þjóðlega orðhátíð”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *