Góðu lesendur.
Það er svo sannarlega á brattann að sækja í þessari bloggfærslu. Af hverju segi ég það? Nú auðvitað af því að mannvitsbrekkan er svo brött. Hún er varla kleif. Það breytir því þó ekki að Einar Haf rembist eins og túristi við póstkassa við að færa lesendum sínum allt það ferskasta og svalasta úr heimi bloggfærslugerðar – en þar hefur reyndar ekkert ferskt og svalt komið fram í 10 ár.
Sauðburður stendur nú yfir til sveita, að minnsta kosti þar sem eru kindur. Af hverju er verið að bera sauðina? Nú, ekki bera þeir sig sjálfir. Á Urðum hafa nokkrar ær borið og eitthvað hefur borið á því að gemlingar hafi borið. Þær ær sem ekki hafa borið hafa borið því við að hafa ekki notið holdlegs samneytis hrútanna um jólaleytið – sem er jú grunnforsenda þess að lömbin komi í heiminn að vori.
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Úkraínu nú á laugardaginn. Íslendingar hugðust taka þátt með laginu um pappírinn og höfðu í því skyni eytt gríðarlega miklum tíma og peningum í kynningar, förðun, ljós, búninga, glimmer, bakraddir og vindvélar. Lagasmíðarnar sátu kannski aðeins á hakanum en það verður ekki á allt kosið. Til þess að fá að syngja með þurftu Íslendingar að láta kjósa sig áfram úr 18 laga undanriðli en henni Svölu okkar varð því miður ekki kápan úr því klæðinu. Eftir að þessi sáru vonbrigði urðu ljós hefur dómstóll götunnar leitað skýringa. Talað er um baktjaldamakk austantjaldsþjóða, það er að segja makk bakvið austantjaldið. Svo er líka talað um að framlag okkar hafi einfaldlega ekki náð að skera sig úr fjöldanum og fallið í skuggann af öðrum alveg jafn óspennandi engilsaxneskum framlögum annarra þjóða. Eflaust má setja út á klæðaburð Svölu en eins og átti eftir að koma í ljós síðar ruku aðrar söngkonur áfram úr undanriðlinum mun minna klæddar en Svala okkar. Þar lá hundurinn kannski grafinn. Aðalatriðið er auðvitað að vera með…..í aðalkeppninni. Klúður. Síðan þessi úrslit voru gerð heyrum kunnug hef ég lokað mig af, grátið og verið með lagið „Það sem enginn sér“ í samfelldri spilun.
Auðvitað áttum við að senda einhvern minnihlutahóp til keppni í Eurovision þetta árið. Það hefur margoft sýnt sig að aumingjadýrkun og vorkunnsemi getur skilað fólki langt. Hefðum við sent falskan síamsblökkudverg til leiks með forníslenskar rímur hefðum við flogið áfram. Það væri ekki verra ef viðkomandi væri dauðvona – það er ekki hægt annað en að kjósa svoleiðis atriði áfram.
Vestmannaeyingar hafa nú skorað á yfirvöld að draga Vestmannaeyjar nær landi en nú er til að auðvelda Eyjamönnum að skreppa í land þegar hentar og fara í bæinn og þess háttar. Það sé algjörlega óviðunandi að Vestmannaeyingar þurfi að dúsa fastir heima hjá sér í Vestmannaeyjum dögum og vikum saman þegar þeir gætu verið að spóka sig á meginlandinu. Það er kannski bara mitt vandamál en ég á erfitt með að finna til samkenndar með íbúum suðrænnar aflandseyju sem þessarar. Þeir geta bara verið rólegir heima í skattaskjólinu sínu.
Lögreglan í Reykjavík telur að vændiskonum hér á landi hafi fjölgað gríðarlega undanfarin misseri. Það má selja vændi en ekki kaupa það. Sem er fullkomlega rökrétt. Fjör í vændum er auðvitað fylgifiskur góðærisins og einnig fylgifiskur ferðamannanna – því þeir flytja jú allan andskotann með sér til landsins. Pylsur, niðursoðin skinka, skordýr, kýlapest, saur, vændiskonur. Allt þetta og meira til leynist í pokum og pinklum þeirra milljóna ferðamanna sem heimsækja okkur. Á ekkert að gera í þessu? Jú auðvitað, það á að hækka virðisaukaskattinn og lækka hann svo aðeins aftur. Þetta mun að öllum líkindum ganga af ferðamannaiðnaðinum dauðum enda hafa borist fréttir af því að 8.500 manns hafi afbókað sig nú þegar árið 2018. Ó minn auman – og ég sem ætlaði að lifa áhyggjulaus til æviloka, þökk sé ferðamönnunum.
Nú ætlar hún Vilborg okkar Gissurardóttir sér að klífa hæsta tind heims, Mount okkar Everest. Flott hjá henni. Eða er það? Er eitthvað flott við það að eyða fúlgum fjár í það eytt að klifra upp og niður eitthvað fjall og leggja sig í stórkostlega lífshættu? Og er þetta eitthvað merkilegt? Það eru jú serparnir sem sjá um allt þetta erfiða eins og að vísa veginn og halda á farangrinum. Í ofanálag hefur ferðamönnum á Everestfjalli fjölgað gríðarlega síðustu mánuði. Nepölsk yfirvöld eru í miklum vandræðum vegna almenns aðstöðuleysis og skorts á salernisaðstöðu. Grunnbúðirnar eru orðnar að Lundabúðum og salernispappírinn nálægt toppnum er upp í ökkla.
Ég sá það í símanum mínum áðan að símanotkun nútímamanna sé orðin að viðurkenndu samfélagslegu vandamáli. Ég tók skjáskot af fréttinni, póstaði á instagram og sendi inn til landlæknisembættisins með myllumerkinu #þjóðarmein – en þannig kemst ég í pott sem dregið verður úr bráðlega og hægt verður að vinna fjölda spennandi vinninga á borð við spaldhryggsmeðferð, afvötnun og detox.
Baltasar Kormákur er þessa dagana með Ófærð II í bígerð. Þessi nýja framhaldsþáttaröð mun ekki fjalla um ófæra heiði eða ófært bæjarfélag heldur ófært bókhald bloggsíðu Einars Haf – og hausverkinn sem bíður bókhaldara og endurskoðenda sem að málinu koma. Í alvöru? Nei bara grín. Nýja ófærðin verður auðvitað stafræn ófærð þar sem allt síma- og netsamband í afskekktu sjávarþorpi fellur niður og fólk neyðist til þess að tala hvort við annað augliti til auglitis dögum og vikum saman. Ekki langar mig að horfa á þann hrylling.
Talandi um að slá í gegn….
Kjósendur um álfu alla
áfram kjósa konur, kalla
kemst ég áfram, fer ég heim?
Kjósi þeir ekki Svölu skalla
mun og skjóta eflaust alla
Dabbi Gren, hann kálar þeim.
Þess má geta að á sjötta tug ferðamanna dvelja nú í fjöldahjálparstöð á Suðurlandi eingöngu vegna slæmrar útreiðar í þessari bloggfærslu.
Einar í 16. sæti.
Tilvitnun dagsins:
Allir: JÚRÓ!!!
Njóttu Euro í kvöld.